Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018

Meirihluti til eins árs

Meirihluti er að myndast í Reykjavík og að honum koma fjórir flokkar: Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og VG.

Það varð strax eftir kosningar óumflýjanlegt að flókinn meirihluti ólíkra flokka yrði að verða til. Á Íslandi er engin hefð fyrir minnihlutastjórnum. 

Það blasti við að meirihlutinn væri fallinn.

Það blasti við að hinum fallna meirihluta vantaði hækju ef hann ætlaði að halda velli.

Nú virðist vera hinn fallni meirihluti vera að endurfæðast með aðstoð Viðreisnar. Það kemur ekki á óvart. Viðreisn styður borgarlínuna. Hún hefur samt bent á að fjármál borgarinnar eru í klessu og að samkeppnishæfni borgarinnar sé töluvert skert vegna hárra skatta á fyrirtæki.

Ekki veit ég hvernig Viðreisn ætlar að samræma óskir sínar um lægri skatta og aukin útgjöld. Ég efast um að Viðreisn berjist fyrir hærri opinberum skuldum. Kannski það eigi að veðja á að lóðabrask fráfarandi meirihluta og aukið innstreymi fyrirtækja í borgina bjargi málunum.

Ekki veit ég hvernig hófstillt Viðreisn ætlar að vinna með æstum Pírötum (eins konar ungliðahreyfing Samfylkingarinnar), athyglissjúkum borgarstjóra og einmanna Vinstri-grænum. Það kemur í ljós. 

Það getur vel verið að menn semji nú um meirihluta til eins árs en ekki fjögurra.

Meirihlutinn féll en fékk hækju. Það er niðurstaðan... í bili!


mbl.is Eiga eftir að ræða verkaskiptingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjánleiki er góður en kemur hann í veg fyrir bruðl?

Nú er lagt til að kjararáð verði lagt niður og að í staðinn komist á skipulegra ferli.

Þetta er sennilega góð hugmynd en ég efast um að hún leiði til lækkunar á launakostnaði ríkisins.

Í fyrsta lagi skammtar hið opinbera sjálfu sér alltaf ríkulega, a.m.k. í efstu lögunum. Það er hætt við að túlkanir á launaþróun verði alltaf ríkisstarfsmönnum í hag. Ef almenn laun hækka um 5% þá hækka ríkisstarfsmenn um 5%. Leiði verðbólga til þess að kaupmáttur á almennum vinnumarkaði lækki mun það ekki gilda um ríkisstarfsmennina - þeir fá einfaldlega sínar launahækkanir ofan á uppbót vegna verðbólgu.

Í öðru lagi hafa ríkisstarfsmenn talið sjálfum sér í trú um að þeir séu ómissandi. Þeir eru jú dómarar, yfirmenn og embættismenn sem fari með trúnaðargögn! Þarf ekki að verðlauna svona fólk ríkulega og tryggja að það hætti ekki í vinnunni sinni? 

Í þriðja lagi er báknið svo bólgið að það er engin leið að halda aftur af frekari vexti þess. Það er alltaf einhver starfsstéttin á leið í verkfall eða býr við útrunna kjarasamninga. Þeir sem heyra nú undir kjararáð munu ekki sætta sig við að fá minna en aðrir, sama hver það er.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir að launakostnaður ríkisins bólgni út á hverju ári er að fækka ríkisstarfsmönnum. Mestu hagvaxtarskeið vestrænna ríkja hafa verið á tímum hógværrar skattheimtu (nær 20% en 50%), minni reglugerða, frjálsari viðskipta og minna ríkisvalds. Með öðrum orðum: Þegar opinberir starfsmenn voru færri og gerðu minna.


mbl.is Leggja til að kjararáð verði lagt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bröltið í Bandaríkjunum

Auðvitað eiga Bandaríkin að koma sér út úr öllum ríkjum með herdeildir sínar. Her á að verja landamæri, punktur. Vilji menn skerast í leikinn, t.d. þegar einhver yfirvöld brytja niður eigin þegna, á slíkt aldrei að leiða til varanlegs hernáms. 

Um leið þarf að leggja meiri áherslu á að þjóðir eða þjóðarbrot fái að ráða sér sjálf, jafnvel þótt slíkt þýði uppskipting núverandi ríkja. Kúrdar eiga að fá sitt eigið ríki með bitum af Tyrklandi, Írak, Íran og Sýrlandi. Í Afríku þarf að brjóta upp fjölmörg landamæri frá nýlendutímabilinu og sameina þjóðir sem lifa sitt hvorum megin við landamæri innan nýrra landamæra. 

Í Bandaríkjunum eru margir ósáttir við að Donald Trump sé forseti. Viðkomandi á að geta aflað stuðnings fyrir því að ríki hans lýsi yfir sjálfstæði og um leið aðskilnaði frá bandaríska alríkinu. 

Sundrun eða uppskipting er oft besta sameiningaraflið. 


mbl.is Vill að Bandaríkjaher yfirgefi landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umbúðir minnka matarsóun

Ef það verður gert dýrara eða erfiðara að nota einnota umbúðir mun matarsóun aukast.

Sérstaklega á þetta við um plast sem er bæði þunnt og fyrirferðarlítið og andar ekki (heldur fersku súrefni frá matvælum).

Sé ætlunin sú að minnka rusl í sjónum er nærtækast að beina því til fátækra ríkja (þeirra sem menga mest) að taka upp óheflaðan kapítalisma svo íbúar þar verði nógu ríkir til að verða pjattaðir og krefjast hreinna umhverfis.


mbl.is ESB vill banna einnota plast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er allt nám verðmætaskapandi

Það virðist vera að renna upp fyrir fleirum að ekki er allt nám verðmætaskapandi, a.m.k. ekki í þeim skilningi að nemandinn lærir neitt sem eykur verðmæti vinnu hans.

(Þetta er svolítið sérstakt í tilviki opinberra starfsmanna sem mennta sig sérhæft inn í ríkiseinokun, t.d. kennarar og ljósmæður. Þar togast ekki á sömu öfl framboðs og eftirspurnar því ríkisvaldið eignast - ef svo má segja - viðkomandi starfsmann, því hann hefur ekki úr svo miklu að moða með sína menntun.)

Þar með er ekki sagt að námið hafi verið tímasóun. Smiður sem nennir ekki að vinna úti lengur getur tekið kennararéttindi og fengið þægilega innivinnu. Vörubílstjóri sem nennir ekki að keyra bíl allan daginn getur tekið leikskólakennaranám og komist í fyrirsjáanlegri dagskrá.

Sumt nám er algjör óþarfi fyrir marga sem taka það. Tökum til dæmis venjulegan grunnskólakennara. Hann kann öll fögin. Hann kann að eiga við krakka. Hann kann að tjá sig. Hvað lærir hann í margra ára kennaranámi? Hann lærir á allskyns ferla og örugglega eitthvað um sálfræði og einelti og athyglisbrest. Varð hann betri kennari við það? Er ekki nóg að hafa 2-3 sérhæfða starfsmenn í hverjum skóla sem kunna á sértilvikin og leyfa kennurum að vera kennarar? Ég spyr af einlægni.

Kannski varð hið langa kennaranám bara til þess að svipta hann starfsreynslu og tekjum sem gerir það að verkum að viðkomandi er ólmur að fá hærri laun sem hið opinbera vill samt ekki greiða honum. Hvað gerir viðkomandi þá? Hættir og finnur aðra vinnu? Þá reyndist kennaranámið virkilega vera tímasóun og auðvitað sóun á fé skattgreiðenda.

Það er alveg hægt að mennta sig án þess að setjast á skólabekk og gleypa forsoðnar kenningar. Margir taka reglulega námskeið. Sumir nota frítíma sinn til að læra eitthvað nýtt. Sumir eru alltaf að lesa sér til um hitt og þetta. Nám er ekki hið sama og skólaganga, og skólaganga er ekki alltaf nám.

Nú þegar búið er að skera á tengsl náms og verðmætasköpunar er kannski komið tækifæri til að endurhugsa hlutverk hins opinbera í skólakerfinu?


mbl.is Ekki samband milli launa og menntunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólreiðavinir, aldraðir og sköllóttir semja

Þegar frumvarp til laga um fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík voru til umræðu sagði einn stuðningsmanna frumvarpsins eftirfarandi:

Fagna því ef að grasrótarsamtök bjóða fram krafta sína í þessa samfélagsþjónustu, ef að hjólreiðavinir, aldraðir, sköllóttir, hverjir sem það eru, kjósa að bjóða fram sín baráttumál, og því tekið fagnandi, og það er lægri þröskuldur og við fáum breiðari og fjölbreyttari sveitarstjórnir eftir því sem þær eru fjölskipaðri að þessu leyti.

Núna hafa vonandi allir fengið sinn borgarfulltrúa: Hjólreiðavinir, aldraðir og sköllóttir. Það sem tekur nú við er að sköllóttir og aldraðir þurfa að setja sig inn í grunnskólamál, hjólreiðavinir inn í holræsamál og allir þurfa auðvitað að hafa skoðun á skipulagsmálum, íþróttamálum og velferðarmálum.

Einsflokksframboð þurfa skyndilega að mynda sér skoðun á allskyns málaflokkum án þess að hafa velt þeim mikið fyrir sér áður.

Þessi ringulreið verður vonandi ekki til þess að skaða borgina of mikið.

Ég legg til að borgin fari strax fram á að borgarfulltrúum verði fækkað aftur og jafnvel í færri en 15. 


mbl.is Allir að tala við alla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppniseftirlit er óþarfi á frjálsum markaði

Samkeppniseftirlit er mjög í tísku. Allir eru einhvern veginn fylgjandi slíku eftirliti. Samkeppni er jú góð, ekki satt?

Um leið er slíkt eftirlit óþarfi á frjálsum markaði. Á frjálsum markaði gilda fáar og almennar reglur og þar er auðvelt fyrir nýja samkeppnisaðila að koma inn á einhvern markaðinn. 

Um leið er ekki frjáls markaður á Íslandi. Það er til dæmis nánast ómögulegt að stofna banka nema hafa marga milljarða af þolinmóðu fé. Það er nánast engin leið að keppa við ríkisvaldið þar sem það notar skattfé til að niðurgreiða rekstur sinn. Það er dýrt að stofna margar tegundir af rekstri vegna allskyns leyfa sem þarf að útvega sér með ærnum tilkostnaði áður en tekjurnar detta inn.

Stærsta undantekningin er kannski það sem snýr að hugbúnaði. Menn geta byrjað að forrita og vera fljótlega komnir með varning til sölu. 

Samkeppniseftirlit er nauðsynlegt á ófrjálsum markaði þar sem ríkisvaldið hefur reist múra sem verja fyrirtæki fyrir samkeppni. Innan múranna þarf að halda uppi ímynd samkeppni. Ríkisvaldið reynir að bæta upp fyrir eigin hindranir með eftirliti sem getur aldrei orðið annað en ófullkomið, handahófskennt og ósanngjarnt.

Með því að koma á frjálsari markaði má leggja niður Samkeppniseftirlitið. Neytendur eiga að sjá um samkeppniseftirlitið með því að setja léleg fyrirtæki á hausinn og verðlauna þau bestu með blússandi hagnaði sem um leið laða að sér samkeppnisaðila sem vilja bita af kökunni.


mbl.is Segir fólk óttast Samkeppniseftirlitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allar reglur kosta eitthvað fyrir einhvern

Fjármálafyrirtæki barma sér núna yfir íþyngjandi regluverki og háum sköttum. Þau benda á að íþyngjandi reglum fylgi kostnaður sem bitnar fyrst og fremst á neytendum eða almenningi. Þau benda á að íþyngjandi reglur skekki samkeppnisstöðu. 

Allt er þetta gott og blessað en sumt er samt ekki nefnt.

Það er ekki nefnt að bankarnir hafa í mörgum tilvikum sjálfir samið regluverkið sem gildir um þá (t.d. í gegnum Basel). Þeir hafa hannað það þannig að samkeppni við þá er torvelduð. Ef það kostað milljarð að stofna nýjan banka, og 700 milljónir stafa af allskyns kröfum um eiginfjárhlutfall, stöðugildi til að halda uppi reglum og fleira slíkt, þá torveldar það samkeppni miðað við að geta stofnað banka með 300 milljónir í farteskinu. Bankarnir vilja að reglurnar læsi viðskiptavini innan bankanna þar sem má mjólka þá aðeins meira en ella.

Það er heldur ekki nefnt að allskyns reglur og skattar á annars konar fyrirtæki valda líka kostnaðarauka. Bankarnir hafa ekki beinlínis boðað að ríkisvaldið almennt dragi úr umsvifum sínum og skattheimtu. Nei, slík almenn baráttumál varða ekki bankana. Það er ekki fyrr en að ríkisvaldið beinir spjótum sínum að þeim sjálfum að þeir kippast til eins og ufsi nýdreginn að landi. 

Það má að vissu leyti vorkenna bönkunum fyrir að þurfa enn að vera blóraböggull fyrir hrunið árið 2008. Það er hins vegar erfitt að vorkenna iðnaði sem hefur sögulega séð komið sér vel fyrir í jötu ríkisvaldsins og getið þar fengið að prenta peninga, semja samkeppnishamlandi reglur og haft svigrúm til að hirða gróðann þegar vel gengur en geta sent reikninginn á aðra þegar illa gengur. 


mbl.is Séríslenskar reglur hækka kostnað neytenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögurstund í Reykjavík? Varla

Það hefur mikið verið gert úr kosningum til borgarstjórnar í Reykjavík, miklu meira en kosningum í öðrum sveitarfélögum. Skiljanlega. Reykjavík er stærsta sveitarfélagið, höfuðborg landsins og rekstur borgarinnar umdeildur. Mikill fjöldi framboða er til merkis um töluverða óánægju en mikill stuðningur við Samfylkinguna um leið til merkis um að margir borgarbúar eru afskaplega sáttir. 

Það er margt sem bendir til borgin sé einfaldlega að skiptast upp í tvo eða jafnvel þrjá hluta sem hafa óskylda hagsmuni sem verða ekki samræmdir.

Úthverfin vilja meiri þjónustu og betri samgöngur. Strætó virkar illa þar - bara að komast frá Hólahverfi í Breiðholti til Sævarhöfða í Árbæ í strætó gefur verið um 40 mínútna ævintýri á meðan bílferðin tekur 5-10 mínútur. Opinber þjónusta er meira og minna ófáanleg nema í miðbænum og þangað er engin leið að komast fyrir umferð. Leikskólar eru af skornum skammti og foreldrar keyra bæinn þveran til að koma börnum sínum í dagvistun ef þeir eru svo heppnir að fá einhverja slíka. Uppbygging nýrra svæða hefur að miklu leyti verið stöðvuð eða vafin inn í óendanlega langt ferli í borgarkerfinu. 

Miðbærinn vill færri bíla og meiri áherslu á aðra farskjóta. Þar á líka að vera stutt í alla þjónustu. Ferðamenn eru velkomnir en bara í hófi því hótelin og rúturnar mega ekki taka of mikið pláss eða framkalla of mikinn hávaða. Umferð frá úthverfafólkinu á helst eða vera sem minnst. Allt á um leið að vera í miðbænum - spítalinn, opinber þjónusta og öll hátíðarhöld. 

Fjölskyldufólkið vill vegi fyrir bílana sína - helst án hola og umferðarljósa.

Hipparnir vilja geta keypt bjór á kaffihúsinu sínu en eru um leið ekki hrifnir af því að stórmarkaðir úthverfanna selji bjór til íbúa þar.

Ungt fólk vill geta keypt húsnæði, helst án sparnaðar. 

Eldra fólk vill afslátt af sköttum sínum.

Fasteignaeigendur eru flengdir með föstum skatthlutföllum af vaxandi verðmæti fasteigna sinna. 

Rekstur borgarinnar verður dýrari og dýrari um leið og íbúar þess mælast þeir óánægðustu á öllu landinu. Í borginni hefur því verið brugðið á það ráð að halda lóðaverði sem hæstu til að geta fjármagnað útgjöldin með sölu lóða á yfirverði.

Það stefnir í að 8 flokkar nái manni inn í borgarstjórn. Það er ekkert að fara breytast. Það er engin ögurstund framundan - bara meira af því sama en nú enn dýrara. Því miður. 


mbl.is Komið að ögurstund í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handritið hefur verið skrifað

Framundan er áfall í fjármálakerfi heimsins sem mun láta það frá 2008 líta út eins og lítinn hiksta.

Þetta áfall hefur ástæður sem verður ekki farið út í hér, en í stuttu máli er allt sem var að árið 2008 enn að en á allt annarri og tröllvaxinni stærðargráðu. 

Þegar áfallið skellur á mun eftirfarandi handrit verða lesið upp:

Donald Trump afnam reglur. Reglurnar hefðu komið í veg fyrir hrun.

Donald Trump er ekki Obama. Allt sem Obama gerði var rétt. Allt sem Trump gerir er rangt.

Ef við hefðum bara haft annan seðlabankastjóra í Bandaríkjunum hefði ekkert komið upp á.

Skuldir og peningaprentun og alltof lágir vextir leiða ekki til hruns. Það gera hins vegar menn eins og Trump og Davíð Oddsson.

Það er nauðsynlegt að ríkisvaldið eitt hafi útgáfu peninga á könnu sinni. Samkeppni á þessu sviði er slæm. Seðlabankar eru nauðsynlegir. Peningaprentun þeirra og viðskiptabankanna í gegnum fyrirkomulag brotaforða er frábær.

Þessir hægrimenn hafa nú sýnt að þeir valda bara hruni. Kjósum enn skæðari sósíalista en nokkurn tímann áður yfir okkur næst. 

Handriti lýkur.


mbl.is Náði stórum áfanga í afregluvæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband