Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019
Föstudagur, 30. ágúst 2019
Fátækt, hungur, sjúkdómar og barnadauði ekki lengur efst á lista
Alveg dæmalaus og gríðarlega þungur áróður beinist nú að því að setja veðrið efst á forgangslista stjórnmálamanna. Já, veðrið er orðið brýnasta efni stjórnmálamanna!
Hvað fer þá neðar á listann?
Fátækt.
Hungur.
Sjúkdómar.
Barnadauði.
Allt annað.
Veðrið er brýnasta viðfangsefnið! Þó er almennt viðurkennt, utan stjórnmála- og blaðamannastéttanna, að mannkynið hefur í mesta lagi örlítil áhrif á veðrið, nánast sama hvað það gerir.
Menn geta vissulega farið í samkeppni við eldfjöll, rotnandi hræ, sprungur á hafsbotni og allskyns uppsprettur ýmissa lofttegunda (t.d. sólina og geiminn) og hnikað örlítið samsetningu lofthjúpsins með frekar óljósum og ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Vissulega! En að menn eigi að forgangsraða fátækt, hungri, sjúkdómum og barnadauða neðar en veðurfari framtíðar er nánast hægt að kalla grímulausa mannvonsku sem hefur þann eina tilgang að koma á alsheimssósíalisma og drepa markaðshagkerfið. Blautur draumur Marxista að rætast, með veðurspánna að vopni!
Kæru stjórnmálamenn, vinsamlegast takið hausinn út úr rassgatinu á ykkur. Heimurinn hefur ekki tíma fyrir svona vitleysu!
Loftslagsmál brýnasta pólitíska viðfangsefnið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.8.2019 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Miðvikudagur, 28. ágúst 2019
Smásöluverzlun ríkisins
Íslenska ríkið rekur í Keflavík smásöluverslun í stórkostlega skekktri samkeppni við einkaaðila. Auðvitað er slíkt algjör helber vitleysa. Það bað enginn um að ríkisvaldið sæi fólki fyrir tollfrjálsum ilmvötnum og sælgæti. Þetta þróaðist bara svona, ein ríkisafskipti í einu, og þeir sem vilja alls ekki sjá ríkisvaldið minnka að neinu leyti geta því ekki hugsað sér að hrófla við þessu fyrirkomulagi.
Af hverju er fólk annars svona hrifið af ríkisforstjórum og ríkisnefndum? Yfirleitt eru þeir tilnefndir af einhverjum ráðherranum og þar með fæðist hvati til að umbuna vinskap frekar en viðskiptaviti. Er það frábært fyrirkomulag?
Ríkið á að selja alla flugvelli og allar flugstöðvar í einum grænum greinum. Það mun ekki hafa neinar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir flugfélög eða farþega, sem eru jú þeir sem þurfa á flugvöllum og flugstöðvum að halda.
Við þá sem vilja sem öflugast ríkisvald sem sinnir brýnum verkefnum:
Hvernig væri að ákveða hvað það er sem ríkið þarf að gera, og hvetja stjórnmálamenn til að draga ríkið úr öllu öðru? Þarf að brauðfæða fátækar mæður? Ok! Þarf að tryggja gott heilbrigðiskerfi fyrir alla? Allt í lagi! En þarf ríkið að selja ilmvötn? Ef ekki, þá á það að hætta því.
Sala á Leifsstöð gæti raungerst á næstu mánuðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 23. ágúst 2019
Þetta með aðhald
Mikið er ánægjulegt að sjá íslenska stjórnmálamenn njóta aðhalds. Það er alltof sjaldgæft.
Þeir fá t.d. alltof há laun.
Þeir fá alltof frítt spil.
Þeir eru sjaldan beðnir um að gera grein fyrir ákvörðunum sínum.
Þeir standa sjaldan við orð sín.
Þeir fá að hlaupa frá verkum sínum.
Þeim tekst yfirleitt að klína mistökum sínum á aðra.
En kannski er eitthvað að breytast núna. Blaðamenn þurfa að átta sig á því að það telst til áhugaverðra frétta að stjórnmálamaður hagi sér eins og frekur krakki á leikskólalóð sem neitar alltaf sök.
Lýðræðið virkar ekki nema kjörnir leiðtogar fái að hanga fastir á öllum sínum orðum og ákvörðunum.
Blaðamenn hreykja sér gjarnan af því að veita stjórnvöldum aðhald. Sjáum hvað setur.
Katrín reiðubúin að funda með Pence | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Stóri traðkar á litla
Í Hong Kong finna menn nú fyrir auknum þrýstingi frá Kína um að dansa í takt við fiðluna í Peking. Þetta eru slæmar fréttir. Hong Kong, Singapore og fleiri slík svæði eru svæði þar sem fólk fær að þrífast og dafna, a.m.k. miðað við flest önnur svæði í þessum heimshluta.
Leiðtogar ríkja eru samt feimnir við að mótmæla og það vita Kínverjarnir alveg sjálfir og nýta sér það.
Það er því undir íbúum Hong Kong að standa á sínum, með eða án aðstoðar annarra.
Eða hvar eru "frelsum Tíbet" raddirnar núna?
Það er í eðli ríkisvaldsins að vilja breiða úr sér og sópa til sín stærri og stærri hlutum samfélagsins. Ef enginn mótmælir er ekki von á góðu.
Námsmenn í Hong Kong boða verkfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 19. ágúst 2019
Drengir af öllum gerðum, litum og stærðum
Er loksins byrjað að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem blasir við ungum karlmönnum? Frábært!
Þeir fremja næstum því öll sjálfsmorðin og glæpina, eru miklu líklegri til að skolast út úr skólakerfinu en stúlkur og eru skammaðir frá morgni til kvölds fyrir að vera þeir sjálfir. Fremji þeir glæpi fá þeir harðari refsingu en kvenmaður sem fremur sama glæp. Fari svo að þeir eignist börn og skilji svo við barnsmóðurina bíður þeirra alltof oft aðskilnaður frá börnum sínum og himinháar meðlagsgreiðslur. Þeim er ýtt til hliðar í vinnunni til að rýma fyrir einhverjum óhæfari einstaklingi til að fylla upp í hina og þessa kvóta. Og svona má lengi telja. Og til að kóróna allt er þeim kennt um öll vandamál heimsins.
Þetta réttlætir alls ekki skotárásir en gæti kannski útskýrt tilurð slíkra árása og fært okkur nær því að koma í veg fyrir slíkar hörmungar.
Þegar menn eins og kanadíski sálfræðingurinn Jordan Peterson segir við unga karlmenn að það sé pláss fyrir þá í heiminum þá sperra þeir eyrun. Hann er að segja - að mínu mati - sjálfsögðustu hluti í heimi, en er um leið eins og einmanna rödd í eyðimörk femínista.
Það er kominn tími til að ræða hvað við og hin pólitíska rétttrúnaðarkirkja er að gera við unga karlmenn. Það græðir enginn á því að missa þá úr leik. Enginn.
Áhyggjur af hvítum ungum drengjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 16. ágúst 2019
Fréttir úr raunveruleikanum
Vestrænir fréttamiðlar eru fullir af allskonar þvaðri um batterí, rafmagnsbíla, vindmyllur, loftslagsbreytingar og plastnotkun.
Í raunveruleikanum ræða menn aðra hluti og hrinda af stað risavöxnum framkvæmdum sem byggjast á raunverulegri þörf og raunverulegum útreikningum.
Sem dæmi má nefna verkefni sem ég tilheyri í minni vinnu: Tenging á gasframleiðslu úr norskri landhelgi við gasdreifikerfi Póllands! Og hvernig gera menn það? Jú, með því að grafa stálrör í jörðina þvert yfir Danmörk.
Þetta er tröllaukið verkefni sem ég hafði ekki hugmynd um fyrr en ég byrjaði í nýrri vinnu í byrjun júní. Og þótt nú styttist í að menn grafi skurði yfir Danmörku alla hef ég ekki séð svo mikið sem eina frétt eða eina umfjöllun um verkefnið í fjölmiðlum. En kannski kemur að því bráðum.
(Auðvitað er þetta verkefni ekki bara knúið áfram af orkuþörf. Menn eru líka að reyna minnka þörf sína á rússnesku gasi ef svo fer að Rússar fara í fýlu og loka krönunum. Hið fréttnæma hér er þá kannski að menn eru að eyða fúlgum í kerfi sem er hannað til a.m.k. 30 ára en tala um leið um að vilja hætta notkun jarðefnaeldsneytis löngu fyrir þann tíma.)
Í gær var mér svo sagt aðeins frá öðru verkefni, enn tröllauknara: Byggingu gasleiðslu meðfram endilangri strandlengju Norð-vestur Afríku, sem tengir saman gasframleiðslu Nígeríu við Spán!
Já, að hugsa sér að það væri einn daginn hægt að elda á eldavél í Danmörku með gasi frá Nígeriu!
Menn virðast telja þetta mögulegt og eru að fá sérfræðinga til að reikna og hanna en sjáum hvað setur.
Þetta er a.m.k. það sem er að gerast í raunveruleikanum: Menn eru að reyna minnka þörfina á kolum en þurfa engu að síður eitthvað sem kemur í staðinn. Kjarnorkan er óvinsæl og vindmyllurnar óáreiðanlegar og dreifikerfi rafmagns ræður ekki við sveiflurnar frá þeim. Það þarf því að ná í meiri olíu og gas og ýmislegt lagt á sig í þeim efnum.
Með kveðju frá raunveruleikanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 14. ágúst 2019
Konur og laun
Konur fá hærri laun er karlmenn. Stundum.
Einhleypar og barnlausar konur fá hærri laun en einhleypir og barnlausir karlmenn í sömu stéttum.
Kvenkynsfyrirsætur fá miklu hærri laun en karlkynsfyrirsætur.
Í kláminu fá konurnar miklu meira borgað en karlmennirnir.
Karlmenn fá hærri laun en konur. Stundum.
Í fótbolta fá þeir hærri laun en konur.
Karlmenn sem fórna félagslífi og heilsu fyrir vinnu og langar vinnuvikur og uppskera oft ábyrgðarstöður og þeim fylgja hærri laun en ekki-ábyrgðarstöður.
Karlmenn taka oft meiri áhættu í viðskiptum og þegar það gengur upp fylgir slíku oft góð umbun. Þegar það gengur ekki upp fá menn ekkert. Konur feta meðalveginn.
Það má ekki mismuna eftir kynferði (og er ekki gert því það er óhagkvæmt í viðskiptum) en auðvitað mismuna menn eftir verðmætasköpun og það er gott. Slík mismunun heldur fyrirtækjum á tánum, fólki forvitnu og lærdómsfúsu og sókninni í bætt lífsgæði á fullri ferð.
Fáránlegt að konur fái sömu laun og karlar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. ágúst 2019
Hagsmunir útvegsfyrirtækja og Hafró mætist
Ég las ekki fyrir löngu bókina Fiskleysisguðinn, og fannst hún stórmerkileg. Þar er rakið hvernig ríkisvæðing á aflaheimildum hefur beint eða óbeint leitt til hruns á helstu fiskveiðistofnum við landið. Það er nefnilega ekki óumdeilt hvort sé betra, að grisja fiskistofna (fækka fiskunum sem eltast við sama ætið) eða vernda þá gegn ofveiði (hlífa smáfiskinum svo hann geti vaxið og fjölgað sér).
Auðvitað má öllu ofgera og bæði ofvernda og ofveiða, og með nýjustu tækni er sennilega hægt að útrýma hverjum einasta sporði í sjónum ef þannig liggur á sjómönnum.
Boðskapurinn með bókinni er samt, eins og ég skildi hann, að einfaldlega skila valdinu á fiskveiðum aftur til sjómanna, sem um leið þýðir að það vald þarf að taka úr höndum hins opinbera (Hafró).
En hvernig má tryggja að hagsmunir útgerðarinnar/sjómanna/gjaldeyrisþurfandi Íslendinga og Hafró mætist?
Jú, með því að gera hafrannsóknir að verkfæri útgerðarinnar.
Útgerðarfyrirtæki eru - sama hvað hver segir - rekin með langtímasjónarmið að leiðarljósi. Það er fyrst að ofurskattheimta og þjóðnýting bærir á sér að menn fara að hugsa til skemmri tíma.
Það þarf að láta hagsmuni útgerðarinnar og Hafró mætast. Það mætti kannski gera með því að loka Hafró og senda starfsmenn hennar út á hinn frjálsa markað.
(Hér er því viljandi látið ósvarað hvernig má varðveita hina gríðarlega jákvæðu rekstrarhvata hins framseljanlega valds yfir aflaheimildum ef fiskveiðar eru opnar öllum. Kannski ættu menn að íhuga að fylgja dæmi bænda og "girða af" sjóinn, sem ætti að vera auðvelt á öld GPS og rafeindatækni? Það virðast laxveiði- og stangveiðibændur geta gert með góðum árangri.)
Hagsmunir Ratcliffe og Hafró mætist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 10. ágúst 2019
Enginn vill keyra eftir einn en ...
Ég held að enginn vilji í raun setjast undir stýri eftir að hafa fengið sér áfengi. Menn freistast samt til þess af því að einn bjór væri annars fjárhagslegur dauðadómur í formi leigubíls eða tímalegur dauðadómur í formi kvöldstrætisvagns.
Af hverju kostar svona mikið að taka leigubíl? Sjálfur hef ég eytt mörg þúsund krónum í að komast frá einu af austanverðum úthverfum Reykjavíkur í annað.
Af hverju er svona tímafrekt að komast heim í strætó á kvöldin? Sjálfur hef ég prófað að eyða meira en klukkutíma í að komast frá Kringlunni og í Hólahverfi Breiðholts.
Á sama tíma sitja þúsundir bíla dauðir í bílastæðum og bílskúrum, með allsgáða eigendur á heimilum sínum sem gætu alveg hugsað sér aukapening.
Sérhæfð fyrirtæki sem flytja þúsundir einstaklinga á hverjum degi á milli óteljandi áfangastaða gætu líka stokkið til og boðið upp á sveigjanlegar lausnir.
En nei, höfum fyrirkomulagið sem nú segir:
- Stjórnlaus niðurgreiðsla (gegn himinhárri skattheimtu) á strætókerfi sem miðast allt við háannatíma en er algjörlega getulaust utan þess
- Gríðarlega flókið og hamlandi regluverk í kringum skutl á fólki á milli staða
Eftir einn, ei aki neinn, nema stundum!
Lyklarnir teknir eftir einn bjór | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 7. ágúst 2019
Af hverju er nóg af olíu en skortur á vatni?
Vatnsskortur er yfirvofandi í 17 löndum. Vandamálið vex með hverju ári. Oft má litlu muna. Yfirvöld skammta vatn til að bjarga forðanum. Samt er megnið af yfirborði Jarðar vatn (sem þarf bara að hreinsa) og það fellur af himnum ofan, safnast fyrir hér og þar og má flytja á frekar auðveldan hátt yfir langar vegalengdir.
Á sama tíma er talað um ofgnótt olíu. Heimurinn er hreinlega að drukkna í henni og vindmylluhipparnir klóra sér í hausnum yfir því að geta ekki keppt við hana í hagkvæmni, jafnvel þótt olíuverð hafi lækkað mikið frá því það var sem hæst fyrir örfáum árum. Það er mjög erfitt, dýrt og áhættusamt að sækja olíuna. Hún er jafnvel sótt á yfir 2500 m dýpi. Olía er ætandi og gæði hennar mjög mismunandi eftir svæðum.
Af hverju er vatnsskortur?
Af hverju er ofgnótt olíu?
Svarið er sáraeinfalt: Vatnið er yfirleitt í umsjón opinberra stjórnsýslueininga sem fá að sólunda almannafé á meðan olíuiðnaðurinn treystir á hugvit og drifkraft einkafyrirtækja sem eru rekin með hagnað að leiðarljósi.
(Olíufélög í opinberri eigu, eins og Equinor og Petrobras, þurfa kannski að taka við fyrirmælum frá stjórnmálamönnum, en sömu stjórnmálamenn vita að þeir geta ekki drepið gullgæsina sína án afleiðinga. Í tilviki Petrobras er þó búið að ganga svo nærri fyrirtækinu með opinberum afskiptum að það hefur ekki lengur burði til að ráðast í risaframkvæmdir á eigin spýtur. Svipaða sögu má segja frá Mexíkó og Saudi-Arabíu þar sem er verið að sólunda auðlindum úr gjöfulum svæðum.)
Það þarf að einkavæða vatnið, því betri er dýr sopi í stuttan tíma á meðan einkaaðilar vinna að því að stilla saman framboð og eftirspurn en enginn sopi í langan tíma í biðraðamenningu opinberrar framleiðslu.
Vatnsskortur yfirvofandi í 17 löndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)