Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017
Mánudagur, 30. janúar 2017
Óttist valdið, ekki manninn
Völd embættis Bandaríkjaforseta hafa, eins og réttilega segir í góðri greiningu Morgunblaðsins, aukist í sífellu og gera það með hverjum forseta. Þetta gerist þrátt fyrir stjórnarskrá, regluverk, tvö þing, aðhald sambandsríkja (a.m.k. í orði en kannski minna á borði) og margt fleira sem var sett á laggirnar til að hemja ríkisvaldið.
En svo kemur stríð. Eða kreppa. Eða náttúrhamfarir. Eða hryðjuverkaárás. Eða það þarf að velta einhverjum óvinsælum einræðisherra úr sessi. Eða bjarga vinaþjóðum í vanda. Eða bara eitthvað. Þá er komin átylla til að bæta við verkfærakistu forsetans svo hann geti nú leyst vandamálið hratt og markvisst og án skriffinnskunnar. Og almenningur klappar.
En svo gerist hið óumflýjanlega: Í embættið er kosinn maður sem er æstur í að breyta öllu eftir sínu höfði. Hann hefur úr nægu að moða. Hann getur boðað lagafrumvörp, gefið út tilskipanir, sent af stað hermenn eða nánast hvað sem honum dettur í hug. Fólk hættir að kalla hann forseta og fer að kalla hann einræðisherra. Þó er hann ekki með önnur völd en þau sem fyrirrennarar hans skáru út fyrir hann úr kerfinu með fordæmum og lagatúlkunum.
Donald Trump ætlar ekki að sóa neinum tíma enda vanur því að grípa tækifærin í viðskiptalífinu (með misjöfnum árangri). Hann rambar vissulega á eitthvað gott (oft ratast kjöftugum rétt orð í munn eins og sagt er) en yfirleitt ekki. Það er engin leið að spá fyrir um afleiðingarnar. Kannski verður sumt gott en annað ekki. Fólk mætti samt nota tækifærið núna og hugleiða öll þessi völd sem hið opinbera hefur, hvort sem það er skv. bókstaf laganna eða vegna hefða.
Má ekki leyfa sér að efast aðeins um ágæti hins valdamikla og afkastamikla ríkisvalds? Ef ekki núna, þá hvenær?
Hin djúpa verkfærakista forsetans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 30. janúar 2017
Það sem fáir fjölmiðlar segja frá
Ég nenni sjaldan að leiðrétta fréttir og áhugi minn á Donald Trump er e.t.v. minni en flestra en ég verð að gera undantekningu núna.
Hvað var Trump að gera núna? Banna múslíma? Mismuna fólki?
Nei, ekkert af þessu.
Hann tók lista úr ráðuneyti Obama yfir óstöðug ríki og gerði það sama og Obama gerði einu sinni gagnvart því sem var þá talið vera óstöðugt ríki.
Þetta myndband útskýrir málið (í löngu máli en skemmtilegu):
Það sem gerðist í raun og veru hérna var að andstæðingar Donald Trump (og af þeim er nóg) hafa nú vaknað úr 8 ára dvala sem gagnrýnar raddir á alríkisstjórn Bandaríkjanna. Það var jú ekki hægt að gagnrýna Obama fyrir neitt, er það? Trump er að gera það sama og Obama. Hann er núna andskotinn holdi klæddur.
Ég efast ekki um að Trump eigi eftir að gera marga heimskulega hluti og kannski var þetta einn af þeim. Hann fylgdi hins vegar bara línu Obama í þetta skipti. Fyrir það er Trump gagnrýndur, ekki Obama.
Þetta verða hressandi næstu 4 ár.
Fordæma ólöglega ákvörðun Trumps | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 28. janúar 2017
Næsta skref: Afnema virðisaukaskatt (á öllu)
Núna er snakk orðið ódýrara en áður. Unglingar landsins fagna.
Næsta skref hlýtur að vera að afnema virðisaukaskatt, á öllu. Allir skattar, hvort sem þeir heita tollar eða vörugjöld eða virðisaukaskattur, hækka vöruverð.
En hvernig á ríkisvaldið að fjármagna rekstur sinn ef það missir virðisaukaskattinn úr hirslum sínum? Svarið við því er einfalt: Það sker einfaldlega niður í rekstri sínum þangað til það þarf ekki lengur á virðisaukaskatttekjunum að halda. Ég er þá ekki að tala um að klípa 5% af þessari stofnun og 7% af hinni. Ríkið þarf að leggja niður heilu afkimana í rekstri sínum, einfalda kostnaðarsamar reglugerðir, einkavæða og selja eignir.
En af hverju að einblína á lækkun vöruverðs? Hvað með skatta á laun? Svarið er líka einfalt hér: Það ber að stefna að stórkostlegri lækkun tekjuskatta og helst algjöru afnámi þeirra. Ríkið heldur svo einfaldlega áfram að leggja niður einingar í ríkisrekstrinum, selja eignir og einkavæða.
Með svona aðgerðum má færa völdin yfir fólkinu í landinu frá 63 einstaklingum sem hafa það að atvinnu að hafa vit fyrir öðrum og til einstaklinganna sjálfra. Sérstakur stuðningur við svona skattalækkanir og einföldum regluverksins hlýtur að koma frá þeim sem finna stjórnmálamönnum allt til foráttu.
Snakk ódýrara eftir afnám tolla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 27. janúar 2017
Trump verður hugsanlega frábær forseti
Ýmis teikn eru á lofti um að Trump verði frábær forseti. Hann gæti t.d. orðið svo yfirgengilega upptekinn af lítilvægum smáatriðum að hann nær ekki að koma neinum stórum málum í gegn. Þetta þýðir að samfélagið og hagkerfið fær frið til að ná andanum.
Það er til lítil saga í bandarískum stjórnmálum sem segir frá því hvernig "gleymda kreppan" í Bandaríkjunum leið hratt yfir. Eins og fæstir vita skall á mikil og djúp niðursveifla í bandarísku hagkerfið árið 1920. Hagkerfið tók dýfu, atvinnuleysi fór á flug og ástandið leit ekki vel út. Raunar var niðursveiflan skarpari en sú sem skall á árið 1929 og varð að "kreppunni miklu".
En hvað gerðist? Hvernig brugðust stjórnmálamenn við? Þeir gerðu í raun lítið. Seðlabankinn gerði líka lítið. Niðursveiflunni var leyft að eiga sér stað, skuldabólunum var leyft að springa og örfáum misserum seinna var hagkerfið komið á siglingu á ný. Kreppan gekk svo hratt yfir að hún gleymdist.
Á þessum tíma var forseti Bandaríkjanna Woodrow Wilson. Hann fékk heilablóðfall árið 1919 og þar til nýr forseti tók við árið 1921 var forsetaembættið frekar aðgerðalaust og starfaði nánast bara að nafninu til.
Þessu aðgerðaleysi hafa sumir sagnfræðingar þakkað fyrir að kreppan 1920 gekk svona hratt yfir. Næsti forseti sem tók við embætti árið 1921, Warren G. Harding, var líka lítið fyrir að skipta sér af mönnum og málefnum.
Tveir aðgerðalausir forsetar í embætti og kreppa leið hjá á nokkrum misserum - að hugsa sér!
En hvað kemur þetta Donald Trump við? Eru einhverjar líkur á að hann verði aðgerðalaus? Nei, ætli það. En hann gæti hugsanlega orðið mjög upptekinn af smáatriðum og einhverju sem skiptir litlu máli. Hann vill reisa múr en menn grafa þá bara göng eða fara með viðskipti sín annað. Hann vill draga hermennina heim sem er líklega gott fyrir alla. Svo mun hann atast í fjölmiðlum. Frábært! Hann nær þá kannski ekki að hrinda í framkvæmd aukinni skuldsetningu. Honum tekst líklega ekki að tvöfalda skuldir alríkisins á 8 árum eins og Obama. Kannski.
Það má a.m.k. vona að sjálfsdýrkun Trump afvegaleiði hann frá embætti og í átt að einhverjum tittlingaskít. Ef svo fer verður forsetatíð hans góð fyrir Bandaríkin.
Sjálfsdýrkun í Hvíta húsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 26. janúar 2017
Hindranir eða ekki hindranir
Yfirleitt er talað um að það þurfi að gera fríverslunarsamninga við hin og þessi ríki til að koma á fríverslun. Þetta er misskilningur. Fríverslunarsamningar ganga yfirleitt út á einhverjar tollalækkanir en oftar en ekki eru í þeim fyrirvarar og tollar falla yfirleitt ekki niður á öllu sem gengur kaupum og sölum.
Þá segja menn að það gangi ekki að leggja niður tolla einhliða. Það sé ósanngjarnt. Þá geti eitt ríki náð samkeppnisforskoti á annað með því að geta flutt ódýrt út en leyfi engum að flytja ódýrt inn.
En af hverju eiga allir að grýta höfnina sína eða pissa í skóinn sinn þótt einhverjir geri það? Að hindra frjáls viðskipti er slæmt fyrir þann sem gerir það. Að leyfa þau er gott fyrir þann sem gerir það. Nú má vel vera að íslenskir lopapeysuprjónarar komi illa úr samkeppni við kínverska verksmiðjuframleiðslu á lopapeysum. Það er samt skammtímavandamál fyrir lítinn hóp. Neytendur eiga að fá að ráða því hvaða vara stendur uppi sem sigurvegari, ekki framleiðendur. Bílaframleiðslur unnu hylli neytenda á kostnað hestvagnaframleiðenda og það reyndist gott fyrir alla til lengri tíma.
Íslendingar eiga að sýna fordæmi hérna og einfaldlega afnema allar hömlur á verslun við öll erlend ríki. Mörg þessara ríkja munu svara í sömu mynt fyrr eða síðar og afnema öll höft á viðskipti við Ísland. Það þarf enga samninga hér fulla af undantekningum, eftirlitsapparötum og skilyrðum.
Nú er reyndar búið að afnema flesta tolla á Íslandi síðan 1. janúar í ár og það var þrekvirki sem ber að hrósa fyrir. Það má samt ganga lengra. Enn þarf að tollmeðhöndla allt með tilheyrandi töfum og kostnaði og enn finnast útgjaldaliðir á innflutning eins og "úrvinnslugjald á hjólbarða" og "úrvinnslugjald á plastumbúðir". Virðisaukaskatturinn flækist líka fyrir frjálsum viðskiptum en það er víst lítil von til þess að ríkisvaldið sleppi þeirri leið til að mjólka hagkerfið.
Að kaupa af pólskum bónda eða tælenskum vefara á að vera jafnauðvelt og að panta hangikjöt frá Akureyri. Eini munurinn er þá tíminn sem tekur fyrir sendinguna að berast að dyrum.
Brexit er í forgangi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. janúar 2017
Vefþjóðviljinn fyrr og nú
Besta íslenska vefritið og jafnframt það elsta starfandi er Vefþjóðviljinn (www.andriki.is). Vefþjóðviljinn hóf útgáfu 24. janúar 1997 og hefur komið út daglega síðan þá eða í 20 ár samfleytt. Geri aðrir betur!
Núna verða breytingar á útgáfunni því hún verður ekki lengur dagleg. Vonandi verður hún samt einhver.
Vefþjóðviljanum má hrósa fyrir svo margt að ég veit ekki hvar ég á að byrja.
Hann kynnti mig t.d. fyrir austurríska skólanum í hagfræði.
Hann setur ítrekað dægurmálaumræðuna í annað og kannski breiðara samhengi en gengur og gerist í oft einsleitri umfjöllun annarra fjölmiðla.
Hann hnýtir í stjórnmálamenn og aðra sem vilja eyða fé annarra.
Hann grefur ofan í mál sem fáir aðrir sýna áhuga fyrr en löngu seinna.
Hann stendur vörð um einstaklingsfrelsið og eignaréttinn. Frjálshyggjan á Íslandi stendur í eilífri þakkarskuld við Vefþjóðviljann.
Hann hefur í stuttu máli reynst mér ómetanlegt veganesti síðan ég byrjaði að opna heimasíður á netinu. Og vonandi heldur hann áfram að vera það þótt útgáfudögunum fækki.
Þriðjudagur, 24. janúar 2017
Bland.is fær innspýtingu í æð
Það sem má ekki selja en einhver telur að séu verðmæti verður selt. Það má kannski orða þetta betur en svona er þetta samt.
Fílabein má ekki selja á heimsmarkaði en er engu að síður selt. Á sumum svæðum eru fílar skotnir skipulega og löglega vegna offjölgunar og beinum þeirra fargað. Á öðrum eru fílar skotnir ólöglega, beinin fjarlægð og þau seld á svörtum markaði fyrir stórfé vegna hins takmarkaða framboðs. Niðurstaðan er að mikið magn varnings nær ekki á markað en það sem kemst á markað selst á uppsprengdu verði og gerir áhættuna fyrir veiðiþjófa þess virði.
Nú hefur Fjölskylduhjálp Íslands borist gjöf - 200 pelsar sem má ekki selja. Þeir munu margir hverjir enda á sölusíðum bland.is og pelsarnir síðan birtast á öxlum þeirra sem hafa efni á þeim. Eftirspurnin er til staðar og pelsarnir hafa eitthvað söluandvirði.
Pelsarnir munu því koma að góðum notum: Þeir sem fá pelsana gefins geta selt þá og eignast smá aur, og þeir sem vilja pelsa og hafa efni á því fá sinn pels og e.t.v. á aðeins lægra verði en út úr búð. Allir græða.
Þeir einu sem sitja eftir með sárt ennið eru þeir sem gáfu pelsana sína til þess eins að sjá þá á öxlum annars fólks úti á götu. En þeim er kannski bara alveg sama og telja sig hafa sýnt táknræna afstöðu gegn ræktun dýra til pelsagerðar. Þannig hafa þessir einstaklingar kannski minnkað pelsamarkaðinn sem neyðir einhverja pelsaræktendur til að loka. Það væri a.m.k. hálfur sigur.
(Fyrirvari: Ég er ekki með neinum hætti að gagnrýna gjöfina. Mér finnst hún vera góðverk og verðskulda hrós. Ég bendi bara á að lögmál hagfræðinnar fjúka ekki út um gluggann þótt einhver reyni að banna þau.)
Fátækum gefnir 200 pelsar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. janúar 2017
Allt bannað sem er ekki sérstaklega leyft
Á Íslandi er bannað að selja heimabakað bakkelsi. Það er ekkert flóknara en það. Það er líka bannað að leigja út hluta af eigin húsnæði nema að hafa til þess sérstakt leyfi til að bjóða upp á gistingu og sérstakt starfsleyfi frá svokallaðri heilbrigðisnefnd.
Kemur einhverjum á óvart að fáir skrái sig og haldi bara áfram að bjóða upp á gistingu án leyfis?
Það verður spennandi að sjá núna hvort yfirvöld fari á stúfana og deili út sektum til þúsunda Íslendinga. Kannski verður ekki reynt að ná til allra sem brjóta lögin fáránlegu heldur bara örfárra og gera mikið mál úr því og reyna að hræða afganginn til hlýðni. Handahófskennd löggæsla er jú niðurstaða íþyngjandi löggjafar sem almenningur á erfitt með að beygja sig og bugta fyrir. Fyrir handahófskenndri löggæslu eru til alveg óteljandi dæmi á Íslandi.
Það má kannski gera bragarbót á þessu og segja að í stað þess að leyfi sé forsenda reksturs þá sé hægt að stunda rekstur sem gæti orðið fyrir úttekt. Menn gætu þá bara skráð sig með einföldu eyðiblaði á netinu og fengið númerið sitt strax. Á einhverjum tímapunkti gætu svo yfirvöld gert úttekt og t.d. kannað hvort gestir séu útataðir í saur og myglusveppum eða hvort heimilisaðstæður séu ekki bara ósköp venjulegar eins og væntanlega er raunin hjá allflestum útleigjendum.
Um leið mætti afnema 90 daga regluna enda er hún líka handahófskennd og ósanngjörn, t.d. fyrir gömlu ekkjuna með aukaherbergið sem langar að drýgja ellilífeyrinn eða unga parið sem er að stækka við sig til að rýma fyrir fleiri börnum en leigir út barnaherbergið á meðan ekkert er barnið.
Einn ágætur maður sagði eitt sinn, og skal það hér endurtekið:
Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin.
Megi yfirvöld líta í spegil sem fyrst og þylja upp eftirfarandi orð: "Hættu að troða nefinu þínu þar sem það á ekki heima."
Aðeins 28 hafa verið skráðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 22. janúar 2017
2007
Við lifum á sérkennilegum tímum. Sérfræðingar og seðlabankar segja okkur að einkaneysla sé góð, að vextir á lánum eigi að vera lágir, að sparnaður dragi fé úr fjárfestingum, að ríkisvaldið eigi að einoka peningaframleiðslu og að verðbólga sé betri en verðhjöðnun.
Allt er þetta meira og minna andstæða þess sem er rétt. Aukning einkaneyslu er ekki endilega góð, lágir vextir eru ekki endilega góðir, sparnaður er góður, einokun ríkisvaldsins á peningaframleiðslu er slæm og verðbólga er ekki skárri en verðhjöðnun (fyrir suma er verðbólga góð og fyrir aðra er verðhjöðnun góð).
Bankarnir eru himinlifandi með þessar röngu fullyrðingar sérfræðinganna. Þeir vilja verðbólgu því það þýðir peningaprentun sem þeir geta grætt á. Þeir vilja lána út fé og rukka bæði vexti og þóknanir fyrir en um leið draga að sér sparnað sem þeir borga lága vexti fyrir.
Um leið vita þeir af ef og þegar allt fer til fjandans þá komast hluthafar í burtu með sitt og reikninginn má senda á skattgreiðendur.
Voru annars ekki allir búnir að lesa Ábyrgðarkverið?
Með 3,2 milljarða í árslaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 20. janúar 2017
Skýrslur í stað skítaaðstöðu
Hið opinbera má eiga eitt alveg skuldlaust: Þar á bæ eru menn alveg rosalega góðir í að skrifa skýrslur. Gallinn er sá að skýrslur hjálpa engum að hafa hægðir nema þegar kemur að því að skeina sér. Það gera hins vegar klósett.
Það stefnir í að nú verði bráðum hætt að banna gjaldtöku á vinsælum ferðamannastöðum. Það er gott. Gjaldtaka leysir öll vandamál aðgangsstýringar og aðstöðuuppbyggingar. Því fyrr sem bóndinn má rukka ferðamanninn fyrir að traðka á jörð hans því fyrr getur hann byrjað að byggja aðstöðu og stjórna fjölda ferðamanna.
Þetta er sáraeinfalt fyrirkomulag sem virkar fyrir alla, ekki bara Bláa lónið.
Nú bíðum við bara eftir að nýr ráðherra ferðaþjónustunnar blási til gjaldtöku - að þeir sem njóta fá að borga en ekki aðrir.
Salernismál ferðamanna í biðstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |