Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017

Ábyrgð, einhver?

Íslenskir hægrimenn eru í margskonar vanda. Eini flokkurinn sem að einhverju leyti hýsir þá - Sjálfstæðisflokkurinn - er með dvergfylgi miðað við oft áður. Hin svokallaða hægristjórn er næstum því jafnóvinsæl og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Í Reykjavík er flokkurinn vissulega stærsti einstaki flokkurinn en á enga bandamenn og kemst því ekki í borgarstjórn. Hugtakið "hægrimaður" á Íslandi er yfirleitt tengt við klíkuskap og vinaráðningar en ekki verðmætaskapandi frumkvöðlavinnu. Þeir hægrimenn sem þó hafa völd og áhrif tala ekki hátt um skattalækkanir, skaðsemi velferðarkerfisins og nauðsyn þess að koma ríkisvaldinu úr allskyns rekstri. 

Er skrýtið að hægrimenn séu settir út í horn? Nei.

Það sem íslenskir hægrimenn eru að gera, og er að skaða þá, er að taka þátt í stjórnmálaleik vinstrimanna.

Hvað gera vinstrimenn? Þeir lofa allskyns réttindum, hlunnindum og útgjöldum sem á einn eða annan hátt eiga að koma eins og ókeypis regn af himnum ofan. Það bitnar bara á "þeim ríku" sem hafa "breiðu bökin". Þessir "ríku" munu bara sitja kyrrir og þola auknar byrðar. Peningarnir eru bara færðir aðeins til og allir eru sáttir!

En hvað ættu hægrimenn að gera öðruvísi? Hver er valkosturinn við eilíft tal um réttindi og bætur?

Ein hugmynd er sú að tala um ábyrgð. Ég gef hinum magnaða Jordan Peterson orðið í myndbandinu hér að neðan. Er ekki eitthvað til í þessu?

Ég hvet alla til að kynna sér Jordan Peterson og verk hans. Enginn kemur óbreyttur út úr slíkri vegferð!


Velferðarnetið: Fullfrískt fólk á bótum

Orðið "velferðarkerfi" er slæmt. Orðið "velferðarnet" er betra: Fólk festist í ákveðinni velferð og kemst hvorki lönd né strönd.

Fullfrískt, vinnufært fólk á ekki að þurfa bætur og á í staðinn að njóta lægri skatta. Hér geri ég engan greinarmun á svokölluðum tekjusköttum og svokölluðum neyslusköttum. Nafn skattanna skiptir engu máli. Það er heildarskattbyrðin sem skiptir máli. 

Venjulegur, vinnandi, heilbrigður maður getur átt von á því að fá margar tegundir af bótum: Barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur og sennilega gleymi ég einhverju.

Í staðinn borgar hann háan tekjuskatt, háan virðisaukaskatt af öllu, útsvar, fasteignagjöld, eignaskatta og eflaust fleira.

Hækki hann í tekjum fylgir tekjuskatturinn með og bæturnar skerðast. Hann er fastur. 

Þetta er ekki bara letjandi kerfi heldur beinlínis hættulegt. Drifkraftur er drepinn í fæðingu. 

Yfirvöld geta greinilega gert hvað sem þau vilja. Þau geta skuldsett sig á bólakaf, innleitt nýja skatta sem jaðra við að stangast á við stjórnarskránna og dómstólar leggja blessun sína yfir allt saman, enda eru þeir ekkert annað en enn ein ríkisstofunin. Eftirfarandi orðalag nota dómstólar til að réttlæta að ríkið megi gera hvað sem það vill:

"Er þá tekið tillit til þess markmiðs laganna að afla ríkissjóði tekna og til þess að draga úr fjárlagahalla og þess að skatturinn var lagður á tímabundið og var með háu fríeignamarki eins og áður segir."

Velferðarnetið er akkeri sem heldur fólki föstu. Það ber að afnema. Samkeppni og frjálst framtak á ekki bara að vera í sölu á tannkremi og farsímum. Frjáls markaður á að fá að drífa einstaklinga áfram í menntun, heilbrigðisgæslu, lagningu vega og rafstrengja og pössun barna.

Það er ekki hlutverk ríkisins að jafna tekjur, heilaþvo krakka og niðurgreiða skuldsetningu. 

Hin svokallaða hægristjórn þarf virkilega að taka sig á ef hún á að standa undir nafni og verða aðgreinanleg frá vinstriflokkunum. 


mbl.is „Mönnum er refsað í bótakerfinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ringulreið í borginni

Kannski getur einhver útskýrt fyrir mér hvað er á seyði í ráðhúsi Reykjavíkur.

Borgin heimilar auglýsingaskilti úti um hvippinn og hvappinn, á Lækjartorgi, í strætóskýlum og sem hluta af hjólaleigu/auglýsingu flugfélags. Borgin er svo áfjáð í að afla auglýsingatekna að hún opnar á lögsóknir gegn sér fyrir samningsbrot.

Um leið mega börn ekki fá gefins hjálma með nafni fyrirtækis (í smáu letri svo það þarf virkilega að leggja sig fram til að koma auga á það). Góða hjálma, vel á minnst, svo ég tali út frá eigin reynslu.

Skipulagsvaldinu virðist einnig vera misbeitt stórkostlega í borginni (og víðar) eins og ég hef rakið áður [1|2]. 

Getur verið að menn séu að leggja sig svo mikið fram að handstýra öllu að sú stjórn endar á að vera verri en ringulreiðin, eða hið sjálfsprottna skipulag?


mbl.is Eigendur biðskýlanna í hart við borgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð: Bók eftir hagfræðing um hagfræði!

Spennandi!

Þetta var mín fyrsta hugsun þegar ég las litla frétt um bók þar sem varað er við hagfræði og notkun hennar í opinberri stefnumótun.

Síðan rekst ég á eftirfarandi tilvitnun í höfund: "Ann­ar lær­dóm­ur sem ég vil draga af hrun­inu er að hið op­in­bera fjár­festi. Þú get­ur ekki sparað þig út úr kreppu, það verður að halda uppi neyslu­getu í hag­kerf­inu."

Mér fallast hendur. Höfundur bókar sem varar við notkun hagfræði í opinberri stefnumótun er hagfræðingur sem biðlar til yfirvalda um að sökkva sér í skuldir þegar eitthvað bjátar á.

Varúð, bók eftir hagfræðing!

Grípandi titill, góður ásetningur og spennandi viðfangsefni, en kannski bara enn ein hagfræðibókin sem teymir okkur fram af bjargbrúninni.

Þeir sem vilja raunverulega sjá hvað stjórnmál og léleg hagfræði blandast illa saman ættu að lesa Hagfræði í hnotskurn. Sem stendur er hægt að fá hana á aha.is fyrir smápening eða sækja endurgjaldslaust víða á netinu [1|2|3].  


mbl.is Það þarf að vara sig á hagfræðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisrekstur vs. frumkvöðlastarfsemi

Íslenskur sjávarútvegur er arðsamur, nýjungagjarn og aðlögunarhæfur. Þetta eru ekki sjálfgefnar lýsingar á sjávarútvegi. Í flestum ríkjum er sjávarútvegur hnignandi atvinnugrein og stöðnuð. 

Það sem greinir íslenskan sjávarútveg frá flestum öðrum er hagnaðarvon þeirra sem standa í honum. Mikið kapp er lagt á að hámarka arðsemina. Þetta þýðir að veiða rétta fiskinn á réttum tíma með réttum tækjum á réttan hátt og geyma á þann hátt að verðmæti aflans verði sem mest. Útvegsmenn hafa heilan her af sérfræðingum innan sinna vébanda sem grúska, þróa, prófa og gera allt sem þeir geta til að hámarka verðmæti bæði til skamms tíma og lengri tíma.

Allir njóta góðs af þessu. Störf eru sköpuð. Laun eru há. Nýjasta tækni er innleidd. Fjármagn verður til. 

En velgengni hefur aðra fylgifiska. Velgengni má öfunda. Sumir tala um að ríkið þurfi að sjúga meira fé út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum en öðrum og dæla í allskyns ríkisverkefni. Orð eins og "auðlindarenta" eru notuð til að réttlæta slíkan þjófnað. Hvar var þessi renta fyrir 30 árum? Hún var ekki til staðar. Fiskurinn í sjónum er verðlaus þar til hann er kominn á markað rétt eins og kolamoli sem er fastur 10 km neðanjarðar. 

Við ættum að læra af velgengni sjávarútvegsins og fyrirtækja sem tengjast honum beint eða óbeint. Landbúnaður á hér mikið inni. Hið sama gildir um listir og menningu, menntun og heilbrigðisgæslu. Frelsum drifkraft frumkvöðla. Komum ríkinu úr myndinni. Hver veit, innan fárra ára gætu vinstrimenn þá verið að heimta auðlindaskatta af sauðfjárrækt og rekstri grunnskóla! Á slíkt á ekki að hlusta en væri það ekki góð breyting frá núverandi ástandi? 


mbl.is Búið í haginn fyrir næstu byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svifaseint, úrelt og rándýrt kerfi

Opinber rekstur á strætisvögnum er nánast jafngildi þess að halda úti flota af hestakerrum sem keyra varning um landið á meðan einkabílarnir þjóta framhjá.

Flestir strætisvagnar keyra tómir. Á litlum og afmörkuðum álagspunktum eru þeir svo alltof litlir. Aðstaða fyrir farþega, t.d. Mjóddin og Ártún, er vægast sagt léleg. Sé hún borin saman við t.d. aðstöðu Gray Line í Holtagörðum er freistandi að byrja hlægja upphátt. 

Reksturinn þenst sífellt út í kostnaði. Slíkt gerist jú þar sem samkeppni er svo gott sem bönnuð með lögum. 

Allir eru á einn eða annan hátt ósáttir. 

Aðlögunarhæfni kerfisins er svo lítil að ef eitthvað dýr byggi við sömu aðlögunarhæfni þá væri tegundin útdauð fyrir löngu. Strætisvagnar eru dódó-fuglar gatnakerfisins. 

Það má kallast kraftaverk að það sé loksins hægt að borga í strætó með öðru en hrúgu af klinki.

En hver er hinn valkosturinn? Að allir kaupi bíl?

Nei. Hann er sá að rekstur almenningsvagna og leigubifreiða og annarra "skutlara" verði gefinn frjáls. Það er mjög skynsamlegt fyrir mjög marga að ferðast um í hópferðabifreiðum eða leigubílum, t.d. til að komast til og frá vinnu daglega eða heim frá djamminu. Það er eftirspurn eftir slíku. Ríkiseinokunin svarar ekki þessari eftirspurn.

Grundvallargalli í allri hugsuninni á bak við kerfið er að flestir séu alltaf að fara sömu leiðina fram og til baka og hafi að auki tíma til að bíða eftir því að geta skipt um vagn eða þolinmæði til að þræða heilu úthverfin til að komast á áfangastað. Það er fyrir löngu búið að finna upp sveigjanlegri leiðir til að koma fólki á milli staða án þess að allir keyri um á einkabílum. 

Er ekki kominn tími til að gefast upp á þessu í opinberum rekstri og leyfa einkaaðilum að keyra bíla?


mbl.is Leið 6 verði stytt og tíðnin aukin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel gert tollgæsla! Svarti markaðurinn fagnar!

Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar haldlögðu fyrr í þessum mánuði 78 karton af sígarettum sem karlmaður á þrítugsaldri var með í farangri sínum.

Því miður mun þetta ekki hafa neitt upp á sig annað en að hækka götuverð á tóbaki. Hið háa verð laðar svo að sér enn fleiri einstaklinga sem freista þess að smygla tóbaki inn í landið. Menn fá bletti á sakaskrá sína fyrir það eitt að hafa flutt löglegan neysluvarning frá einu landi til annars. 

En jú auðvitað gilda lög og reglur og allskonar þannig. Þau lög eru hins vegar með einkennilegan ásetning sem er sá að hafa áhrif á það hvernig fullorðið fólk fer með eigin líkama. 

Nú vita allir að það er aðallega lágtekjufólk sem reykir enda gera sér allir grein fyrir að reykingar eru slæmar fyrir heilsuna. Lágtekjufólk vinnur oft langa vinnudaga og er undir miklu álagi, bæði líkamlega og fjárhagslega. Nikótínfíknin þrífst og dafnar í slíku umhverfi. Reykingamaður undir álagi er töluvert ólíklegri til að hætta að reykja en reykingamaður sem getur slakað á, tekið löng og dýr námskeið og keypt rándýr efni í apóteki til að slá á nikótínfíknina.

Hinn frjálsi markaður er að vísu búinn að finna upp nánast gallalausa aðferð til að losa sig við tóbakið: Rafsígarettur. Engu að síður er reynt að tortryggja ágæti þeirra líka.

(Ég hef sjálfur reykt rafsígarettur - og ekkert annað - undanfarin 3 ár og get ekki hrósað þeim nógu mikið.)

En já, höldum áfram að elta uppi tóbakssmyglara á flugvöllum. Það er ekki eins og tollverðir hafi annað og betra að gera. Hinn svarti markaður bregst hratt og örugglega við. Hærra verðlag fjölgar vongóðum smyglurum. Hátt búðarverð á tóbaki viðheldur stanslausri eftirspurn eftir smyglvarningi. Og lágtekjufólkið heldur áfram að reykja.


mbl.is Með 78 karton í farangrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að gagnrýna Costco!

Jón Gerald Sullenberger leyfir sér nú að gagnrýna ýmislegt í sambandi við Costco. Ekki er hann samt að beina spjótum sínum að Costco í sjálfu sér heldur kerfislægum vandamálum á Íslandi, eða þannig skil ég hann. 

Sem stendur er Costco nýjasta óskabarnið á Íslandi og nánast helgispjöll að gagnrýna nokkuð í tengslum við þá annars ágætu verslun. En rennum nú aðeins yfir nokkur atriði sem tengjast Costco, beint eða óbeint.

Costco virðist sýnilega vera að selja eitthvað af vörum á svokölluðu undirverði, þ.e. selur vörur með tapi. Þetta er gert til að lokka viðskiptavini í búðina sem kaupa svo allskonar annan varning sem er seldur með hagnaði. Þetta er víst bannað á Íslandi. Costco gerir þetta samt. Það er ósanngjarnt. Á frjálsum markaði ættu allir að mega selja með hagnaði eða tapi eins og þeim sýnist. Í viðskiptum getur verið skynsamlegt að bjóða ríflega afslætti á ákveðnum vörum af ýmsum ástæðum, t.d. til að lokka til sín viðskiptavini, hreinsa út lager eða byggja viðskiptasambönd. Verðlag kemur yfirvöldum einfaldlega ekkert við. 

Costco merkir ekki vörur samkvæmt íslenskum lögum. Það þurfa aðrar verslanir að gera með tilheyrandi kostnaði. Það er ósanngjarnt. Er kannski búið að þvinga Costco til hlýðni eins og aðrar verslanir? Það veldur hækkun verðlags en eitt skal yfir alla ganga. Yfirvöld ættu að stefna að því að einfalda lögin svo bandarískar merkingar, sem eru nú ekkert slor í sjálfu sér, dugi.

Costco er að kynda undir mjög mikla samkeppni á smásölumarkaði á Íslandi sem er gott. En af hverju mega samkeppnisaðilar ekki bregðast við, t.d. með því að sameinast? Nei, það þóknast ekki yfirvöldum. Samkeppnisaðilum Costco skal haldið sundruðum og veikbyggðum. Hagkaup og Bónus eru bara litlar sjoppur við hlið Costco. Yfirvöld eiga ekki að skipta sér af því hver sameinast og hver ekki.

Svo já, það er ýmislegt sem yfirvöld eru að gera sem beinlínis tryggir sterka stöðu Costco. Costco er ekki fyrir alla. Þetta er gímald sem selur í stórum umbúðum. Flestir kjósa að versla nær sér og margir vilja geta keypt í litlum umbúðum án þess að borga miklu meira fyrir einingarnar en þeir sem versla stórt. Sérhæfing er líka eitthvað sem samkeppni leiðir af sér og hún á að fá að þróast á markaðsforsendum.

Vandamálin í kringum Costco eru ekki Costco að kenna heldur afskiptasömum yfirvöldum sem eiga að hypja sig úr veginum. 


mbl.is Ófyrirséðar afleiðingar af Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein heimsendaspáin

Hvenær ætla blaðamenn að átta sig á því að þeir eru að gera sig að fífli með skrifum sínum um meinta hlýnun Jarðar? Hinar ýmsu skýrslur hinna ýmsu samtaka og stofnana eru yfirleitt fátt annað en ákall á fleiri og stærri ríkisstyrki. Þau verkefni sem sögð eru blasa við stækka og stækka á pappír og krefjast því hærri og hærri fjárframlaga úr vösum skattgreiðenda. Í raunveruleikanum eru vandamálin svo kannski ekki svo stór eða jafnvel ekki til staðar. Blaðamenn ýmist nenna ekki eða vilja ekki velta því fyrir sér hvort heimsendaspár eigi við rök að styðjast. 

Margir fjölmiðlar, þar á meðal Morgunblaðið, eru á einkennilegri vegferð þessi misserin. Pólitískur rétttrúnaður ræður ríkjum og gagnrýnið hugarfar er hvergi sjáanlegt. 


mbl.is Norðurheimskautssvæðið mun gefa eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn sanni ójöfnuður

Mönnum er tíðrætt um ójöfnuð á Íslandi. Þá bera menn saman laun forstjóra einkafyrirtækja og laun ófaglærðra ræstitækna og segja að munurinn sé of mikill.

Það er samt gallaður samanburður. Bæði forstjórinn og ræstitæknirinn selja þjónustu sína á frjálsum markaði í samkeppni við aðra. Miklu fleiri geta orðið góðir ræstitæknar en geta orðið góðir forstjórar. Eðli máli samkvæmt er því betur borgað fyrir góðan forstjóra. Ræstitæknirinn getur hins vegar unnið sig upp í forstjórastól og forstjórinn getur tapað stjórnunarhæfileikum sínum og endað í stöðu ræstitæknis. Á frjálsum markaði er fólk oft á ferð og flugi upp og niður tekjustigann á lífsleiðinni og á einhverjum tímapunkti eru jafnvel ágætar líkur á að vera meðal 10-20% best launuðu einstaklingum landsins.

En þetta er hinn frjálsi markaður.

Hinn raunverulegi samanburður með tilliti til ójöfnuðar ætti að vera á milli opinberra starfsmanna og starfsmanna einkafyrirtækja. Opinberir starfsmenn vilja markaðslaun fyrir þjónustu sína en um leið ríghalda í starfsöryggis sitt og ríkistryggðan lífeyri. Þeir eru stétt einstaklinga sem svífur um á skýi á meðan fólkið á markaðnum berst fyrir sínu daglega og á alltaf í hættu að missa vinnuna og sjá lífeyri sinn skertan.

Opinberum starfsmönnum þarf að fækka eins mikið og hægt er með öllum tiltækum ráðum: Einkavæða, leggja niður og bjóða út. Það er engin ástæða til að hið opinbera sjái um starfsmannamál kennara, leikskólakennara, hjúkrunarfræðinga og lækna. Allar slíkar stöður og fleiri til eiga heima á hinum frjálsa markaði. Ef hið opinbera vill svo fjármagna einhverja tiltekna þjónustu eða rekstur á einhverju þá getur það bara gert það, en látið starfsmannamálin alveg eiga sig.


mbl.is Allt að 34% launahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband