Hægristjórnin sem aldrei varð (grein)

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu 22. júlí (aðgengileg áskrifendum hér).

*****************

Þegar í ljós kom að Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð höfðu náð saman um stjórnarsáttmála fögnuðu margir hægrimenn og jafnvel frjálshyggjumenn. Nú væri loksins komin stjórn sem tækist á við kerfið, einkavæddi í ríkisrekstrinum, gæfi einkaaðilum aukið svigrúm, drægi saman reglugerðabókasafnið og eftirlitsbáknið, lækkaði skatta, drægi ríkisvaldið út úr framleiðslu landbúnaðarvarnings, borgaði upp skuldir hins opinbera, setti hömlur á peningaframleiðslu bankanna og reisti varnir gegn því að komandi vinstristjórn gæti skuldsett allt upp í rjáfur aftur.

Í stuttu máli má segja að mjög lítið af þessu hafi gengið eftir og að biðin eftir hægristjórninni standi enn yfir.

Blasir hættan af risavöxnu ríkisvaldi ekki við? Framundan er stór fjármálakreppa á heimsvísu þar sem ekki bara bankar fara á hausinn heldur heilu ríkissjóðirnir. Það er ekki hægt að skattleggja meira eða prenta peninga hraðar, skuldirnar eru gríðarlegar og teikn á lofti um að þær fari smátt og smátt að lenda á gjalddaga sem enginn ræður við. 

Íslendingar geta mögulega komið sér í skjól en þeir þurfa að bregðast við núna. Ríkið má helst ekki skulda neitt að ráði þegar kreppan skellur á, og atvinnulífið og einstaklingar þurfa að fá að halda sem mestu eftir af tekjum sínum til að setja í varasjóði eða eignir sem fara ekkert, sama hvað gengur á í fjármálaheiminum, og auðvitað greiða niður skuldir. Ríkið þarf að hætta að gefa út gjaldmiðil svo fólk geti dreift áhættunni af pappírspeningum sínum sem mest. Fólk á líka að fá að taka út eignir sínar í lífeyrissjóðunum í auknum mæli og þar með hlutabréfum í fyrirtækjum í áhætturekstri sem munu mörg fara illa út úr stórum áföllum í fjármálaheiminum. Svo þarf líka að fækka reglum og leyfisskyldum til að auka aðlögunarhæfni hagkerfisins í breyttu árferði og breyttum ytri aðstæðum.

Einnig er mikilvægt að minnka ríkisreksturinn mikið. Lítill ríkisrekstur í hallarekstri og skuldsetningu er ódýrari fyrir skattgreiðendur en stór ríkisrekstur í hallarekstri og skuldsetningu. Þegar næsta fjármálakreppa ríður yfir er hætt við að Íslendingar kjósi aftur yfir sig hreina vinstristjórn og hún má ekki geta gengið að útþöndum ríkisrekstri til að sökkva í skuldir eins og gerðist seinast. Nei, ríkið þarf að koma frá sér úr rekstri – þar á meðal rekstri spítala og skóla – og ýmist einkavæða alveg með tilheyrandi skattalækkunum eða bjóða út þjónustuna og leyfa einkaaðilum að sjá um reksturinn. Það þarf að vera sem minnst eftir sem stjórnmálamenn geta veðsett til að fjármagna hallarekstur. 

Ekkert af þessu er að fara gerast með hina svokölluðu hægristjórn við völd. Sú hægristjórn er á fullu að sleikja rjómann af núverandi uppsveiflu og eyða jafnóðum í fjármögnun á óbreyttu fyrirkomulagi ríkisrekstursins, alveg eins og gerðist fyrir kreppuna 2008. Og við völdum tekur svo hrein vinstristjórn, safnar hundruðum milljörðum í skuldir og skilur eftir sig brunarústir. Ekki er hægt að treysta á að Eyjafjallajökull gjósi aftur til að blása lífi í hagkerfið og hvað er þá til ráða til að rísa úr rústunum?

Hægristjórnin var til í um eitt augnablik en hefur síðan aldrei staðið undir nafni. Hún er hægristjórnin sem aldrei varð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Staðreyndin er sú að þessi stjórn er miklu lengra til hægri en vænta mátti af stefnuskrá þeirra flokka sem standa að henni. Viðreisn og Bf hafa látið flest stefnumál sín lönd og leið til að þóknast Sjálfstæðisflokknum með þeim afleiðingum að þeir hafa báðir misst mest sitt fylgi.

Þetta kemur þannig út að flest stefnumál stjórnarinnar eru þvert gegn vilja þjóðarinnar. Stuðningur við stjórnina er miklu minni en sögur fara af um aðrar stjórnir svo snemma á kjörtímabilinu. Stuðningurinn hefur jafnvel mælst mun minni en við Trump sem er einnig að slá met í óvinsældum.

Eðlileg niðurstaða kosninganna hefði verið fimm flokka stjórn um miðju og til vinstri. En tengsl Benedikts við flokkinn og frændsemi hans við BBen skiptu hann meira máli en stefnumálin. Óttarr fylgdi Benedikt í blindni enda hafði hann gefið sig honum algjörlega á vald.

Það er kostulegt að frjálshyggja sem olli síðasta hruni eigi nú að bjarga okkur frá því næsta. Helsta vandamál heimsins í dag er sífellt aukinn ójöfnuður. Það er því brýnt að hækka skatta á auðmenn, tekjuháa og arðsöm fyrirtæki til að vinna gegn ójöfnuðinum.

Reynslan sýnir að mikill ójöfnuður leiðir til hruns en háir skattar á vel stæða skapa varanlega velmegun. Fyrir hrunin 1929 og 2008 í Bandaríkjunum voru skattar á hæstu tekjur í lágmarki líkt og núna. Á eftirstríðárunum fram til 1980, þegar Bandaríkin voru talin fyrirmyndarríki, var hæsta skattþrep fyrst um 90% og síðan um 70%. Reynslan er hins vegar óvinur frjálshyggjumanna.

Skv nýrri OXFAM skýrslu er Ísland í 27. sæti varðandi það að nýta skattkerfið til kjarajafnaðar. Hin norðurlöndin röðuðu sér öll í efstu sætin. Þetta sýnir á hve miklum villigötum Ísland er. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.7.2017 kl. 08:57

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Er það hægristjórn sem hafnar því að íslenskt einkafyrirtæki megi bjóða upp á að framkvæma einhverjar aðgerðir í stað þess að senda sjúklinga úr landi?

Er það hægristjórn sem lækkar skatta ekkert að ráði?

Er það hægristjórn sem eykur ríkisútgjöld um marga milljaraða á ári?

Er það hægristjórn sem festir skattahækkanir fráfarandi vinstristjórnar í sessi í langtímaáætlunum sínum?

Gott og vel, kallaðu það hægristjórn. Þá vantar mig hins vegar orð yfir það sem í mínum huga er hægristjórn og er ekki til staðar á Íslandi.

Varðandi það að mælast neðarlega á listum OXFam þá er það kannsi eitthvað sem má kallast eftirsóknarvert. Skattkerfið á fyrst og fremst að afla ríkinu tekna en ekki bjarga hvölunum, færa verðmæti frá þeim sem afla þeirra til þeirra sem afla þeirra ekki eða pína fólk úr bíl í rútu. 

Geir Ágústsson, 24.7.2017 kl. 10:49

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Að öðru lesefni ólöstuðu vil ég mæla eindregið með því að menn kræki sér í nýjasta tölublað tímaritsins Þjóðmála í næstu bókabúð og lesi þar grein Ásdísar Kristjánsdóttur. Ef ekkert breytist í efnahagsstjórninni verður sú grein að "I told you so" grein. 

Geir Ágústsson, 24.7.2017 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband