Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2018

Það sem blasir við ferðamönnum

Íslensk náttúra er stærsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem koma til landsins. Gullfoss er alltaf fallegur, íslenski hesturinn er alltaf tignarlegur og jöklarnir alltaf stórfenglegir. 

En það er fleira sem blasir við ferðamönnum. Það eru hinar mannlegu hindranir sem þeir mæta.

Þeir sjá að áfengi er ekki selt hvar sem er. Sumir láta plata sig til að kaupa pilsnerinn í von um að hann sé nægilega áfengur.

Þeir sjá að verðlag er hátt, sem má að stóru leyti skrifa á háa skatta.

Þeir sjá að það er löng röð í leigubílana og að Uber-appið neitar að hjálpa þeim. Ekki vita þeir af skutlara-síðum fésbókarinnar (kannski einhver reyni að bæta úr því?). Það er því sennilega best fyrir þá að væflast bara í göngufæri við hótelið þar til rútan kemur.

Þeir sjá að aðstaða til að hafa hægðir er víða léleg og furða sig sennilega á því að enginn standi reiðubúinn að rukka þá um tvær evrur fyrir að fá að kúka í klósett. Að fá að setja upp aðstöðu og rukka fyrir notkun hennar er yfirleitt lítið mál í flestum ríkjum en Íslendingar brjálast og tala um að það sé verið að selja landið.

Þeir sjá að alla daga nema föstudaga og laugardaga er kaffihúsum og öldurhúsum lokað eldsnemma og allir sendir heim.

Ferðamenn sjá ýmislegt og kannski þeim mun betur eftir því sem aðrir og oft betri valkostir standa þeim til boða. Allar hinar manngerðu hindranir má fjarlægja í hvelli. Mun ásóknin í ferðamenn kannski verða þess valdandi að líf Íslendinga verður frjálsara?


mbl.is Samkeppnin er að harðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frægur fyrir að gera lítið

Margir stjórnmálamenn eru iðjusamir einstaklingar. Þeir vilja láta verkin tala. Þeir eru á fullu. Þeir vinna lengi. Þeir gera margar breytingar. Þeir eru álitnir duglegir. Og eftir þá liggur svo sviðin jörð.

Aðrir stjórnmálamenn taka því rólegar. Þeir vilja ekki róta of mikið í hlutunum. Þeir vilja láta lífið hafa sinn gang. Þeir einbeita sér að því að klippa á borða og kyssa smábörn. Og eftir þá liggur svo friður og farsæld.

Sem dæmi um hinn iðjusama sem skildi eftir sig sviðna jörð er stjórnmálaparið Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Þetta fólk tók við slæmu búi og gerði allt verra. Því var bjargað með eldgosi og ferðamannastraumi en þeirra eigin verk gerðu meira ógagn en gagn.

Sem dæmi um hinn rólega er fyrrverandi forseti Brasilíu, Luiz Inacio Lula da Silva. Brasilíumenn muna helst eftir honum sem manni sem gerði lítið, hróflaði ekki of mikið við samfélaginu og kom vel fyrir. Ekki gleyma því að hann er sósíalisti sem lifði af sölu olíu á frjálsum markaði. Hann leyfði mörgu að hafa sinn gang og hlaut fyrir það gott orðspor.

Hliðstæð dæmi má finna um hagstjórn. Á 3. áratug 20. aldar skullu á tvær stórar kreppur í Bandaríkjunum. Í hinni fyrri fékk forsetinn heilablóðfall og gat lítið gert, og seðlabankinn hafði ekki tekið upp þann leiða vana sinn að prenta endalausa peninga til að bjarga gjaldþrota bönkum. Sú kreppa gekk hratt yfir og er gleymd. Í hinni síðari setti ríkisvaldið allt á fullt til að bjarga skútunni sem gerði ekki annað en að fylla hana af vatni og gera slæmt ástand verra. Sú kreppa er kölluð Kreppan mikla.

Stjórnmálamenn sem gera lítið eru oft miklu meira virði en hinir sem hamast.


mbl.is Undirbýr forsetaframboð í fangaklefa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það Bandaríkjunum að kenna að Tyrkland er í vandræðum?

Margir virðast hafa gleypt hrátt þá skýringu Tyrklandsforseta að vandræði Tyrklands og gjaldmiðils Tyrklands séu Bandaríkjunum að kenna.

Sú skýring heldur engu vatni. Það má vera að aðgerðir Bandaríkjanna hafi flýtt fyrir einhverju en þetta eitthvað hefði gerst engu að síður.

Hagstjórn Tyrklands er í molum. Forsetinn er nánast einráður. Seðlabankinn þar rekur ekki sjálfstæða stefnu. Hann prentar peninga þegar forsetinn vill, og það vill hann. Ríkið skuldar gríðarlega. Tollastefna Bandaríkjanna er ekki orsökin að vandræðum Tyrklands. Vandræði Tyrklands er heimatilbúin.

Fjölmiðlamenn ættu að vera sig.


mbl.is Hækka tolla á bandarískar vörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsamlegast ekki þessa viðkvæmni

Viðkvæmni er greinilega í gríðarlegri tísku. Hún gildir m.a. um homma og lesbíur, múslíma, kynskiptinga, kvenfólk sem er ekki forstjórar stórra fyrirtækja, þá með annan húðlit en ljósbleikan og þá sem vilja læra eitthvað algjörlega tilgangslaust og út í bláinn (helst á mörgum árum á kostnað skattgreiðenda). Um þessa hópa má varla segja saklausasta brandara og allt verður vitlaust.

Opin skotskífa er hins vegar á mörgum öðrum hópum, t.d. á öllum sem hafa fæðst og alist upp í kapítalískum ríkjum og njóta hinna ríkulegu ávaxta frjáls markaðshagkerfis.

Viðkvæmnin ein og sér er samt ekki vandamálið heldur er vandamálið sú athygli sem viðkvæmnin fær. Blaðamenn hlaupa á eftir þeim viðkvæmustu hverju sinni og taka við þá viðtöl og skrifa út frá þeim stóryrtar fyrirsagnir.

Viðkvæmir hafa alltaf og alla tíð fundist en yfirleitt hefur raunveruleikinn læknað viðkvæmnina að einhverju leyti. Núna eru viðkvæmnin ræktuð eins og blóm í potti og fær að vaxa og taka yfir allt nærliggjandi svæði.

En kannski skiptir viðkvæmnin engu máli. Á fésbókinni eru óteljandi lokaðar og læstar brandarasíður þar sem viðkvæmnin á ekkert erindi. Í lokuðum hópum er viðkvæmt fólk baktalað og gert að aðhlátursefni. Á vinnustöðum er viðkvæmu fólki mokað út í horn þar sem það heyrir ekkert af hinu skemmtilega vinnustaðarspjalli. Í félagslífinu er hinu viðkvæma fólki ekki boðið í bestu partýin. Á stefnumótamarkaðinum er viðkvæma fólkið sent heim eftir fyrsta hitting. Viðkvæmir sækjast í félagsskap hvers annars en kemst ekki lengra en það. 

Velkomin í raunveruleikann.


mbl.is Bean styður búrkubrandara Borisar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn láta draga sig um á asnaeyrum

Tilvist Donald Trump hefur flækst mjög fyrir fjölmiðlamönnum síðan hann varð forseti og jafnvel fyrr. Þeir vita ekki alveg hvernig þeir eiga að skilgreina hann eða eiga við embættisfærslur hans. Donald Trump passar ekki alveg nógu vel í þá þrjá kassa sem blaðamönnum er kennt að flokka alla í:

  • Hjartahlýr og óeigingjarn sósíalisti
  • Kaldrifjaður og sálarlaus kapítalisti
  • Fordómafullur og treggáfaður sveitalubbi

Fleiri kassa hafa blaðamenn ekki til ráðstöfunar. Þess vegna er ekki skrýtið að Donald Trump vefjist fyrir þeim.

Donald Trump er að vinna sumt vel og sumt ekki. Hann er að reyna létta á kverkataki ríkisvaldsins á hagkerfinu með því að lækka skatta og fækka reglum, en um leið að traðka á frjálsum viðskiptum sem skaðar hagkerfið. Hann vill enda átök við Norður-Kóreu og minnka spennuna við Rússland en sendir um leið sprengjur inn í Miðausturlönd og kyndir þar upp í spennu og átökum. Hann vill að fyrirtæki ráði fólk í vinnu til að framleiða verðmæti en þegar vinnufært fólk kemur til landsins yfir röng landamæri er það sett í búr og sent til baka. Donald Trump á það til að tala fyrst og hugsa seinna. En hann er ekki andskotinn sjálfur og litlu verri en forverar hans í starfi - jafnvel betri að einhverju leyti.

Blaðamenn þurfa að fjölga kössunum sínum eða hætta að nota þá.


mbl.is Mótmælendur fjölmennari þátttakendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskur í búri

Sjókvíaeldi á þorski hefur heillað marga enda er þorskurinn eftirsótt vara sem oft fæst gott verð fyrir en er um leið takmörkuð auðlind.

Það kemur mér hins vegar á óvart að menn hafi haldið því til streitu að rækta þorsk í yfirborðssjókvíum.

Fyrir einum 14 árum vann ég lokaverkefni mitt í vélaverkfræði um sjókvíaeldi á þorski (verkefnið er aðgengilegt hér). Hugmyndin var sú að færa eldið út á opið haf í kvíar sem í sumum tilvikum er hægt að sökkva undir yfirborðið til að forðast versta álagið. Mín niðurstaða þá var að tæknin væri ekki tilbúin ennþá, en slíkt getur auðvitað breyst hratt. Ástæðan fyrir áhuganum á sjókvíaeldi á opnu hafi var sú að þorskurinn þyrfti ferskan og mátulegan kaldan sjó til að þrífast - nokkuð sem fæst ekki í fjörðum. Einnig var umhverfissjónarmið í því að úrgangur dreifðist jafnóðum um hafið í stað þess að safnast á botninn. 

Það kemur mér á óvart að menn hafi haldið því til streitu að rækta þorsk í lokuðum fjörðum miðað við allt sem var vitað fyrir 14-15 árum síðan og jafnvel lengur.

Kannski er ástæðan sú að nýjar rannsóknir voru sífellt að gefa tilefni til bjartsýni.

Kannski er ástæðan sú að opinber styrktarsjóður neitaði að sleppa tökunum á dauðadæmdu áhugamáli.

Kannski fleygði tækninni svo hratt fram að menn vildu halda áfram að prófa.

Kannski var einhverjum úti í heimi að takast vel upp og veita þannig hvatningu fyrir aðra.

Hvað sem því líður þá finnst mér þetta vera áhugavert efni. Það fer að koma að því að bændur, landeigendur og sjómenn hætta að umbera mengandi iðnað í fjörðum sínum og þá þarf sjókvíaeldið að fara út á opið haf. Hafið er sennilega ein stærsta ónýtta auðlind jarðar þótt ótrúlegt megi virðast - hér stunda menn ennþá söfnun á mat eins og steinaldarmenn gerðu á landi. Ef menn vilja fyrir alvöru nýta hafið til að framleiða mat þarf að fara fram landbúnaðarbylting eins og sú sem fór fram á landi. Gerist það á okkar líftíma?


mbl.is Hætta að styrkja þorskeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum hjólreiðar!

Það eru margar augljósar ástæður fyrir því að banna ætti hjólreiðar með öllu. Um leið er auðvelt að koma auga á þær ástæður því þær eru látnar gilda um svo margt að við getum allt eins heimfært þær upp á hjólreiðar.

Hættulegt

Hjólreiðar eru stórhættulegar. Fólk getur dottið. Fólk getur orðið fyrir bíl. Dekk getur sprungið og fleygt manneskjunni af hjólinu. Sprungur, steinar, kantar, ýmsir smáir hlutir og glerbrot - allt getur þetta gert jafnvægið að engu og leitt til stórslysa. Sumir hjóla án hjálma, hnéhlífa, olnbogahlífa og slitsterkra síðbuxna. Ef bara einn þessara hluta vantar er hjólreiðamaðurinn í stórhættu. Börn eru í sérstakri hættu, bæði á hjólunum og sem vegfarendur þar sem hjól eru á ferð. Það ætti að banna hjólreiðar, fyrir börnin!

Heimskulegt

Það er beinlínis heimskulegt að hjóla. Af hverju að nota hjól þegar það er hægt að nota bíl? Bílar eru öruggari, þægilegri og afla ríkinu meiri tekna. Af hverju að hjóla berskjaldaður og setja sig í stórhættu? Hjólreiðar ætti að banna því þær eru heimskulegar.

Heilsuspillandi

Sumir telja, með röngu, að hjólreiðar séu heilsusamlegar. Það er ekki rétt. Fyrir utan slysahættuna þá valda hjólreiðar því að æðar í kringum klof karlmanna klemmast og það getur leitt til getuleysis. Kvenfólk á í hættu að fá þvagfærasýkingu þegar það lokar heitan svita inni í langan tíma á hnakki hjólsins. Hjólum fylgja alls kyns smurolíur og lítil verkfæri sem skapa hættu á heilsubrestum og slysum.

Ringulreið

Fyrir utan örfá gatnamót í örfáum borgum virða hjólreiðamenn aldrei neinar reglur. Þeir hjóla bara þegar þeim sýnist og skapa algjöra ringulreið. Þetta gengur auðvitað ekki. Með því að banna hjólreiðar má koma á röð og reglu aftur. 

Dýrt fyrir skattgreiðendur

Hjól kosta lítið og skatttekjur vegna hjóla og hjólreiða eru hverfandi. Um leið heimta hjólreiðamenn hjólastíga og brýr. Það kostar skattgreiðendur alltof mikið að hafa alla þessa hjólareiðamenn á spenanum.

Tískubóla og háð

Hjólreiðar eru orðnar að algjörri tískubólu. Þær eru notaðar af hinum ríku til að hæðast að hinum fátæku. Þeir ríku eiga vitaskuld bæði hjól og bíl en með því að velja hjólið er verið að gera grín að þeim sem vilja bíl en hafa ekki efni á bíl. Það þarf að banna þetta glys og þennan dónaskap og koma á umhverfi gagnkvæmrar virðingar jafnréttis, jafnræðis og jafnstöðu.

Að ofangreindu má ráða að bann við hjólreiðum er mjög áríðandi.

Ég vona að þingmenn þessa lands sýni ábyrgð og staðfestu í þessu mikilvæga máli.


mbl.is Lance Armstrong blóðugur eftir hjólaslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungur maður með markmið

„Þetta var aðeins skemmtilegra en ég átti von á,“ segir Andri Fannar Einarsson, 12 ára strákur úr Grindavík, eftir níu daga túr á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnasyni. 

Gott hjá honum! Þarna er greinilega á ferðinni maður með markmið og eindreginn vilja til að prófa eitthvað nýtt, öðlast þroska, leggja á sig mikla vinnu og taka áhættu.

Það má vel vera að þessi sjóferð hafi verið ólögleg en þá þarf að breyta lögum. Lögin eiga ekki að hindra fólk sem gerir uppbyggilega hluti.

Því miður eru 12 ára sjómenn undantekningin frekar en reglan. Reglan er miklu frekar sú að 12-15 ára ungmenni rotni lifandi fyrir framan tölvuskjá, hrjáð af D-vítamínskorti vegna sólarleysis, félagslegri fötlun vegna brenglunar og minnisglöpum vegna skjágláps. Þau vita ekki hvað markríll er en eru með það alveg á hreinu hvaða dansspor eru tekin í Fortnite-tölvuleiknum.

Þeir eru til sem segja að stærsta áskorun ungra karlmanna í dag sé skortur á tilgangi og ábyrgð í lífinu. Þeim er yfirleitt bara ætlað að segja já og amen við aðra, sitja kyrrir og helst skammast sín fyrir kynferði sitt. Er skrýtið að þeir hætti snemma í skóla og fremji margfalt fleiri sjálfsmorð en kvenfólk?


mbl.is Tólf ára á frystitogara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt sem truflar er truflandi, og allt truflandi truflar

Það þarf ekki prófessora eða flóknar rannsóknir til að segja kennurum að allt sem er truflandi truflar.

Maður sem keyrir bíl á ekki að horfa á sjónvarp.

Maður sem saumar með saumavél á ekki að lesa stöðuuppfærslur á fésinu.

Maður sem lemur í nagla með hamri á ekki að góna út í loftið og bíða eftir stjörnuhrapi.

Nemandi sem situr í fyrirlestri á ekki að væflast um internetið.

Auðvitað er athyglisvert að sjá rannsóknir um hin ýmsu áhrif tölvuskjáa, hvort sem það er á langtímaminnið eða andlegan þroska. En fyrir kennara og prófessora er nóg að vita að allt sem er truflandi truflar.

Um leið má velta því fyrir sér af hverju sumir kennarar og margir skólar berjast af miklum móð fyrir því að fá fleiri skjái í kennslustofuna. Skólarnir vilja sennilega fá hið aukna eyðslufé sem fylgir kaupum og viðhaldi á tækjunum. Kennarar vilja sennilega reyna að færa eitthvað af vinnu sinni yfir á skjáina og kaupa sér þannig meiri tíma til að drekka kaffi. Eða hvað?


mbl.is Símanotkun leiðir til lægri einkunna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndi duga í 20 ár

Markaðsvirði Apple, Alphabet, Facebook, Microsoft og Amazon myndi duga til að reka íslenska ríkið í 540 ár, að sögn.

Þetta er þó ekki rétt. Hið rétta er að sérhvert ríkisvald eyðir alltaf eins miklu og það getur eins hratt og það getur eða kemst upp með. Markaðsvirði þessara fyrirtækja myndi kannski duga í 20 ár, en á þeim tíma væri búið að malbika og gullhúða þéttofið vegakerfi yfir gjörvallt hálendið, reisa óperuhús í hverju einasta plássi, koma öllum Íslendingum á opinbera framfærslu, skipta út öllu starfsfólki fyrir erlent vinnuafl, koma öllu námi á háskólastig og leggja fiskiflotanum.

Síðan yrði að lýsa ríkisvaldið gjaldþrota og byrja upp á nýtt.

Hin verðmætu fyrirtæki eru verðmæt af því þau þjóna viðskiptavinum sínum. Ríkisvaldið er verðlaust því það hefur enginn val um að stunda við það viðskipti.


mbl.is Verðmæti Apple skiptir ekki öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband