Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017
Sunnudagur, 12. febrúar 2017
Svarthvíta sjónvarpið
Það er til einföld leið til að flokka þingmenn: Hegða þér eins og Steingrímur J. eða ekki?
Steingrímur J. Sigfússon var á móti bjórnum, litasjónvarpinu og frjálsu útvarpi. Menn hlægja sjálfsagt að því í dag að þessir hlutir hafi verið ræddir af fúlustu alvöru á Alþingi og að menn hafi haft skiptar skoðanir. En jú, menn töluðu af fúlustu alvöru um að það væri alveg nóg að hafa sjónvarp í svarthvítu. Helsti ókosturinn væri sá að það væri erfitt að greina á milli liða í boltaíþróttum sem væri nú smávægilegt vandamál engu að síður sem réttlæti alls ekki sjónvarp í lit.
Það kemur að því að bjór fari í íslenskar matvöruverslanir. Heimurinn mun ekki fara til fjandans. Menn munu hlægja að þeirri tilhugsun að svona hafi ástandið ekki alltaf verið og minnast þingmanna sem börðust gegn fyrirkomulaginu sem kjána.
Allt er þegar þrennt er? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 12. febrúar 2017
Fimm leiðir til að afsala sér sjálfræðinu
Flest erum við þannig skrúfuð saman að við trúum því að við eigum okkar eigin líkama. Af því leiðir að þau verðmæti sem við sköpum með þeim líkama eða fáum að gjöf eða í arf séu einnig okkar eign. Nú má vera að þetta sé rétt í mörgum tilvikum. Við ákveðum sjálf hvenær við förum á fætur, við getum valið að borða óhollan mat og við getum horft á sjónvarpið þegar við viljum. Við fáum að eiga okkar tannbursta í friði og skrapa að okkur einhverjum heimilishlutum án hættu á eignaupptöku. Hins vegar eru til nokkrar leiðir til að missa algjörlega sjálfræði sitt og þar með tilkall til þeirra verðmæta sem við köllum eign okkar. Verða fimm slíkar nú nefndar.
Númer 1: Maður á húsnæði. Hann býr í því. Hann reykir í því. Nú langar honum að stofna veitingastað í sama húsnæði. Þá tekur löggjafinn af þessum manni sjálfræðið og forræðið yfir húseigninni. Hann má ekki lengur reykja í húsnæðinu. Eldamennska hans þarf nú aragrúa vottana frá opinberum eftirlitsaðilum. Skattframtalið hans flækist gríðarlega. Hann þarf nú að biðja um leyfi ef hann ákveður að færa eldhúsvaskinn um tvo metra. Sjálfræði hans er horfið.
Númer 2: Maður hefur skoðanir. Hann segir gjarnan frá því hvað honum finnst vorið vera fallegt, hvað menntun er góð, hvað líkamsrækt er holl og hvað grænmetisfæði er gott fyrir loftslag plánetunnar. Nú les hann bók sem honum fannst áhugaverð. Í henni segir að íslam boði beinlínis morð á trúleysingjum og kúgun kvenna og að siðfræði kristinnar trúar sé boðskapur friðar og kærleikar, gagnkvæmrar virðingar og friðar. Maðurinn endurtekur þennan boðskap á opinberum vettvangi. Yfir hann hellast ákærur og jafnvel lögsóknir. Hann ákveður að halda þessum skoðunum fyrir sjálfa sig en til vara fyrir þá sem deila þeim með honum. Sjálfræði hans hefur verið skert bæði óbeint með hótunum og beint með tilvísun í einhver lög sem banna ákveðinn talsmáta.
Númer 3: Atvinnurekandi nokkur rekur vinnustað þar sem starfsmenn tala með nokkuð sérstökum tón til hvers annars. Mikið er notað af blótsyrðum, konur eru kallaðar kellingar, karlmenn eru pungar og þeldökkt fólk er kallað svertingjar og jafnvel niggarar. Tóninn er harður en enginn er misskilinn og stemmingin er góð. Nú sækja tveir einstaklingar um starf hjá fyrirtækinu. Annar er karlmaður með góð meðmæli en litla reynslu og enga menntun en metið sem svo að hann muni styrkja stemminguna á vinnustaðnum og bæta upp skort á menntun með réttu viðhorfi. Hinn umsækjandinn er þrautlærður kvenmaður með langan lista af viðeigandi gráðum og námskeiðum á bakinu en hún metin sem svo að hún muni draga andrúmsloftið á vinnustaðnum niður. Nú er karlmaðurinn ráðinn. Konan kærir á grundvelli mismununar og telur sig mun hæfari. Jafnréttisstofa óskar eftir gögnum á grundvelli laga um slíkt. Úrskurður kærunefndar jafnréttismála fer á þá leið að konan eigi að fá starfið. Atvinnurekandinn er sviptur sjálfræðinu.
Númer 4: Verslunareigandi nokkur ákveður að við hlið ávaxtasafans og epladjússins hljóti að vera vinsælt meðal viðskiptavina hans að hafa kaldan bjór í boði. Hann sér þetta sem sjálfsagða þjónustu við viðskiptavini sína enda nýkominn úr ferðlagi til Danmerkur þar sem bjór er að finna úti um allar trissur í verslunum. Um leið veit hann að bjór er löglegur neysluvarningur á Íslandi. Hið opinbera kemur á svæðið, sviptir verslunareigandann sjálfræði sínu, leggur á hann sektir og skikkar honum að stöðva áfengissöluna. Sjálfræði hans hefur verið skert.
Númer 5: Maður nokkur hefur misst allan metnað fyrir vinnu, vinum, starfi og eigin sjálfsrækt. Hann hefur safnað í digran sjóð og ætlar að nota hann til að fjármagna vímuefnaneyslu. Heróín, hass og kókaín verða fyrir valinu. Hann spyrst fyrir um hvar þessi efni séu til sölu og fær að vita að þau fáist ekki löglega þótt mikil eftirspurn sé til staðar. Búið er að svipta framleiðendur og sölumenn slíkra efna sjálfræðinu og varpa þeim í steininn. Maðurinn nær samt að verða sér úti um efni en er þá handtekinn og líka sviptur sjálfræðinu. Honum er sagt að hann hafi framið glæp og einnig að hann eigi á hættu að verða háður þjónustu velferðarkerfisins og verða þannig fjárhagslegur baggi á skattgreiðendum. Þó hafði hann aldrei skráð sig í neitt velferðarkerfi né fær möguleika á að skrá sig úr því. Sjálfræði hans er núna algjörlega horfið, á bak við lás og slá.
Eins og sjá má á þessum dæmum eru margar leiðir til að missa sjálfræðið á Íslandi. Ég vona að með nýrri ríkisstjórni fækki þeim eitthvað.
Sunnudagur, 12. febrúar 2017
Ríkið ætti að gefast upp á þessum vegaleik
Ríkisvaldið hefur í mörg ár innheimt himinháa skatta af bifreiðum og eldsneyti til að standa undir framkvæmdum við vegakerfið. Þetta fé hefur hins vegar ekki dugað til. Ástæðan er einföld: Þeir skattar sem innheimtir eru vegna vegakerfisins eru ekki bundnir við ákveðna notkun. Allir hafa jafnan rétt til að nota alla opinbera vegi allan sólarhringinn allan ársins hring. Þess vegna er þung umferð á morgnana, síðdegis og í tengslum við ákveðna viðburði, t.d. 17. júní í miðbæ Reykjavíkur og troðninginn á Vesturlandsveginum í byrjun júlí.
Nokkrar leiðir eru út úr þessum ógöngum. Ein er sú að afnema skatta af bílum og eldsneyti og setja upp tollahlið. Þetta yrði flókin opinber framkvæmd og sennilega illa skipulögð. Féð myndi lenda í sama ríkiskassa og ekkert endilega notað til að bæta umferðina þar sem mest er þörf frekar en í dag. Hins vegar myndi dreifast úr umferðinni. Fleiri sæju beinan hag í að sameinast í bifreiðum. Álagspunktarnir yrðu vægari.
Önnur leið sem hefur alla kosti hinnar fyrri en enga af ókostunum er að ríkið gefist einfaldlega upp á rekstri, viðhaldi og fjármögnun vegaframkvæmda. Þetta yrði hreinlega einkavætt - hver einasti vegspotti. Í staðinn kæmi haugur af sérstökum vegafélögum sem brjóta upp ríkiseinokunina og þefa uppi viðskiptatækifæri í vegaframkvæmdum.
Þetta má bera saman við afnám ríkiseinokunar á dreifikerfi síma og gagna og einkavæðingu gamla Pósts og síma. Mörgum fannst erfitt að trúa því að samkeppni einkaaðila gæti orðið einhver á þessum markað þungra fjárfestinga í dýrum búnaði. Vonandi hefur reynslan blásið allar slíkar efasemdir af borðinu.
Núna er talað um að bæta gjaldtöku ofan á alla skattana. Þetta er dæmigerð opinber lausn sem snýst einfaldlega um að moka meira fé í ríkiskassann til að hafa efni á fjármögnun verkefnis sem ríkinu hefur verið treyst fyrir. Er ekki kominn tími til að hugsa út fyrir kassann?
Brýtur ekki gegn jafnræði íbúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 10. febrúar 2017
Hannes Hólmsteinn Gissurarson er vanmetinn maður
Það hefur lengi verið í tísku meðal ákveðins hóps á Íslandi að ráðast á Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands.
Hannes bregst yfirleitt við af yfirvegun en mikið hlýtur að vera þreytandi að þurfa leiðrétta sömu vitleysuna aftur og aftur. Sérstaklega þegar svokallaðir rannsóknarblaðamenn fara á stjá (rannsóknar-blaða-menn; menn sem rannsaka ekkert, skrifa í blöð og gera mannleg mistök).
Ég ætla að synda á móti straumnum og útskýra af hverju við eigum að vera þakklát fyrir Hannes Hólmstein, þá bæði sem fræðimann og hugsjónamann, en einnig sem manneskju.
Í fyrsta lagi vinnur hann vinnuna sína. Á hverju ári skilar hann af sér rannsóknarskýrslu sem er troðfull af greinum, bókaútgáfu, fyrirlestrum, greinum og ræðum. Að auki sinnir hann kennslu. Starfsþrek hans er ótrúlegt. Hannes er líka vandvirkur og skilar ekki frá sér neinu hálfkláruðu þótt þrýst sé á hann. Hann er sennilega ein besta fjárfesting Háskóla Íslands á starfsmanni nokkurn tímann.
Í öðru lagi tjáir hann sig um málefni líðandi stundar og reynir þá oftar en ekki að varpa öðru ljósi á menn og málefni en gengur og gerist. Þetta er verðmætt. Flestir prófessorar stíga mjög sjaldan út úr fílabeinsturnunum sínum. Hannes er bæði virkur innan fræðasamfélagsins og í samfélagsumræðunni og það ættu allir að kunna meta.
Í þriðja lagi berst hann fyrir hugsjónum sínum í máli og riti og í gegnum vinnu sína fyrir RNH. Þetta skiptir máli, líka fyrir þá sem eru ósammála honum í pólitík. Upplýst og yfirveguð samfélagsumræða á ekki bara að fara fram í athugasemdumkerfum fjölmiðla og samfélagsmiðla. Menn þurfa einnig að fá að koma saman og ræða málin á yfirvegaðan og málefnalegan hátt, lesa bækur og greinar og hugsa sig um og Hannes leggur svo sannarlega sitt af mörkum svo það sé raunin.
Í fjórða lagi er hann sterkur málsvari Íslands og Íslendinga bæði innanlands og utan. Hann ferðast um heiminn og ver málstað Íslendinga, t.d. í Icesave-málinu. Hann kynnir það sem vel gengur á Íslandi fyrir umheiminum, t.d. fiskveiðistjórnunarkerfið. Hann ræðir við útlendinga og fær þeirra sýn á hlutina og svarar þeim með sinni sýn. Hann berst fyrir því að fólk tali vandaða og góða íslensku. Sumum þykir þetta eflaust vera gamaldags en það þarf enginn að vera fúll út í þá sem eru gamaldags. Ég er líka gamaldags - ég skrifa ennþá punkta á fundum niður á blað með notkun penna á meðan næsti maður notar fartölvuna til þess (ekki af því ég skrifa hraðar með höndunum heldur af því mér finnst ég fylgjast betur með þannig). Ekki er allt betra þótt það sé nýrra eða verra þótt það sé eldra.
Ég hef bara hitt Hannes einu sinni í eigin persónu en get sagt fyrir mitt leyti að hann er bæði geðþekkur maður og hógvær - maður sem kann að njóta lífsins en um leið vinna vinnuna sína af heiðarleika og metnaði. Og þótt hann sé ekki fullkominn frekar en neinn annar þá er hann mannlegur eins og við öll.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. febrúar 2017
Þetta með eggin og körfuna
Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað mikið undanfarið. Gott og vel, slíkt kemur fyrir og sérstaklega í viðkvæmum rekstri eins og rekstri flugfélaga. Eitt eldgos gæti gert út af við allar viðskiptaáætlanir. Vinsældir Íslands sveiflast. Aðrir áfangastaðir verða meira aðlaðandi. Flugvélakaup gætu velt hlassinu.
Þess vegna skil ég ekki hvers vegna landsmenn eru skyldugir til að borga í lífeyrissjóði sem eru svo að hluta til neyddir til að eiga mikið af hlutabréfum. Raunar er heldur ekkert skárra að þeir eigi mikið af ríkisskuldabréfum því skuldsetning hins opinbera bitnar líka á lífeyrissjóðsþegum, a.m.k. til lengri tíma.
Af hverju má fólk ekki bara fá öll launin sín útborguð og ákveða svo sjálft hvað það leggur mikið fyrir og hvað það notar mikið fé til að greiða niður skuldir?
Ekki virkar það rökrétt í mínum huga að skuldsettir einstaklingar, t.d. ungt fólk sem er að koma þaki yfir höfuðið á sér, sé um leið neytt til að leggja fyrir. Hér er verið að láta fólk leggja fyrir á lágum vöxtum á meðan það er að borga af lánum á háum vöxtum. Þetta hangir ekki saman.
En þá segir einhver: Þeir eru til sem leggja aldrei neitt fyrir og borga heldur ekki niður skuldir. Þeir enda á kerfinu sem ómagar þegar vinnuþrekið þrýtur. Þá er skárra að skylda alla til að safna í sjóði svo útgjöld vegna ómaganna lendi ekki á skattgreiðendum.
Og jú, ég skil alveg þessi rök. En á móti kemur að þessi krafa um sparnað hægir á eignauppbyggingu langflestra. Fólk er lengur að borga niður húsnæði sitt og það þarf að hafa í huga að flestir Íslendingar kaupa sér fasteign til að búa í og líta á hana sem ákveðinn sparnað líka.
Og hvað eru þeir svo margir sem hvorki borga niður af húsnæði né leggja fé í varasjóð? Eru þetta ekki bara örfáar hræður?
Og hvaða skilaboð er verið að senda til landsmanna með skyldusparnaði? Að sparnaður sé ekki á ábyrgð hvers og eins?
Tengdapabbi minn heitinn sagði mér einu sinni að hann hefði borgað í tvo lífeyrissjóði alla starfsævi sína og uppskar svo ekki miklu meira en því sem nemur ellilífeyri ríkisins - sá lífeyrir sem er greiddur út til þeirra sem leggja ekki fyrir krónu. Og ekki erfðist svo það sem eftir var í sjóðnum. Svona verður komið fyrir fleirum í núverandi kerfi og það er skelfilegt.
Nú fyrir utan að þegar markaður lífeyrissparnaðar er svona regluvæddur og múlbundinn í opinberar kröfur þá skerðir það samkeppni. Það er erfiðara að stofna lífeyrissjóð sem fer í samkeppni við þá sem fyrir eru og býður upp á aðrar tegundir af þjónustu. Af hverju býður t.d. enginn sjóður upp á að sparnaður sé byggður upp í eðalmálmum sem halda kaupmætti sínum nokkuð stöðugum til lengri tíma? Þessi aldagamla leið til að safna til efri áranna er hreinlega ekki í boði nema fyrir það fé sem stendur eftir þegar búið er að borga 10% eða meira í lífeyrissjóði.
Ég vona að íslenskur hlutabréfamarkaður fari í svolitla dýfu og neyði yfirvöld til að endurskoða aðkomu sína að lífeyrissparnaði landsmanna. Hann ber að gefa alveg frjálsan en til vara töluvert frjálsari.
Flugvélakaup sögð mistök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 7. febrúar 2017
Hverjir græða á flóknum kjarasamningum?
Víða eru í gildi alveg rosalega flóknir kjarasamningar. Þetta gildir t.d. um grunnskólakennara. Þeir fá ekki grunnlaun fyrir fastan vinnutíma. Nei, þeir fá grunnlaun og síðan allkyns aukagreiðslur fyrir hitt og þetta, t.d. undirbúning, próftímabil og ýmislegt annað. Hver getur lesið þetta skjal og sagt mér hvað grunnskólakennari með 2 háskólagráður og 10 ára starfsreynslu fær í laun? Ekki ég.
Hið sama gildir um sjómenn. Launakjör þeirra eru háð mörgum þáttum.
En af hverju eru gerðir flóknir kjarasamningar frekar en einfaldir? Fyrir því eru tvær ástæður:
Atvinnurekendur telja sig geta sparað launaútgjöld með því að sundurliða verkþætti og borga svo bara fyrir þá sem eru unnir.
Til að svara þessu segja allir launþegar að þeir hafi unnið alla hugsanlega verkþætti til að reyna fá sem flesta þeirra útborgaða.
Launþegar telja sig geta krækt í stærri bita með því að telja hverja tegund handtaks sem sérstakan verkþátt sem þurfi að greiða sérstaklega fyrir.
Til að svara þessu lækka atvinnurekendur greiðsluna fyrir hvern verkþátt svo heildarlaunaútgjöldin haldist viðráðanleg.
Stutta svarið er því: Enginn græðir neitt sérstaklega á flóknum kjarasamningum. Þeir verða bara til þess að refsa þeim duglegustu, sem í raun vinna alla verkþætti og vinna þá betur en aðrir, og verðlauna þá sístu sem vinna lítið og illa en hirða samt stóran launatékka.
Annar ókostur er að enginn skilur út á hvað kjaraviðræðurnar ganga. Hverja á að hækka í launum og hvers vegna? Af hverju fær þessi svona bónus en ekki hinn? Eru sjómenn með 15 milljónir á ári að krefjast hærri launa eða er verið að reyna draga hina lægri launuða upp, og þá á kostnað hvers í rekstri útgerðarfélaga?
Best væri ef verkalýðsfélög kæmu sér út úr kjarabaráttu launafólks og leyfðu hverjum og einum að semja út frá ákveðnum viðmiðunum sem frjáls hagsmunasamtök sæju um að útbúa. Svona eins og verkfræðingar.
15 milljónir fyrir 80 daga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. febrúar 2017
Fyrirtæki í stjórnmálaleik
Tugir stórra fyrirtækja á borð við Apple, Facebook, Microsoft, Google og Twitter hafa sent frá sér sameiginlega lögfræðilega álitsgerð þar sem ferðabanni Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, er mótmælt.
Frábært! Gott hjá þeim! Meira af þessu!
En er ekkert grunsamlegt við þessi mótmæli? Jú, vissulega skaðar þetta fyrirtæki sem hafa innanborðs starfsmenn frá þeim 7 ríkjum sem ferðabann forsetans nær til. Ég get samt ekki ímyndað mér að það sé mikill fjöldi. Eða hvað eru margir forritarar hjá Google frá Sómalíu sem eru á leið til Bandaríkjanna eftir notalegt vetrarfrí í heimalandinu? Eða kerfisfræðingar hjá Facebook frá Jemen sem eru í orlofi en vilja nú komast aftur í vinnuna?
Nei, fyrirtækin eru hér í ákveðinni ímyndarherferð. Þau eru að taka upp vinsælan málstað og tengja nöfn sín við hann.
Af hverju segi ég það? Jú, af því þessi fyrirtæki hafa ekki látið mikið í sér heyra þegar raunverulega er þjarmað að viðskiptahagsmunum þeirra. Nú reynir t.d. Evrópusambandið að mjólka bandarísk stórfyrirtæki sem hafa samið við einstaka aðildarríki um skattaafslætti eða eru talin hafa misnotað svokallaða markaðsráðandi stöðu sína. Við erum hér að tala um stórar upphæðir sem bitna raunverulega á fyrirtækjunum og þar með verðlagi þeirra og þar með viðskiptavinum.
En hér þegja þau þunnu hljóði. Hérna reynist þeim betur að vinna á bak við tjöldin með yfirvöldum og reyna að ná einhvers konar málamiðlun. Fyrirtækin geta t.d. lofað að beygja sig og bugta þegar yfirvöld biðja um persónuupplýsingar notenda þeirra. Í staðinn fá þau að starfa óáreitt og hóflega skattlögð.
Fyrirtækin gætu í þessu tilviki gert það sama: Gert yfirvöldum ljóst að þau séu með nokkra starfsmenn frá hinum og þessum ríkjum sem voru akkúrat að heimsækja heimalandið þegar ferðabannið skall á. Fyrirtækin geta lagt fram ítarleg gögn úr starfsmannaskrám sínum og fengið undanþágur.
En nei, þeim er alveg sama um þessa starfsmenn. Þau vilja bara spyrða nöfn sín við vinsæla mótmælaöldu.
Það er gott þegar fyrirtæki standa í lappirnar og láta yfirvöld heyra það. Það er ákveðin hræsni þegar þau gera það bara til að fegra ímynd sína og er í raun alveg sama um málstaðinn.
Tugir stórfyrirtækja mótmæla banni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. febrúar 2017
Stærðaróhagkvæmni er líka til
Íslendingar kannast vel við orðið "stærðarhagkvæmni". Það felst t.d. í því að sveitarfélögum er sópað saman í stærri sveitarfélög og skattgreiðendur þeirra notaðir til að taka enn stærri lán til að fara út í enn glórulausari framkvæmdir og um leið lengja leiðina að öðru sveitarfélagi sem fer rólegar í skattheimtuna.
Fyrirtæki renna stundum saman í stærri fyrirtæki. Þá eru yfirleitt deildir lagðar niður og reynt að útrýma óþarfa yfirbyggingu. Stundum fer það samt í hina áttina - yfirstjórnin þyngist sem og skrifræðið.
Eina leiðin til að láta reyna á stærðarhagkvæmni er að það sé hægt að fara í samkeppni. Fyrirtæki verða vör við þetta aðhald, a.m.k. þau fyrirtæki sem starfa á mörkuðum sem er auðvelt að komast inn á. Það er t.d. einfalt að opna skyndibitastað. Þeir eru því alltaf á tánum í bullandi samkeppni. Það er erfitt að stofna banka og bankar sitja því rólegri að sínum viðskiptavinum.
Það er svo gott sem ómögulegt að fara í samkeppni við hið opinbera og alls ekki hægt nema það umberi slíka samkeppni. Ég get ekki ímyndað mér hvað þarf til að stofna nýtt og sjálfstætt sveitarfélag. Þau verða því aldrei hagkvæmari þegar þau stækka. Þau verða óhagkvæmari. Þau þjást af stærðaróhagkvæmni. Mörg lítil sveitarfélög eiga frekar á hættu að missa fólk yfir landamærin ef svo má segja. Þau stærri geta gert vegalengdina að næstu landamærum svo langa að fáir leggja hana á sig.
Það er í þessu samhengi sem má skilja af hverju gamli Póstur og sími hefur ekki komist heill út úr samkeppni. Hann var of stór og þunglamalegur. Samkeppnin neyddi hann til að aðlagast breyttum aðstæðum.
Að hugsa sér ef markaðir menntunar og heilbrigðisþjónustu yrðu opnaðir á sama hátt. Ímynduð ykkur kraftinn sem myndi leysast úr læðingi. Kannski væri hægt að panta hjúkrunarfræðing í heimsókn með sérstöku appi, fá greiningu, lyfseðil og meðhöndlun og allt fyrir 5000 kall. Ómögulegt? Kannski. Kannski ekki. Við komumst ekki að því á meðan ríkisvaldið rígheldur í einokunarstöðu og gerir innkomu á markað erfiðan.
Eða hvað með vegakerfið? Gætu einkaaðilar ekki nýtt vegina betur?
Af hverju að ríghalda í stærðarókvæmni? Hvað óttast hið opinbera?
Eru alltaf í alþjóðlegri samkeppni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 4. febrúar 2017
Smámál gert að stórmáli
Höfum eitt á hreinu: Að leyfa öðrum en ríkinu að selja áfengi er sjálfsagt mál og frekar léttvægt. Svona er fyrirkomulagið í nánast öllum ríkjum heims. Áfengisneysla Íslendinga er hvorki betri né verri en hjá öðrum ríkjum. Aðgengi að áfengi á Íslandi er alveg nægjanlegt og verðlagið kemur ekki í veg fyrir að þeir sem vilja drekka geri það.
Að heimila áfengissölu í öðrum verslunum en ríkisverslunum (og flugvöllum Isavia) er því smámál.
Hins vegar gætu jákvæðar afleiðingar þess að hleypa þessu smámáli í gegn orðið stórar. Gefum okkur að verðlag verði óbreytt og að skilríkjaskoðun haldist óbreytt eða verði jafnvel strangari. Það sem breytist samt er að litlir verslunareigendur gætu eignast von á ný. Litlu hverfisbúðirnar gætu aftur keppt við stórmarkaðina sem deila bílastæði með ÁTVR.
Það sem breytist líka er að íslenskir neytendur geta nú sparað sér búðarferðirnar og jafnvel haldið þeim innan hverfisins í stað þess að þurfa keyra á sérstakan stað til að kaupa vínflösku. Þeir þurfa ekki að keyra í margar verslanir til að eignast löglegan neysluvarning í formi matar og drykkjar.
Það sem breytist líka er að forræðishyggjufólkið missir enn eitt vígið. Það ætti að vera öllum frjálslyndum mikilvægt hugsjónamál. Sem dæmi um önnur vígi sem hefur mátt berja niður eru: Litasjónvarp, frjálst útvarp og einkavæðing á sementsframleiðslu á vegum ríkisins. Þetta eru hlægileg vígi þegar litið er til baka. Hið sama mun eiga við um þetta áfengissölufyrirkomulag.
Sem sérstakur bónus mun Íslendingum ekki lengur líða eins og fávitum þegar þeir ferðast til útlanda og sjá þar vín til sölu í öllum verslunum. Þeir hætta að fá þetta hálfgerða áfall þegar þeir geta sett súkkulaði og bjórkippu í sömu innkaupakörfu.
Smámálið er sjálfsagt að afgreiða í hvelli og setja orku þingmanna í önnur og stærri mál.
Föstudagur, 3. febrúar 2017
Þegar barnið er lamið fyrir syndir föðursins
Ég er mikill aðdáandi þess að sniðganga vörur og þjónustu sem höfðar ekki til mín. Þannig sniðgeng ég kvenföt, ilmvötn, háhælaða skó, hárkollur, hálsfestar, vændiskonur, fjárhættuspil, handtöskur, varning merktan teiknimyndahetjum, útvíðar buxur, hárliti, ólívur, Apple-tölvur og bleik föt.
Aldrei hefur mér samt dottið í hug að sniðganga vöru af því foreldri eiganda vörumerkisins gerði eitthvað eða sagði eitthvað sem var mér ekki að skapi. Það eru nýmæli í mínum huga.
En það er gott að fólk getur sniðgengið vörur. Það er einn af kostum hins frjálsa markaðar. Þeir sem sniðganga vörur Ivönku Trump eru væntanlega núna að óska eftir einkavæðingu mennta- og heilbrigðiskerfisins í Bandaríkjunum til að geta sniðgengið þau fyrirtæki Trump sem selja varning til skóla og spítala í dag.
Hætta að selja vörur frá Ivönku Trump | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |