Ekki sama hver einkaaðilinn er

Samstarf hins opinbera og einkaaðila er á mörgum sviðum mjög víðtækt. Þetta á við á Íslandi og öðrum ríkjum. Ríkið kaupir þjónustu einkaaðila í miklum mæli, allt frá því að láta leggja vegi og til að elda mat. Með þessu móti getur ríkið stundum sparað fé en aðallega minnkað rekstrarábyrgð sína. Með því að kaupa þjónustu af einkaaðilum sparar hið opinbera sér að byggja upp dýra og sérhæfða þekkingu sem er best ræktuð innan einkaaðila í samkeppnisrekstri.

En á nokkrum sviðum gerir hið opinbera veigamiklar undantekningar frá annars farsælu samstarfi við einkaaðila og sérstaklega á það við um heilbrigðisþjónustu.

Hérna er nánast í trúarbragðatón talað um að ríkisvaldið þurfi að sitja sem fastast á sérhæfðum rekstri.

Afleiðingarnar hafa blasað við lengi, og má meðal annars nefna:

  • Í stað þess að kaupa liðskiptiaðgerðir af innlendum aðila er fólk látið bíða svo mánuðum skiptir - jafnvel fram yfir örorku - eða er sent til útlanda fyrir miklu hærra verð en hin innlenda þjónusta kostar
  • Í stað þess að rýma ganga Landspítalans af öldruðu fólki og koma því inn á hjúkrunarheimili er neitað að semja við einkaaðila. Rándýr spítalaplássin eru upptekin og óaðgengileg þeim sem þurfa á aðstoð spítala að halda
  • Í stað þess að leyfa læknum að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur sem sinna skjólstæðingum sínum mun betur en ella er ríghaldið í miðstýringuna og þar með óánægju þar sem gæti verið ánægja
  • Í stað þess að læra af frændum okkar á Norðurlöndunum og hleypa einkaaðilum í auknum mæli inn í heilbrigðiskerfið (nokkuð sem meira að segja The Guardian er ekki algjörlega andsnúinn) og koma á einhvers konar verðlagningu sem er hægt að fylgjast með þá heldur heilbrigðiskerfið áfram að vera rekið í algjörri blindni. Það er ekki einu sinni hægt að fá upplýsingar um hvað tiltekin aðgerð kostar! Heilbrigðiskerfið tekur einfaldlega inn stóra fjárhæð á hverju ári og eyðir henni og rúmlega það án þess að vita hvert hún fór
  • Í stað þess að læra af veirutímum um það hvað aðkoma einkaaðila getur hleypt miklu lífi í hlutina er lokað á lexíuna. Það virðist skipta máli hver einkaaðilinn er - sé hann fyrirtæki rekið af sósíalista virðist mega nýta sér krafta hans

Auðvitað er þetta ekkert annað en pólitík. Heilbrigðisráðherra er hallur undir ríkiseinokun og miðstýringu og ráðuneyti hennar rekið í samræmi við það. Hagur sjúklinga, skattgreiðenda, og heilbrigðisstarfsfólks er í öðru sæti.


mbl.is Ráðuneytið slær á hjálparhönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Geir,

Þér að segja þá er ég almennt fylgjandi því að takmarka ríkisrekstur, en þegar kemur að nauðsynja þjónustu/vöru þá er ég algerlega mótfallinn einkarekstri.

T.d. spítalar/rafmagn/vatn, þessa hluti á aldrei að einkavæða, þetta var allt meira og minna byggt upp á okkar skattpeningum og hefur viðgengist góð þjónusta þarna, t.d rafmagn og vatn, það er tiltölulega ódýrt hjá okkur hér á fróni.

Hvað varðar spítala, það seinasta sem ég myndi vilja sjá er kerfi eins og er í bandaríkjunum, þar sem fólk forðast það að fara þangað vegna kostnaðar, geturðu ýmindað þér að þurfa fara inn á sjúkrahús í einhvern tíma og allur þinn sparnaður hingað til og það sem eftir lifir hjá þér og börnum er farinn.

Þurfa að borga 100þ á mánuði fyrir sykursýkislyf. 130 milljónir í skuld fyrir 2 mánaða covid sjúkravist.

Hafandi sagt það, þá er ég samt sammála því að það megi vinna með innlendum aðilum frekar en að senda fólk út fyrir landsteininn.

Halldór (IP-tala skráð) 9.12.2020 kl. 09:48

2 identicon

Þú gerir engan greinarmun á ríkinu og stofnunum þess. Ríkið semur ekki við neina einkaaðila um vegalagningu, Vegagerðin gerir það. Vegagerðin er á fjárlögum og ræður hvernig best er að nýta féð. Sennilega eru einkaaðilarnir í heilbrigðisgeiranum þeir einu sem semja við ríkið/heilbrigðisráðuneytið/Tryggingastofnun og eru á fjárlögum. Ríkið sjálft kaupir aðeins þjónustu einkaaðila í heilbrigðisgeiranum.

Vandinn við liðskiptaaðgerðir er ekki skortur á aðilum á launaskrá ríkisins til að gera þær, Landspítalinn ræður vel við þær allar og á þriðjungi lægra verði en einkaaðilarnir. Vandamálið er að á fjárlögum er ekki peningur til að borga fyrir þær, hvorki hjá Landspítala né einkaaðilum.

Það er aðeins hægt að hleypa einkaaðilum í auknum mæli inn í heilbrigðiskerfið með auknum framlögum á fjárlögum. Og læknum er frjálst að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur. En læknar sem gerast sjálfstæðir atvinnurekendur geta ekki ætlast til þess að vera áfram á ríkisspenanum. Og ríkið hlýtur að ráða hvort það kaupir þjónustu þeirra eða noti ríkisstofnun og fái þá 3 aðgerðir fyrir verð tveggja.

Og þá kemur að utanlandsaðgerðunum. Þær eru samkvæmt lögum og ekki greiddar með fráteknum peningum fjárlaga. Alþingi getur ekki neitað lögbundnum neyðarútgjöldum en getur neitað að hækka framlög til heilbrigðismála. Ráðuneytið getur ekki samið um annað en þeir geta borgað samkvæmt framlögum fjárlaga. Og Landspítalanum er gert að halda sig innan fjárlaga.

Vildi ríkið stytta biðlista þá væri hagstæðast að auka framlög til spítala og semja svo við einkaaðila um aðgerðir sem spítalarnir ráða ekki við. Að semja við einkaaðila meðan skurðstofur sjúkrahúsa ríkisins standa ónotaðar vegna fjárskorts er fyrra.

Og auðvitað ætti að rýma ganga Landspítalans af öldruðu fólki og koma því inn á hjúkrunarheimili, sem ríkið á í haugum en standa ónotuð vegna fjárskorts. Og neitað er að semja við einkaaðila sem bjóðast til að taka við öldruðum fyrir hærra verð en kostar að opna og reka lokuðu ríkisplássin. Hún er slæm og bítur víða þessi kvöð á ríkið að þurfa að borga fyrir þjónustuna við almenning.

Vagn (IP-tala skráð) 9.12.2020 kl. 10:57

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Íbúðalánasjóður er nú í vanda vegna dóms um uppgreiðslugjald. Segjum að hann muni þurfa aðstoð til að verða ekki gjaldþrota. Einsog dæmin sýna þá mundi ríkið hlaupa undir bagga með íbúðalánasjóði jafnvel þó hann væri einkarekinn alveg eins og USA dældi peningum í Veltistræti - almúginn er alltaf látinn borga á einhvern hátt

Svo er annað mál að þessir dómar þar sem haldið er fram að sakborningur sé sekur af því að hann átti að gera eitthvað annað en hann gerði eru undarlegir. Því í lögunum er heimild fyrir íbúðalánasjóð að setja á uppgreiðslugjald við erfiðar aðstæður en dómurunum finnst rannsóknarskyldu á öðrum úrræðum ekki næginlega vel sinnt

Grímur Kjartansson, 9.12.2020 kl. 11:04

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Halldór,

Viðhorf þitt er skiljanlegt og algengt en þegar Íslendingar segjast vilja halda úti velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd - "norræna velferðarstjórnin" var ein ríkisstjórnin að reyna titla sig - þá eru Íslendingar hér kaþólskari en páfinn. 

Vagn,

Ég þekki mann sem reyndi með öllum leiðum að komast að því hvað liðskiptiaðgerð á ríkisreknu sjúkrahúsi kostar ríkið. Hann gat með engu móti fengið upplýsingar um það - þú getur kannski svarað því? Einhverjum blaðamanni gæti líka fundist allt kostnaðartal þitt áhugavert því ég les ekkert nema fréttir um plássskort, biðlista og utanlandsferðir á meðan þú talar um helling af tómu og ódýru plássi sem vantar bara "aðeins" meira fjármagn.

Geir Ágústsson, 9.12.2020 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband