Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2021
Þriðjudagur, 20. apríl 2021
Hraðpróf, einhver?
Í frétt segir að allt starfsfólk leikskólans Álfheima á Selfossi fer í kórónuveirupróf í dag eftir að starfsmaður þar greindist smitaður í gærkvöldi. Eins og gefur að skilja, skv. fréttinni, verður leikskólinn lokaður í dag á meðan starfsfólk er skimað.
En hér er ekkert sem gefur að skilja.
Svokölluð hraðpróf eru nú til sem geta gefið niðurstöðu á 30-60 mínútum. Slík próf eru ekki eins nákvæm og hin öllu silalegri PCR-próf en t.d. dönsk og bresk yfirvöld nota þau til að fá breiða yfirsýn yfir smitútbreiðsluna og nota sem réttlætingu fyrir frekari opnanir í samfélaginu.
Af heimasíðu landlæknis (okt. 2020):
Nýlega mælti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) með ákveðnum hraðprófum/skyndiprófum fyrir COVID-19 en hingað til hefur stofnunin ekki mælt með slíkum prófum. Hraðpróf er önnur aðferð til að greina virka sýkingu en þau mæla ákveðinn próteinhluta veirunnar (mótefnavaka) og virka best þegar viðkomandi er mest smitandi. Hraðpróf hafa þann kost að vera ódýrari og fljótlegri í framkvæmd en PCR-próf.
Prófin eru sambærileg PCR kjarnsýruprófum, en eru hraðvirkari og ódýrari. Óvissuþáttur þeirra er þó aðeins hærri m.t.t. falskra neikvæðra prófa.
Slík próf mætti t.d. nota til að halda leikskólum opnum í stað þess að senda fullorðna og börn í sóttkví og rífa daglegu rútínuna úr sambandi, allajafna að óþörfu.
Heilbrigðisráðuneytið hefur heimilað sölu hraðprófa á Íslandi en það er óljóst fyrir mér hvort neikvætt hraðpróf hleypi í raun einstaklingum úr stofufangelsi og út í samfélagið. Kannski einhver geti svarað mér því.
Eftir stendur að það er ekkert sem gefur að skilja að heilum leikskóla sé lokað. Kannski fyrir ári, þegar menn vissu ekkert og kunnu minna, en ekki lengur.
Tæplega 50 starfsmenn leikskóla skimaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 19. apríl 2021
Takk fyrir samstarfið
Hvað ætli þurfi að gerast til að fleiri fari að kalla á nýja kokka í eldhúsinu? Þeir sem þar eru núna byrjuðu vel og fólki fannst maturinn bragðast vel en nú er eins og það sé bara verið að hella meira og meira salti í pottinn og vona að lélegt hráefnið bragðist betur.
Áður en vikan er úti verður byrjað að tala um 5. bylgjuna og öllu skellt í lás aftur.
Fáar en háværar raddir munu halda áfram að skammast út í réttarríkið og heimta löggjöf sem útvíkkar valdheimildir lögreglu töluvert. Stjórnmálamennirnir bogna auðvitað í hvelli og hleypa öllu í gegn.
Enginn mun tala um nýjar nálganir, eða að senda þríeyki (eða fjór- eða fimmeyki séu önugur forstjóri og heilbrigðisráðherra taldir með) heim í langþráð frí.
Enginn mun tala um að færa áhersluna frá smitum og yfir á álag á heilbrigðiskerfið. Enginn mun tala um aldur þeirra smituðu og úrræði til að halda smituðum eins ungum og hægt er og breiða þannig út veiruna og mótefnamyndun til sem flestra án þess að ógna viðkvæmum, sem er vel á minnst bráðum búið að bólusetja frá toppi til táar.
Enginn mun tala um að fólki eigi að bjóðast gott aðgengi að hraðprófum, jafnvel heimaprófum, svo hver og einn geti betur áttað sig á smithættu vegna sjálfs síns.
Enginn mun tala um lyf sem hjálpa fólki að verjast veirusýkingu og gera nánast skaðlausa.
Nei, þrí-, fjór- og fimmeyki sjá bara eina lausn: Að loka fólk inni og einangra. Og setja á það grímur þess á milli á meðan öllum fyrirtækjum er lokað.
Þetta var kannski vinsælt fyrir ári síðan, og talið vera eina úrræðið, en tímarnir hafa breyst úti í hinum stóra heimi og hægt að læra af því. Ef maður vill.
En fyrst þarf að senda þríeyki heim. Takk fyrir samstarfið.
Yfir 20 smit í gær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 18. apríl 2021
Ekki hræða heldur fræða
Ekki hræða heldur fræða segir Stefan Octavian Gheorghe sem er einn af þeim Íslendingum sem hafa verið með aðgang á samfélagsmiðlinum Onlyfans og birt þar efni. Hann hefur líka leikið í klámmyndum.
Ekki hræða heldur fræða eru góð ráð en því miður alls ekki í tísku. Alls ekki.
Til dæmis er verið að hræða börn með ýmsum hætti. Þeim er sagt að losun manna á koltvísýringi sé að leiða af sér hamfarahlýnun. Hamfarahlýnun!
Þeim er sagt að heimsfaraldur sé að stráfella fólk. Milljónir dauðsfalla!
Þeim er sagt að heilu heimshlutarnir séu fastir í sárri fátækt og þurfi neyðaraðstoð til að framfleyta sér.
Margir fullorðnir trúa líka þessum stanslausa hræðsluáróðri. Skiljanlega. Hann er borinn á borð í hverjum einasta fréttatíma stóru miðlanna. Þar er ekki að finna neinn nothæfan fróðleik, bara hræðsluáróður.
Svo já, ekki hræða heldur fræða eru heilræði sem fleiri mættu mjög gjarnan taka til sín. Góð byrjun væri að taka þetta próf Humanprogress.org eða láta efnið á Gapminder.org ögra aðeins viðteknum hugmyndum.
Fólk þarf að fara varlega í klámi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 16. apríl 2021
Niðurgreiðir ríkið áfengi?
Rökin fyrir áframhaldandi einokun ríkisins á smásöluverslun á áfengi eru mörg og oft frumleg og gjarnan mótsagnakennd.
Því er til dæmis haldið fram að úrval ríkisins sé meira og betra en ef einkaaðilar stæðu að smásölunni. Um leið er hilluplássið af svo skornum skammtir að margir smærri framleiðendur og heildsalar komast ekki að með vörur sínar, og hlýtur það að draga úr úrvali.
Því er haldið fram að aðgengi megi ekki verða of gott, a.m.k. ekki jafngott og að mjólk og skyri, en um leið er því haldið fram að aðgengið sé svo gott að engin ástæða sé fyrir einkaaðila að taka að sér sölu á áfengi.
Og svo er það þetta, sem ég hef raunar ekki séð áður sem rök fyrir starfsemi ÁTVR:
Hérna er því óbeint haldið fram, sem röksemd fyrir rekstri ÁTVR, að ríkisvaldið sé að niðurgreiða áfengi úti á landsbyggðinni þar sem flutningskostnaður væri að öllu jöfnu hærri og þar með verðlag.
Álagning ÁTVR ofan á heildsöluverð er auðvitað þekkt (að mig minnir) en hvað með flutningskostnaðinn sem hluti af lokaverðinu? Eru Reykvíkingar að niðurgreiða áfengisneyslu á landsbyggðinni? Góð búbót það, landsbyggð!
Föstudagur, 16. apríl 2021
Hvaða kórónaveiru?
Líkur eru á því að fólk þurfi að fara árlega í bólusetningu gegn kórónuveirunni. Að minnsta kosti þurfi það viðbótarskammt í formi þriðju sprautunnar til að viðhalda verndinni. Þetta segir forstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer (mannlif.is).
En bíddu nú við, hvaða kórónaveiru?
Það finnast nú þegar nokkrar mismunandi kórónaveirur sem sumar hverjar blossa upp árstíðarbundið (eða öllu heldur við ákveðin skilyrði lofthita og rakastigs) en aðrar síður og enginn veit af hverju.
Þarf þá ekki að bólusetja árlega við öllum þessum veirum?
Eða eigum við ekki að fara hætta þessu veirutali og öðlast aðeins meiri trú á læknastéttinni? Reynum frekar að styrkja líkama og sál til að takast á við allskonar veirur og kvilla. Lýsi, daglega. Og byrjum að lifa lífinu í stað þess að reyna bara að halda lífi.
Föstudagur, 16. apríl 2021
Vilja að einhver annar en HÍ hagnist á spilakössum
Lög og reglur og almenningsálitið í tengslum við spilakassa, veðmál og happdrætti er svolítið bland í poka.
Sumt er bannað. Sá sem ætlar sér að veðja á handboltaleik þarf að gera það ólöglega og jafnvel eiga viðskipti við alþjóðleg glæpasamtök.
Sá sem spilar póker með alvörupeningum er sennilega lögbrjótur líka og þarf að finna kjallaraherbergi með læstri hurð til að stunda slíka afþreyingu.
Nettengingar til útlanda gefa aðgang að allskyns veðmálssíðum.
En þú getur eytt aleigu þinni í spilakassa HÍ, í lottómiða og happdrætti DAS. Slík veðmál eru lögleg enda er hagnaðinum beint til ákveðinna aðila sem flestir hafa velþóknun á.
Núna vill Stúdentaráð ekki að HÍ hagnist á spilakössum. Væntanlega þýðir það að veðmálspeningarnir finni sér annan farveg, t.d. erlendar veðmálssíður eða ólögleg pókermót.
Er það hin nýja stefna almenningsálitsins?
Vilja að HÍ hætti að hagnast á spilakössum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. apríl 2021
Draumastarfið
Ég held svei mér þá að ég hafi fundið draumastarfið:
Starf sérhæfðs ritara skrifstofustjóra hjá Dómsmálaráðuneytinu.
Ekki skrifstofustjóri. Ekki ritari. Nei, sérhæfður ritari skrifstofustjóra.
Um er að ræða starf sérhæfðs ritara sem er skrifstofustjórum og eftir atvikum öðrum starfsmönnum til aðstoðar við ýmis úrlausnarefni, svo sem utanumhald verkefna á skrifstofunni, svörun erinda, ritun bréfa, skipulagningu funda, öflun gagna, úrvinnsla tölfræðilegra sem og annarra upplýsingar, vinna efni á heimasíðu, ofl.
Hæfniskröfur
Menntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.
Þekking á stjórnsýslu í gegnum nám eða starf æskileg.
Mjög góð hæfni í mannlegum samskiptum.
Mjög góð tölvukunnátta og góð þekking á helstu ritvinnsluforritum.
Reynsla eða þekking á verkefnastjórnun kostur
Þekking og áhugi á málefnum samfélagsins.
Frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum og skipulagshæfni.
Ábyrgð, vandvirkni og þjónustulund.
Mjög gott vald á íslensku og góð kunnátta í ensku.
Í þessu starfi er eflaust auðvelt að hverfa í fjöldann í mannmargri stjórnsýslunni og viðveran sennilega lítil, sérstaklega á veirutímum. Erindum má svara í símanum á meðan maður drekkur kaffi á kostnað skattgreiðenda á einhverju huggulegu kaffihúsi. Að rita bréf og afla gagna er leikur einn, sérstaklega þegar ekki er gerð krafa um þekkingu á Norðurlandamáli. Viðhald heimasíðu sömuleiðis.
Sennilega munu mjög hundruð manns sækja um þetta starf í öllu atvinnuleysinu. Báknið er að bólgna út með slíkum hraða að það þarf hreinlega að ráða sérstakan starfsmann til að rita bréf og skipuleggja fundi svo allir hafi nú nóg að tala um og fá tímann til að líða.
Nú er bara að bíða eftir símtalinu frá ráðuneytinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 14. apríl 2021
Er ekki bara hægt að slökkva á sjónvarpinu?
Forsvarsmenn The Simpson hafa verið gagnrýndir fyrir að ýta undir staðalímyndir með persónunni Apu. Auðvitað. Núna eru allir að biðjast afsökunar á öllu til að þóknast hópi fólks sem verður aldrei ánægður. Aldrei. Allt skal eyðilagt og gert að einhverjum fórnarlambaleik.
En gott og vel, leikum þennan leik.
Í kvikmyndinni Hostel er íslensk persóna: Kjaftaglaður maður sem berar á sér rassinn og stundar kynlíf á baðherbergi, og sem endar vitaskuld á því að vera drepinn, eins og raunar flestar persónur myndarinnar. Þarf ekki að biðjast afsökunar á þeirri persónu?
Í Danmörku er lopapeysa með munstri kölluð "islandsk sweater". En sú staðalímynd! Eins og Íslendingar klæðist ekki öðru en lopapeysum! Á þessu þurfa Danir auðvitað að biðjast afsökunar.
Svo er auðvitað upplifun Dana af Íslendingum sú að þeir séu drykkfelldir og jafnvel svolítið ofbeldishneigðir, enda með víkingablóð í æðum. Á þessu þarf að biðjast afsökunar.
Sumir Danir halda meira að segja að Ísland tilheyri ennþá Danmörku. Ég var spurður að því fyrir ekki löngu síðan. Hneyksli!
En nei, þetta er þvæla. Fyrir nokkrum árum leigði Indverji hjá mér herbergi í gegnum Airbnb. Ég vildi vita hvað honum fannst um indverska hreiminn minn og fékk mjög góða endurgjöf þar. Hann skildi eftir sig mjög jákvæða umsögn um dvölina og fór ekki fram á afsökunarbeiðni. Auðvitað ekki. Venjulegt fólk tekur ekki þátt í þessum fórnarlambaleik, en fórnarlambaleikurinn er að eyðileggja margt í okkar samfélagi.
Að lokum vil ég mæla með því að ef fólk sér bók sem það vill ekki lesa eða þátt sem það vill ekki horfa á að þá snúi það sér að einhverju öðru.
Biðst afsökunar á Apu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 13. apríl 2021
Hugmynd að tækjakaupum
Hver sjúkraflutningur tengdur Covid-19 er tímafrekur því þrif og frágangur eftir slíkan flutning tekur oftast töluvert lengri tíma en flutningurinn sjálfur segir á Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Jafnvel þótt við sem heilbrigðisstofnun séum undanþegin þegar kemur að sjúklingum og heilbrigðisþjónustu þá er náttúrulega mjög margt sem fer fram innan spítala, fundir og kennsla og ýmislegt þar sem við verðum að hlíta almennum reglum eins og um fjölda sem má koma saman og fjarlægð á milli fólks, viðveru í matsölum og svo framvegis, segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala.
Já, þessar sóttvarnaraðgerðir. Þær valda greinilega miklu álagi á heilbrigðiskerfið, einar og sér og í fjarveru veirunnar sem aðgerðirnar eiga að bíta á.
En hvað gera verslanir sem rúlla hundruðum viðskiptavinna inn og út um dyrnar hjá sér á hverjum degi?
Jú, láta svolítið útfjólublátt ljós skína á innkaupakerrurnar. Málið leyst!
Mörg fyrirtæki bjóða upp á lausnir til að drepa veirur með ljósi [dæmi|dæmi].
Sennilega eru fæstir svokallaðir Covid-19 sjúkraflutningar flutningar á Covid-19 smituðum einstaklingum. Má ekki kaupa eins og eitt UV-vasaljós og minnka aðeins umstangið? Það er nógu slæmt að sóttvarnaraðgerðir lami samfélagið. Að þær lami líka heilbrigðiskerfið er aukreitis slæmt.
25 Covid-flutningar á sólarhring | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 12. apríl 2021