Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
Þriðjudagur, 30. apríl 2013
Hvað gera frjálshyggjumenn svo?
Ný ríkisstjórn verður mynduð á næstunni. Kannski verður það ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks (nokkuð, sem er ekki á valdi forseta að ákveða eða hafa frumkvæði að, heldur formanna flokkanna og þingmanna þeirra).
Komi Sjálfstæðisflokkurinn að ríkisstjórn býður það upp á mörg tækifæri fyrir frjálshyggjumenn. Einhverjir þingmanna flokksins eru frjálshyggjuþenkjandi og opnir fyrir hugmyndafræði minnkandi ríkisvalds og aukins frelsis.
Komi Sjálfstæðisflokkurinn að ríkisstjórn þarf að herja á þessa þingmenn og hvetja þá til dáða á þingi. Þá á að hvetja til að leggja fram frumvörp sem minnka ríkisvaldið. Þá á að hvetja til að tala óhræddir máli frelsis úr ræðustól Alþingis. Þá á að verja í opinberri umræðu fyrir árásum þeirra sem vilja stærra ríkisvald. Þá á að aðstoða í að benda á að allt sem ríkið eyðir af fé eða byggir kemur í stað einhvers sem einhver annar, sá sem þénaði verðmætin sem ríkið hrifsaði til sín, hefði eytt í eða byggt. Ríkið bætir engu við verðmæti samfélagsins. Það færir þau bara úr vösum þeirra sem sköpuðu þau og í vasa hins opinbera og skjólstæðinga þess.
Komi Sjálfstæðisflokkurinn ekki að ríkisstjórn er auðvitað hægt að hvetja þingmenn hans til dáða engu að síður, en það verður óneitanlega öllu máttlausari barátta.
Ég vona að úr því staðan er eins og hún er þá nái Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn saman og sendi síðan forseta Íslands tölvupóst þar sem hann er beðinn um að lýsa því yfir að ný ríkisstjórn hafi verið mynduð (hvort sem forseti hafði veitt eitthvað "umboð" fyrir því eða ekki). Síðan vona ég að frjálshyggjumenn líti ekki á aðkomu Sjálfstæðisflokksins sem tækifæri til að slappa af í 4 ár, heldur herða róðurinn sem mest!
Búist við umboði forsetans í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 29. apríl 2013
Til næstu ríkisstjórnar: Komið ríkinu úr veginum!
Hvernig svo sem næsta ríkisstjórn verður samansett vona ég að hún hafi eina þumalputtareglu að leiðarljósi: Gera allt öfugt við seinustu ríkisstjórn!
Fyrstu skref eiga að vera að afturkalla allar skattahækkanir seinustu fjögurra ára, draga umsókn um aðild að ESB til baka, loka öllum ríkisrekstri sem stofnað hefur verið til seinustu tíu ár hið minnsta, afnema gjaldeyrishöftin með einu pennastriki, undirbúa niðurlagningu á Seðlabanka Íslands og allra ríkisábyrgða í fjármálakerfinu, og hefja samningaviðræður við lánadrottna ríkisins um afskriftir og hraðar afborganir á skuldum ríkisins. Þetta eru tiltölulega auðveld verkefni, og þá sérstaklega ef menn hugsa til lengri tíma og láta tímabundna gagnrýni sem vind um eyru þjóta.
Með skuldaklafann á bakinu og gjaldeyrishöftin bundin um hagkerfið kemst íslenska hagkerfið aldrei úr sporunum. Skiptir þá engu máli hvort þúsundir Íslendinga skulda mikið eða lítið í húsnæði sínu. Skiptir þá engu máli hvort ríkisvaldið leyfir byggingu á einhverri stóriðjunni eða ekki. Íslendingar þurfa svigrúm frá ríkisvaldinu og frá áætlanagerð hins opinbera.
Mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar er í stuttu málið að koma ríkisvaldinu úr vegi fyrir tiltekt í hagkerfinu og uppstokkun til framtíðar.
Þetta er hægt og þetta er pólitískt raunhæft í upphafi kjörtímabils þegar óvinsælasta ríkisstjórn Íslandssögunnar hefur loksins gefið upp öndina. Það sem vantar er þor til að standast tímabundna gagnrýni, veðra af sér tímabundnar óvinsældir og hugsa til framtíðar.
Bíða eftir umboði forseta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 26. apríl 2013
Örvænting fyrir kosningar (skiljanlega)
Það sem sagt er:
Á ríkisstjórnarfundi í dag var gerð grein fyrir árangri ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í 222 liðum sem hún einsetti sér að vinna að og ljúka á kjörtímabilinu 2009 - 2013.
Það sem ósagt er:
Vonandi les enginn þessa greinargerð!
Hún er augljóslega ekki skrifuð þannig að hægt sé að sjá hvað lá nákvæmlega að baki einstaka úrskurði yfir "lokið", "lokið að mestu" og þess háttar.
Hvað er til dæmis átt við með þessu?
Innleidd verði að nýskipan húsnæðismála til að búa almenningi sambærilegt öryggi og valkosti í húsnæðismálum og hinum Norðurlöndunum. Markmiðið er að fólk í húsnæðisleit eigi valkosti með eignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum, hvort sem það þarfnast húsnæðis í fyrsta sinn eða síðar á lífsleiðinni. (Viðvarandi verkefni)
AFGREITT AÐ MESTU
Í Danmörku, þar sem ég bý, er ekki einu sinni hægt að tala um að fólk hafi sömu valkosti. Í Kaupmannahöfn er slegist um að búa í rándýru og niðurníddu húsnæði. Í Álaborg er hægt að bíða í örfáa mánuði og komast í snyrtilegt raðhús á viðráðanlegu verði á leigumarkaðinum. Ólíkara verður það varla. Hvað er þá átt við að það sé "afgreitt að mestu" að fólk geti notið valkosta eins og á "hinum Norðurlöndunum"? Er þetta einhver fagurgali? Er hann afgreiddur "að mestu" með því að finna versta ástand leigumarkaðar á öllum Norðurlöndunum og bera saman við þann í Reykjavík eða hvað?
Greinargerð ríkisstjórnarinnar er innantómt skjal sem að auki segir í besta falli hálfan sannleik en er í versta falli lygi.
Segja nær 9 af hverjum 10 verkefnum lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 25. apríl 2013
Flóttinn við tiltektina
Hvernig stendur á því að tæpum 5 árum eftir hrun nokkurra banka sé ennþá slæmt efnahagsástand á Íslandi og raunar víðast hvar í hinum vestræna heimi?
Af hverju ætti gjaldþrot, jafnvel fjöldagjaldþrot fjölmargra, að valda hægfara dauða hagkerfis mörg ár fram í tímann?
Ástæðan er auðvitað sú að gjaldþrotaskiptum hefur verið slegið á fest á kostnað skattgreiðenda, bæði í dag og í framtíðinni.
Þetta er ekki miklu flóknara en það. Og hvernig hefur gjaldþrotaskiptum verið slegið á frest? Með inngripum.
Þetta má skýra með dæmi.
Segjum sem svo að allar matvöruverslanir á Íslandi birgi sig frá og með deginum í dag og næstu 5 árin upp með túnfisk í dós. Allar matvöruverslanir vonast til að verð á slíkum varningi eigi eftir að margfaldast eftir, segjum, 5 ár. Allar þessar verslanir binda gríðarlegt fjármagn í túnfisk í dós. Flestar steypa sér í miklar skuldir til að fjármagna þessa birgðasöfnun.
5 ár líða og lán þurfa að greiðast. Verð á túnfisk í dós hefur ekkert breyst, og jafnvel lækkað. Lán verða ekki greidd. Birgðir þarf að selja á verði sem stendur engan veginn undir kostnaðinum við þær. Allar matvöruverslanir á Íslandi, eða einni eða tveimur undanskildum, fara á hausinn.
Hefur heimsendir nú átt sér stað? Nei. Lánadrottnar, þeir sem voru jafnlélegir að spá fram í tímann og lánþegar þeirra, þurfa að afskrifa miklar fjárhæðir og margir þeirra fara líka á hausinn. Birgjar sitja uppi með sárt ennið ef þeir fengu ekki staðgreitt á sínum tíma. Margir þeirra fara líka í þrot.
Neytendur gleðjast. Þeir fá afskrifaðar birgðir á lágu verði.
Hillur matvöruverslananna eru enn á sínum stað. Ennþá þarf að reka slíkar verslanir, og nýir eigendur sinna þeirri eftirspurn. Þeir sem brenndu sig á spákaupmennskunni læra að fara varlegar. Hagkerfið heldur áfram að rúlla og skuldabóla túnfisksöfnunarinnar skolast í burtu, en á reikning þeirra sem dældu í hana fé.
Engin ástæða er til að ætla að gjaldþrot banka, jafnvel allra bankanna, ætti að eiga sér stað öðruvísi. Tæp 5 ár af þjáningum vegna slíkra gjaldþrota eru óafsakanleg mistök stjórnmálamanna sem forðuðust tiltekt og reyndu að slá henni á frest.
Og þannig er það bara.
Vantraust bakgrunnur kosninganna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 24. apríl 2013
Frjálshyggjumenn eiga að kjósa frjálshyggjumenn
Svo virðist sem spennandi kosningar séu framundan. Yfirboðin eru gríðarleg, og frambjóðendur skjóta fast á hverja aðra. Hvað eiga frjálshyggjumenn að gera í svona stöðu?
Frjálshyggjumenn eiga að kjósa frjálshyggjumenn. Fyrirkomulag kosninga á Íslandi í dag er því miður þannig að það þýðir atkvæði til einhvers flokks eða einhverra flokka sem innihelda blöndu af allskyns frambjóðendum, yfirleitt róttækum sósíalistum í bland við hófsamari sósíalista.
Innan Sjálfstæðisflokksins eru sennilega flestir frjálshyggjumenn af öllum flokkum í framboði. Það liggur því beinast við að mæla með því að frjálshyggjumenn kjósi Sjálfstæðisflokkinn. Það er samt ekkert augljóst. Hann gæti kallast minnst lélegi kosturinn af mörgum lélegum.
En sama hvaða flokk frjálshyggjumenn ákveða að kjósa (kjósi þeir yfirleitt) þá eiga þeir ekki að láta kosningar duga til að berjast fyrir hugsjónum sínum, og það er aðalatriðið (hvort sem menn kjósa eða ekki). Þegar nýtt þing er sest eiga frjálshyggjumenn að herja á alla þingmenn með opin eyru, og hætta því aldrei. Það skiptir nefnilega ekki öllu máli hverju menn lofa fyrir kosningar. Það er vinna þeirra á þingi sem skiptir máli. Sjái frjálshyggjumenn t.d. von í einhverjum vinstrimanninum, og sjá að hann er opinn fyrir rökum og umræðu, þá eiga þeir að herja á hann í ræðu og riti. Honum má jafnvel gefa bækur eða bjóða á málfundi. Hver veit, kannski ljær hann þá atkvæði sitt einhverri minnkun ríkisvaldsins!
Yfirlýstir frjálshyggjumenn til framboðs til Alþingis eru fáir, en þeir finnast. Komist þeir á þing má heldur ekki gleyma að halda þeim á mottunni.
Kosningaloforðin verða meira og minna öll svikin. Þannig virkar einfaldlega fulltrúalýðræðið. Allt er málamiðlun. Enginn einn ræður öllu. Þess vegna þarf að herja á alla sem einhver von er í að hlusti, og herja á þá alla daga kjörtímabilsins.
Að þessu sögðu vona ég að eftir kosningar verði mynduð stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og að styrkur Sjálfstæðisflokks verði nægur til að hindra Framsóknarflokkinn í að mynda stjórn með vinstrimönnum. Það er að mínu mati það stjórnarmynstur sem er vænlegast að herja á til að knýja á um minnkun ríkisvaldsins og losun á kæfandi taki hins opinbera á samfélaginu og hagkerfinu. Að Sjálfstæðisflokkurinn hafi áður staðið að stórkostlegri stækkun ríkisvaldsins á hinum svokölluðu "frjálshyggjuárum" er áminning til frjálshyggjumanna um að standa sig betur næst í að veita stjórnvöldum málefnalegt aðhald. Frjálshyggjumenn urðu latir. Það er þeim (okkur) að kenna að yfirgangur hins opinbera náði þeim hæðum sem hann náði, og sér ekki enn fyrir endann á.
Fylgi stóru flokkanna minnkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 21. apríl 2013
Skattar eru of lágir.. miðað við ríkisvaldið
Lítil en einhver umræða er um skattalækkanir og -hækkanir í tengslum við kosningar til Alþingis. Hún er auðvitað alltof lítil, því skattar eru eitt öflugasta stjórntæki ríkisvaldsins og skipta miklu í því samhengi. Einhver er umræðan samt.
Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka lofar að lækka skatta (þótt stundum megi skilja að markmið þeirra skattalækkana sé bara að hámarka skatttekjur ríksins vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu) en aðrir lofa að hækka þá eða að halda þeim a.m.k. óbreyttum.
En skattar eru of lágir, sjáið til. Ríkisvaldið er kannski stórt og fer stækkandi, og skiptir sér af fleiri og fleiri afkimum samfélagsins, en það er rekið með halla. Skattar nægja ekki fyrir útgjöldum ríkisins. Lántökur þarf til. Skattar eru því of lágir.
Þessu gætu einhverjir mótmælt og líta þá auðvitað í eigin pyngju og sjá að minna og minna er eftir í henni, meðal annars og jafnvel aðallega vegna hækkandi skatta (stærsta útgjaldaliðar heimilanna í dag). En við þá segi ég: Hefur þú barist fyrir því að ríkisvaldið minnki? Hefur þú lagt til við einhvern að ríkið einkavæði eitthvað eða hreinlega leggi niður einhverja starfsemi sína?
Svarið er sennilega nei. Sennilega hefur þú bara einblínt á skattana en ekki velt því mikið fyrir þér hvers vegna skattar eru háir og fara hækkandi, en duga samt ekki fyrir ríkisútgjöldunum.
Skattar á þig, kæri lesandi, eru of lágir, og það er vegna þess að þú ert ekki að berjast fyrir minnkandi ríkisvaldi (stórkostlega minnkandi ríkisvaldi, þannig að núverandi skattaálögur dugi í fyrsta lagi til að mæta útgjöldum ríkisins, og í öðru lagi til að útgjöld minnki niður fyrir núverandi skattheimtu).
Viltu að skattar lækki? Gott og vel, það vil ég líka. En þá þarftu að gjöra svo vel að hefja baráttuna fyrir minnkandi ríkisvaldi. Þú þarft að segja það hreint út að ríkið þurfi að einkavæða stóra hluta af starfsemi sinni eða hreinlega leggja þá niður. Þú þarft að benda á að þannig og bara þannig sé hægt að létta þétt grip hins opinbera á pyngjum landsmanna og hefja niðurgreiðslu skulda.
Þá erum við líka að tala saman.
Föstudagur, 19. apríl 2013
Heilaþvottur í grunnskólum
Ef einhver efast um að hið opinbera stundi heilaþvott á grunnskólabörnum getur viðkomandi opnað þetta skjal (um 3,4 mb að stærð), sem er svokölluð aðalnámskrá grunnskóla á Íslandi, og rennt yfir töfluna á bls. 197 í því (kafli 24.2).
Ég á það á hættu að kallast klisjugjarn, en ég get ekki orða bundist: Þetta skjal er brandari.
Vissir þú að við lok 10. bekkjar á nemandi að geta "sýnt fram á skilning á eðli sjálfbærrar þróunar og þýðingu hennar fyrir umhverfi, samfélag og efnahagslíf" og "gert sér grein fyrir nýtingu auðlinda og umhverfis og gildi verndunar hvors tveggja með hliðsjón af sjálfbærri þróun"?
Vissir þú að við lok 10. bekkjar er ekki gerð nein krafa til nemenda um að skilja svo mikið sem einn bókstaf í hagfræði?
Hlutverk okkar foreldra er að lágmarka skaðann af heilaþvotti grunnskólakerfisins.
Fimmtudagur, 18. apríl 2013
Kosningavitinn: Kostir frjálshyggjumannsins
Kosningavitinn er áhugavert fyrirbæri og tilraun til að heimfæra "stjórnmálapróf" af ýmsu tagi [1|2|3|4] yfir á pólitíska landslagið á Íslandi. Það er í sjálfu sér ágæt viðleitni. Þetta próf hjálpar örugglega einhverjum að gera upp hug sinn. Ef menn eru t.d. í vafa um hvort þeir eigi að velja Vinstri-græna eða Samfylkinguna þá getur prófið e.t.v. skýrt línurnar.
Prófið er auðvitað ekki gallalaust. Um það má eflaust skrifa mörg orð. Ég læt það hins vegar eiga sig.
Það sem mér finnst athyglisvert er að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur kemst nálægt því að vera á sama stað og ég á kortinu (sjá mynd). Samkvæmt prófinu og áttavitanum er ég "efst til hægri", þ.e. þar sem bæði frjálsyndi í samfélagsmálum og efnahagsmálum ræður ríkjum. Næst mér er Sjálfstæðisflokkurinn, en vegalengdin í hann er löng.
Hvernig stendur á því að enginn flokkur boðar að ríkið sleppi takinu almennt? Sumir vilja að ríkið sleppi takinu af veski fólks en leyfi því að reykja hass. Sumir vilja að ríkið sendi lögreglumenn á eftir þeim sem reykja hass, en sleppi þess í stað krumlunni af veski fólks. Ég vil að ríkið sleppi öllu.
Einu sinni töluðu stjórnmálamenn skýrt. Þeir töluðu um sósíalista þegar þeir töluðu um þá sem vildu stækka ríkisvaldið. Það var gott orð sem mætti alveg nota meira. Sósíalistar gætu verið allir vinstra megin við lóðréttu línuna á hinum pólitíska áttavita. Fasistar gætu verið allir neðan við láréttu línuna, en hana mætti samt færa töluvert hærra upp. Þeir einu sem væru hvorugt væru í efri hægri hluta áttavitans. Þeir sem eru hvoru tveggja sósíalistar og fasistar eru í neðri hlutanum til vinstri (fasósíalistar).
Miðað við niðurstöður mínar í þessu prófi finnst mér ekki skrýtið að mér finnist erfitt að ljá einhverjum flokki á Íslandi atkvæði mitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 17. apríl 2013
Er í lagi að stunda viðskipti við kúgara?
Íslenskir og kínverskir stjórnmálamenn skrifuðu nýlega undir samning um fækkun opinberra hindrana á viðskiptum Íslendinga og Kínverja.
Þetta eru, að mínu mati, góðar fréttir.
Ýmsir hafa samt lýst yfir efasemdum með ágæti slíks samnings. Sem dæmi má nefna Vefþjóðviljann sem spyr:
Nú er Vefþjóðviljinn auðvitað hlynntur frjálsum viðskiptum og ætti því almennt að vera hlynntur fríverslunarsamningum. Hér á hins vegar í hlut alræðisríki kommúnista, þar sem fólk býr við verulega kúgun. Hversu mikla fríverslunarsamninga vilja Íslendingar gera við slík ríki?
Jón Magnússon, lögmaður, segir:
Í viðtölum vegna viðskiptasamningsi Íslands og Kína lýsti Össur því yfir að ekkert sé við mannréttindabrot Kínversku kommúnistastjórnarinnar að athuga og nýir menn séu komnir að og allt í besta lagi í alþýðulýðveldinu. Bara nokkrir blóðdropar sem er úthellt úr andófsmönnum, Tíbetum og öðrum misjöfnum sauðum. Það finnst ráðherra Samfylkingarinnar afsakanlegt og allt í lagi.
Fleiri dæmi mætti eflaust finna en ég læt þessi duga.
Ég spyr hins vegar: Hvort kemur á undan, að stjórnvöld hætti mannréttindabrotum og kúgun á eigin þegnum, eða að þegnarnir hrindi af sér kúgun og mannréttindabrotum stjórnvalda?
Í Kína byrjuðu stjórnvöld á að "heimila" einhvern vísi að frjálsum viðskiptum á ákveðnum svæðum. Afleiðing var stórkostleg lífskjarabót íbúanna. Þeir gátu bætt lífsgæði sín og í kjölfarið kemur oft krafan um að fá að bæta þau ennþá meira. Smátt og smátt hafa fleiri og fleiri Kínverjar fengið möguleika til að taka þátt í hagkerfinu, versla við útlendinga og jafnvel halda í eigur sínar að miklu leyti án þess að það sé refsivert.
Hinar pólitísku umbætur í Kína hófust með örlítilli losun á taki ríkisvaldsins en eru núna undir miklum þrýstingi frá sífellt betur stæðum íbúum. Skriðþunginn er í átt til aukins svigrúms íbúanna. Ég held því fram að hinar pólitísku umbætur komi í kjölfar lífskjarabótanna, sem aftur koma þegar frjálsum markaði er leyft að leiða saman kaupendur og seljendur án rányrkju og ofbeldis.
Við eigum að fagna því að opinberum hindrunum á viðskiptum Íslendinga og Kína hafi verið fækkað eitthvað. Það yrði synd að sjá þær koma aftur í kjölfar aðildar að ESB. Það yrði synd að sjá fækkun opinberra hindrana kafna í "umræðu" á Íslandi um ágæti kínverskra kommúnista eða ummæla utanríkisráðherra um ágæti þeirrar kúgunar sem enn er stunduð í Kína.
Næsta skref hjá Íslendingum gæti svo verið að fella einhliða niður allar opinberar hindranir á viðskiptum við umheiminn. Öll stjórnvöld beita þegna sína ofbeldi þótt sum séu mun verri en önnur. Hindranir á frjáls viðskipti bæta bara gráu ofan á svart fyrir þá sem búa við pólitíska kúgun og eru að reyna bæta lífskjör sín og viðnám gegn yfirgangi stjórnvalda.
Að lokum, tilvitnun í Milton Friedmann heitinn (feitletrun mín):
It is this feature of the market that we refer to when we say that the market provides economic freedom. But this characteristic also has implications that go far beyond the narrowly economic. Political freedom means the absence of coercion of a man by his fellow men. The fundamental threat to freedom is power to coerce, be it in the hands of a monarch, a dictator, an oligarchy, or a momentary majority. The preservation of freedom requires the elimination of such concentration of power to the fullest possible extent and the dispersal and distribution of whatever power cannot be eliminated - a system of checks and balances. By removing the organization of economic activity from the control of political authority, the market eliminates this source of coercive power. It enables economic strength to be a check to political power rather than a reinforcement.
Og hananú!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 16. apríl 2013
Hvað er verðbólga?
"Verðbólga" er orð sem fáir skilja rétt. Skiljanlega.
Sumir halda að "verðbólga" sé almennt hækkandi verðlag. Þannig sé t.d. hægt að líta á "verðbólgu" sem meðaltalið af verðhækkunum á ólíkum hlutum eins og tannburstum, tölvuskjáum og baðsloppum. Þannig skilgreina nútímalegir hagfræðingar hugtakið "verðbólga".
Sumir halda að "verðbólga" sé einhvers konar dularfullur draugur sem sveimar um í leit að verðmiðum til að hækka. Draugurinn leggst síðan á einhvern afmarkaðan markaðinn, t.d. húsnæðis- eða matvælamarkað, og veldur þar usla.
Hvorugt er rétt. Verðbólga er aukning á peningamagni í umferð, þ.e. rýrnun á kaupmætti hverrar einingar tiltekinna peninga. Afleiðing verðbólgu er verðhækkanir. Afleiðing aðferða við að auka peningamagn í umferð er meiri hækkun á sumu en öðru.
Aukning á peningamagni í umferð er meðvituð og pólitísk aðgerð sem er eingöngu möguleg til lengri tíma með notkun ríkiseinokunar á peningaútgáfu (það að viðskiptabankarnir sjái um sjálfa peningafjölföldunina breytir engu í þessu samhengi). Stjórnmálamenn stjórna peningunum okkar til að stjórna hagkerfinu.
Íslenska ríkið á að leggja niður Seðlabanka Íslands og afnema þessi lög eins og þau leggja sig. Þetta á að gerast eins hratt og hægt er.