Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Verða sammála um skattahækkanir og fátt annað

Ef fer sem horfir blasir vinstristjórn við Íslandi. Það eru hræðilegar fréttir en það er eins og Íslendingar þurfi reglulega á slíkri stjórn að halda til að minna sig á seinustu vinstristjórn.

Vinstriflokkarnir á Íslandi eru ekki sammála um margt en þeir eru þó sammála um að það þurfi að hækka skatta á eitthvað. Um það mun stjórnarsáttmálinn snúast. 

Vinstriflokkur 1 mun ekki líta á skattahækkun vinstriflokks 2 sem hindrun við eigin skattahækkun. Þeir eru jú lagðir á sitthvorn "skattstofninn" eins og sagt er. Sveitarfélög hækka t.d. stundum fasteignagjöld og stundum sorphirðugjald og réttlæta báðar hækkanir með sitthvorum rökunum eins og um eitthvað tvennt aðskilið og ótengt sé að ræða. Niðurstaðan er samt sú að heimilin horfa upp á tvær skattahækkanir sem dragast af einu launaumslagi. En það sjá vinstriflokkarnir ekki.

Ljósið í myrkrinu hér er að Birgitta Jónsdóttir heimtar að fá að koma að ríkisstjórn og það vita allir að það er ávísun á deilur og samstarfsörðugleika, helst fyrir opnun tjöldum svo Birgitta fái sem mest af sviðsljósinu með sínum hótunum og skömmum, með smá skvettu af baktjaldamakki. Vinstristjórnin gæti því orðið eins og snarpt eldgos sem hristist í skamman tíma, springur og fer aftur í dvala. Og þá er hægt að kjósa aftur og leysa úr þessari óreiðu á Alþingi. 


mbl.is Píratar vilja taka ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir vilja bara vera í stjórnarandstöðu

Grumpy Old MenMargir þingmenn kunna best við sig í stjórnarandstöðu. Fyrir því eru margar ástæður.

Ein er sú að stjórnarandstaðan, sé hún til vinstri, fær mikla athygli fjölmiðla og á greiðan aðgang að t.d. öllu hjá RÚV en einnig öðrum miðlum. Margir kunna vel við sig í sviðsljósinu og eru minna hrifnir af þessari leiðinlegu pappírsvinnu sem þarf að vinna í einrúmi þegar búið er að slökkva á hljóðnemunum. 

Önnur ástæða er sú að stjórnarandstaðan fær sjaldan að finna fyrir afleiðingum orða sinna og gjörða. Hún er jú bara stjórnarandstaða sem reynir að benda sitjandi ríkisstjórn á ljósið. Fari eitthvað úrskeiðis getur það ekki verið stjórnarandstöðunni að kenna. Margir kunna vel við þetta fyrirkomulag - að geta masað og masað en þurfa aldrei að bera ábyrgð á neinu. 

Í þriðja lagi er alltaf hægt að vera ósáttur við eitthvað í stjórnarandstöðunni. Skattar eru of lágir, útgjöld til gæluverkefna of lítil og innlimun í Evrópusambandið of hægfara. Stjórnvöld eru spillt, hreinu og óflekkuðu sálir stjórnarandstöðunnar fá aldrei orðið, framkvæmdavaldið kúgar þingið og svona má lengi telja. "Grumpy old men" líður best þegar þeir fá að tuða og nöldra og þurfa aldrei að stinga upp á raunhæfum lausnum. 

Ég legg til að þeim sem líður best í stjórnarandstöðu játi einfaldlega þessa tilfinningu sína og um leið að þeir hafi engan áhuga á að koma að stjórnarsáttmála sem þarf í raun og veru að leggja undir kjósendur í næstu kosningum. 


mbl.is Eiga ekki samleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrið og lýðræðið

Vinstrimenn virðast því miður hafa takmarkaða þolinmæði fyrir lýðræði. Þetta kom fram eftir Alþingiskosningarnar í október og eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Þeir sótbölva kjósendum fyrir að hafa ekki kosið eftir þeirra höfði. Það liggur við að þeir sýni hreina mannfyrirlitningu.

Allir flokkar eiga eitthvað sameiginlegt með öllum öðrum. Í mínum huga er t.d. sterkur vilji meðal allra flokka að viðhalda á Íslandi sovésku fyrirkomulagi í bæði menntun og heilbrigðisþjónustu þótt sumir flokkar séu opnari en aðrir fyrir því að einkaaðilar fái eitthvað svigrúm (t.d. hefur enginn talað fyrir því að þjóðnýta heilbrigðisþjónustu sjóndapra). Allir flokkar vilja líka ríkiseinokun á vegakerfinu sem meginstefið.

Vinstrinu svíður það sárt að kjósendur hafi ekki veitt þeim brautargengi. Ég held að því væri samt hollt að reyna fela mannfyrirlitningu sína því annars bítur hún það í rassinn í næstu kosningum. 


mbl.is Furðar sig á Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gera lítið og gera það vel

Þrír flokkar ætla að láta reyna á stjórnarmyndunarviðræður. Gott og vel, annað eins hefur gerst. Ég legg til eftirfarandi dagskrá.

Gefa ESB-flokkunum sínar kannanir, viðræður og kosningar

ESB-flokkarnir vilja að Ísland gangi í ESB. Þeir vilja samt ekki segja það upphátt. Þeir vilja að þjóðin fái að velja, að pakkann þurfi að skoða, að samræður við ESB þurfi að eiga sér stað. Gott og vel - það má láta á eftir öllu þessu. Að lokum kemur samt raunveruleikinn í ljós - ESB er sökkvandi skip og Íslendingar hafa engan áhuga á að stökkva á það.

Lækka skatta

Skattar eru of háir. Jaðarskattar eru sérstaklega of háir. Samspil bóta og skatta er þannig skrúfað saman að það borgar sig varla fyrir nokkurn mann að bæta við tekjur sínar. Þessu þarf að breyta.

Ríkisvaldið sem rekstraraðili

Ríkið er að vasast í rekstri á alltof mörgum fyrirtækjum. Hver einasta fækkun hér er til bóta. Kannski þarf að kaupa slíkt af samstarfsflokkum með því að lofa enn einni nefndinni eða skoðanakönnun um aðild að ESB, en þá það. 

Skuldirnar

Ríkið þarf að losa sig við skuldir sínar og ekki bara það heldur líka loka á tækifæri í framtíðinni til að skuldsetja ríkið. Næsta vinstristjórn, hvenær sem hún tekur við, á eftir að reyna sökkva Íslandi aftur í umhverfi skulda- og skattahækkana. Það þarf að reyna girða fyrir það. Meira að segja Katrín Jakobsdóttir hlýtur að skilja að skuldsetning í dag er dragbítur á morgun. Hún rekur a.m.k. eigin flokk með það að leiðarljósi.

Annars liggur svo sem ekkert á að stofna ríkisstjórn að mínu mati. Það má kannski draga það á langinn fram yfir áramót?


mbl.is Byrjað á sáttmála um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar í vor 2017?

Ég sé fyrir mér að Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð geti náð saman um myndun ríkisstjórnar. Ég sé líka fyrir mér að hún starfi ekki lengur en til næsta vors og að þá verði kosið aftur.

Það þarf fyrr eða síðar að rétta kjörtímabilið af og koma upphafi þess á vormánuði aftur. Hví ekki að ljúka því af? Þessar haustkosningar voru algjör della og spruttu af þörf lítils en háværs hóps til að hefna fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi eins manns. Vinstrimenn vonuðu svo að þeir gætu riðið á reiðibylgjunni inn í Stjórnarráðið og hafið skattahækkanir á tveggja vikna fresti að hætti Steingríms J.

4 mánaða þing, kosningar í maí 2017 og skýrari línur. 


mbl.is Viðreisn „meira spurningarmerki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málamyndastjórn til vors - kjósa aftur

Bjarni Benediktsson er búinn að berja höfðinu í stein undanfarna daga og hefur komist að því að enginn hefur áhuga á skattalækkunum, niðurgreiðslu ríkisskulda og hægfara en stöðugum framförum. Allir flokkar eru með einhver gæluverkefni og ekki hægt að setja þrjá eða fleiri undir sömu regnhlíf nema lenda í gæluverkefnum sem stangast á.

Hann talar því um að skila stjórnarmyndunarumboði sínu.

Í stað þess að sjá fram á vinstristjórn sem verður ekki sammála um neitt innbyrgðis annað en að hækka skatta ætti Bjarni að reyna ná saman málamyndastjórn sem starfar til næsta vors og boða þá til annarra kosninga. 

Þannig væri hægt að samþykkja fjárlögin og losna við tolla af öllu nema matvælum.

Þannig væri hægt að rýmka enn frekar gjaldeyrishöftin.

Þannig væri hægt að leyfa fólki að halda jól án þess að óttast hvað tekur við eftir áramót.

Má ekki smala saman nokkrum þingmönnum sem mynda ríkisstjórn sem ákveður í raun ekki neitt fram til næsta vors? 


mbl.is Bjarni gæti skilað umboðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Clinton sýnir auðmýkt

Hillary Clinton virðist ekki ætla að bergmála orð margra stuðningsmanna sinna og bölva bandarískum kjósendum og bandarískum almenningi. Það er líka mín tilfinning að þeir sem bölva niðurstöðun kosninganna hafi aldrei verið neitt voðalega hrifnir af Bandaríkjunum til að byrja með. Kjör Donald Trump var bara enn ein ástæðan fyrir þessa eintaklinga til að lýsa yfir fyrirlitningu á Bandaríkjunum.

Hillary Clinton sýnir auðmýkt og þroska og tekur niðurstöðunum eins og þær eru. Fyrir það má hrósa henni. 


mbl.is „Sársaukafullt og verður það lengi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott og slæmt

Donald Trump er réttkjörinn forseti Bandaríkjanna og við því má segja margt.

Sumt er gott. Hann hefur lýst því yfir að hann ætli að draga bandaríska hermenn heim frá vígvöllum og herstöðvum víða um heim. Heimsvaldsstefna Bandaríkjanna hefur skapað mikinn titring í mörgum heimshlutum. Núna vill Trump hætta að reka alheimslögreglu og einbeita sér að landamærum Bandaríkjanna. Að vísu er þá hætt við að önnur ríki þurfi í staðinn að sjá um eigin varnir en sjáum hvað setur - kannski er hægt að halda í bandalögin án þess að hermenn séu með bækistöðvar út um allan heim. Það er orðið auðveldara nú en áður að senda hermenn af stað yfir langar vegalengdir þótt þeir séu með bækistöðvar í heimaríkinu. Rússland óttast ekki nokkur þúsund hermenn í Þýskalandi heldur vopnabúrið í sjálfum Bandaríkjunum. 

Annað er slæmt. Hann ætlar að setja upp viðskiptahindranir. Á þeim hefur aldrei neinn orðið ríkur nema tilheyra litlum hagsmunahópum sem fá að auðgast tímabundið á kostnað annarra. Þær skapa líka titring eða þar til viðskiptaaðilar Bandaríkjanna hafa fundið sér nýja markaði. Bandaríkin eru rekin á peningaprentvélunum og það er bara spurning um tíma hvenær Kína og önnur ríki hætta að taka við verðlitlum pappírsseðlum og krefjast alvörupeninga fyrir varning sinn. Trump flýtir þessu óumflýjanlega ferli.

Hagfræði Trump er ekki upp á marga fiska en hann brennur fyrir að Bandaríkin nái sér á strik aftur. Þetta er ósamkvæm blanda en hver niðurstaðan verður á eftir að koma í ljós.

Fyrst og fremst var kjör Trump eitt stórt "fokk jú" við sjálfumglöðu stjórnmálaelítu Bandaríkjanna og barnalega stuðningsmenn hennar í Evrópu.


mbl.is Donald Trump kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að hlusta á opinbera starfsmenn?

Kennarar, hjúkrunarfræðingar, læknar og aðrir opinberir starfsmenn eru algengir gestir fjölmiðla. Þessar stéttir kvarta undan miklu álagi, skriffinnsku og allskyns gæðakröfum sem er velt ofan á þá en eiga ekki að bitna á neinu. Um leið eru laun þessa fólks fyrst og fremst háð starfsaldri og fjölda prófskírteina. 

Það mætti halda að atvinnurekendur þessa fólks séu ekki að hlusta og ég spyr mig bara: Hvers vegna ættu þeir að hlusta?

Opinberir starfsmenn eru búnir að velja sér starfsframa þar sem einn og bara einn atvinnuveitandi er í boði. Er skrýtið að traðkað sé á þessu fólki?

Hjúkrunarfræðingur getur vissulega hætt og farið að vinna sem vel borguð flugfreyja enda eru óteljandi dæmi um slíkt.

Kennari getur alveg hætt og fundið sér vinnu við eitthvað annað, t.d. sem leiðsögumaður.

Læknirinn getur alveg söðlað um og fundið sér vinnu sem fasteignasali. 

Þetta fólk er hins vegar búið að sækja sér menntun, reynslu, þjálfun og þekkingu til að sinna starfi sem því finnst gefandi.

Atvinnurekandinn veit þetta og tekur því bara mátulega tillit til kröfugerða þess.

Til hvers að hlusta á opinbera starfsmenn? Ástæðurnar eru fáar.

Einkavæðum mennta- og heilbrigðiskerfið og leysum krafta þessa fólks úr læðingi. 


mbl.is „Þetta gengur ekkert upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðstýrð ríkiseinokun í vandræðum - kemur það einhverjum á óvart?

Það er kominn tími til að stokka upp allt skólakerfið á Íslandi og þá sérstaklega grunnskólakerfið.

Látum greiðslufyrirkomulagið aðeins eiga sig. Það virðist vera almenn sátt um að borga háa skatta til að fjármagna grunnskólamenntun. Fólk telur það hafa marga kosti í för með sér. Gott og vel, látum þá heimsmynd eiga sig.

En af hverju þarf hið opinbera (hér: sveitarfélögin) að reka skóla? 

Af hverju þarf hið opinbera að skipta sér af því hvað er kennt í skóla fyrir utan almennar viðmiðanir um að krakkar læri að lesa, skrifa, reikna og kynnast aðeins tungumálanámi og náttúruvísindum?

Það er kominn tími til að skera hérna aðeins á tengslin. Það er eitt að hið opinbera innheimti skatta til að standa undir grunnskólamenntun. Að það sé líka að vasast í rekstrinum og námsskránni er allt annað.

Hið opinbera ætti að draga sig algjörlega út úr rekstri grunnskóla með öllu sem því fylgir: Kjarasamningar, viðhald, þrif, stefnumótun, mætingartímar, námsskrá og hvaðeina. 

Því hvað gerist þá?

  • Skólarnir þurfa að keppa um það fjármagn sem fylgir kennslu barna (í kennslu, kostnaði, umgjörð og kennslu)
  • Kjaradeilur heyra sögunni til. Skólarnir verða sjálfstæðar rekstrareiningar sem sjá um að ráða og reka eftir þörfum
  • Kennarar fá faglegt frelsi
  • Skólar fá aukið svigrúm til að prófa nýjar kennsluaðferðir
  • Skólar hætta að vera pólitískt bitbein og starfsmenn sveitarfélaga geta hugað að öðru

Einkavæðum skólana, þar sem fyrsta skrefið er aðskilnaður fjármögnunar og reksturs.


mbl.is „Nýir kennarar fást ekki til starfa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband