Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Kosningar og SimCity

Kosningar eru framundan og fyrir mig, sem kalla mig frjálshyggjumann, býður það upp á mikið hugarangur eins og alltaf. 

Ég get ekki kosið einn einasta stjórnmálaflokk af neinni sannfæringu.  

Enginn stjórnmálaflokkur ætlar að vinna að stjórnmálamarkmiði frjálshyggjunnar, sem er að minnka hið opinbera niður í (helst) ekki neitt.

Í öllum flokkum eru ákafir og einbeittir einstaklingar með "áætlun". Þeir vilja leysa þetta og hitt vandamál með því að hliðra ríkisrekstrinum til. Þetta og hitt vandamál má leysa, er okkur sagt, með því að beita ríkisvaldinu á ákveðinn hátt eins og hamri sem mótar stálplötu í ákveðið form. Ég kæri mig ekki um slíkar áætlanir. 

Fáir stjórnmálamenn eða frambjóðendur tala beinlínis um að minnka vinnuálagið á greyið stjórnmálamennina með því að einkavæða, selja, afregla og koma á hinn frjálsa markað. 

Nú veit ég ekki hvað margir sem þetta lesa hafa spilað nýrri útgáfur af leiknum SimCity. Í honum þarf að gera svo margt; skipuleggja lóðir undir ákveðna starfsemi, byggja skóla, spítala, lögreglustöðvar og útivistarsvæði, leysa umferðarteppur, leggja vatn og rafmagn, tryggja að sorphirða fái nægt fjármagn, og svona mætti lengi telja. Allt þarf að fjármagna með sköttum og fjármögnun þarf að hagræða þannig að allir fái nóg en ekki of mikið ella duga skatttekjurnar ekki til og bara svo og svo mikið hægt að fá að láni.

Ég hugsaði með mér, í þær fáu klukkustundir sem ég lék einræðisherra yfir ímynduðum heimi, hvað væri miklu auðveldara bara að einkavæða sorphirðu, menntun, heilbrigðisþjónustu og löggæslu og taka því rólega sem borgarstjóri. Ef allt fer til fjandans munu íbúarnir bara flýja eða gera uppreisn og heimta hærri skatta og meiri opinberan rekstur. Ef fólk hins vegar gæti nýtt sér svigrúmið í fjarveru hins opinbera til að finna sínar eigin leiðir að sínum eigin markmiðum, þá flykkist væntanlega fólk í bæinn. Þetta er ekki mögulegt í SimCity. Þetta er hins vegar mögulegt í alvörunni.

Ég veit ekki ennþá hvað ég ætla að kjósa, ef ég kýs. Vill einhver frambjóðandi lofa mér því að stefna að minna vinnuálagi fyrir sjálfan sig á næstu fjórum árum? 


Dæmi um raunverulegan niðurskurð

Hún er gleymd sú gamla speki að útgjöld eigi að vera minni en tekjur. Núna er talað um "niðurskurð" þegar verið er að hægja á aukningu útgjalda. Talað er um að "herða beltið" með því einu að frysta núverandi útgjöld. Talað er um að "skera niður að beini" ef nokkrir starfsmenn af mörg þúsund fá uppsagnarbréf.

Sú var tíð að stjórnmálamenn vissu hvernig átti að koma ríkisvaldinu úr vegi fyrir bata í hagkerfi. Hérna má lesa dæmi um slíkt (frá Bandaríkjunum).

The economic situation in 1920 was grim. By that year unemployment had jumped from 4 percent to nearly 12 percent, and GNP declined 17 percent. ...

Instead of "fiscal stimulus," Harding cut the government's budget nearly in half between 1920 and 1922. The rest of Harding's approach was equally laissez-faire. Tax rates were slashed for all income groups. The national debt was reduced by one-third. 

Takið eftir: Útgjöld ríkisins voru helminguð á tveimur árum! Allir skattar voru lækkaðir og skuldir hins opinbera greiddar verulega niður. Seðlabankinn hélt að sér höndum. 

En hvaða afleiðingar hafði þessi umtalsverði niðurskurður á stærð hins opinbera?

 By the late summer of 1921, signs of recovery were already visible. The following year, unemployment was back down to 6.7 percent and it was only 2.4 percent by 1923.

Afleiðingin var hraður efnahagsbati.  

Áratug seinna skall aftur á kreppa í sama landi. Þeirri kreppu var mætt með hafsjó af "nútímalegum" aðferðum til að berjast við kreppu. Niðurstaðan var kreppa í 15 ár. 

Hvað geta menn lært af þessu? Þá, að ef ríkið reynir að eyða sig út úr kreppu (t.d. með peningaprentun eða skuldsetningu eða hvoru tveggja), eða dregur ekki nógu hratt saman seglin, þá er afleiðingin viðvarandi og framlengd kreppa. 


mbl.is Obama endurgreiðir laun sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætturnar við að hafa of marga undir sama hatti

Sem foreldri barns á grunnskólaaldri í Danmörku hef ég ekki farið varhluta af verkbanni á kennara. Ég er að vísu í þeirri heppilegu stöðu að búa með tveimur öðrum fullorðnum sem eru mikið heima á daginn þessar vikurnar, svo ég get farið í vinnuna eins og venjulega. Hið sama gildir hins vegar ekki um alla. Barnaherbergi hafa verið útbúin á mínum vinnustað og foreldrar geta þar setið yfir börnum hvers annars (á eigin tíma). Margir eru að nota frídaga og ef verkbannið dregst á langið verður það smátt og smátt að ólaunuðu fríi hjá mörgum. 

Samfélagið er í stuttu máli í vaxandi uppnámi, sem virðist þó byrja rólega og mjúklega fyrir flesta.

Verkbann sem þetta sýnir hættuna af því að hafa of marga undir sama hatti. Langflestir grunnskólakennarar Danmerkur eru í sama stéttarfélagi, sem semur um kaup og kjör fyrir þeirra hönd við einn aðila, samtök sveitarfélaga. Ríkið og sveitarfélögin gefa út starfslýsingar fyrir alla skóla sína, og allir þessir skólar þurfa að hlýða því sem yfirvöld segja. Ef einhver er ósáttur getur hann sett á verkbann eða farið í verkfall eða stöðvað vinnu. Fórnarlömbin eru svo allur almenningur.

Hver er lexían?

Sú, að eitt módel fyrir alla er besta lausnin, og verkbönn og verkföll bara nauðsynlegur fórnarkostnaður þess?

Sú, að yfirvöld segi hvernig eigi að kenna og hvenær, og kennarar hlýði þeim bara?

Sú, að kostir þess að flestir skólar séu reknir á sama hátt eru fleiri en ókostir verkbanna og verkfalla með óreglulegu millibili?

Eða sú, að skólakerfið eigi að einkavæða eins og það leggur sig (með tilheyrandi skattalækkunum og afnámi opinberra hindrana að markaði menntunar), og gera foreldra að borgandi kúnnum, og skólana að þjónustufyrirtækjum sem keppast um að mennta flesta sem best á samkeppnismarkaði? Já, segi ég. 

Og nei, það er ekki þannig að það þurfi ríkisrekið menntakerfi til að "tryggja öllum börnum menntun". Ríkisskólar eru í mörgum tilvikum bara orðnir að geymslustað sem kostar slíkar upphæðir að báðir foreldrar þurfa að vera útivinnandi. Góðgerðarskólar finnast ekki á tímum risavaxins velferðarkerfis. Tilraunastarfsemi í menntun og kennslu er lítil sem engin.

Svo já við því að einkavæða allt kerfið eins og það leggur sig. Menntun er of mikilvæg til að láta ríkið sjá um hana.  


mbl.is Lok, lok og læs í dönskum skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband