Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Íslendingar færast nær norræna módelinu

Á Norðurlöndunum eru margir einkaspítalar. Flestir ef ekki allir eru með einhvers konar samning við hið opinbera. Allir starfa þeir með tryggingafélögum sem bjóða upp á heilbrigðistryggingar. Þeir starfa sem valkostur við hið opinbera kerfi og ekki endilega í samkeppni við það en innbyrðis eru einkaspítalar auðvitað í samkeppni. Þessa samkeppni nýtir hið opinbera sér til að ná fram betri nýtingu fjármuna svo allir geti fengið viðeigandi meðhöndlun.

Þetta er hið norræna fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu.

Á Íslandi er eitthvað allt annað í gangi. Hið opinbera situr eitt að spítalarekstri. Samkeppni er beinlínis bönnuð nema með sérstöku leyfi yfirvalda. Þetta má kannski kalla hið sovéska fyrirkomulag.

Ef heilbrigðisráðherra vill taka upp norræna fyrirkomulagið á Íslandi þá er tækifæri núna. Annars verður hið sovéska fyrirkomulag ofan á. 


mbl.is „Ekki neitt annað en einkarekið sjúkrahús“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitíkus undrast pólitíkina í pólitíkinni

Ríkisvaldið innheimtir skatta og deilir út til bænda svo þeir geti stundað óarðbæra framleiðslu á neysluvarningi.

Eðli málsins samkvæmt er nokkuð mikið yfirbragð stjórnmála yfir svona fyrirkomulagi. Stjórnmálamenn skipa í nefndir og ráð til að fylgjast með fyrirkomulaginu. Þeir skammta fé skattgreiðenda til málaflokksins. Opinberar eftirlitsstofnanir fylgjast með framleiðslunni. 

Mér finnst furðulegast af öllu að bændur sætti sig við þetta fyrirkomulag. Af hverju vilja þeir ekki vera sjálfstæðir atvinnurekendur með allt það svigrúm sem því fylgir?

Jú, vissulega myndi það þýða aðlögun að markaðsaðstæðum og ekki er víst að allir kæmu vel út úr henni en úti í heimi eru til fordæmi að slíku sem ættu að vera aðlaðandi. Hér hef ég fyrst of fremst Nýja-Sjáland í huga. Þar eru bændir sjálfstæðir atvinnurekendur og þeir þrífast vel. Áður voru þeir í sömu stöðu og íslenskir bændur: Geymdir á bak við tollamúra og pólitíska afskiptasemi, lifðu á ríkisstyrkjum og rétt tórðu fyrir vikið. 

Ef bændur vilja ríkisstyrkina og tollamúrana þá verða þeir að sætta sig við að í pólitísku fyrirkomulagi komi pólitíkusar að málinu. Þannig virkar jú pólitíkin!


mbl.is Gagnrýnir skipan í nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt nema lægri skatta, ekki satt?

Þegar stjórnmálamenn reyna að hunsa lögmál hagfræðinnar dettur mér alltaf í hug lítil saga sem ég heyrði frá manni sem þekkti til í Sovétríkjunum sálugu (og vann raunar fyrir miðstjórnina þar til hann gat flúið land). 

Sagan segir að dag einn voru sovésk yfirvöld að ákveða hvað hlutir ættu að kosta og hvers vegna. Þau komust að því að barnamatur væri góður. Hann ætti því að vera ódýr. Vodki væri hins vegar slæmur. Hann ætti að vera dýr.

Afleiðingin var sú að hvergi var hægt að kaupa barnamat en vodki var alstaðar til sölu. 

(Það borgaði sig jú ekki að framleiða barnamat á meðan vodki var mjög arðbær.)

Nú er enginn að segja að íslensk yfirvöld séu á svipaðri vegferð (nema þegar kemur að verðlagi peninga og landbúnaðarvarnings). En eitt eiga þau sameiginlegt með þeim sovésku: Þau reyna að breyta lögmálum hagfræðinnar með valdboði.

Tökum heilbrigðisþjónustu sem dæmi. Hún er niðurgreidd. Sá sem fer illa með líkama sinn, t.d. með feitmeti, hreyfingarleysi og reykingum, er litlu verr staddur gagnvart heilbrigðisþjónustunni og sá sem skokkar reglulega, borðar mikið af grænmeti og neytir hvorki áfengis né tóbaks. Reykingamaðurinn fær niðurgreidd lungnaþembulyf. Skokkarinn fær niðurgreidda aðgerð á slitnum krossböndum. Niðurgreidd þjónustu nýtur meiri eftirspurnar en sú óniðurgreidda. Eftirspurnin eykur álag. Því er mætt með biðlistum og skömmtunum. Menn halda samt áfram að ganga í þjónustuna. Svo furða menn sig á því af hverju kostnaður við heilbrigðiskerfið vex stjarnfræðilega. 

Annað dæmi er menntun. Hún er niðurgreidd. Fyrir vikið er meiri eftirspurn eftir menntun en annars væri. Ekki skiptir máli hvort maður lærir kynjafræði eða klíníska sálfræði. Fólk velur sér ekki nám út frá verðlagi þess eða væntum tekjum. Eftirspurnin eftir menntun leiðir til offramboðs af menntuðum einstaklingum í leit að þægilegri innivinnu. 

Og svo eru það skattarnir. Þeir eru hærri en flest fólk er tilbúið að sætta sig við. Það nennir enginn að borga hálfan handlegg fyrir klippingu eða aðstoð við flutninga. Menn hafa engu að síður áhuga á þjónustunni og eru tilbúnir að borga fyrir hana. Málamiðlunin er því svört atvinnustarfsemi. Siggi málar stofuna fyrir Lúlla lækni svo hann geti farið í vinnuna og gegn hagstæðara verði vill hann fá borgað í reiðufé og án pappírsvinnu. Allir vinna, bókstaflega. En nei, nú mæta yfirvöld á svæðið og vilja banna reiðufjárviðskiptin. Í leiðinni banna þau viðskiptin alveg. Lúlli læknir tekur sér frí frá læknavaktinni á spítalanum til að mála stofuna. Siggi situr heima hjá sér og spilar á Playstation. Allir tapa. 

Ég vil hvetja fjármálaráðherra til að verða sér úti um eintak af bókinni Hagfræði í hnotskurn. Sú bók gæti sparað honum margan hausverkinn. 


mbl.is Vill banna launagreiðslur í reiðufé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband