Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017

Í fréttum er það helst: Ekkert fréttnæmt gerðist

Verslunarmannahelgin er að baki. Í fréttum er það helst að þúsundir manna þjöppuðu sér saman á lítil svæði, drukku ótæpilega, neyttu ólöglegra vímuefna, sváfu í ólæstum tjöldum í ofurölvun og berskjaldaðir fyrir umheiminum og ... nánast ekkert kom upp á!

Jú, vissulega stal einhver áfengi úr tjaldi eða lét hnefann rekast á kjálka annars manns. Það fylgir mörgum útihátíðum. Fréttamenn hafa hins vegar hamast við að slá upp orðum eins og kynferðisbrot og fíkniefnamál eins og þau hafi leikið einhverju hlutverki. Það gerðu þau ekki. Hvers vegna þessir uppslættir? Er blaðamönnum lífsins ómögulegt að flytja jákvæðar fréttir? Hvaða hvatar reka þá áfram? 

Ég get sagt frá stúlku - frænku konu minnar - sem fór núna í fyrsta skipti á Þjóðhátíð í Eyjum. Hún lýsti því yfir að hún ætlar nú að fara á hverju ári. Væri ekki nær að taka viðtal við hana og biðja hana um að segja frá hátíðinni? 

Það er auðvitað mikilvægt að brýna fyrir fólki að ræna ekki, berja eða nauðga. Þegar slíkar áminningar skila frábærum árangri á að fagna en ekki einblína á svörtu sauðina og veita verkum þeirra alla athyglina.


mbl.is Tvö kynferðisbrot komu upp í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfum íbúum Venesúela að gleypa meðalið sitt

Íbúar Venesúela hafa lengi látið sósíalismann táldraga sig. Þökk sé háu verði á olíu og öðrum auðlindum í hinum kapítalískari heimshlutum hafa yfirvöld í Venesúela geta leyft sér að lifa um efni fram lengi og hrifið margan spekinginn með sér í gleðina. Nú er hins vegar komið að skuldadögum. Hin óumflýjanlega einræðisharðstjórn sem sósíalisminn gefur af sér fæðist núna og íbúar landsins sjá hvað þeir hafa sjálfir kallað yfir sig.

Vonandi verður hið vonda meðal til þess að einhverjir vakni til meðvitundar. Í sumum ríkjum Austur-Evrópu hefur þetta meðal svo sannarlega haft góð áhrif. Eistland, Lettland og Litháen hafa til að mynda kastað vofu Sovétríkjanna út í hafsauga. Annars staðar hafa menn hins vegar bara ákveðið að halda áfram að eitra sinn eigin líkama í von um að stærri skammtur hafi betri afleiðingar en smærri skammtur.

Gefum íbúum Venesúela tækifæri til að átta sig án afskipta. 


mbl.is Aðrar þjóðir skipti sér ekki af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvald í framleiðslu afþreyingar og áróðurs

Ríkisvaldið sem hugmynd á sér marga aðdáendur. Að sögn er ríkisvaldið nauðsyn til að berjast gegn glæpum, spillingu og ofbeldi. Ríkisvaldið á að tryggja að löggæsla sé góð, að vegir séu lagðir og að menn geti leitað til dómstóla þegar á þeim er brotið. Ríkisvaldið á að lækna okkur í veikindum og styðja við okkur á mótunarárunum með menntun og fræðslu.

Svo já, það er margt sem margir telja að verði bara tryggt með ríkiseinokun.

Aldrei hef ég samt séð málefnaleg rök fyrir því að ríkisvaldið þurfi að tryggja næga framleiðslu á afþreyingu og áróðri.

Er ekki til nóg af afþreyingu? Vissulega hefur fólk mikinn frítíma en þarf ríkisvaldið að tryggja að þessum frítíma sé brennt upp? Er óhugsandi að fólki geti sjálft dottið eitthvað í hug til að láta vökutíma sína líða hraðar?

Ríkisframleiðsla á áróðri er svo enn furðulegri og erfiðari að rökstyðja. Þarf ríkisvaldið að halda úti hópi opinberra starfsmanna sem fær mikinn aðgang að eyrum okkar og barna okkar? Af hverju? Hvernig réttlæta menn framleiðslu á opinberum áróðri? 

Ég er forvitinn. 


mbl.is Meirihluti andvígur einkavæðingu RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamaður tekur að sér vinnu blaðamanna

Hér er djörf yfirlýsing:

Íslenskir blaðamenn nenna ekki að vinna vinnu sína. Þeir nenna ekki að kynna sér málin, velta upp báðum hliðum mála, kafa djúpt ofan í fullyrðingar og setja hlutina í samhengi.

Stjórnmálamenn hafa uppgötvað þetta fyrir löngu og því tekið til þess ráðs að tjá sig mikið á Facebook eða álíka miðlum á netinu. Þeir segja þar hluti sem koma blaðamönnum á óvart. Blaðamenn eru steinhissa. Bíddu, af hverju var ég ekki búin(n) að heyra af þessu sjónarhorni áður? Hvaða reglur og lög er hann að tala um? Hvaða óvæntu upplýsingar eru þetta?

Blaðamaður gerir það svo að frétt að stjórnmálamaður hafi tjáð sig á Facebook.

Blaðamaður í þessari stöðu ætti að segja upp stöðu sinni og finna sér eitthvað annað að gera. Væri hann starfi sínu vaxinn væri hann búinn að þefa uppi sjónarhorn viðkomandi og koma því áleiðis, í stað þess að rekast á það á Facebook.

Kæru blaðamenn Íslands, hættið að slóra og byrjið að vinna. 


mbl.is Bjarni tjáir sig um uppreist æru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband