Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Samkvæmt frétt The Guardian!

Stundum fæ ég það á tilfinninguna að íslenskir fjölmiðlar séu bara lélegar þýðingarvélar fyrir stærri, erlenda fjölmiðla. Engin blaðamennska, engin sjálfstæð hugsun, bara endurvarp á stóru nöfnunum í útlöndum.

Slík tilfinning magnast þegar ég les setningu eins og þessa:

"Staðan hef­ur versnað í Jap­an í vet­ur, sam­kvæmt frétt Guar­di­an, en alls hafa 2.588 manns þar í landi lát­ist af völd­um veirunn­ar."

Af hverju þarf blaðamaður að vísa í erlendan fjölmiðil til að þekkja tölur um smit, dauðsföll og hvaðeina vegna COVID-19? Þessar upplýsingar eru svo opinberar og aðgengilegar að það er engu lagi líkt!

Blaðamaður hefði alveg eins getað skrifað, eftir 3 mínútna aukavinnu í gagnaleit:
"Staðan hefur versnað í Japan í vetur, samkvæmt sjálfstæðri skoðun blaðamanns á aðgengilegum gögnum, en alls hafa 2.588 manns þar í landi látist af völdum veirunnar."

Og hvar hefði blaðamaður geta sótt þessar upplýsingar? Nokkur dæmi:

Worldometers.info

Pandata.org

covid19japan.com

coronavirus.jhu.edu

Það hefur sjaldan verið auðveldara að stunda sjálfstæða blaðamennsku. Ég meina, ég stunda hana að vissu leyti samhliða fullri vinnu og uppeldi á börnum og hvaðeina. Blaðamaður í fullu starfi hefur enga afsökun og á að líta stærra á sig en svo að hann sé bara þýðingarvél fyrir "main stream media" erlendis, sem eru sjálfir oftar en ekki bara bergmálshellir stærri hagsmunaafla og klappstýra þeirra.


mbl.is Hafa áhyggjur af þriðju bylgjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugavert viðtal um kórónaveirur, ónæmi og vernd

Ég vil mæla með svolitlu viðtali sem fer vítt og breitt yfir kórónaveirur, vernd viðkvæmra, ónæmi í samfélaginu og afleiðingar sóttvarnaraðgerða (allt þetta á litlum 13 mínútum):

Viðtalið er við einn af höfundum hinnar svokölluðu Great Barrington yfirlýsingar. Þú lærir meira á því að horfa á það en allar fréttir fjölmiðla samanlegt yfir mánuð.


mbl.is Bóluefnið frestast til ársloka 2021
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valkostir við Google, Youtube osfrv.

Vonandi dylst engum að miðlar og fyrirtæki eins og Google, Youtube, Twitter, Facebook, CNN, RÚV og fleiri eru með ákveðna ritstjórnarstefnu. Ef þú notar þessa miðla þá færðu bara hluta af miklu stærri heildarmynd. 

Þetta segi ég ekki í anda einhvers pólitísks áróðurs. Miðlarnir segja þetta jafnvel um sjálfa sig! Nýlegt dæmi er um Youtube og hvernig menn þar á bæ vilja loka á alla umræðu um kosningasvik í Bandaríkjunum. Youtube tekur sér hér hlutverk ritstjórnar sem ritskoðar efni og er ekki lengur efnisveita. 

Sem betur fer eru til valkostir við allt og ég ætla einfaldlega að benda á þá.

Sem valkost við leitarvél Google nota ég Duckduckgo. Fyrir flest efni, nema kannski mjög nýlegt, dugir hún jafnvel og Google en hefur að auki marga aðra kosti og eiginleika. Leitarvélin rekur ekki ferðir þínar á netinu, til dæmis. Leitarvélin heldur ekki ákveðnum miðlum í felum og fleiri að átta sig á því að umræðan er miklu fjölbreyttari en Google-niðurstöðurnar gefa til kynna. 

Í sama anda friðhelgi einkalífsins má benda á vafrann Vivaldi sem valkost við Google Chrome. Báðir vafrar eru byggðir á sömu grunntækninni (Chromium) en Vivaldi lofar því að hann verji þig "gegn rekjurum, lokar á óumbeðnar auglýsingar og lætur þig um að stjórna með einstökum, innbyggðum eiginleikum." Nú fyrir utan að hann er frábærlega hannaður og fæst á bæði tölvu og Android-síma. Ekki skemmir svo fyrir að Vivaldi er með sterk tengsl við Ísland.

Sem valkost við Facebook eru margir farnir að sækja inn á miðla eins og MeWe og Parler sem báðir hreykja sér af því að umbera tjáningarfrelsið, ólíkt Facebook. Sjálfur er ég á fyrrnefndum miðli og er að sjá mikinn vöxt þar en auðvitað er langt í land að svo mikið sem rispa vinsældir Facebook. Kannski Facebook verði í framtíðinni fjölskyldusvæðið á meðan raunveruleg opinber umræða flýr annað.

Valkostir við Youtube eru ekki augljósir í mínum augum en Utreon lítur spennandi út og ég ramba óreglulega inn á Vimeo en í raun fer valkosturinn við Youtube eftir því hvað þú vilt horfa á. Fyrir þá sem vilja eyða nokkrum krónum í gláp, og eru orðnir leiðir á Netflix, get ég mælt með Curiosity Stream (heimildaþættir úr öllum áttum). Hér er svo hægt að lesa um efnisveitur sem standa vörð um tjáningarfrelsið. Ég þarf að skoða hann betur.

Fyrir fréttir og dægurmálaumræðuna almennt get ég mælt með mörgum valkostum. Mjög mörgum! ZeroHedge er þar efst á blaði. Þarna eru greinar sem snúa við öllum steinunum sem hefðbundnir fjölmiðlar þora ekki að snerta. Eitt ljómandi gott dæmi er svolítil frétt um son verðandi Bandaríkjaforseta, sem er vægast sagt vafasamur einstaklingur, um að nú væri verið að skoða skattamálin hans. Litla og varfærna fréttin á mbl í gær borin saman við greiningu ZeroHedge er vonandi skýrt dæmi um mismunandi efnistök og verðmætin í því að hafa valkosti við hefðbundna fjölmiðla.

Fyrir fréttaskýringar almennt var Vefþjóðviljinn alltaf góður staður til að byrja daginn á en nú eru uppfærslur þar mun færri (en alltaf góðar).

Fyrir fréttir frá Bandaríkjunum er oft hægt að fá óhefðbundin (en ekki óvönduð) sjónarhorn hjá OANN. Þar á bæ eru menn ekki í felum með hugmyndafræði sína og þeir nálgast því málin öðruvísi en hinir svokölluðu hlutlausu fjölmiðlar sem í raun eru það alls ekki.

Dagleg hlustun á The Tom Woods Show er orðin frekar fastur liður hjá mér, og ég reyni líka að halda í við hlaðvörp eins og EconTalkThe Bob Murphy Show og Radio Rothbard, en magnið er mikið og tíminn lítill.

Svo ætla ég líka að mæla með The Guardian. Vissulega fylgja menn þar meginstefinu nokkuð vel en greiningarnar eru oft gagnlegar.

Ég læt þetta duga í bili en þigg gjarnan ábendingar um þjónustu, veitur og miðla sem geta nýst til að breikka sjóndeildarhringinn og bræða í burtu áróðursþunga hinna viðteknu og samþykktu skoðana (sem sögulega hafa verið allt frá stuðningi við þrælahald og til þess að vilja skrifa undir Icesave-samninga).


Ekki sama hver einkaaðilinn er

Samstarf hins opinbera og einkaaðila er á mörgum sviðum mjög víðtækt. Þetta á við á Íslandi og öðrum ríkjum. Ríkið kaupir þjónustu einkaaðila í miklum mæli, allt frá því að láta leggja vegi og til að elda mat. Með þessu móti getur ríkið stundum sparað fé en aðallega minnkað rekstrarábyrgð sína. Með því að kaupa þjónustu af einkaaðilum sparar hið opinbera sér að byggja upp dýra og sérhæfða þekkingu sem er best ræktuð innan einkaaðila í samkeppnisrekstri.

En á nokkrum sviðum gerir hið opinbera veigamiklar undantekningar frá annars farsælu samstarfi við einkaaðila og sérstaklega á það við um heilbrigðisþjónustu.

Hérna er nánast í trúarbragðatón talað um að ríkisvaldið þurfi að sitja sem fastast á sérhæfðum rekstri.

Afleiðingarnar hafa blasað við lengi, og má meðal annars nefna:

  • Í stað þess að kaupa liðskiptiaðgerðir af innlendum aðila er fólk látið bíða svo mánuðum skiptir - jafnvel fram yfir örorku - eða er sent til útlanda fyrir miklu hærra verð en hin innlenda þjónusta kostar
  • Í stað þess að rýma ganga Landspítalans af öldruðu fólki og koma því inn á hjúkrunarheimili er neitað að semja við einkaaðila. Rándýr spítalaplássin eru upptekin og óaðgengileg þeim sem þurfa á aðstoð spítala að halda
  • Í stað þess að leyfa læknum að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur sem sinna skjólstæðingum sínum mun betur en ella er ríghaldið í miðstýringuna og þar með óánægju þar sem gæti verið ánægja
  • Í stað þess að læra af frændum okkar á Norðurlöndunum og hleypa einkaaðilum í auknum mæli inn í heilbrigðiskerfið (nokkuð sem meira að segja The Guardian er ekki algjörlega andsnúinn) og koma á einhvers konar verðlagningu sem er hægt að fylgjast með þá heldur heilbrigðiskerfið áfram að vera rekið í algjörri blindni. Það er ekki einu sinni hægt að fá upplýsingar um hvað tiltekin aðgerð kostar! Heilbrigðiskerfið tekur einfaldlega inn stóra fjárhæð á hverju ári og eyðir henni og rúmlega það án þess að vita hvert hún fór
  • Í stað þess að læra af veirutímum um það hvað aðkoma einkaaðila getur hleypt miklu lífi í hlutina er lokað á lexíuna. Það virðist skipta máli hver einkaaðilinn er - sé hann fyrirtæki rekið af sósíalista virðist mega nýta sér krafta hans

Auðvitað er þetta ekkert annað en pólitík. Heilbrigðisráðherra er hallur undir ríkiseinokun og miðstýringu og ráðuneyti hennar rekið í samræmi við það. Hagur sjúklinga, skattgreiðenda, og heilbrigðisstarfsfólks er í öðru sæti.


mbl.is Ráðuneytið slær á hjálparhönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljum við ekki heyra sem flest sjónarhorn?

Eigum við ekki að fagna því að opinber gagnrýni á yfirvöld fari fram? Að einhver þori að benda á aðrar hliðar málsins en þá einu sem yfirvöld bjóða upp á? Að umræðan sé sem breiðust og fjölbreyttust?

Eigum við ekki að fagna því?

Eða finnst öllum að Icesave-samningarnir hafi bara átt að renna ljúflega niður?

Eða að stjórnarandstaðan á Alþingi á hverjum tíma eigi bara að halda kjafti?

Eða að allir fjölmiðlar segi sömu fréttir frá sömu hliðum?

Auðvitað ekki!

Það er sérhverju samfélagi hollt að sem flestar raddir fái að heyrast, óháð smekk okkar á boðskapnum. 

Til dæmis gera yfirvöld lítið í því að benda á gagnsemi bætiefna til að styrkja ónæmiskerfið. Þó eru til margar rannsóknir sem sýna t.d. hvað D-vítamín gerir ónæmiskerfinu gott, m.a. í baráttunni gegn loftbornum veirum. 

Einnig eru til rannsóknir sem benda til að útbreidd grímunotkun geti gert illt verra. Við kunnum ekki að nota grímur rétt, við erum í sífellu að handfjatla þær, þær hleypa lofti auðveldlega framhjá sér og svo eru grímurnar skítugar eftir að hafa legið á bílsætinu eða verið geymdar í jakka- og rassvösum. Fólk hefur jafnvel fengið lungnabólgu vegna innöndunar á skít úr grímum.

Má ekki ræða þetta? 

Eða er talin einhver hætta á því að fólk drekki yfir sig af lýsi og gleymi því að hósta í ermina?

Þarf að svipta vinnandi fólk lífsviðurværi sínu til að þagga sem harkalegast niður í opinberri umræðu þar sem menn takast á með mismunandi sýn á hlutina?

Viljum við það, í alvöru?


mbl.is Ætlar að sækja ríkislögreglustjóra til saka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið opinbera tapar þegar þú vinnur

Í svolítilli frétt um (löglegan) frádrátt frá skattgreiðslum kemur ítrekað fram orðalag sem gefur til kynna að þegar þú heldur eftir launum þínum þá tapar hið opinbera peningum.  Tapar!

Úr fréttinni:

  • Rík­is­sjóður og sveit­ar­fé­lög hafa orðið af tæp­lega 3,6 millj­örðum króna í skatt­tekj­ur ...
  • Einnig var spurt um áætlað tekjutap rík­is­sjóðs og sveit­ar­fé­laga ...
  • Mat ráðuneyt­is­ins er að árið 2018 hafi tap rík­is og sveit­ar­fé­laga vegna þessa verið ...

Eina leiðin til að forða hinu opinbera frá svokölluðu tapi er að það nái af þér hverri einustu krónu, ekki satt? Því ef þú nærð að halda eftir einni krónu þá hefur hið opinbera tapað henni, ekki satt?

Ekki veit ég hvað vakir fyrir blaðamanni að apa þetta tungutak upp eftir stjórnmála- og embættismönnum. Kannski til að eygja vonir um þægilega innivinnu sem fjölmiðlafulltrúi einhvern daginn?


mbl.is Tekjutap 3,6 milljarðar vegna gjafa lögaðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um leyfislausa lýtalækninn

Mikið kapp er nú lagt á að draga úr trúverðugleika læknis sem hefur vogað sér að gagnrýna aðgerðir sóttvarnaryfirvalda á Íslandi. Elísabet Guðmundsdóttir er nú kölluð leyfislausi lýtalæknirinn og reynt að mála hana sem einskonar skottulækni. Skítt með það að hún hafi starfað sem læknir í áratugi, nú seinast á Landspítalanum áður en henni var sagt upp án uppgefinnar ástæðu korteri eftir að hún hafði í viðtölum gagnrýnt yfirvöld. Skítt með það að hún hafi oft ferðast til Indlands til að hjálpa þar börnum með meðfædd lýti, endurgjaldslaust. Skítt með allt þetta! Hún gagnrýndi sóttvarnaraðgerðir!

Ýmsir hafa stigið fram á sjónarsviðið og reynt að verja ófrægingarherferð fjölmiðla og yfirvalda, meðal annars Pírati nokkur sem skrifar

Þetta er hlutinn sem skiptir máli. Ekki persónan, ekki hvers vegna hún var rekin hvar, hvenær eða hvaða leyfi hún er með, heldur þetta. Að það sem hún segir er efnislega rangt og á skjön við þá vísindalegu þekkingu sem við höfum og getum sýnt fram á.

Og hvaða þekking er það? Þetta fer Píratinn auðvitað ekkert út í því vísindin eru ekki einbreið einstefnugögn. Þau deila um marga mikilvæga þætti. Sem dæmi má nefna:

  • Smita einkennalausir eða ekki? Það má finna rannsóknir til að styðja við hvort tveggja.
  • Eru langtímaafleiðingar vegna COVID-19 verri en vegna inflúensu? Það má finna rannsóknir sem benda á langtímaafleiðingar af báðum veirum og of snemmt að fullyrða hvor er verri að þessu leyti.
  • Smita börn eitthvað að ráði? Smitast þau eitthvað að ráði? Íslendingar bentu á það í vor að það stafar sáralítil hætta af börnum og fyrir börn en víða um heim er þeim samt haldið í stofufangelsi af ótta við smit frá þeim og smit á þeim. 
  • Er verið að mæla smit á áreiðanlegan hátt eða eru prófin stillt svo næm að skaðlausar veiruleifar eru að greinast og flokkaðar sem smit? Hér eru vísindamenn ekki allir á einu máli um bestu nálgunina.
  • Af hverju virðast sumir vera næmari fyrir smiti en aðrir, og sum ríki eða samfélög að sleppa betur en önnur þrátt fyrir að beita hóflegum sóttvarnaraðgerðum? Genatengt? D-vítamínskortur? Ónæmi vegna fyrri veirusjúkdóma sem virkar gegn SARS-CoV-2? Loftslag? Aldursdreifing samfélagsins? Hérna eru vísindamenn svo sannarlega að ræða og rannsaka.
  • Hefur grímunotkun áhrif, og þá í átt til smithömlunar eða jafnvel smitdreifingar vegna rangrar notkunar? Vísindamenn eru margir hverjir lítið hrifnir af almennri grímunotkun á meðan aðrir hafa talað um grímur eins og töfralausn.
  • Hvað segja vísindin um óbein áhrif lokana, takmarkana, atvinnuleysis og einangrunar á samfélagið í heild sinni? Vísindamenn eru vissulega oft bundnir við fílabeinsturna sína en sumir þeirra hafa stigið niður úr þeim og sagt að það sé fleira sem skipti máli en einörð áhersla á smit. Fólk er að deyja of snemma úr mörgu öðru, meðal annars sjálfsvígum, vegna sóttvarnaraðgerða. 

Svo já, vísindin eru nú eitthvað fleira en orð hins íslenska sóttvarnarlæknis. Svo miklu meira. Að ætla sér að þagga niður í einhverjum í nafni vísinda er þvæla.


Regndansinn

Yfirvöld víða um heim dansa nú regndansinn sem aldrei fyrr. Honum er ætlað að koma í veg fyrir útbreiðslu á loftborinni veiru við kjöraðstæður hennar þegar loftslagið er henni þægilegt og kuldi og raki slævir ónæmiskerfi fólks og margir þjást af D-vítamínskorti vegna lítils sólarljóss. Verðmiði regndansins er hagkerfið, unga fólkið og þeir sem hefðu geta sloppið við dauða vegna krabbameins, hjartasjúkdóma og heilabilunar en sleppa ekki.

Og af hverju kalla ég aðgerðir gegn veiru regndansinn? Jú, því ef þú dansar hann nógu lengi þá byrjar á endanum að rigna og þú getur þá sagt: Sko! Ég framkallaði regn!

Því staðreyndin er að veiran mun á endanum hafa náð til svo margra að hún kemst ekki lengra og fyrr eða síðar fer að birta til og loftslagið að verða veirunni erfitt. Það mun rigna, en ekki vegna regndansins.

Svona hegðar veira sér sem leggst í efri hluta öndunarfæranna:

flu

Svona hegðar hún sér í Svíþjóð, sem er kannski það ríki sem hefur verið næst því að fylgja hefðbundnum sóttvarnaraðgerðum vegna loftborinnar veiru.

sw

Hvers vegna er loftborin veira svona góð í að berast á milli í ákveðnu loftslagi? Af hverju er talað um "seasonal flu" þegar fólk er í mestri smithætti innandyra í hitastýrðu umhverfi? Svarið er í stuttu máli: Það vitum við ekki! En menn eru auðvitað með kenningar.

En áfram regndansari! Þetta er alveg að koma hjá þér!


Litakóðar á sóttvarnaraðgerðum

Yfirvöld hafa búið til litakóða og hólfa nú landið niður eins og gert er þegar riðutilfelli koma upp í sauðfé. Ráðherra landbúnaðarmála hefur kannski fengið að koma að vinnu sóttvarnaryfirvalda, hver veit. 

En litakóðar eru góðir. Þá er með sjónræmum hætti einfalt að koma á framfæri skilaboðum. Hér eru mínir litakóðar á aðgerðir sóttvarnaryfirvalda, og þess ber að geta að í dag er rautt ástand:

Blóðrauðar sóttvarnaraðgerðir:

Hagkerfið örkumlað. Allir í stofufangelsi, bæði veikir og lasnir ("lock-down"). Sem betur fer hafa Íslendingar losnað við slíkt ástand. Fólk deyr heima hjá sér og sekkur í þunglyndi og vímuefnamisnotkun og sumt deyr úr hjartaáföllum en aðrir missa af skimunum fyrir krabbameini og öðrum langvinnum sjúkdómum og deyja seinna. Gamalt fólk skorið frá vinum og ættingjum og upplifir elliglöp og heilabilanir hraðar en ella. Börnum beint og óbeint ýtt út úr námi og íþróttum.

Nú er unnið að lagabreytingum í ýmsum ríkjum, t.d. Íslandi og Danmörku, til að heimila yfirvöldum að fara út í blóðrauðar sóttvarnaraðgerðir.

Rauðar sóttvarnaraðgerðir:

Flest af atriðum blóðrauðra sóttvarnaraðgerða en þó má fólk hætta sér út fyrir hússins dyr og jafnvel versla annað en klósettpappír og matvæli. Gamalt fólk eftir sem áður að visna upp í einveru og fólk á biðlistum heilbrigðiskerfisins sagt að bíða enn lengur og þrýstingur á börn að detta úr námi og íþróttum.

Appelsínugular sóttvarnaraðgerðir:

Einhverjar takmarkanir sem aðallega koma fram í banni á tónleikum og íþróttaviðburðum en þó hægt að drekka sig ölvaðan í góðra vina hópi og hitta ömmu og afa í eigin persónu. Sænska leiðin og íslenska sumarið í grófum dráttum.

Gular sóttvarnaraðgerðir:

Allt sem fólk hefur alla tíð skilið þegar hin árlega flensa gengur yfir.


mbl.is Aldrei fleiri en 100 saman miðað við nýtt kerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmarkanir og veira

woodsflorida

Sóttvarnaraðgerðir eru af ýmsu tagi, og yfirleitt þær að fólk er beðið um að hósta í ermina, halda höndum hreinum og forðast að labba um hóstandi meðal eldra fólks. Hin nýja kynslóð sóttvarnaraðgerða (sem Kínverjar fundu upp í byrjun árs) er af öðru tagi. Heilbrigt fólk er lokað inni, fyrirtækjum er lokað með valdi og fjölskyldu-, atvinnu- og félagslíf gjörsamlega eyðilagt.

Og árangurinn, ef eingöngu er einblínt á veirusmit og öllum óbeinu og hræðilegu afleiðingunum sópað til hliðar? Sennilega enginn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband