Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017

Rafbílar hjálpa umhverfinu ekki

Rafbílar hafa marga kosti. Þeir eru hljóðlátir, frá þeim kemur engin mengun eða lykt og þeir geta verið liprir í akstri, enda lausir við gíra.

Rafbílar í þéttbýlum borgum gera fólki kleift að ferðast um án þess að loftið fyllist af sótögnum og útblástursgufum. 

Rafbílar eru hins vegar ekkert endilega sérstaklega umhverfisvænir og ekki endilega hentugur kostur í það heila.

Í fyrsta lagi þurfa þeir þrátt fyrir allt raforku sem þarf að framleiða. Víða um heim er ekki hægt að framleiða raforku á hagkvæman hátt nema með jarðefnaeldsneyti. Mengunin er því einfaldlega færð úr borginni þar sem bílarnir eru og út á land eða í annað land.

Í öðru lagi þarf gríðarlega mikla orku til að framleiða rafbíla og þá sérstaklega batteríin. Menn geta keyrt hefðbundinn bíl í 5 ár áður en að heildarlosunin vegna framleiðslu og notkunar nær losuninni af völdum framleiðslu rafbílsins. Þegar rafbíll nær lokum líftíma síns þarf svo líka mikla orku til að lóga batteríum og öðrum hlutum rafbílsins.

Í þriðja lagi leysa rafbílar engan mengunarvanda eða losunarvanda eins mönnum er tamt að segja núna. Á Íslandi er losun af völdum bílaumferðar bara dvergur miðað við það sem stígur upp úr framræstum skurðum. Að moka ofan í skurði er augljósasta, afkastamesta, hagkvæmasta og skynsamlegasta leiðin til að binda koltvísýring á Íslandi, sé það á annað borð markmiðið. Rafbílar skipta hér engu máli.

Í fjórða lagi er allt þetta rafbílatal einn stór útgjaldabaggi sem skattgreiðendur eiga eftir að þurfa éta. Í útlöndum rembast menn við að setja upp vindmyllur og sólarorkuvor, allt á kostnað skattgreiðenda enda óhagkvæm fyrirhöfn sem enginn virðist leggja í nema með opinbera styrki eða undanþágur frá skattgreiðslum í vasanum. 

Í fimmta lagi er ekkert víst að rafbílar verði tæknin sem verður ofan á. Fyrirtæki eins og Toyota og Huyndai ætla að veðja á vetnisbíla og telja að hraðari "hleðslutími" þeirra geti hentað ökumönnum betur og að sú tækni geti nýtt núverandi innviði betur. Það er svo sennilega hægt að keyra lengra á "hleðslunni" með fljótandi eldsneyti miðað við batterí.

En sjáum hvað setur. Tæknin flýgur áfram og framtíðin er ekki skrifuð í stein. Stjórnmálamenn eiga alls, alls ekki að dæla fé skattgreiðenda í eitthvað eitt frekar en annað. Miklu nær er að lækka alla skatta og fjarlægja lagalegar hindranir svo hægt sé að innleiða allt það nýjasta sem hraðast á markaðsforsendum. 


mbl.is Byrja að rukka fyrir hleðslu rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað í vandamálum

Íslendingar kaupa færri og færri bækur, að því er virðist. Núna hafa hinar dræmu sölutölur náð athygli ráðherra. Hann ætlar að skipa hóp eða nefnd eða eitthvað til að ræða stöðuna. Niðurstaðan verður væntanlega sú að einhver stingur upp á ríkisstyrkjum og skattaundanþágum. Stöðnun er verðlaunuð og verður haldið uppi af skattgreiðendum.

Ég er að vísu hlynntur öllum skattaundanþágum þótt það sé ekki alveg sanngjarnt að bara sumir fáir þær en ekki aðrir. Útgefandinn missir markaðshlutdeild og fær skattaafslátt. Smiðurinn vinnur verkefni í útboði en fær fullan þunga skattkerfisins í hausinn.

En er eitthvað vandamál í gangi? Já, vandamálið er að útgefendur eru ekki að þróast og aðlagast nýjum tímum. Lestur er að aukast meðal ungs fólks að því er virðist. Ákveðin tæknibylting er að eiga sér stað. Það nenna ekki allir að handfjatla pappírinn. Eða eins og segir á einum stað:

"However, the 2010 Kids & Family Reading Report found that one-third of kids, ages 9-17, said that they would read more books for fun if they had access to eBooks, including kids who read five to seven days per week and those who read less than once per week."

Það er líka óþarfi að eiga bók á pappírsformi til að geta lesið hana. Lesbrettin (e. e-Readers) svokölluð hafa alla kosti bóka og enga af ókostunum (eða hvað?), nema kannski þann að það er ekki hægt að krota á blaðsíðurnar. Svo virðist líka sem fólk sem les rafbækur lesi meira en þeir sem lesa á pappír. 

Útgefendur þurfa að byrja hugsa í lausnum. Það gæti til dæmis falið í sér:

  • Að biðla til yfirvalda að afnema virðisaukaskatt á öllum raftækjum, þar á meðal lesbrettum, spjaldtölvum og snjallsímum. 
  • Að gera átak í útgáfu á rafrænum bókum þannig að þær megi sækja á auðveldan hátt og ódýran. Það þarf líka að gefa út góðar leiðbeiningar fyrir tæknilega fatlað fólk. 
  • Hljóðbækur eru líka skráarform sem má gera meira fyrir. Neysla þeirra er ekki beint lestur en tvímælalaust hluti af útgáfu og enn ein leiðin til að koma lesefni til fólks. 

Útgefendur, er eftir einhverju að bíða?


mbl.is Vill tryggja útgáfuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldusparnaður og hlutabréfabrask

Íslendingar eru skyldaðir til að borga í lífeyrissjóði. Fyrir því eru ýmis rök. Þau snúa aðallega að því að koma í veg fyrir að fólk leggi ekkert fyrir á lífsleiðinni og endi sem baggi á skattgreiðendum í ellinni.

Íslenskir lífeyrissjóðir eiga digra sjóði. Þeir þurfa að ávaxta það fé. Innan gjaldeyrishaftanna voru möguleikar til slíks takmarkaðir og mikið fé rann því í opinberar skuldir. Það er glapræði. Þá er alveg eins hægt að sleppa skyldusparnaðinum því opinberar skuldir þarf að borga og þá er peningurinn tekinn af skattgreiðendum, m.a. þeim sem eru á lífeyri og borga tekjuskatt af honum.

Greiðendur í lífeyrissjóðina hafa mjög takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á ráðstöfun lífeyris síns. Lögin leggja ákveðnar takmarkanir á fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir hafa sett mikið fé í hlutabréf í fyrirtækjum í áhættusömum rekstri. Stundum skilar það góðri ávöxtun, stundum ekki. Að þessu leyti eru lífeyrissjóðir alveg jafnslæmir varðveislumenn peninga og ríkisvaldið eyðslusama.

Ungt fólk sem er að kaupa fasteign þarf að skuldsetja sig mikið. Það er um leið neytt til að borga í lífeyrissjóði. Það er því að borga niður lán á háum vöxtum en safna í sjóði á lágum vöxtum. Þetta er í grundvallaratriðum heimskuleg ráðstöfun á peningum.

Framundan er skellur á fjármálamörkuðum heimsins. Þeir sem vilja verja kaupmátt peninga sinna ættu að setja peningana í gjaldmiðla sem eru ekki í stórkostlegri fjöldaframleiðslu, eða í hlutabréf fyrirtækja sem eru ekki mjög berskjölduð fyrir hræringum í peningaheiminum, eða góðmálma sem er erfitt að auka magn í umferð á (t.d. gull). Lífeyrissjóðsþegar geta ekki gert neitt af þessu að neinu ráði. Þeir eru því dæmdir til að tapa stórum fjárhæðum þegar hlutabréfaverð taka svolitla dýfu.

Ávöxtun lífeyrissjóða er almennt léleg. Rekstur þeirra kostar háar fjárhæðir og fjárfestingar þeirra algjört happdrætti. Menn sem hafa borga fúlgur í lífeyrissjóði á ævi sinni sitja uppi með útgreiðslur sem eru litlu hærri en ellilífeyrir ríkisvaldsins til þeirra sem spöruðu ekkert. Við andlát gufar svo sparnaður þeirra upp og erfingjar fá ekki krónu. Hagsmuna hverra er verið að verja eiginlega?

Þessar örfáu hræður sem leggja ekkert til hliðar til efri áranna - hvorki í formi fjárfestinga í fasteign og öðru eða í sjóði - af hverju eiga þær að valda því að allir aðrir þurfa að hlaupa fram af bjargbrún í hjörð sem er teymd áfram af einhverjum sjóðsstjórum og stjórnmálamönnum?


mbl.is Hafa lagt milljarða í United
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn í forstjóraleik

Af hverju hefur ríkisvaldið aðkomu að framleiðslu á kjöti, mjólk og öðrum landbúnaðarvörum á Íslandi?

Eru íslenskar landbúnaðarvörur svo óætar og lélegar að það þarf að knýja skattgreiðendur til að halda framleiðslu þeirra í gangi? 

Sumir segja að íslenskar landbúnaðarvörur séu þær bestu í heimi og að þess vegna þurfi ríkisstyrki til að framleiða þær. Það eru meiriháttar öfugmæli.

Sumir halda að ríkið þurfi að koma að landbúnaði til að tryggja að einhver búi í hverjum einasta firði svo þeir leggist ekki í eyði. Hvað varð um að varðveita óspillta náttúru og selja aðgengi til vistvænna ferðamanna? Hér eru líka einhver öfugmæli á ferð. 

Þingmenn ræða nú birgðastöðu á kjöti og hvernig á að bregðast við henni. Þetta er brandari. Þingmenn eru ekki forstjórar, hluthafar, framkvæmdastjórar eða framleiðendur. Þeir eru vel borgað fólk sem fær laun fyrir að tala og setja lög. 

Bændur ættu að hugsa sinn gang og breyta hagsmunabaráttu sinni í þá áttina að vera lausir við ríkisstyrkina og afskipti hins opinbera. Þeir ættu að líta til Nýja-Sjálands sem er landbúnaðarstórveldi á heimsmælikvarða. Áður fyrr voru bændur þar líka ölmusaþegar sem börðust í bökkum. Núna eru þeir sjálfstæðir atvinnurekendur. 


mbl.is Enn eitt kjaftshögg bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnemum boð og bönn og fækkum þannig glæpum

Íslensk yfirvöld setja mörg lög sem mörg eru kjánaleg, hafa öfuga virkni og/eða flekka sakarskrár fólks sem hefur ekki beitt neinn ofbeldi eða kúgun.

Með því að afnema slík lög er hægt að spara lögreglunni, dómstólunum og fangelsisyfirvöldum mikla fyrirhöfn, tíma og fé. Það er hægt að fækka glæpum með því að fækka lögum. 

Svo virðist sem íslenskir stjórnmálamenn hugsi oft: "Úr því þessi athöfn, þjónusta eða vara er bönnuð í einhverju öðru vestrænu ríki þá á að banna það sama á Íslandi."

Þess í stað ættu þeir að hugsa: "Úr því þessi athöfn, þjónusta eða vara er lögleg í einhverju öðru vestrænu ríki þá á að leyfa það sama á Íslandi, eða a.m.k. sleppa því að setja lög um viðkomandi."

Er eftir einhverju að bíða? 


mbl.is Beðið eftir rými fyrir 560
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægur valkostur við hið opinbera

Gerðardómar eru vaxandi fyrirbæri á alþjóðlegan mælikvarða. Fyrir þeim er víða löng hefð, t.d. í Bandaríkjunum. Raunar eru vinsældir gerðardóma í Bandaríkjunum slíkar að yfirvöld hafa tekið skref í þá áttina að reyna draga úr vægi þeirra. Það má t.d. gera með því að hafna því að úrskurðir gerðardóma séu lagalega bindandi. Samningsfrelsinu er þannig fórnað til að ríghalda í ríkieinokun dómstólanna í ágreiningsmálum.

Dómstólar hins opinbera eru alræmdir fyrir langan biðtíma eftir úrskurðum og eru jafnvel byrjaðir að fá á sig slæmt orðspor. Dómar geta virkað handahófskenndir og litaðir af persónulegum skoðunum og hagsmunum dómara sem telja ekki endilega mikilvægast að dæma eftir lögum. Íslenskir dómar hafa meira að segja rökstudd úrskurði sína með tilvísun í tíðarandann og fjárþarfar ríkisins! 

Gerðardómar keppa í trausti og skilvirkni. Þeir eru mikilvægur valkostur við hið opinbera. Dómarar hins opinbera starfa í umhverfi ríkiseinokunar, og við vitum öll hvað gerist þegar einhver rekstur eða þjónusta nýtur lögvarinnar einokunarstöðu: Verðið hækkar og gæðin minnka. Dómstólar eru hér engin undantekning.  


mbl.is Gerðardómur oft besti valkosturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skutlarar ættu ekki að þurfa að vera lögbrjótar

Svokallaðir skutlarar bjóða upp á eftirsótta og útbreidda þjónustu sem margir nýta sér. Þeir eru sveigjanlegir og aðlagast hratt að kröfum viðskiptavina sinna. 

En því miður geta þeir ekki starfað löglega. 

Auðvitað má hafa samúð með leigubílstjórum sem þurfa að uppfylla margar kostnaðarsamar kröfur til að geta starfað löglega. Kannski má fækka eitthvað af þeim kröfum. Hinn frjálsi markaður getur alveg séð um að keyra fólki á milli áfangastaða. 

Um leið þarf auðvitað að rýmka áfengislöggjöfina þannig að áfengið þurfi ekki að sækja í sérstakar verslanir. 

Það er margt unnið með því að gera starfsemi skutlara löglega. Yfirvöld ættu að gera sér grein fyrir því. 


mbl.is „Skutlari“ grunaður um sölu áfengis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnur sjónarmið en fagleg skipta líka máli

Í Reykjavíkurborg er nú að komast upp um vinaráðningu svokallaða, þ.e. ráðningu í mikilvægt embætti á vin eða hliðhollum einstaklingi sem berst fyrir réttum málstað óháð því hverjir skipar borgarstjórn. Oft er mikilvægara fyrir stjórnmálahreyfingar að hafa embættismannakerfið hliðhollt sér en að vera í kjörnum meirihluta.

Vinaráðningar voru sennilega algengari áður en í dag. Sendiherrar eru oft skipaðir til að koma góðum vinum í vel launaðar stöður eftir að hafa dottið úr leik í stjórnmálunum. Allskyns rektorar, forstjórar ríkisfyrirtækja og forstöðumenn stofnana fara í gegnum sýndarráðningarferli áður en þeir taka við fínu stöðunum sínum

Stundum eru vinatengslin mikilvæg. Fyrir ákveðna stofnun eða embætti getur verið mikilvægt að vera undir stjórn manneskju með djúp tengsl inn í stjórnkerfið og hið opinbera almennt til að toga þar í spotta og reka á eftir málum. Að hafa réttu aðilana í símaskrá sinni getur skipt meira máli en að kunna á alla ferlana og einstigin í stjórnsýslunni. Það má til dæmis teljast líklegt að Háskólinn á Bifröst hafi góðan aðgang að stjórnsýslunni með núverandi rektor við stjórnvölinn. 

Allur þessi sirkus er samt bara einkenni á sjúkdómi sem er sá að hið opinbera leikur alltof stórt hlutverk í samfélaginu. Innan þess eru menn ekki ráðnir eða reknir á heilbrigðum forsendum. Menn eru skipaðir eða ráðnir til að verja hagsmuni á kostnað annarra. 


mbl.is Segir vinnubrögð borgarstjóra vítaverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Al Gore 2.0

Það má segja að við lifum á tímum Al Gore 2.0. Hinn fyrri Al Gore talaði um hlýnun loftslagsins af mannavöldum og hræðilegar afleiðingar þess. Ekkert af hans spádómum hafa ræst. Þá fóru menn að tala um loftslagsbreytingar. Já, þá er hægt að segja við hverju einasta hita- eða kuldakasti að breytingar hafi átt sér stað sem megi rekja til iðnvæðingar manna. Og jú, breytingar eiga sér alltaf stað í loftslaginu svo það var snjall orðaleikur.

Núna er hins vegar að koma í ljós að loftslagsrannsóknaheimurinn er fullur af svikurum og svindlurum, að menn séu að hagræða gögnum, gera lítið úr því sem dregur úr heimsendastemmingunni og jafnvel tala niður sjálfa sólina og áhrif hennar á loftslag Jarðar.

Þá er vissara að skipta aftur um gír og hætta að tala um loftslagsbreytingar, og tala þess í stað um veðuröfgar. Nú má skrifa hvert einasta haglél og hverja einustu hitabylgju á mannkynið.

Og hvað er til ráða? Ekkert. Það er hægt að segja Kínverjum og Indverjum að stöðva iðnvæðingu sína, en þeir neita. Það er hægt að segja Evrópubúum að hjóla á veturna, en þeir halda áfram að setjast upp í bíla sína. Það er hægt að segja Bandaríkjamönnum að setjast í litla og óþægilega bíla en þeir halda áfram að keyra um á pallbílum.

Og þegar allt kemur til alls þá gerir það ekkert til.

Það væri óskandi að kolanotkun færi minnkandi og að olíu- og gasnotkun fari vaxandi. Það væri óskandi að menn virkjuðu fleiri stórfljót, t.d. Jökulsá á Fjöllum þar sem Dettifoss stendur í dag og er að hruni kominn og hverfur ef ekkert verður að gert. Það væri óskandi að menn einbeittu sér að því að greiða leið tækninnar þannig að hún verði sem ódýrust og aðgengilegust sem fyrst, t.d. með því að lækka skatta, draga úr vægi einkaleyfa, fækka reglum og afnema viðskiptahindranir. Það væri óskandi að menn hættu að einblína á útblástur og færu að einbeita sér meira að skilvirkni. 

Eða þarf önnur kynslóð stjórnmála- og blaðamanna að gera sig að fífli áður en dómsdagsspádómarnir fjara út? Þurfum við Al Gore 3.0 áður en við hættum þessu rausi?


mbl.is Hitabylgjur munu taka sinn toll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er það útrætt!

Google er aðdáunarvert fyrirtæki. Stjórnendur þess virðast samt vera komnir á hringekju pólitísks rétttrúnaðar. Þar á bæ hafa menn nú útilokað að líffræðilegur munur sé á kynjunum sem geri karla og konur misvel fallin til að sinna mismunandi störfum. Fíngerðar konur geta því drifið sig í byggingarvinnuna á meðan börnin eru send í pössun hjá stórvöxnum karlmönnum. 

Auðvitað er líffræðilegur munur á kynjunum sem hefur áhrif á það hvernig einstaklingar finna sig í mismunandi aðstæðum. Þetta eru samt bara almenn sannindi. Það finnast konur sem vilja stunda smíðavinnu og karlar sem vilja passa ungabörn. Það finnast karlmenn sem geta ekki klifið í stiga og mundað hamar og konur sem hafa enga þolinmæði fyrir börnum. Að sama skapi finnast karlmenn sem elska fallhlífastökk og aðrir (eins og ég) sem þola ekki tilfinninguna af því að vera í frjálsu falli. Og það finnast konur sem vilja vinna 12 tíma vinnudaga og aðrar sem vilja það ekki. Og karlar. 

Þetta breytir því samt ekki að það er almennt séð líffræðilegur munur á kynjunum. Sálfræðingar fara ekki leynt með það, en þeir eru sjaldan spurðir. Læknar vita þetta, en þeir þegja þegar umræðan fer inn á vígvöll pólitísks rétttrúnaðar.

Og segjum sem svo að hinn líffræðilegi munur á kynjunum geri það að verkum að konur finni sig, almennt séð, síður í hlutverki forritarans? Sé þetta raunin þá dregur þetta í engu úr þeim konum sem stunda forritun í dag. 

Um leið og umræða er fjarlægð frá yfirborðinu þá leitar hún neðanjarðar og mætir þar miklu síður málefnalegu aðhaldi eða fjölbreyttum nálgunum. En hún deyr ekki. Það er á hreinu. 


mbl.is Rekinn fyrir ummæli um konur og tækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband