Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Jón Gnarr og borgarstjórinn

Jón Gnarr, sem er snillingur vel á minnst, segir að karlar komist upp með ótrúlegustu hluti og að samfélagið sé fullt af ósnertanlegum körlum sem geta ekki neitt.

Hann ætti að þekkja það. Sem borgarstjóri hleypti hann úlfunum af stað. Borgin hefur ekki enn jafnað sig á þeirri feigðarför. Skattgreiðendur hafa fengið að finna rækilega fyrir því fólki sem Jón Gnarr kom í borgarstjórn. Þeir fá að borga. Það sem verra er að skattgreiðendur eru ekki að fá mikið fyrir sinn snúð. Stjórn borgarinnar einkennist af daðri við gæluverkefni fámenns hóps. Götur, innviðir, leikskólar og hreinlæti situr á hakanum (svo fátt eitt sé nefnt). Reynt er að fela slæma skuldastöðu. Sköttum ef haldið í hæstu löglegu hæðum. Fáir leggja í að byggja húsnæði sem mikil eftirspurn er eftir eða hreinlega fá það ekki.

Jón Gnarr er einn af þessum ósnertanlegu körlum sem komast upp með að geta ekki neitt, a.m.k. sem stjórnmálamenn. Hann getur skrifað handrit, leikið, framleitt, komið fram, samið góða brandara, sett sig í hlutverk, hrifið fólk með sér, rekið fjölskyldu, verið frumlegur og komið vel fram. Sem stjórnmálamaður var hann hins vegar karl sem gat ekki neitt og var ósnertanlegur.

Það er hætt við að í þáttum hans um borgarstjórann sé hann að segja drungalega mikið og rétt frá sínum daglega veruleika sem maður sem fór illa með 100 þúsund Reykvíkinga og fannst það bara allt í lagi. 


mbl.is Með hnút í maganum yfir svona körlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar ERU ofbeldi

Einhver umræða á sér nú stað um skatta og hvort þeir eru ofbeldi eða ekki.

Auðvitað eru þeir ofbeldi. Það liggur fyrir. Þeir sem greiða ekki skatta eru sviptir frelsi eða eignir þeirra teknar af þeim. Hér er enginn eðlismunur á háttarlagi vopnaðs þjófs og ríkisvaldsins, bara stigsmunur. Þetta gefur augaleið. Ef skattar væru ekki ofbeldi þyrfti ekki sérstakt orð fyrir þá - skatta - heldur væri hægt að tala um áskriftargjöld, frjáls framlög, afnotagjöld eða eitthvað annað. Menn gætu þá valið að greiða enga skatta en þyrftu þá að greiða fullt verð jafnóðum fyrir afnot sín af t.d. vegum og skólum. 

Menn geta hins vegar deilt um það hvort ákveðið magn ofbeldis sé ekki nauðsynlegt til að starfrækja ríkisvald sem á að sjá um að allt gangi vel fyrir sig. Ríkið starfrækir jú allskyns rekstur og þjónustu sem við viljum hafa aðgang að með einum eða öðrum hætti en flestir virðast vilja að ríkiseinokun sjái um að veita fyrir ærinn tilkostnað. Á Íslandi vasast ríkið líka í ýmsu sem er ekkert sjálfgefið að ríkisvaldið sem fyrirbæri vasist í, en fyrir slíku þarf að vera pólitískur stuðningur. 

Magn ofbeldis með notkun skatta er sem sagt spurning um pólitískar málamiðlanir, en ekki spurning um það hvort skattar eru ofbeldi eða ekki.

Vinstrimenn vilja mikið ofbeldi. Frjálshyggjumenn vilja lítið ofbeldi. 


Af hverju verja sjómenn ekki útgerðina?

Nú ætla ég að fullyrða svolítið án þess að hafa allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir hendi:

Sjómenn eru duglegir að hirða launin sín en gleyma því oft af hverju þau eru svona góð.

Lof mér að útskýra.

Ein háværasta umræða seinni tíma á Íslandi er um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er einfaldlega tölfræðileg staðreynd að kerfið á Íslandi er eitt það ábatasamasta í heimi og fyrir því eru ástæður. Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum og keyptar af hæfum rekstraraðilum sem kunna að nýta þær til að hámarka verðmæti aflans. Þær má veðsetja eins og um eign væri að ræða eins og verktakinn getur veðsett gröfuna sína og húseigandinn veðsetur hús sitt þegar fjárfestinga er þörf. 

Útgerðarfyrirtækin eru framsækin á mörkuðum og sífellt að leita leiða til að hagræða og gera það af því ávinningurinn er hagnaður í vasa eigenda þeirra. Hvatinn til að gera betur er alltaf til staðar.

Útgerðarfyrirtækin geta fyrir vikið borgað starfsmönnum sínum vel. Aflinn er sóttur þegar verð fyrir hann er hátt og sjómenn njóta þess. Þeir þurfa ekki sjálfir að fylgjast með fiskitorfum og kílóverði á þorskflökum í Kína. Þeir þurfa ekki að vega og meta hvaða skip á að senda á hvaða mið og hvenær, hvert á að sigla aflanum og á hvaða markað á að senda hann. Nei, sjómenn fá vaktina sína, fara á skipið, vinna erfiða vinnu í nokkrar vikur og sækja svo milljón eða tvær á skrifstofu útgerðarfélagsins við heimkomu.

En sjómenn verja aldrei fiskveiðistjórnunarkerfið, a.m.k. ekki á mjög áberandi hátt. Það er eins og þeir taki því sem sjálfsögðum hlut. Kannski trúa þeir því ekki að snyrtilega klæddir þingmenn á suðvestuhorni landsins muni kippa stoðunum undan lífsviðurværi þeirra. Hver veit. Það væri veruleikafirring því á Alþingi er fullt af fólki sem langar að sjúga hvern blóðdropa úr útgerðinni og ofan í ríkissjóð. 

Nú er gengi krónunnar hátt og það bitnar á tekjum útgerðar og launum sjómanna. Nú er hætt við að einhverjir þeirra kvarti. Núna taka þeir eftir því að það sem á sér stað í dag er ekki endilega staðan á morgun. Hvað ætla þeir þá að segja? Og við hvern?

Ríkisvaldið er nógu ósvífið til að mjólka útgerðina þegar vel gengur en lætur hana svo alveg eiga sig þegar eitthvað bjátar á. Þetta er velferðarkerfi fyrir hið opinbera á kostnað þeirra sem afla verðmætanna. 

Það væri óskandi að innan hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfis heims væru fleiri málsvarar meðal sjómanna. En þess í stað eru margir kannski bara að bíða eftir næsta byggðakvóta og vona að sjávarútvegsráðherra sé úr réttu kjördæmi. 


mbl.is „Rækjusjómenn eru að fá tvöfalt högg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinast um hvað?

Flóknar stjórnarmyndunarviðræður eru í gangi. Margir flokkar eru í einhvers konar lykilstöðu og standa tilbúnir með gæluverkefnin sín til að leggja þau á borðið ef og þegar til formlegra viðræðna kemur.

Margir vilja t.d. sparka í sjávarútveginn og sjúga úr honum allan arð ofan í ríkissjóð. 

Aðrir biðja feimnislega um að ESB sé áfram skoðað sem valkostur. Með öðrum orðum: Hvort Ísland eigi ekki að stökkva á hið sökkvandi skip á meðan enn er eftir einhverju að slægjast þar.

Svo eru það þeir sem vilja styrkja ríkiseinokunina í heilbrigðis- og menntakerfinu í sessi með enn meiri fjárútlátum úr vösum skattgreiðenda. Er þetta fólk sem fer í Bónus og biður um minna úrval og hærra verð? Það er aldrei hægt að sameinast um neitt annað við vinstrimann en að hækka skatta. 

En auðvitað þarf að gera málamiðlanir í svona stöðu. Það blasir við. Besta málamiðlunin væri hins vegar sú að halda öllu eins og það er, óbreyttu, og gefa almenningi smá svigrúm til að njóta uppsveiflunnar sem er vægast sagt brothætt enda stutt í næstu alþjóðlegu fjármálakreppu sem þurrkar upp ferðamannaiðnað Íslands. 


mbl.is Líst betur á VG og Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta blasti við en gott að fá staðfest

Það blasti við að stærsti flokkurinn á þingi fengi umboð til að mynda stjórn. Yfirleitt væri engin þörf á sérstöku umboði forseta en í þessu tilviki er það sennilega til þess fallið að færa einbeitingu fólks á annað en að reyna púsla saman gjörólíkum vinstriflokkum í eina heild.

Vonandi mun næsta ríkisstjórn hafa minnkandi ríkisafskipti efst á dagskrá og gefa þannig hagkerfinu og samfélaginu kleift að ná andanum og finna lausnir og sátt þar sem ríkiseinokun býr bara til vandamál og deilur. 

Og nei, ég er þá ekki að meina að ríkisstjórnin eigi að sparka sjávarútveginn niður með einhverju kjánalegu uppboði á atvinnutækjum hans. Slíkt hefur verið reynt í öðrum ríkjum og leitt af sér fjöldagjaldþrot og yfirskuldsetta útgerð. 


mbl.is Bjarni Benediktsson fær umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formennirnir finna út úr þessu sjálfir

Það stefnir í að forseti Íslands ætli að láta flækja sig í einhvers konar valkvíða. Það er skiljanlegt. Eins geðþekkur og ágætur og maðurinn er þá hefur hann ekki beinlínis haft góða upplifun af því að taka ákvörðun. Í kosningabaráttunni eyddi hann miklum tíma í að tala um hvað aðrir hefðu misskilið hann og hvað hann hefði í raun átt við með hinum og þessum ummælum. Varla vill hann byrja forsetaferil sinn á því að taka einhverja umdeilda ákvörðun, er það?

Það stefnir í að formenn þriggja flokka ætli að ná saman um myndun ríkisstjórnar, sem yrði þá samsett úr Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð. Þetta er að mínu mati algjör draumastjórn miðað við kosninganiðurstöðurnar. Þetta yrði - með orðum Stundarinnar - hægrisinnaðasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar, sem er auðvitað alveg frábært. 

Slík stjórn verður ekki lengi að standa við afnám tolla um áramótin og fyrirhugaðar skattalækkanir. Hún yrði líka að byrja endurskoða aðkomu ríkisins að allskonar rekstri sem það flækist fyrir í dag, svo sem á heilbrigðisstofnunum og skólum, vegum og fjölmiðlafyrirtækjum. Hún þarf að innleiða markaðsaðhald og samkeppni þar sem í dag er ríkiseinokun og stöðnun. Hún verður vonandi ekki í neinum vandræðum með að gera áætlanir um frelsun landbúnaðarins úr klóm hins opinbera og stuðla þannig að því að bændur verði sjálfstæðir atvinnurekendur en ekki leiguliðar og ölmusaþegar hjá hinu opinbera. Ísland gæti haldið áfram að gera fríverslunarsamninga við umheiminn. 

Og drífur sig svo vonandi í að gefa áfengissölu frjálsa á Íslandi (til allra eldri en 18 ára). 

Sjáum hvað setur en það stefnir í að úr því sem komið var þá verði niðurstaðan þolanleg. 


mbl.is Forsetinn ræddi við Benedikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband