Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019
Þriðjudagur, 6. ágúst 2019
Lýðræðið
Það er hægt að segja ýmislegt um Sjálfstæðisflokkinn, enda er það hálfgerð þjóðaríþrótt (sem ég tek sjálfur fullan þátt í).
Eitt verður samt að segjast: Flokkurinn er lýðræðislegur. Reglur hans og stjórnsýsla miðast allt að því að flokksmenn fái að koma skoðunum sínum á framfæri veita fulltrúum sínum aðhald.
Þetta segi ég af einlægni og sem hrós.
Þess vegna skil ég ekki af hverju þingmenn hans láta eins og lýðræðislegt aðhald samflokksmanna sinna sé fyrst og fremst einhvers konar ónæði. Þeir ganga gegn landsfundarályktunum eða vanrækja að fylgja þeim eftir. Þeir fara leynt með skoðanir sínar þar til kemur að því að kjósa um málefni á Alþingi. Hvers vegna?
Auðvitað eru á þessu veigamiklar undantekningar, eins og Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson og jafnvel Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Ef allir sjálfstæðismenn væru eins og þessir sjálfstæðismenn er hugsanlegt að fylgi flokksins væri meira. En svo er ekki. Því miður.
Undirskriftum sjálfstæðismanna safnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 3. ágúst 2019
Frjáls hugsun er auðlind framtíðarinnar
Það er alltaf ánægjulegt að lesa um frumlega hugsuði, þá sem skapa og þá sem þora. Á meðan ungmennin brotna núna saman eins og spilaborgir vegna skorts á fylgjendum á samfélagsmiðlum liggur við að maður missi móðinn. Er unga kynslóðin bara að væflast um á netinu í leit að viðurkenningu ókunnugra? Er enginn að hittast, þróa félagsfærni sína og brjóta múra? Eru allir annaðhvort að syngja eins og kórinn eða þegja eins og grjótið?
Það er í svona bölsýnismóði að ég fagna fréttum af ungum, hugrökkum myndlistarmönnum og miðaldra dónaköllum í Vestmannaeyjum. Þeir eru enn til sem þora, slá til og leggja undir. Sem betur fer. Frjáls hugsun dýrmætasta auðlind okkar. Því miður er verið að loka á þá auðlind. Gegn því þarf að sporna.
Leið eins og fertugum karli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 1. ágúst 2019
Þegar aðhald blaðamanna virkar
Fjölmiðlar á Íslandi eru upp til hópa klappstýrur ríkisvaldsins og vinstriflokkanna og frekar fjandsamlegir einkarekstrinum. Þetta er kannski skiljanlegt í ljósi þess að blaðamenn mælast yfirleitt miklu lengra til vinstri en almenningur almennt, og skiptir þá engu hvort við skoðum blaðamenn í Bandaríkjunum, Noregi eða Danmörku.
Þó dettur þeim stundum í hug að líta framhjá eigin persónulegu stjórnmálaskoðunum og leita að fréttum.
Í Danmörku eru blaðamenn til dæmis í sífellu að leita að einhverju klúðri, merkjum um spillingu eða stuld á skattfé almennings. Þeir nýta upplýsingalögin af ákafa til að grafa upp kvittanir, fundagerðir og minnisblöð og hamast svo á viðeigandi aðilum þar til þeir játa sig sigraða.
Gildir þá einu hvort um sé að ræða opinberan starfsmann, vinsælan stjórnmálamann eða forstjóra einkafyrirtækis.
Fyrir vikið er alltaf hægt að finna einhverja krassandi fyrirsögn um eitthvað sem er talið eiga erindi við almenning. Æsifréttablöðin og stóru blaðarisarnir keppast um að grafa fram hið fréttnæma, hvor á sinn hátt.
Þetta gerist í landi þar sem blaðamenn eru mun lengra til vinstri en almenningur almennt, en láta það ekki skaða störf sín.
Kannski íslenskir blaðamenn séu byrjaðir að læra af þessu?
Sigríður fékk undanþágu til þátttöku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |