Bönnum hjólreiðar!

Það eru margar augljósar ástæður fyrir því að banna ætti hjólreiðar með öllu. Um leið er auðvelt að koma auga á þær ástæður því þær eru látnar gilda um svo margt að við getum allt eins heimfært þær upp á hjólreiðar.

Hættulegt

Hjólreiðar eru stórhættulegar. Fólk getur dottið. Fólk getur orðið fyrir bíl. Dekk getur sprungið og fleygt manneskjunni af hjólinu. Sprungur, steinar, kantar, ýmsir smáir hlutir og glerbrot - allt getur þetta gert jafnvægið að engu og leitt til stórslysa. Sumir hjóla án hjálma, hnéhlífa, olnbogahlífa og slitsterkra síðbuxna. Ef bara einn þessara hluta vantar er hjólreiðamaðurinn í stórhættu. Börn eru í sérstakri hættu, bæði á hjólunum og sem vegfarendur þar sem hjól eru á ferð. Það ætti að banna hjólreiðar, fyrir börnin!

Heimskulegt

Það er beinlínis heimskulegt að hjóla. Af hverju að nota hjól þegar það er hægt að nota bíl? Bílar eru öruggari, þægilegri og afla ríkinu meiri tekna. Af hverju að hjóla berskjaldaður og setja sig í stórhættu? Hjólreiðar ætti að banna því þær eru heimskulegar.

Heilsuspillandi

Sumir telja, með röngu, að hjólreiðar séu heilsusamlegar. Það er ekki rétt. Fyrir utan slysahættuna þá valda hjólreiðar því að æðar í kringum klof karlmanna klemmast og það getur leitt til getuleysis. Kvenfólk á í hættu að fá þvagfærasýkingu þegar það lokar heitan svita inni í langan tíma á hnakki hjólsins. Hjólum fylgja alls kyns smurolíur og lítil verkfæri sem skapa hættu á heilsubrestum og slysum.

Ringulreið

Fyrir utan örfá gatnamót í örfáum borgum virða hjólreiðamenn aldrei neinar reglur. Þeir hjóla bara þegar þeim sýnist og skapa algjöra ringulreið. Þetta gengur auðvitað ekki. Með því að banna hjólreiðar má koma á röð og reglu aftur. 

Dýrt fyrir skattgreiðendur

Hjól kosta lítið og skatttekjur vegna hjóla og hjólreiða eru hverfandi. Um leið heimta hjólreiðamenn hjólastíga og brýr. Það kostar skattgreiðendur alltof mikið að hafa alla þessa hjólareiðamenn á spenanum.

Tískubóla og háð

Hjólreiðar eru orðnar að algjörri tískubólu. Þær eru notaðar af hinum ríku til að hæðast að hinum fátæku. Þeir ríku eiga vitaskuld bæði hjól og bíl en með því að velja hjólið er verið að gera grín að þeim sem vilja bíl en hafa ekki efni á bíl. Það þarf að banna þetta glys og þennan dónaskap og koma á umhverfi gagnkvæmrar virðingar jafnréttis, jafnræðis og jafnstöðu.

Að ofangreindu má ráða að bann við hjólreiðum er mjög áríðandi.

Ég vona að þingmenn þessa lands sýni ábyrgð og staðfestu í þessu mikilvæga máli.


mbl.is Lance Armstrong blóðugur eftir hjólaslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Geir. Mér finnst þetta frekar asnalegur pistill hjá þér að þessu sinni.

Það er hollt fyrir þá sem geta hjólað, að koma sér í hreyfingu á þann hátt. Stoðkerfi sumra er svo lélegt, og hjólreiðar eru minna álag á lélegt stoðkerfið heldur en að ganga.

Verst er samt hvað hröð umferðin og plássleysið á hjólaferðunum er ótta-leg. Ég þori varla að koma mér af stað á nýja hjólinu mínu, vegna þess að mér finnst ég vera hættulega mikið fyrir annarri hraðri umferð.

Klukkan 1/2 7 á morgnana er áhættuminnst að vera á hjólaferðinni, þegar maður er kominn á seinni og hægfara tilveru-hálfpartinn, svona heilsufarslegrar færnilega séð.

Boð og bönn hafa aldrei verið til velferðar vænleg fyrir einn eða neinn.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2018 kl. 21:44

2 Smámynd: Örn Einar Hansen

Mikið andskoti er þetta gott hjá þér, vildi óska að mér væri lagið orðið eins og þér í þessu sambandi. Hreinlega beint í mark.

Örn Einar Hansen, 10.8.2018 kl. 23:55

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Geir er klár og kann vel að rökstyðja mál sitt, gæti vel unnið rökræðukeppni, en ég stórefa að hann trúi þessu öllu saman -- býst við að mæta honum á hjólabrautinni áður en sumarið er úti.

Jón Valur Jensson, 11.8.2018 kl. 02:14

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég hjóla mjög mikið og finnst það frábært. Um leið bendi ég á - með svolítilli kaldhæðni - að margt er bannað því einhverjum finnst það hættulegt, heimskulegt eða ekki nógu ágóðasamt fyrir ríkið.

Geir Ágústsson, 11.8.2018 kl. 03:54

5 Smámynd: Arnar Guðmundsson

Aðstæður fyrir bílaumferð er vissulega betri en fyrir hjólandi. Það er líklega vegna þess að bíleigendur borga fyrir aðgang að götunum. Borga reyndar þrefalt verð miðað við útlagðan kostnað vegna gatna. Borga að auki stóran hluta af hjólabrautum höfuðborgarinnar. Þó er mest talað um að fækka þurfi þeim sem leggja til fé til samgangna. - Þetta var því hressandi pistill hjá Geir.

Arnar Guðmundsson, 11.8.2018 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband