Þetta með eggin og körfuna

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað mikið undanfarið. Gott og vel, slíkt kemur fyrir og sérstaklega í viðkvæmum rekstri eins og rekstri flugfélaga. Eitt eldgos gæti gert út af við allar viðskiptaáætlanir. Vinsældir Íslands sveiflast. Aðrir áfangastaðir verða meira aðlaðandi. Flugvélakaup gætu velt hlassinu.

Þess vegna skil ég ekki hvers vegna landsmenn eru skyldugir til að borga í lífeyrissjóði sem eru svo að hluta til neyddir til að eiga mikið af hlutabréfum. Raunar er heldur ekkert skárra að þeir eigi mikið af ríkisskuldabréfum því skuldsetning hins opinbera bitnar líka á lífeyrissjóðsþegum, a.m.k. til lengri tíma. 

Af hverju má fólk ekki bara fá öll launin sín útborguð og ákveða svo sjálft hvað það leggur mikið fyrir og hvað það notar mikið fé til að greiða niður skuldir?

Ekki virkar það rökrétt í mínum huga að skuldsettir einstaklingar, t.d. ungt fólk sem er að koma þaki yfir höfuðið á sér, sé um leið neytt til að leggja fyrir. Hér er verið að láta fólk leggja fyrir á lágum vöxtum á meðan það er að borga af lánum á háum vöxtum. Þetta hangir ekki saman.

En þá segir einhver: Þeir eru til sem leggja aldrei neitt fyrir og borga heldur ekki niður skuldir. Þeir enda á kerfinu sem ómagar þegar vinnuþrekið þrýtur. Þá er skárra að skylda alla til að safna í sjóði svo útgjöld vegna ómaganna lendi ekki á skattgreiðendum.

Og jú, ég skil alveg þessi rök. En á móti kemur að þessi krafa um sparnað hægir á eignauppbyggingu langflestra. Fólk er lengur að borga niður húsnæði sitt og það þarf að hafa í huga að flestir Íslendingar kaupa sér fasteign til að búa í og líta á hana sem ákveðinn sparnað líka.

Og hvað eru þeir svo margir sem hvorki borga niður af húsnæði né leggja fé í varasjóð? Eru þetta ekki bara örfáar hræður?

Og hvaða skilaboð er verið að senda til landsmanna með skyldusparnaði? Að sparnaður sé ekki á ábyrgð hvers og eins?

Tengdapabbi minn heitinn sagði mér einu sinni að hann hefði borgað í tvo lífeyrissjóði alla starfsævi sína og uppskar svo ekki miklu meira en því sem nemur ellilífeyri ríkisins - sá lífeyrir sem er greiddur út til þeirra sem leggja ekki fyrir krónu. Og ekki erfðist svo það sem eftir var í sjóðnum. Svona verður komið fyrir fleirum í núverandi kerfi og það er skelfilegt. 

Nú fyrir utan að þegar markaður lífeyrissparnaðar er svona regluvæddur og múlbundinn í opinberar kröfur þá skerðir það samkeppni. Það er erfiðara að stofna lífeyrissjóð sem fer í samkeppni við þá sem fyrir eru og býður upp á aðrar tegundir af þjónustu. Af hverju býður t.d. enginn sjóður upp á að sparnaður sé byggður upp í eðalmálmum sem halda kaupmætti sínum nokkuð stöðugum til lengri tíma? Þessi aldagamla leið til að safna til efri áranna er hreinlega ekki í boði nema fyrir það fé sem stendur eftir þegar búið er að borga 10% eða meira í lífeyrissjóði.

Ég vona að íslenskur hlutabréfamarkaður fari í svolitla dýfu og neyði yfirvöld til að endurskoða aðkomu sína að lífeyrissparnaði landsmanna. Hann ber að gefa alveg frjálsan en til vara töluvert frjálsari. 


mbl.is Flugvélakaup sögð mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson

tilv..".............að láta fólk leggja fyrir á lágum vöxtum á meðan það er að borga af lánum á háum vöxtum......"tilv endar . góður punktur.

Hörður Halldórsson, 9.2.2017 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband