Kosningar og SimCity

Kosningar eru framundan og fyrir mig, sem kalla mig frjálshyggjumann, býður það upp á mikið hugarangur eins og alltaf. 

Ég get ekki kosið einn einasta stjórnmálaflokk af neinni sannfæringu.  

Enginn stjórnmálaflokkur ætlar að vinna að stjórnmálamarkmiði frjálshyggjunnar, sem er að minnka hið opinbera niður í (helst) ekki neitt.

Í öllum flokkum eru ákafir og einbeittir einstaklingar með "áætlun". Þeir vilja leysa þetta og hitt vandamál með því að hliðra ríkisrekstrinum til. Þetta og hitt vandamál má leysa, er okkur sagt, með því að beita ríkisvaldinu á ákveðinn hátt eins og hamri sem mótar stálplötu í ákveðið form. Ég kæri mig ekki um slíkar áætlanir. 

Fáir stjórnmálamenn eða frambjóðendur tala beinlínis um að minnka vinnuálagið á greyið stjórnmálamennina með því að einkavæða, selja, afregla og koma á hinn frjálsa markað. 

Nú veit ég ekki hvað margir sem þetta lesa hafa spilað nýrri útgáfur af leiknum SimCity. Í honum þarf að gera svo margt; skipuleggja lóðir undir ákveðna starfsemi, byggja skóla, spítala, lögreglustöðvar og útivistarsvæði, leysa umferðarteppur, leggja vatn og rafmagn, tryggja að sorphirða fái nægt fjármagn, og svona mætti lengi telja. Allt þarf að fjármagna með sköttum og fjármögnun þarf að hagræða þannig að allir fái nóg en ekki of mikið ella duga skatttekjurnar ekki til og bara svo og svo mikið hægt að fá að láni.

Ég hugsaði með mér, í þær fáu klukkustundir sem ég lék einræðisherra yfir ímynduðum heimi, hvað væri miklu auðveldara bara að einkavæða sorphirðu, menntun, heilbrigðisþjónustu og löggæslu og taka því rólega sem borgarstjóri. Ef allt fer til fjandans munu íbúarnir bara flýja eða gera uppreisn og heimta hærri skatta og meiri opinberan rekstur. Ef fólk hins vegar gæti nýtt sér svigrúmið í fjarveru hins opinbera til að finna sínar eigin leiðir að sínum eigin markmiðum, þá flykkist væntanlega fólk í bæinn. Þetta er ekki mögulegt í SimCity. Þetta er hins vegar mögulegt í alvörunni.

Ég veit ekki ennþá hvað ég ætla að kjósa, ef ég kýs. Vill einhver frambjóðandi lofa mér því að stefna að minna vinnuálagi fyrir sjálfan sig á næstu fjórum árum? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband