Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016
Laugardagur, 16. janúar 2016
Banki að búa til viðskipti fyrir sig?
Hagfræðideild Landsbankans virðist vera að leita að nýjum verkefnum - einhvers konar umsýslu með peninga sem ríkisvaldið hirðir af fólki og fyrirtækjum undir fána umhverfisverndar.
Hagfræðideildin stingur í því samhengi upp á allskyns skattlagningu og tollaálagningu sem á að bjarga heiminum frá glötun.
Nú get ég ekki tekið rök hagfræðideildarinnar alvarlega og þykist sjá í hugmyndum hennar augljósa viðleitni til að hoppa á grænu bylgjuna og græða á henni. Svona haga mörg fyrirtæki sér. Þau smjaðra fyrir pólitískum rétttrúnaði og vonast til að krækja í bita í leiðinni. Það er ekkert nýtt. Svona haga margar ríkisstofnanir sér líka. Á meðan það er hægt að vonast til að næla sér í sneið af fé annarra undir verndarvæng ríkisvaldsins þá verður slíkt aldrei stöðvað.
Mengun er ekki viðfangsefni sem fer hinu opinbera vel. Hérna er eignarétturinn og frjáls samskipti og viðskipti miklu öflugri tæki. Í Vestur-Evrópu voru grænir skógar en í Austur-Evrópu féll súrt regn.
Megi Hagfræðideild Landsbankans leita á önnur mið en þau sem ríkisvaldið dælir fé skattgreiðenda í.
Tollur gegn loftlagsbreytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 14. janúar 2016
Góð byrjun en bara það
Það er gott að skattar eru að lækka á Íslandi um leið og ríkisvaldið er byrjað að greiða niður skuldir. Þetta er samt bara byrjunin. Enn sitja allir skattar fráfarandi ríkisstjórnar eftir í einhverri mynd. Enginn þeirra hefur verið afnuminn. Enn er ríkisvaldið að reyna reka heilbrigðiskerfi og meira og minna allt skólakerfið frá skrifstofum sínum í Reykjavík. Það er ávísun á sóun, hallarekstur, skort á viðhaldi, kjaradeilum og almennt versnandi þjónustu fyrir sífellt hærra verð.
Næsta skref þarf að vera miklu stærra en þau hænuskref sem hingað til hafa verið tekin. Stefna þarf að því að lækka skatta um marga tugi prósenta en ekki um nokkrar kommur hér og þar.
Til þess að ná því markmiði þarf að skera stór verkefni úr snöru ríkisvaldsins. Einkaaðilar geta alveg læknað önnur mein en lélega sjón eða lélega heyrn og framkvæmt skurðgerðir á öðrum líkamshlutum en brjóstum sem á að stækka eða augnpokum sem þarf að lyfta.
Einkaaðilar geta alveg lesið bækur fyrir börnin á sama hátt og kennarar hins opinbera. Raunar fer megnið af námi barna fram heima í ró og næði yfir heimanáminu en ekki í háværum og loftlausum skólastofum.
Einkaaðilar geta alveg rekið vegina og fjármagnað slíkar framkvæmdir með sölu aðgengis að þeim. Það er raunar ávísun á betra viðhald og heppilegri nýtingu fjármuna.
Andstæðingar samkeppni sem um leið eru stuðningsmenn ríkisreksturs geta ekki boðið upp á önnur rök fyrir málstað sínum en þau að allir eigi að hafa það jafnskítt. Það má vel vera að það sé göfug hugsjón. Ég bendi bara á að jafnvel lélegustu gleraugun í Kolaportinu eru sennilega betri en bestu gleraugun sem almenningur getur nálgast í Norður-Kóreu.
Skattar á fjölskyldu lækkað um 400.000 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miðvikudagur, 13. janúar 2016
Niðurgreiðslur eru ríkisafskipti
Þegar ríkisvaldið niðurgreiðir eitthvað með fé skattgreiðenda er það um leið að taka við stjórnartaumunum, a.m.k. að hluta til. Enginn fær fé úr ríkissjóði nema standast ákveðnar kröfur sem ríkisvaldið setur eða hafa ákveðinn ásetning sem er að skapi hins opinbera.
Sem öfgadæmi mætti nefna mann sem langar að skrifa nýja bók. Hann er mjög hæfileikaríkur rithöfundur, vel lesinn, vel skrifandi og sem manneskja almennt vel liðinn. Hann hefur skrifað margar bækur sem hafa selst vel og um hann er talað sem næsta Laxness sem stefni á Nóbelsverðlaunin. Hann sækir um listamannalaun. Öllum finnst sjálfsagt að hann hljóti þau. Hann verður jú að fá næði til að skrifa meira og vera laus við ónæðið af venjulegri launavinnu.
Í umsókn mannsins um listamannastyrk skrifar hann hins vegar: Mig langar að skrifa skáldsögu sem dásamar bæði Hitler og Stalín, enda misskildir menn sem hafa hlotið ósæmilega umfjöllun.
Hann fær ekki styrkinn. Hvað sem líður hæfileikum hans, sölutölum og lofi á hans fyrri verk þá fær hann ekki styrk til að skrifa svona bók. Nei takk segir nefndin sem úthlutar peningum skattgreiðenda.
Þetta er öfgadæmi en það gildir um allt. Enginn fær ríkisstyrk nema falla að kröfum hins opinbera.
Þannig er það og verður alltaf. Bændur fá ríkisstyrki gegn því að framleiða ákveðið magn af ákveðnum hráefnum. Listamenn fá styrki til að skrifa bækur og mála málverk sem eru þóknanleg opinberum starfsmönnum eða nefndum sem ríkisvaldið fjármagnar, eða fara a.m.k. ekki í taugarnar á þeim sem úthluta.
Ríkisstyrktir fjölmiðlar verða fjölmiðlar ríkisvaldsins. Stöð 2 verður RÚV 2. Fréttablaðið verður Ríkisfréttablaðið. Stundin verður Stundin okkar 2.
Menntamálaráðherra ætti að skammast sín.
Útilokar ekki að ríkið styðji fjölmiðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 12. janúar 2016
Hvað nú?
Von er á albönsku fjölskyldunum tveimur sem nýlega fengu íslenskan ríkisborgararétt til landsins um klukkan 14.30 í dag með flugi WOW air frá Berlín.
Þetta eru frábærar fréttir fyrir fjölskyldurnar sem hér eiga í hlut. Þær eru komnar úr fátæku landi í auðugt. Þær fá aðgang að vinnumarkaði, heilbrigðiskerfi og skólum. Megi þeim farnast sem best og verða góðir og löghlýðnir ríkisborgarar, framleiða verðmæti og bæta mannlífið í kringum sig.
En hvað með hinar milljónirnar sem enn eru úti í hinum stóra heimi og búa við fátækt og slæm lífsskilyrði? Er pláss fyrir þær á Íslandi? Nei.
Fátækt ríkja er heimatilbúið vandamál. Í raun er miklu auðveldara að framleiða fátækt en verðmæti. Stjórnvöld þurfa bara að flækjast fyrir, þrífast á spillingu, umbuna sumum á kostnað annarra, hindra frjáls viðskipti, grafa undan eignarrétti íbúanna og jafnvel stinga fólki nánast handahófskennt í fangelsi fyrir að mótmæla ástandinu.
Í gegnum mannkynssöguna hefur alla tíð verið erfiðara fyrir stjórnmálamenn að skapa umhverfi verðmætasköpunar en umhverfi fátæktar. Þetta er og verður almenna reglan á meðan við lítum til stjórnmálamanna til að leysa vandamál okkar. Það besta sem þeir geta gert er að koma sér úr veginum en þeir eiga erfitt með það. Þeir vilja völd og gjarnan áhrif og peninga og ef almenningur lætur lokkast af þeirra eigin tali um eigið ágæti þá hirða þeir eins mikil völd og áhrif og þeir geta.
Nú má maður vona að albönsku fjölskyldunnar kynni sér vel innviðina á Íslandi og Vestur-Evrópu almennt og byrji að senda pósta á fjölskyldu og vini í Albaníu og boði í þeim frjálst markaðshagkerfi í Albaníu svo fólk þurfi ekki að flýja land til að eiga sér viðreisnar vonar.
Koma til landsins í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 11. janúar 2016
Ekki rétt að útiloka en ...
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, sagði í þættinum Eyjunni í dag það vera áhugaverðan kost að mynda stjórn Pírata og Sjálfstæðisflokks. Píratar hefðu víða skírskotun til kjósenda en þyrftu að fara í meiri málefnavinnu áður en hægt væri að fullyrða um slíkt samstarf.
Nú er auðvitað ekki rétt að útiloka samstarf við einn né neinn fyrirfram. Til að mynda voru margir að máta saman Sjálfstæðisflokk og Vinstri-græna á sínum tíma vegna andstöðu beggja flokka við ESB-aðild og þótti það vera áhugaverð hugmynd. Eins má finna ágæta samsvörun við málflutning einstaka Sjálfstæðismanna og einstaka Pírata. En eftir slíkar hugaræfingar ber að staldra við.
Sjálfstæðisflokkurinn er í ákveðinni tilvistarkreppu. Hann hefur sótt mjög á miðjuna og reynt að klóra til sín fylgi þaðan. Um leið hefur hann vanrækt stuðningsmenn sína í hópi frjálshyggjumanna og annarra sem kalla sig ýmsum nöfnum en eru yfirleitt tortryggnir á ríkisvaldið.
Píratar hafa að hluta náð í fylgi frjálshyggjumanna. Píratar hafa líka náð í fylgi frá stækasta vinstrinu. Þeir eru óskrifað blað og margir vilja bjóða fram blýantinn sinn og skrifa á það blað. Það að kjósa Pírata er því ekki kosning á einhverri hugsjón eða almennri stefnu heldur hálfgert lottó: Vonandi nær þingmaðurinn eða frambjóðandinn sem heillaði mig inn á þing en ekki hinir Píratarnir sem boða eitthvað allt annað!
Þetta er auðvitað bæði styrkur og veikleiki Pírata. Þeir rúma að því er virðist allar skoðanir en standa um leið ekki fyrir neina stefnu, hvorki almennt orðaða né þröngt skilgreinda. Að ræða samstarf við slíkan flokk hlýtur að vera háð því nákvæmlega hvers konar þingmenn ná kjöri fyrir flokkinn. Ef þeir eru yfirgnæfandi sósíalistar er eðlilegt að Píratar endi í vinstristjórn, en annars má hugsanlega máta þá í samstarfi sem gengur út á að minnka ríkisvaldið og styrkja eignarrétt borgaranna.
Sjálfstæðismenn ættu að skrá hjá sér langan lista af fyrirvörum áður en þeir tala um að samstarf við Pírata sé áhugaverður kostur - mun lengri en ritari Sjálfstæðisflokksins býður upp á!
Samstarf við Pírata spennandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 9. janúar 2016
Þar sem konur eru skepnur
Í sumum menningarheimum er karlmönnum kennt að konur eigi að vera auðmjúkir þjónar þeirra og jafnvel hálfgerðar skepnur sem eiga engu að ráða. Þar getur 10 ára strákur þess vegna haft forræði yfir eigin móður, og ef faðirinn er ekki heima þá er hann jafnvel allsráðandi á heimilinu.
Ekki ætla ég tengja svona hugarfar við ákveðin trúarbrögð (til að særa ekki tilfinningar þeirra sem bera meiri umhyggju fyrir menningarheimum annarra en Vesturlanda). Það virðist samt augljóst að menningarheimar sem boða kúgun kvenna eru miklu frekar á svæðum sumra trúarbragða en annarra.
Norðmenn reyna nú að kenna aðfluttum karlmönnum að konur eru ekki skepnur, að þær séu ekki eign karlmanna, að þær eigi ekki skilið að láta nauðga sér og að frjálslyndi og jafnrétti séu hin viðteknu gildi. Gangi þeim vel!
Norðmenn hitta hérna naglann á höfuðið að hluta. Ef þeir ætla að hleypa þúsundum einstaklinga inn sem hafa lært í uppvexti sínum að líta á kvenfólk sömu augum og skepnur þá þarf að kenna þeim að hugsa þá lífsskoðun upp á nýtt.
Norðmenn eiga hins vegar langt í land. Í Danmörku, þar sem ég bý, hef ég heyrt margar sögur um fjölskyldulíf þar sem konan er vel pökkuð inn og notuð eins og þjónn. Þetta blasir líka víða við. Konan fær ekki að vinna eða keyra. Hennar hlutverk er að vera heima og sjá um börnin og eyða deginum með öðrum konum í sömu sporum. Karlarnir vinna og skemmta sér. Þeir yngri sofa hjá dönskum stelpum og kaupa dýra bíla. Yngri konur ekki. Ef þær sjást með dönskum karlmönnum stofna þær lífi sínu og karlmannanna í voða. Þetta eru ekki glænýir innflytjendur, nýkomnir frá upprunalandinu. Þetta eru börn eða barnabörn innflytjenda, eða það sem Danir kalla innflytjendur af annarri og þriðju kynslóð.
En sem sagt, gangi Norðmönnum sem best í viðleitni sinni!
Senda hælisleitendur á námskeið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 8. janúar 2016
Lögreglan er í eðli sínu einokunarfyrirtæki
Það gera sér vonandi allir grein fyrir því að lögreglan er í eðli sínu einokunarstofnun. Hún hefur ein stofnana leyfi til að svipta menn frelsi og læsa inni. Hún ein getur fært menn inn í dómssal og látið þá svara fyrir gjörðir sínar. Hún ein getur heimsótt fólk sem borgar ekki skattana sína og dregið það út og læst inn í búri.
Íslendingar tala oft um að hér og þar sé einokun í gangi og að slíkt skaði almenning og neytendur. Það er líka rétt. Mörg fyrirtæki sitja á bak við skjöld af tollum, lögum og skilyrðum sem verja þau beint eða óbeint fyrir samkeppni. Slík fyrirtæki mæta ekki sama markaðsaðhaldi og önnur fyrirtæki. Það er munur á því að reka sjoppu og stofna banka. Það er erfiðara að stofna banka en sjoppu - fleiri reglur, skilyrði og lágmörk sem hamla samkeppni. Bankar græða meira en sjoppur. Sjoppur geta síður gengið að viðskiptavinum sínum sem vísum hlut.
Nákvæmlega hið sama gildir um lögregluna og jafnvel í meiri mæli. Lögreglan þarf ekki að óttast samkeppni eða markaðsaðhald. Óánægðir skjólstæðingar hafa ekki um aðra kosti að velja. Þeir verða að hringja í lögregluna eftir innbrot þótt þeir viti að svarið sé að lögreglan hafi ekki tíma og geti ekkert gert (hún er upptekin við að hella niður áfengi unglinga og gera kannabisplöntur upptækar).
Lögreglan víða um heim rekur innra eftirlit af einhverju tagi en það breytir engu. Innra eftirlit er skipað starfsmönnum sem búa við sömu varnir gegn samkeppni og aðrir lögreglumenn. Á þá að skipa eftirlit með eftirlitinu? Hver gætir þeirra sem eiga að gæta okkar?
Einokun hefur aðra fylgifiska í för með sér. Hvernig eiga yfirvöld að vita hvað er rétt verð á löggæslu? Hvenær er löggæslan orðin of mikil? Það er alltaf hægt að kaupa meiri og meiri löggæslu en hvenær hættir aukið fjármagn að skila sér í aukinni löggæslu? Það er engin leið til að vita neitt af þessu í fjarveru markaðsaðhaldsins.
Íslensk yfirvöld ættu að huga að einkavæðingu lögreglunnar en til vara hluta hennar. Um leið mætti fækka töluvert þeim boðum og bönnum sem gilda á Íslandi á t.d. allskyns neyslu og framleiðslu allskyns varnings. Það fækkar töluvert verkefnum lögreglunnar.
Þeir sem styðja einokun láta sér auðvitað ekki segjast en aðrir sem eru efins um ágæti einokunar ættu að hugleiða að hugsa aðeins út fyrir kassann sem ríkisvaldið byggir í kringum okkur.
Ný stofnun lyktar af popúlisma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 6. janúar 2016
Sovét-Ísland
Íslenska ríkið stendur í margs konar framleiðslu, þar á meðal á peningum (með aðstoð viðskiptabankanna), reglum og landbúnaðarvörum (með aðstoð bænda).
Aðkoma ríkisvaldsins að einhverju þýðir um leið aðgangur að fé skattgreiðenda (beint í gegnum skattheimtuna eða óbeint í gegnum ábyrgðir), reglugerðarfrumskógur, hömlur á frjáls viðskipti og valfrelsi og pólitískri afskiptasemi.
Ríkisvaldið þykist vita hvaða vexti peningar eiga að bera og hvað bændur þurfa að framleiða mikla mjólk.
Fyrir utan að byggingar MS og Seðlabankans eru svipaðar á að líta í fljótu bragði má draga upp fjöldan allan af samlíkingum milli peninga- og mjólkurframleiðslunnar. Afleiðingar peningaframleiðslu er samt erfitt að útskýra fyrir þeim sem hafa ekki kynnt sér grunnatriði hagfræðinnar. Í tilfelli mjólkur einfaldast málið aðeins. Það má því nota lýsingar á neikvæðum afleiðingum ríkisafskiptanna á mjólkurframleiðslu sem myndlíkingu fyrir neikvæðar afleiðingar peningaframleiðslunnar.
Ríkisafskiptin múlbinda markaðsaðila við blöndu af reglugerðum og niðurgreiðslum. Án niðurgreiðslanna væri ekki hægt að lifa af innan reglugerðanna. Án reglugerðanna missir ríkisvaldið skjólstæðinga af ríkisspenanum og þar með trygga kjósendur fyrir ákveðna flokka.
Ríkisafskiptin skekkja samband kaupenda og framleiðenda. Verðlag eru þau skilaboð sem ganga fram og til baka í takt við breytingar á framboði og eftirspurn. Með því að búa til eitthvað annað verðlag en markaðsverð er verið að rugla alla framleiðslu, ýmist með því að senda skilaboð til framleiðenda um að framleiða meira eða minna en þörf er á, eða kaupenda um að kaupa meira en er í boði eða of lítið til að borga fyrir alla framleiðsluna.
Ríkisafskiptin draga úr völdum þeirra sem eiga framleiðslutækin og þeirra sem eiga peninga til að kaupa varninginn og flytja yfir í hendur stjórnmálamanna sem hafa engra persónulegra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að tryggja sér endurkjör.
Ríkisafskiptin auka völd hins opinbera - gera því kleift að halda úti stærri her embættismanna en annars væri þörf á, og sjúga meira af fé úr vösum skattgreiðenda en annars væri þörf á.
Ríkisafskiptin verja innlenda starfsemi fyrir erlendri samkeppni og tryggja þannig að hún sé rekin með óhagkvæmum hætti og geti þar með ekki staðist samkeppni. Hún er því bundin við innanlandsmarkað á bak við tollamúra og verndandi löggjöf og á enga möguleika á útrás erlendis eða hagræðingu innanlands.
Ríkisafskiptin eru réttlætt með því að tala niður hina innlendu ríkisframleiðslu, t.d. með því að segja að hún gæti aldrei spjarað sig án aðstoðar. Hið hreina íslenska lambakjöt og náttúrulegu afurðir eru víst ekki nógu góðar til að keppa á hillum lúxusverslana erlendis við síðri varning, eða hvað?
Megi stjórnmálamenn sem fyrst missa áhugann á að framleiða mjólk og rækta rollur og færa verkefnið yfir á hæfari hendur.
Framleiðsluskylda minnkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. janúar 2016
Borgin vanrækir ekki-lögbundið verkefni
Engin lagakvöð er á sveitarfélögum að sjá um sorphirðu og förgun (þótt ákveðnar kröfur séu gerður um að sveitarfélög sjái til þess að sorphirða og förgun fari fram eins og ég skil það). Raunar starfa einkafyrirtæki víða við þessa iðju og gengur þokkalega. Sveitarfélög geta hæglega boðið þetta verkefni út og verið þar með viss um að íbúarnir fái þessa þjónustu á markaðskjörum og að henni sé sinnt af áköfum einkaaðilum.
Reykjavíkurborg, meðal örfárra annarra sveitarfélaga, hefur sjálf ákveðið að sorphirða eigi að vera á vegum fyrirtækis í hennar eigu. Borgin situr svo báðum megin við borðið þegar kemur að því að ákveða hvaða aðilar megi taka þessa þjónustu að sér. Hún getur með öðrum orðum ráðið því hverjir fá aðgang að markaði sorphirðu í Reykjavík og farið í samkeppni við sjálfa sig. Það má skilja á ýmsum að ákveðinn skortur á skýrri löggjöf gefi tilefni til svona einkennilegs ástands.
Núna ætlar Reykjavíkurborg að skera niður í sorphirðu en hækka kostnað vegna hennar. Tunnuflakkið heldur áfram - sumar tunnur stækka og aðrar minnka og fleiri bætast við. Fjöldi ruslabíla sem þarf til að sækja sorpið eykst því þeir geta ekki allir sótt allt sorpið. Hérna er Reykjavíkurborg að beita öllu sínu valdi til að gera það sem opinberir aðilar gera best: Eyða alltof miklu af annarra manna fé og eyða því í eitthvað allt annað en þörf er á.
Það má alveg furða sig á því hvernig reykvískur kjósendur geti verið svona dofnir og virðast ekki gera neinar kröfur til sveitarstjórnar sinnar. Rekstur borgarinnar er í molum og gildir það um allt: Fjármál hennar, viðhald, þrif, forgangsröðun og þjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Er því ekki nema von að einfaldur hlutur eins og að sækja sorp og moka því ofan í holu í jörðinni vefst fyrir borginni.
Hærri gjöld, minni þjónusta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 4. janúar 2016
Vissara að herða á þessu fyrir næsta hrun!
Nú hefur hið opinbera haft tugi manna hjá sér á skrá yfir ákærða í mörg ár og stefnir í að ekki náist að klára þau sakamál áður en næsta hrun skellur á. Það hrun skellur ekki endilega fyrst á á Íslandi en Evrópa liggur vel við höggi. Þar eru ríkisstjóðir meira og minna gjaldþrota og safna enn skuldum, innviðir ríkjanna að fúna og hagkerfin stöðnuð eða að dragast saman.
Sérstakur saksóknari þarf að drífa í því að klára málin sín áður en næsta hrun skellur á!
Næsta hrun verður að vísu ekki bankahrun heldur ríkissjóðahrun og verður þá erfitt að rekja orsök og afleiðingar til einstaka ráðamanna, nema e.t.v. seðlabankastjóranna, en það er önnur saga.
28 hrunmál í skoðun hjá saksóknara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |