Hannes Hólmsteinn Gissurarson er vanmetinn maður

Það hefur lengi verið í tísku meðal ákveðins hóps á Íslandi að ráðast á Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands.

Hannes bregst yfirleitt við af yfirvegun en mikið hlýtur að vera þreytandi að þurfa leiðrétta sömu vitleysuna aftur og aftur. Sérstaklega þegar svokallaðir rannsóknarblaðamenn fara á stjá (rannsóknar-blaða-menn; menn sem rannsaka ekkert, skrifa í blöð og gera mannleg mistök). 

Ég ætla að synda á móti straumnum og útskýra af hverju við eigum að vera þakklát fyrir Hannes Hólmstein, þá bæði sem fræðimann og hugsjónamann, en einnig sem manneskju.

Í fyrsta lagi vinnur hann vinnuna sína. Á hverju ári skilar hann af sér rannsóknarskýrslu sem er troðfull af greinum, bókaútgáfu, fyrirlestrum, greinum og ræðum. Að auki sinnir hann kennslu. Starfsþrek hans er ótrúlegt. Hannes er líka vandvirkur og skilar ekki frá sér neinu hálfkláruðu þótt þrýst sé á hann. Hann er sennilega ein besta fjárfesting Háskóla Íslands á starfsmanni nokkurn tímann. 

Í öðru lagi tjáir hann sig um málefni líðandi stundar og reynir þá oftar en ekki að varpa öðru ljósi á menn og málefni en gengur og gerist. Þetta er verðmætt. Flestir prófessorar stíga mjög sjaldan út úr fílabeinsturnunum sínum. Hannes er bæði virkur innan fræðasamfélagsins og í samfélagsumræðunni og það ættu allir að kunna meta.

Í þriðja lagi berst hann fyrir hugsjónum sínum í máli og riti og í gegnum vinnu sína fyrir RNH. Þetta skiptir máli, líka fyrir þá sem eru ósammála honum í pólitík. Upplýst og yfirveguð samfélagsumræða á ekki bara að fara fram í athugasemdumkerfum fjölmiðla og samfélagsmiðla. Menn þurfa einnig að fá að koma saman og ræða málin á yfirvegaðan og málefnalegan hátt, lesa bækur og greinar og hugsa sig um og Hannes leggur svo sannarlega sitt af mörkum svo það sé raunin.

Í fjórða lagi er hann sterkur málsvari Íslands og Íslendinga bæði innanlands og utan. Hann ferðast um heiminn og ver málstað Íslendinga, t.d. í Icesave-málinu. Hann kynnir það sem vel gengur á Íslandi fyrir umheiminum, t.d. fiskveiðistjórnunarkerfið. Hann ræðir við útlendinga og fær þeirra sýn á hlutina og svarar þeim með sinni sýn. Hann berst fyrir því að fólk tali vandaða og góða íslensku. Sumum þykir þetta eflaust vera gamaldags en það þarf enginn að vera fúll út í þá sem eru gamaldags. Ég er líka gamaldags - ég skrifa ennþá punkta á fundum niður á blað með notkun penna á meðan næsti maður notar fartölvuna til þess (ekki af því ég skrifa hraðar með höndunum heldur af því mér finnst ég fylgjast betur með þannig). Ekki er allt betra þótt það sé nýrra eða verra þótt það sé eldra. 

Ég hef bara hitt Hannes einu sinni í eigin persónu en get sagt fyrir mitt leyti að hann er bæði geðþekkur maður og hógvær - maður sem kann að njóta lífsins en um leið vinna vinnuna sína af heiðarleika og metnaði. Og þótt hann sé ekki fullkominn frekar en neinn annar þá er hann mannlegur eins og við öll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband