Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016

Ríkisvaldið sem öllu ræður

Sú helgistaða sem ríkisvaldið hefur í hugum margra er eilíf uppspretta vandræða og átaka. 

Hún er vinsæl sú skoðun að telja það sem er löglegt um leið það sem er siðlegt. Það sem ríkisvaldið bannar verður ósiðlegt. Það sem ríkisvaldið leyfir er siðlegt.

Þannig er til dæmis áfengi löglegt og því telja margir vera óhætt að neyta þess. Fíkniefni eru hins vegar ólögleg og þar með forðast margir neyslu þeirra og sýna þeim sem velja öðruvísi lítið umburðarlyndi.

Í mörgum löndum setur ríkisvaldið sig ekki upp á móti samkynhneigð og leyfir samkynhneigðum að gera það sama og gagnkynhneigðir. Í öðrum ekki. Fólk leitar til ríkisvaldsins til að úrskurða um það hvað má og hvað má ekki. Sá sem brýtur boðorð hins opinbera verður glæpamaður og má svipta frelsi.

Þessu væri öðruvísi farið ef ríkisvaldið væri afstöðulaust gagnvart fleiri málum. Ríkisvaldið hefði hreinlega engin lög sem fjalla um samkynhneigð, svo dæmi sé tekið. Ættleiðingar samkynhneigðra væru þá bara spurning um samkomulag milli ættleiðingarstofa og þeirra sem vilja ættleiða. Enginn þyrfti að herja á þingmenn til að breyta lögum eða skrifa sérstaklega inn í lögin að samkynhneigðir njóti hér sömu réttinda og aðrir. Engin slík lög væri að finna!

Fólk gæti ekki haldið mótmæli fyrir utan þinghús. Slík mótmæli yrðu að dreifast þunnt fyrir utan dyr allra ættleiðingarstofa sem bjóða samkynhneigða velkomna.

Allskyns vandræði minnihlutahópa, trúarhópa og lífsstílshópa stafa af því að ríkisvaldið tekur sérstaka afstöðu í málum þeim tengdum. Afstöðuleysi hins opinbera er mun friðsælli lausn en barningur í þinghúsum.  


mbl.is Mótmæltu réttindum samkynhneigðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fríhafnir eru tákngervingur of hárra skatta og mismununar

Þar sem fríhafnir veita viðskiptavinum mikinn ávinning miðað við að versla úti í bæ eru þær tákngervingur mismununar og þess að skattar eru of háir í viðkomandi landi.

Nú get ég - ótrúlegt en satt - tekið Danmörku sem dæmi um andstæðu við Ísland þegar lítur að þessu. Áfengi og sælgæti er ekki ódýrara í dönskum fríhöfnum en utan þeirra. Stundum er það jafnvel töluvert dýrara. Það sem munar helst um er tóbakið og e.t.v. eitthvað af snyrtivörunum. Danir versla lítið í fríhöfnum Danmerkur. Hér eru skattar háir, en svipað háir innan og utan flugvallanna.

(Það sem vörurnar á flugvöllunum hafa e.t.v. umfram þær utan flugvallanna eru umbúðirnar og magnið í þeim, t.d. lítersflöskurnar af sterkum vodka sem eru sjaldséðar utan flugvallanna.)

Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Íslendingar á leið inn í landið eru jafnan klyfjaðir með áfengi og sígarettum enda að spara stórar fúlgur miðað við að kaupa sömu vörur utan flugvallarins. Innan flugvallarins eru gleraugna- og lopapeysusalar í beinni og ósanngjarnri samkeppni við aðila utan flugvallarins. 

Svona má líka þekkja Norðmenn á dönskum flugvöllum. Það eru þeir með troðfullu innkaupapokana af áfengi og tóbaki. 

Auðvitað er alveg sjálfsagt að ferðalangar geti verslað eins og aðrir. Það er hins vegar ósanngjarnt að þotuliðið - oft vel stætt fólk að ferðast á kostnað annarra - sitji eitt að ódýrum vodka og hóflega verðlögðum Marlboro-sígarettum á meðan láglaunafólkið sem getur lítið ferðast þarf að borga ofan í ríkishítina. 


mbl.is Einkarekstur fríhafnar skynsamlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi frjálshyggjumanna

Frjálshyggjumenn eiga oftar en ekki við mikinn vanda að etja þegar kemur að því að reyna hafa áhrif á stjórnmálin. Vandinn kemur fram í mörgum þáttum.

Stjórnmálaflokkar

Stjórnmálaflokkar eru þeir sem velja menn sem fara á framboðslista og enda á Alþingi. Þátttaka í þeim er um leið þátttaka í starfsemi ríkisvaldsins, beint eða óbeint. Frjálshyggjumenn vilja ekkert eða sem minnst ríkisvald. Þeir hafa yfirleitt áhuga á einhverju öðru en starfi stjórnmálamannsins. Þátttaka þeirra í starfsemi ríkisvaldsins með það að markmiði að hafa áhrif er eins og þátttaka grænmetisætunnar í samtökum grísakjötsframleiðenda. Grænmetisætan ætlar sér að vinna að minnkandi framleiðslu grísakjöts og helst algjörri eyðingu hennar en ekki auknum framgangi hennar. Hún starfar með grísakjötsframleiðendum með óbragð í munni en sér ekki aðrar leiðir færar til að berjast fyrir málstað sínum.

Hagsmunir

Hagsmunir ríkisvaldsins eru aðrir en hagsmunir frjálshyggjumanna og raunar almennings. Hjá ríkisvaldinu starfar fólk á föstum launum sem hefur persónulegan hag af því að ríkisvaldið hafi sem mest að gera og að áhrif þess séu sem mest. Þetta fólk hefur aðgang að skattfé almennings og öllum áróðursvélum hins opinbera, er oftar en ekki með greiðan aðgang að fjölmiðlum og mikil ítök í skoðanamyndun kjósenda. Frjálshyggjumenn þurfa að eiga við þetta ofurefli í eigin frítíma, við hlið dagvinnu sinnar, og nota til þess mjóa rödd sem fær sjaldan áheyrn. 

Skattgreiðandinn sem missir 100 krónur á mánuði úr veski sínu vegna einhverrar starfsemi hins opinbera spáir lítið í því. Sá sem tekur við þessari fjárhæð og annarri eins frá öllum öðrum skattgreiðendum hefur milljónir að verja fyrir niðurskurði. Hans hagsmunir snúast um lífsviðurværið. Skattgreiðandinn má sín lítils þegar hann reynir að verja 100 kr. sparnað fyrir sjálfan sig.

Völdin

Þeir sem kjósendur kjósa til valda eru komnir í góða stöðu því fyrir utan fríðindin, utanlandsferðirnar og eftirlaunin eru þeir með völd. Þeir geta hrint hugmyndum sínum í framkvæmd og eru varðir af stjórnarskrá fyrir nokkrum afskiptum af þeim hugmyndum. Að kjósa stjórnmálaflokk er því að kjósa fólk til valda og völd eru lokkandi fyrir marga. Frambjóðandi sem lofar því að minnka ríkisvaldið og lækka skatta er kominn í einkennilega stöðu þegar hann er kominn á þing því hann gæti verið að grafa undan eigin stöðu og völdum. Fæstir þingmenn standast þá freistingu að styrkja völd sín. Frambjóðandinn og þingmaðurinn eru oft tvær fullkomlega ólíkar manneskjur.

Kosningar

Með því að kjósa er verið að veita stuðning við það fyrirkomulag að sumir eigi að ráða öðrum hvort sem manni líkar betur eða verr. Með því að sleppa því er verið að afhenta þennan stuðning til annarra - þeirra sem í raun vilja að sumir ráði yfir öðrum, þar á meðal þeim sem vilja ekki að sumir ráði yfir öðrum. Sumir frjálshyggjumenn velja að kjósa ekki og af góðum og gildum ástæðum. Aðrir kjósa því þeir telja það vera það illskásta í stöðunni. 

Sjálfur hef ég ekki tekið virkan þátt í stjórnmálaflokkum og kýs sjaldan. Stjórnmál eru hins vegar fyrirferðarmikið hugðarefni hjá mér. Ég er að þessu leyti tvískiptur persónuleiki.

Megi sem flestar frjálshyggjumenn berjast fyrir góðum sætum á framboðslistum í næstu kosningum og í sem flestum flokkum svo ég sjái tilganginn í að kjósa og geti síðan látið rödd mína heyrast í þeirra eyru eftir að á þing er komið!


mbl.is Deilir ekki áhyggjum Birgittu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að auka verðmæti ríkiseigna?

Borgunarmálið svokallaða er kristalskýrt dæmi um glapræðið sem felst í eignarhaldi ríkisvaldsins. Í slíku eignarhaldi blandast saman klíkuskapur, rekstrarfræðilegar forsendur, afskipti stjórnmálamanna sem hafa aldrei stundað viðskipti og auðvitað almenningsálitið stórkostlega.

Í allri umræðunni um þetta mál er spáð mikið í það hvað ríkisvaldið á eða er að fara á mis við. 

Í því samhengi er hollt að hafa eitt í huga: Eignir sem ríkisvaldið selur verða umsvifalaust verðmætari. Þetta er engin töfraformúla. Um leið og eignir losna úr klóm ríkisvaldsins byrja þær að lúta venjulegum markaðslögmálum þar sem eini mælikvarðinn (með örfáum undantekningum) er verðmætasköpun þeirra fyrir eigendurna. Þær hætta að verða pólitísk bitbein. Það út af fyrir sig eykur verðmæti eignar. 

En getur ríkisvaldið ekki selt eignir og gert ráð fyrir að fá hátt verð út á vitneskju verðandi eigenda um að eignin verður þeirra og laus undan pólitískum afskiptum? Jú, að hluta til, en þá kemur að öðru: Enginn getur séð inn í framtíðina og séð fyrir þau tækifæri sem frjáls eign getur boðið upp á. Spádómsgáfan getur þess vegna verið á hinn bóginn - að ríkiseign sé keypt á háu verði og reynist síðan vera án verðmætaskapandi eiginleika. Þannig mætti ímynda sér að ef Reykjavíkurborg seldi bókasöfn sín þá myndu þau heyra sögunni til örfáum misserum seinna á sama hátt og Blockbuster-keðjan varð að sögulegum minjum á örfáum misserum, nú eða Kodak-fyrirtækið eins og frægt er orðið. Þessi óvissa sem myndast þegar eign fer úr vernduðu umhverfi opinbers eignarhalds og inn í óvissan raunveruleikann kostar. 

Landsbanki Íslands er líklega verðminni í dag en daginn eftir að hann verður seldur þegar að því kemur - að stórum hluta til af þeirri ástæðu að hann er ríkiseign. 


mbl.is Borgunarsalan „augljóst klúður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af nægu að taka í ríkisrekstrinum en ...

Aukin framlög úr vösum skattgreiðenda eru ekki lausnin á vanda heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Þótt þau yrðu tvöfölduð þá væri kerfið fljótt að taka upp hið mikla fjármagn og fara út í rangar fjárfestingar. Hvatarnir í hinu opinbera kerfi eru einfaldlega allt aðrir.

Hvað segðu menn ef Bónus hækkaði vöruverð sitt um 3% og bæri við fjárskorti? Myndu viðskiptavinir Bónus sýna slíku hollustu eða hlaupa til samkeppnisaðilanna? Sennilega hlaupa þeir til samkeppnisaðilanna sem geta boðið sama úrval, sömu þjónustu og sömu þægilegu innkauparammana en fyrir lægra verð.

Ekkert slíkt aðhald finnst í hinu opinbera kerfi. Þar ríkir einokun - eitthvað sem menn þykjast sjá merki um úti um allt er en fyrst og fremst einkenni opinbers reksturs. 

Hitt er rétt að af nægu er að taka í ríkisrekstrinum sem mætti nýta í eitthvað annað. Íslendingar niðurgreiða til dæmis afþreyingu og svínakjöt en af hvoru tveggja er nægt framboð frá öllum heimshornum og því einkennilegt að íslenskir skattgreiðendur þurfi að standa undir slíkri framleiðslu. 


mbl.is Á að bora göt eða hlúa að fólki?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðstýring - ekki fjármögnun - er vandamálið

Það er enginn vandi að fá meira fé inn í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það þarf bara að innleiða hið norræna módel í heilsbrigðisþjónustu og yfirgefa það sovéska sem nú viðgengst. 

Hið norræna módel er samhliða rekstur opinbers kerfis og einkarekinna stofnana/fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu. Hið opinbera kerfi er þá svipað því á Íslandi: Greitt með skattfé og uppfyllir ákveðnar lögbundnar skyldur (en er alveg gríðarlega óhagkvæmt). Við hlið þess er svo einkarekið kerfi: Einkaaðilar sem bjóða upp á fjölbreytta þjónustu og meðhöndlun á ýmsum kvillum. Oftar en ekki eru þeir með samning við hið opinbera og uppfylla kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustu. Fyrirtæki og einstaklingar tryggja sig gjarnan sérstaklega til að komast að hjá þeim. Fjölbreytnin er mikil. 

Einkaaðilar létta á álaginu á hið opinbera kerfi. Það er því ekki hægt að tala um eina röð í meðhöndlun sem sumir geta borgað sig fram fyrir, heldur tvær raðir sem eru þá báðar styttri en ef bara væri um eina röð að ræða.

Ef Íslendingar vilja líta til Norðurlandanna eftir fordæmum þá breyta þeir lögum og reglum og skattkerfi þannig að svigrúm fyrir stóraukinn einkarekstur myndist. Þá þarf ekki lengur að ræða hina einu réttu upphæð sem þarf að koma úr vösum skattgreiðenda því tvenns konar upphæðir verða til: Þá sem skattgreiðendur leggja til og síðan allt hitt. 

Á Íslandi geta sjóndaprir baðað sig í samkeppni um hagstæðustu kjörin fyrir nýjustu tækni. Hið sama gildir um þá sem vilja stækka á sér brjóstin eða sprauta í varirnar á sér. Megi sem flestir sem vilja leita til læknis á Íslandi njóta sama úrvals og sömu fjölbreyttni! 


mbl.is Segir gagnrýni byggja á hvatvísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískur rétttrúnaður og hugmynd að málamiðlun

Pólitískur rétttrúnaður virðist fá sínu framgengt nánast hvar sem hann stígur niður fæti. Á næsta ári munu sennilega rauðhærðir krefjast fleiri Óskarsverðlauna. Asíubúar ættu líka að kvarta - af hverju hefur Jackie Chan ekki hlotið Óskarinn ennþá? Listinn er endalaus. Á endanum verður ekkert eftir af upprunalega Óskarnum - þess sem verðlaunar afrek á sviði kvikmyndagerðar. 

Ég er samt með málamiðlunartillögu: Að Samuel L. Jackson verði tilnefndur til Óskarsverðlauna á hverju ári sem hann er með í mynd (talsetningar teljast hér með). 

Allir sáttir?


mbl.is Róttækar breytingar á Óskarsverðlaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefninu sem lýkur aldrei

Ef þróunaraðstoð hefur einhvern tíman verið lýst í einni setningu þá er það þessi: 

Guðmund­ur sagði að þessu verk­efni lyki aldrei því á hverju ári byrjaði nýr sex ára bekk­ur í skól­un­um.

Því hvað er þróunaraðstoð? 

Hún er aðstoð - í formi verðmæta (vinnu, peninga, tækja) - sem einhver efnaður veitir einhverjum fátækum.

Hún er aðstoð sem er veitt af einhverjum sem framleiðir mikil verðmæti til þess sem framleiðir lítil verðmæti.

Hún er aðstoð kapítalista sem er veitt til sósíalista. 

Seychelleseyjar í Indlandshafi eru e.t.v. paradís á jörð frá náttúrunnar hendi en engu að síður er fátækt þar mikil. Af hverju eru eyjurnar ekki moldrík ferðamannaparadís, efnuð fiskveiðiþjóð eða eftirsótt athvarf fyrir efnaða gamlingja úr öllum heimshornum? Ef þarna eru aldrei óveður og náttúran gjöful af hverju þarf þá litla Ísland að kaupa tölvur fyrir skólakrakkana?

Yfirleitt (og að ég ég tel án undantekninga) má rekja fátækt til heimatilbúinna hafta á frjálst framtak. Fljótt á litið sýnist mér eyjurnar vera vafðar inn í opinber afskipti: Mikla opinbera eyðslu, umfangsmikla ríkiseign á fyrirtækjum og eilíft fikt við gjaldmiðil eyjaskeggja. 

Þessum eyjum á að bjarga með því að gefa krökkum tölvur. Það er gott að krakkar hafi aðgang að upplýsingum og tækjum og tólum en það er til lítils ef þessir krakkar fá aldrei tækifæri til að spreyta sig á frjálsum markaði og læra að framleiða verðmæti. Þá standast orðin hér að ofan - aðstoðinni lýkur aldrei

Hvernig væri að gefa eintak af bókinni Economics in One Lesson með hverri tölvu svo krakkarnir læri ekki bara að forrita og spila tölvuleiki heldur líka að kjósa yfir sig yfirvöld sem flækjast síður fyrir þeim og koma sér þar með undan þörfinni á að láta aðra kaupa tölvur fyrir sín eigin börn þegar fram líða stundir? 


mbl.is Tölvuvæðing kom frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á sama tíma á öðrum stað í bænum ...

Á meðan lögreglan eyddi tíma sínum og fjármunum skattgreiðenda í að elta uppi plöntur í Hafnarfirði gerðist (hugsanlega) ýmislegt á öðrum stöðum í bænum.

Á einum uppgötvaði maður innbrot og hringdi á lögregluna. Honum var sagt að skrifa sína eigin skýrslu og senda til lögreglunnar. Lögreglan hefur ekki tíma til að sinna svona málum.

Á öðrum lenti maður í því að ókunnugur karlmaður veittist að honum með hníf og vildi fá veskið hans. Hann tekur á flótta og hringir á lögregluna en enginn lögreglubíll var í nágrenninu. Hann var rændur.

Á enn öðrum stað kom kona að ölvuðum manni sofandi í stigaganginum sínum en sá ekki fram á að geta flutt hann, fyrir utan að þora því ekki. Hún þekkti manninn ekki og vissi ekki hvað hann mundi gera ef hann vaknaði. Hún hringir á lögregluna og biður um aðstoð. Lögreglan segir að hún geti ekki sinnt svona útköllum og að hún þurfi að leita á náðir nágrannanna. 

Lögreglan ber við fjársvelti og skorti á mannskap. Það er að hluta til ekki hennar sök. Hún hefur mikið fyrir stafni. Mörg kjánaleg lög halda henni upptekinni, nánast sama hvað margir eru á vakt. Að hluta til getur hún samt kennt sjálfri sér um - hún forgangsraðar sumu umfram annað - einbeitir sér að löstunum, ekki glæpunum.

Ég vona að þessar kannabisplöntur fái friðsæla förgun. 


mbl.is Stöðvaði ræktun á tveimur stöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð fyrirmynd (fyrir suma)

Tryggvi Hansen ætti að geta reynst mörgum góð fyrirmynd. Í stað þess að taka þátt í samfélaginu sem hann fyrirlítur dregur hann sig úr því. Ég geri ráð fyrir að hann fjármagni þetta val sitt úr eigin vasa (þar á meðal flíkurnar sem hann þarf á að halda til að halda lífi) og að eigandi skógarins sem hann dvelur í sé ekki mótfallinn veru hans þar. 

Þetta mættu margir taka sér til fyrirmyndar. Miðað við umræðuna eru margir orðnir þreyttir á ruglinu eins og það er gjarnan orðað. Það er dýrt að lifa. Launin eru lág. Húsnæðið er dýrt. Það er dýrt að reka bíl og fjölskyldu. Þetta er rugl! Samfélagið er firrt!

Sem betur fer er frjálst samfélag þannig skrúfað saman að flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og hagað lífi sínu þannig að það veiti hámarksánægju fyrir hvern og einn. Ekki eru allir steyptir í sama mót og vilja það sama. Tryggi Hansen virðist hafa fundið rjóður þar sem má dveljast óáreittur. Megi sem flestir formælendur samfélagsins gera eitthvað svipað. 


mbl.is „Allir í þessu miðstéttardópi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband