Hætturnar við að hafa of marga undir sama hatti

Sem foreldri barns á grunnskólaaldri í Danmörku hef ég ekki farið varhluta af verkbanni á kennara. Ég er að vísu í þeirri heppilegu stöðu að búa með tveimur öðrum fullorðnum sem eru mikið heima á daginn þessar vikurnar, svo ég get farið í vinnuna eins og venjulega. Hið sama gildir hins vegar ekki um alla. Barnaherbergi hafa verið útbúin á mínum vinnustað og foreldrar geta þar setið yfir börnum hvers annars (á eigin tíma). Margir eru að nota frídaga og ef verkbannið dregst á langið verður það smátt og smátt að ólaunuðu fríi hjá mörgum. 

Samfélagið er í stuttu máli í vaxandi uppnámi, sem virðist þó byrja rólega og mjúklega fyrir flesta.

Verkbann sem þetta sýnir hættuna af því að hafa of marga undir sama hatti. Langflestir grunnskólakennarar Danmerkur eru í sama stéttarfélagi, sem semur um kaup og kjör fyrir þeirra hönd við einn aðila, samtök sveitarfélaga. Ríkið og sveitarfélögin gefa út starfslýsingar fyrir alla skóla sína, og allir þessir skólar þurfa að hlýða því sem yfirvöld segja. Ef einhver er ósáttur getur hann sett á verkbann eða farið í verkfall eða stöðvað vinnu. Fórnarlömbin eru svo allur almenningur.

Hver er lexían?

Sú, að eitt módel fyrir alla er besta lausnin, og verkbönn og verkföll bara nauðsynlegur fórnarkostnaður þess?

Sú, að yfirvöld segi hvernig eigi að kenna og hvenær, og kennarar hlýði þeim bara?

Sú, að kostir þess að flestir skólar séu reknir á sama hátt eru fleiri en ókostir verkbanna og verkfalla með óreglulegu millibili?

Eða sú, að skólakerfið eigi að einkavæða eins og það leggur sig (með tilheyrandi skattalækkunum og afnámi opinberra hindrana að markaði menntunar), og gera foreldra að borgandi kúnnum, og skólana að þjónustufyrirtækjum sem keppast um að mennta flesta sem best á samkeppnismarkaði? Já, segi ég. 

Og nei, það er ekki þannig að það þurfi ríkisrekið menntakerfi til að "tryggja öllum börnum menntun". Ríkisskólar eru í mörgum tilvikum bara orðnir að geymslustað sem kostar slíkar upphæðir að báðir foreldrar þurfa að vera útivinnandi. Góðgerðarskólar finnast ekki á tímum risavaxins velferðarkerfis. Tilraunastarfsemi í menntun og kennslu er lítil sem engin.

Svo já við því að einkavæða allt kerfið eins og það leggur sig. Menntun er of mikilvæg til að láta ríkið sjá um hana.  


mbl.is Lok, lok og læs í dönskum skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, þetta er snúið dæmi, Geir. Fyrst rak ríkið grunnskólana, svo sveitarfélögin, en ríkið hélt áfram að hafa áhrif á menntun nemenda með því að stýra ákvörðun um hvað skuli kennt og hvað ekki.

Nú eru reknir einkaskólar í Köben og nágrenni þar sem múslimir vilja ráða menntun barna sinna með styrk frá sveitarfélaginu og slatti tímans fer í að kenna þeim lestur úr Kóraninum (trúlega á arabísku).

Hvernig er það þar sem þú býrð? Trúlega einhverjir kaþólskir með einkaskóla, þar sem kenndar eru sömu greinar og í hefðbundnum skólum sveitarfélaganna. En víða í smærri stöðum í Danmörku, hafa menn ekki nægan fjölda nemenda til að skera sig úr og stofna einkaskóla. Er ekki best að vera með hverfisskólana áfram og reyna að kenna öllum sömu námsgreinarnar, í stað þess að senda börnin milli hverfa, þar sem kennslan er "aðeins öðru vísi" i hinu hverfinu?

Er það ekki of kostnaðarsamt og kostar það ekki allt of mikinn skólaakstur, ef stofnaðir eru sérskólar út um allar tryssur?

Sigurður Rósant, 3.4.2013 kl. 16:22

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sigurður,

Takk fyrir athugasemd þína.

Menntakerfið í Danmörku er vissulega miklu frjálsara en á Íslandi, þótt miðstýringin sé alltaf að aukast. Hérna er um allt land haugur af allskonar einkaskólum, sem allir eru á einhvern hátt á spenanum, en mismikið samt.

Einkaskólar eru hérna, en þeir eru fáir og börn þurfa að gangast undir mjög ströng inntökupróf til að eiga von á vist þar.

En nei, ég held að meint samlegðaráhrif þess að miðstýra opinberum skólum og steypa öllum í sama mót séu neikvæð miðað við að leyfa mýgrút skóla að keppa í bullandi samkeppni um nemendur og kapphlaupi við að þóknast bæði börnum og foreldrum.

Geir Ágústsson, 3.4.2013 kl. 19:32

3 Smámynd: Sigurður Rósant

Ég held, Geir, að sú skipan að leyfa mýgrút skóla í bullandi samkeppni um nemendur hafi töluvert ruglandi áhrif á foreldra og nemendur líka. Þeir geta einfaldlega ekki gert upp hug sinn um hvað er "fup eller fakta".

Að auki myndi smáskólum fjölga og öllu opinberu eftirliti gert erfiðara um vik, t.d. gagnvart meðhöndlun barnanna og einnig opinbert námsmat.

Nú er t.d. algengt, bæði á Íslandi og í Danmörku, að verið er að færa 2 skóla í þéttbýli undir eina skólastjórn og spara þannig útgjöld sveitarfélaganna. Sveitarfélögin leggja þessa peninga ekki aftur inn í reksturinn, heldur halda áfram að finna aðrar leiðir til enn meiri sparnaðar. Kennarar geta engum vörnum við komið og heldur ekki foreldrar barnanna, því þá eru hóparnir bara spurðir hvort þeir séu tilbúnir að borga hærri skatta, og auðvitað vilja kennarar og foreldrar það ekki.

Svo verða foreldrar að átta sig á því að ef smáskólarnir verða margir, þá verða þeir að samnýta t.d. smíðastofur, eðlis- og efnafræðistofur og tæki, matreiðslustofur og tæki, leikfimissali, sundstaði o.s.frv., sumir verða að láta sér nægja enga leikvelli o.s.frv.  Þetta kostar allt mikla og tíða tilflutninga á nemendum og ekki er alveg ókeypis í strætó í Danmörku eftir því sem ég best veit.

Allar þessar breytingar myndu gjörbreyta samfélagsmynstri því sem við höfum nú og gera allt menntakerfið ruglingslegra og ómarkvissara fram að framhaldsskólakerfinu.

Sigurður Rósant, 3.4.2013 kl. 23:13

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Sigurður,

Þú ert með marga varnagla og gagnrýninn og það er gott.

Nú skulum við ekki gefa okkur að þótt samkeppni margra lítilla skóla sé LEYFÐ, þá verði hún að veruleika. Kannski er smekkur foreldra svo íhaldssamur, að skólar renna einfaldlega saman. Kannski munu sumir skólar sérhæfa sig þannig að engra eðlisfræðistofa er þörf. Sumir skólar í dag eru með Playstation-tölvur fyrir frístundarbörn en aðrir ekki. Fjölbreytnin er svo góð, og enn betri ef fólk fær sjálft beint hlutverk í að móta það umhverfi sem börnin eru í í marga tíma á dag.

Kannski mun lækkandi skattbyrði valda því að margir foreldrar verða bara heima og kenna börnum sínum og/eða nágranna sinna.

Kannski verða til sérstakir tæknigrunnskólar og sérstakir hugvísindagrunnskólar.

Ég efast um að foreldrar setji minni kröfur til skóla en ríkið, og raunar held að það sé öfugt. Hef t.d. sjálfur kvartað yfir því að stóri strákurinn minn komi næstum því aldrei með heimanám með sér úr skólanum, en mér finnst slíkt nám vera hollt, kenna ábyrgð og gefa mér aukna innsýn inn í námsefnið hans. Heimanámið kemur samt ekki.

Svo já, að múra skólakerfið inn í veggi ríkisvaldsins hefur eflaust marga rekstrarkosti í för með sér. Ég held hins vegar að sóun hins opinbera á tíma og fjármunum sé slík, að samlegðaráhrifin enda á að vera neikvæð. Eða hvernig gengur ríkisvaldinu að halda fíkniefnum úr fangelsum, svo dæmi sé tekið?

Geir Ágústsson, 4.4.2013 kl. 07:55

5 Smámynd: Sigurður Rósant

Ríkisskólar eru í mörgum tilvikum bara orðnir að geymslustað sem kostar slíkar upphæðir að báðir foreldrar þurfa að vera útivinnandi. Góðgerðarskólar finnast ekki á tímum risavaxins velferðarkerfis. Tilraunastarfsemi í menntun og kennslu er lítil sem engin.

Þú býsnast hér yfir allt of miklum kostnaði við "ríkisskólana" en átt sjálfsagt við skóla rekna af sveitarfélögunum, ef ég skil þig rétt.

"Góðgerðarskólar". Hvernig skólar eru það?

Og býsnast líka yfir að tilraunastarfssemi sé of lítil.

Hefur þú hugsað þér að gefa vinnu þína í framtíðinni, Geir? En samt viltu einkaskóla sem eru a.m.k. tvöfalt dýrari í rekstri en "ríkisskólar". Ég held að þú hafir ekki hugsað þetta dæmi frá upphafi til enda. Sjálfur vann ég við kennslu í grunn- og framhaldsskólum á árunum 1973 - 1995 og hef fylgst með námi barna minna frá 1979 - dagsins í dag. Og ók strætó í Næstved í Danmörku árin 2006 - 2011, og sá vel hvernig sum börn þurftu að sitja í strætó til þess eins að sækja einkaskóla sem var staðsettur rétt utan við bæinn og öfugt. Fylgdist með fréttum um niðurleggingu skóla úti í dreifbýlinu, sameiningu skóla í þéttbýlinu o.s.frv.

Sumir kennarar voru byrjaðir á þeirri aðferð að láta nemendur skilja eftir skólatöskur og námsbækur í skólastofunni, strax á árunum 1980 að ég man, eða 15 árum fyrir einsetningu grunnskólanna á Íslandi. Eftir einsetningu þykir mér sú ráðstöfun fullkomlega eðlileg, Geir.  Nemendur eru þá búnir að sitja í skólanum frá 8 - 14:30 a.m.k og eiga alveg skilið hvíld frá öllu sem heitir nám. Á meðan skólarnir voru tví- eða þrísettir, var allt annað uppi á teningnum. Þá var enginn stuðningur við "heimanámið" í boði í skólunum og foreldrar þurftu að sinna "góðgerðarskóla-hlutverkinu".

Viltu snúa til tví- eða þrísetningarfyrirkomulagsins aftur til að lækka skattana? Persónulega er ég hlynntur því, en þá verður einhver að vera heima og koma börnunum í skólann og taka á móti þeim úr skólanum, senda þau í leikfimi, sund, smíðar o.s.frv. því tví- eða þrísetinn skóli þýðir auðvitað sundurslitna stundaskrá, Geir.

Já, pældu.

Sigurður Rósant, 4.4.2013 kl. 11:36

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Sigurður,

Það er auðvitað þægileg tilhugsun að geta hent börnunum út á morgnana, þaðan sem þau geta labbað á skólastofnun og verið þar fram á seinnipart (í einsetnum skóla og síðan frístundarheimili).

Og þessir fáu einkaskólar sem þó þrífast í dag (t.d. á ódýru landi úti í sveit), greyið þeir að hafa þetta orðspor á sér að vera sóa fé og tíma. Þeir virðast samt vera það miklu betri en valkostur sveitarfélagsins að bæði börn og foreldrar eru tilbúnir að sjá á eftir tíma og fyrirhöfn til að komast í þá.

Þú stillir mér upp við vegg: Lægri skattar og þrísetning, eða hærri skattar og einsetning. Þú berð saman þrísetinn opinbera skóla við einsetinn einkaskóla. Allt eru þetta ímyndaðir valkostir því kerfið býður ekki upp á neina raunverulega valkosti við opinbera módelið. Þú vilt ekki gefa svigrúminu tækifæri því þú sérð ekki fyrir þér niðurstöðuna.

Skal alveg hafa samúð með slíku hugarfari, en mitt er annað: Hvað það nú er sem fólk finnur upp á í umhverfi svigrúmsins er e.t.v. ekki betra en það sem hið opinbera neyðir okkur út í, en það er a.m.k. byggt á frjálsu vali.

Geir Ágústsson, 4.4.2013 kl. 11:45

7 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, ég hef haft opin augun gagnvart breytingum á kennslu- og menntafyrirkomulagi leik- og grunnskólanna í nokkra áratugi, en gaman væri að sjá hvar breytingar í þá átt sem þú talar um, reynast vel og eru ódýrari valkostur en "ríkisskólarnir".

Það var svolítið skondið að sjá foreldra í smáþyrpingum kringum Næstved, krefjast þess að lífi væri haldið í smáskólanum þeirra, en sendu svo sjálf börnin sín til þéttbýlisins. Allt á kostnað sveitarfélganna sem einnig hafa sameinast og reyna allt hvað þau geta til að hagræða og spara útgjöld til mennta-, heilbrigðis- og löggæslumála.

Hvernig eru þessir þættir að þróast þar sem þú ert? Ertu ekki í Álaborg? Mér sýnist Álaborg vera á stærð við Reykjavík, með um 200 þúsund íbúa og 50 skóla. Sumir skólarnir hafa vart meira en 80 nemendur á grunnskólaaldri, þ.e. í 10 árgöngum, sem þýðir u.þ.b. 8 nemendur í árgangi að meðaltali. Það liggur í augum uppi að slíkur skóli er ekki hagkvæmur í rekstri, Geir.

Best er rekstrarlega séð að nemendur séu a.m.k. 450 - 1.200, svo hægt sé að mynda fleiri en einn bekk í hverjum árgangi og bjóða upp á stuðnings- eða séraðstoð innan skólans. Hafa aðstöðu til leikfimi, sunds og annarra sérgreina á sama svæðinu svo ekki þurfi að transportera með nemendur sí og æ.

Ég varð mjög undrandi á öllu þess dreifbýli sem fyrirfinnst í Danmörku. Ég hélt að við værum með miklu fleiri dreifbýlisskóla. Ég er hlynntur sameiningu sveitarfélaga, sameiningu skóla og reyna að draga úr sérskólum þar sem trúarleg sjónarmið ráða ríkjum, en einmitt sú hætta er fyrir hendi, ef við hvetjum til svokallaðrar "samkeppni" eins og þú kallar stefnu þá er þú og sumir fleiri láta út úr sér að lítt hugsuðu máli, að því er mér finnst.

Læt ég nú þessu tuði lokið af minni hálfu.

Sigurður Rósant, 4.4.2013 kl. 13:38

8 Smámynd: Steinarr Kr.

Þið eruð kanski ekki að taka þessa umræðu nógu langt. Í Bandaríkjunum, þar sem ég var í skóla var allt kerfið á vegum sýslunnar, skólinn, íþróttirnar, tónlistarnám, leiklistarnám og annað sem kallað var Extra Curricular Activity. Skólarnir kepptust svo innbyrðis í þeim íþróttum sem æft var í. Til að ferðast á milli voru notaðir skólabílar, húsnæði skólans var notað fyrir æfingar og ekki var gerð krafa um sérhæft/sérbyggt húsnæði fyrir hverja grein. Kennarar voru oft í aukastörfum við þjálfun og stjórnun. Greitt var fyrir skólann með ákveðinni prósentu af skatti og gátu íbúar hækkað og lækkað þessa prósentu í kosningum. Ef við viljum getum við haft þetta kerfi eins og okkur langar.

Steinarr Kr. , 4.4.2013 kl. 20:32

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Sigurður,

Takk aftur fyrir athugasemdir þínar. Þær voru málefnalegar og athyglisverðar þótt þú kallir þær "tuð".

Steinarr,

Kerfið er bara jafnlokað og við viljum, og jafnsveigjanlegt og við viljum. Þannig er það bara. Á Íslandi er kerfið lokaðra en í Danmörku, og í Danmörku lokaðra en í Svíþjóð.

Geir Ágústsson, 5.4.2013 kl. 08:36

10 identicon

Sæll.

Það sem hér kemur fram er mjög áhugavert. Samt hefur engin umræða spunnist um miðstýringu í háskólanámi. Er lengra nám betra nám?

Einu sinni þurftu kennarar ekki á háskólaprófi að halda til að mega kalla sig kennara, síðan varð það að þriggja ára námi og nú loks að 5 ára námi. Eru þeir sem útskrifast nú betri kennarar en þeir sem komu frá gamla kennaraskólanum? Svipaða sögu má segja um hjúkrunarfræðinga, fyrst ekki háskólanám en nú 4 ára háskólanám.

Hvað með lækna? Ef menn mega kalla sig lækna eftir 7 ár má þá ekki segja að þeir verði betri læknar ef þeir læra í 9 ár? Hvað með lögfræðinga? Þeir þurfa 5 ár, væri ekki betra að láta þá læra í 7 ár?

Er ekki rosalega auðvelt að finna alltaf eitthvað til að tína inn í nám viðkomandi stéttar? Hverjir græða á því? Er það ekki háskólasamfélagið? Þeir sem tapa á því eru samfélagið og einstaklingar því einstaklingar vinna þá skemmri tíma ævi sinnar.

Svo er nú annað mál þær gífurlegu hindranir á endurnýjun sem fagstéttir setja. Til að verða kennari þarf að hafa lært í ákveðnum skólum í ákveðinn tíma, sama má segja um lækna og fleiri stéttir.

Ef einhver skóli telur sig geta breytt t.d. verkfræðinámi þannig að það taki bara 3 ár að læra það sem nauðsynlegt er talið en stéttarfélagið er því ósammála má viðkomandi ekki kalla sig verkfræðing. Má ekki markaðurinn ráða því?

Er stéttarfélagið ekki bara að þessu til að halda uppi launum sinna félagsmanna? Er ekki þessi gífurlegi tími sem tekur að framleiða t.d. lækni ekki í reynd skálkaskjól, læknar verða þá færri og sem þýðir væntanlega hærri laun fyrir þá?

Mér finnst þessi "skólavæðing" sem við sjáum víða alveg fáránleg og afar veik rök á bak við hana. Við sáum mörg dæmi þess að einstaklingar læri t.d. hagfræði í upp undir 10 ár í merkum háskólum en viti svo bara ekkert í sinn haus um fagið.

Helgi (IP-tala skráð) 5.4.2013 kl. 11:38

11 Smámynd: Sigurður Rósant

Get bara ekki stillt mig um að "tuða" aðeins meira. Sú frétt var að berast okkur í gegnum RÚV að sveitarfélög spari um 46 milljónir danskra króna á dag, eða um rúmar 8 danskar krónur (160 IKR) á hvern Dana.

Sveitarfélög halda líklega að þau þurfi að beita kennara slíkum refsingum vegna þess að þeir eru ekki sáttir við væntanlegar breytingar á vinnutíma, þ.e. aukna viðveru í skólum með börnunum.

Einn meðal öllari í Danmörku kostar kannski í kringum 5 - 8 danskar og þykir mér það ekki mikill launakostnaður við rekstur grunnskólanna, ef þessar tölur eru réttar. Margur Daninn fer með 50 DKR á dag í sígarettureykingar, 100 DKR í rauðvínssull o.s.frv., þannig að ég skil ekki hvers vegna menn eru að býsnast yfir háum kostnaði við rekstur grunnskólanna. Sjáið þessi gömlu húsgögn og ofna með riðblettum á vefsíðu EkstraBladet. Þessi mynd segir okkur að aðstaða fyrir grunnskólabörn er ekki upp á marga fiska í Danmörku, frekar en á Íslandi. Níska og sjálfselska skattgreiðenda skín í gegnum neyslumynstur þeirra.

Innlegg  Steinarr Kr. er frekar óljóst og segir manni ekki mikið um hvernig þessum málum er háttað þar sem hann var í USA. Dóttir mín á 18 ári er í skiptinemanámi í Michigan ríki og er henni ekið í og úr skóla og svo einnig á íþróttaæfingar, en ég veit hins vegar lítið um hvernig kennslugæðin eru eða aðstaða nemenda. Kostnaður er hins vegar um 2.500 IKR á dag í 10 mánuði fyrir svona nema frá Íslandi. Veit ekki hvað það kostar fyrir íbúa USA.

Að sumu leyti er tekið harðar á árangri nemenda, en mér virðist sem nemendur geti verið afskaplega fáfróðir á sumum sviðum og að við Evrópubúar getum verið stoltir af okkar árangri. Persónulega vil ég meira aðhald með nemendum og fjölbreyttari lestrar-, skriftar-, íslensku-, stærðfræði- og raungreinakennslu. Draga úr kennslu í kristnum fræðum og kóranlestri á arabísku þar sem það tíðkast. Þar er tíma nemenda kastað í tóma vitleysu, að mínu mati.

En ég gleymdi að geta þess, Geir, að ég sá börn í Næstved ganga, hjóla og ferðast með strætó í skólann sinn og með skólatöskur á baki, þannig að það er sem mig grunaði, eilítið misjafnt, eftir kennurum og skólum, hvort nemendur geti sinnt heimanámi eða ekki. Gott ef sumir hafa orku, tíma og aðstöðu til þess.

Eru þeir sem útskrifast nú betri kennarar en þeir sem komu frá gamla kennaraskólanum?

Helgi veltir þessu fyrir sér, hvort kennarar verði betri eftir háskólamenntun en úr gamla kennaraskólanum. Ég held að það skipti ekki máli hvort við höfum hlotið menntunina í uppeldisfræðum fyrir tvítugt eða eftir tvítugt. En tíminn og reynslan gefur okkur alltaf eitthvað í veganesti. Best væri auðvitað að við hefðum eignast börn, alið þau upp og komið þeim á legg líka, áður en við tökum önnur börn að okkur og reynum að kenna þeim.

Svo er það líka þolinmæði og útsjónasemi sem skiptir töluverðu máli, þega að kennslu barna og unglinga kemur. Líka spurning um skipulagshæfni, aðlögunarhæfni, samstarfshæfni o.s.frv. Réttindin sjálf og magn menntunar hefur ekki endilega mikið vægi í þessum efnum. Samt eru þau mest metin þegar kemur að ráðningu kennara til skólanna, svo einkennilegt sem það og virðist.

Sjónarmiðin eru líka æði misjöfn, þegar ákvarðanir um rekstur skóla eru teknar. Sumum finnst ekkert eðlilegra en að 1 skólastjóri og 2 kennarar til aðstoðar séu ráðnir til að kenna 4 börnum í afdal eða á útnesjum, hvort sem það er á Íslandi eða annars staðar í Evrópu. Og þá er borið við... "Ef ljósið í skólanum slökknar, þá er ekkert líf í samfélaginu lengur".

Sigurður Rósant, 5.4.2013 kl. 16:15

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég starfaði sjálfur sem kennari í hálfu starfi í menntaskóla á meðan ég var ennþá að læra verkfræði. Ég hafði enga þjálfun í kennslu og framkomu og steig á eina eða tvær línur í samskiptum kennara og nemenda. Mér fannst samt takast ágætlega til! Einkunnir minna nemenda voru a.m.k. svipaðar og annarra í þeim fögum sem ég kenndi og einn nemanda minna sagði mér löngu seinna að þökk sé mér þá breytti hann stefnu sinni í náminu töluvert og var mjög ánægður með það.

En er ég einhver undantekning? Einhver með meðfædda kennsluhæfileika? Það held ég ekki. Ég kom með aðeins aðrar nálganir, reyndi að minnka mötun og efla sjálfsnám og aðlaga aðferðir að viðtakendunum. Kennarar, sprenglærðir og með fjölda kennaragráða, voru á "comfort zone", að kenna með viðurkenndum aðferðum og af mikilli festu fylgja sinni eigin rútínu.

Ég fengi ekki svona aukastarf aftur. Kröfurnar til hlutastarfskennara eru aðrar og meiri í dag. Þessar dyr eru lokaðar fyrir mér í dag. Og það er ekki skólastjórinn sem ákvað það.

Kannski er engin ein rétt lausn. Ég held samt að það geri engum rekstri gott að vera settur undir miðstýringu hins opinbera, og vera háður ríkinu og fjárveitingar úr vösum skattgreiðenda.

Geir Ágústsson, 6.4.2013 kl. 15:49

13 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, það er allur gangur á þessu, Geir. Ég veit til þess að sprenglærðir og reyndir einstaklingar úr athafna- og viðskiptalífinu hafa verið ráðnir til að stýra kennslu grunnskólabarna, en misst tökin á öllu á nokkrum vikum og þurft að yfirgefa vettvanginn fyrir jól.

Það úir og grúir af alls kyns hugmyndum og draumórum skólanefnda í sveitarfélögum afdala, útnesja, krummaskuða og eyja um alla veröld. En í dag er erfitt að fá einhverja "stöðu" í þéttbýli fyrir ofurmenntað fólk. Alltaf séns í dreifbýlinu.

Einn veðurfræðingurinn í Reykjavík fékk eitt sinn þá hugmynd að kenna börnum grunnskólanna stærðfræði eftir sínum hugmyndum, er kennarar háðu 6 vikna árangurslaust verkfall. Verkfallsstjórn óskaði honum góðs gengis að mig minnir. Ég veit ekki til þess að hann hafi haldið áfram með sínar súper aðferðir. En kennarar eru alls ekki á móti því að menn reyni nýjungar eða fari sínar leiðir, Geir, hvorki innan stofnananna né utan þeirra.

Sigurður Rósant, 6.4.2013 kl. 17:22

14 Smámynd: Geir Ágústsson

Yfirkennarinn í öðru faginu sem ég kenndi var mjög ánægður með nýbreytni mína. Hann tók hana hins vegar ekki upp á sína arma að því er ég best veit. Hann var samt einn uppáhaldskennarinn minn þegar ég var nemandi í sama skóla, þótt hann sæi enga ástæðu til að víkja af leið í kennslu á sinni eigin bók.

Hvers vegna? Eða öllu heldur: Hvers vegna að breyta því sem virkar?

Kennarar eru nú eins og aðrir, þar á meðal verkfræðingar eins og ég. Fái þeir það á tilfinninguna að óbreytt ástand sé gott, þá er óbreyttu ástandi viðhaldið. Fái þeir á tilfinninguna að núverandi ástand sé gott, þá er í lagi að varðveita það. En fái t.d. minn vinnustaður það á tilfinninguna að hagnað megi auka með því að gera eitthvað betur eða öðruvísi, jafnvel með öðru starfsfólki, þá finn ég mjög fljótlega fyrir því í minni vinnu. Skólar á spena ríkisins hafa ekki "mælikvarða" eins og hagnað og tap til að leiðbeina sér. Og það er miður. En það er kannski umræða sem ég ætti að taka betur seinna.

Geir Ágústsson, 8.4.2013 kl. 10:56

15 Smámynd: Sigurður Rósant

Ég bíð nú eiginlega spenntur eftir nánari útskýringum þínum á þeirri hugmynd að einkavæða grunnskólana.

Hugsarðu þér að sveitarfélögin skaffi skólahúsnæði og alla aðstöðu fyrir nemendur og kennara, ríkið útbúi ennþá námsefni og skaffi pr. nemanda eftir árgangi ákveðna fjárupphæð til kaupa á bókum, efnum og tómstundakostnaði, en bjóði síðan reksturinn út til eins eða fleiri skólamanna sem taka svo að sér að ráða og reka kennara til starfa í hverfisskólum sem þegar eru fyrir hendi? Verði síðan að taka við öllum þeim nemendum sem búa í tilteknu hverfi, eða geta þeir valið úr þá bestu og jafnvel rekið skussana og þá sem hafa engan áhuga fyrir námi?

Eða hugsarðu þér að eins konar verktakar bjóði í rekstur skóla með nýjum eða notuðum byggingum, sérstökum fólksflutningabílum til að sækja og transportera nemendum um allar tryssur, útbúi námsefni líka, bara fyrir sína skóla og mæti svo ríkisreknu skólunum árlega í samræmdum prófum? Taki við öllum nemendum, lesblindum, með athyglisbrest, fötluðum, blindum o.s.frv? Bjóði í starfssemina með árs fyrirvara, tveggja ára eða meira? Eða stofna skóla sem festa sér sess í samfélaginu og aukið orðspor, þannig að þeir þykja eftirsóknarverðir?

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að best sé að efla þá skóla sem fyrir eru, með því að bæta húsnæði, skólaumhverfi og alla aðstöðu nemenda og kennara, útrýma heilsuspillandi vistarverum nemenda og kennara, stytta kennsluskyldu kennara og hækka laun þeirra. Hækka álögur skattgreiðenda eða foreldra og sýna grunn- og framhaldsskólum meiri ræktarsemi og alúð. En þetta verður að haldast í hendur. Ekki er nóg að lýsa yfir jákvæðu hugarfari gagnvart skólunum án þess að opna budduna.

Sigurður Rósant, 8.4.2013 kl. 16:55

16 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll,

Mín "útfærsla" yrði nú bara sú að afnema lagalegar hindranir að markaði menntunar, afnema alla skatta sem eru eyrnamerktir grunnskólamenntun (og rúmlega það, því eitthvað kostar stjórnsýslan í kringum þá) og láta menntun barna vera á ábyrgð foreldra. Margir tala hátt og snjallt um þörfina um að aðstoða þá efnaminni og bágt stadda, og ég er viss um að sama fólk mun leggja sitt af mörkum, og láta aðgerðir fylgja orðum.

Svíar eru að gera tilraunir með "ávísanakerfi" og virðist hafa gefist vel. Það er a.m.k. skárra en opinber miðstýring.

Geir Ágústsson, 9.4.2013 kl. 19:21

17 Smámynd: Geir Ágústsson

Stærsta vandamál mitt vegna komandi kosninga er einmitt mikill fjöldi "útfærslna". Hvað með að lofa því bara að sleppa tökum ríkisvaldsins? Hvað hefur Sementsverksmiðjan á Akranesi ratað oft í fréttirnar síðan hún var einkavætt og opnað á samkeppni fyrir framleiðslu hennar? Mjög sjaldan. Undir handjaðri ríkisins var hún stanslaust þrætuepli. Ég óska fleiri fyrirtækjum hins sama, þ.e. svigrúms til spjara sig eða fara á hausinn án þess að stjórnmálamönnum sé sífellt réttur boltinn og þeir beðnir um að leysa málin með pyngju skattgreiðenda.

Geir Ágústsson, 10.4.2013 kl. 09:07

18 Smámynd: Sigurður Rósant

Ég skoðaði heimasíðu þessara sænsku skóla, kunskapsskolan í Svíþjóð. Sé að þeim hefur fækkað undanfarin ár úr 34 niður í 29. Þeir innheimta engin auka gjöld umfram það sem sveitarfélagið skaffar þeim, fara eftir námskrá landsins, taka þátt í samræmdum prófum og fylgja "flokkunarkerfi" landsins.

Våra skolor följer den nationella läroplanen, deltar i nationella prov och tillämpar det nationella betygssystemet.

Upplýsingar á þessum heimasíðum skólanna segja manni ósköp lítið um árangur nemenda. Þó gæti maður ímyndað sér að nemendum líði örlítið betur í þessum skólum þar sem þeir eru minni í sniðum og geta kannski eitthvað stýrt því hverjir fá inngöngu og hverjum er hafnað.

Svona skólar hafa lengi verið valkostur í henni Reykjavík og víða um land í svokölluðum "heimavistarskólum" landsins sem flestir hafa verið lagðir niður. Landakotsskólinn, Ísaksskóli, Suðurhlíðarskóli eru enn starfandi og njóta styrkjar sveitarfélaganna, en fylgja að mestu sömu námskrá og taka þátt í samræmdum prófum að því er ég best veit.

En af hverju gekk rekstur heimavistarskólanna á Íslandi ekki, Geir? Ég tel svarið við því, breytt viðhorf til sérkennslunnar. Það þótti ekki lengur skila árangri að senda baldna nemendur í heimavistarskóla til þess að anda að sér sveitaloftinu og að það ásamt öðru, gæti hjálpað nemendum sem gekk illa í þéttbýlinu. Danir eru enn að reyna þessar úreltu aðferðir og bjóða upp á "friskoler". Þú getur skoðað heimasíðu Kolding friskole t.d. og séð að þar eru aðeins 60 nemendur í 8 árgöngum. Það þýðir að hér er um dæmigerðan dreifbýlisskóla að ræða sem hefur ekkert sérstakt upp á að bjóða nemendum annað en minna ónæði af öðrum nemendum í fjölmennari skólum þéttbýlisins.

En segðu mér, Geir. Þurfa verkfræðingar ekkert að pæla í kostnaði við rekstur þeirra mannvirkja sem þeir hanna?

Sigurður Rósant, 10.4.2013 kl. 13:26

19 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Sigurður,

Ég sé að þú ert hrifinn af stórum skólum. Nú vona ég ekki að þú sért hrifinn af 40 krakka bekkjum og því að skurðlæknir skeri tvo sjúklinga upp í einu. Tilraunastarfsemi koðnar niður og er drekkt í "faglegum" leiðum í öllu. 900m norðan af þar sem ég bý er lítill Rudolf Steiner-skóli og þar er varla rafmagnstæki að finna og sum börn þar lesa ekki fyrr en 8-9 ára gömlu. 900m norðar er hefðbundinn hverfisskóli. Hvor hefur sína kosti og galla en foreldrar ráða. Þannig er það bara.

Lítil hverfisverslun sem selur klósettrúllu á 500 kall hefur sína kosti, og stórmarkaður sem selur 10 rúllur á 500 kall líka. Skólar eiga að fá að vera af öllu tagi, að smekk og vali hvers. Sérkennsla í ríkisskóla er ekki lausnarorðið að öllu.

Geir Ágústsson, 12.4.2013 kl. 11:46

20 Smámynd: Sigurður Rósant

Ég kenndi eitt sinn í fjölmennum skóla þar sem 6 bekkir voru í hverjum árgangi. Skv. reglum skólaskrifstofu var skylt að "blanda" í bekki, þ.e. nemendum blandað eftir getu og hæfileikum. Það var hins vegar ekki gert, heldur "raðað" í bekki í 7. - 10. bekk (tilraunatarfssemi).

Ég vissi ekkert af þessari "röðun" í bekkina, svo ég skipulagði kennsluna skv. því. Ákvað að setja nemendum fyrir heima, útbjó spurningar fyrir hvern tíma og lagði fyrir nemendur. Sagði svo við þá að þeir mættu fara út úr kennslustund þegar þeir væru búnir að svara spurningunum og þeim væri velkomið að leggja fyrir mig spurningar og ræða námsefnið.

Í einum bekknum voru nemendur 30. Þeir voru flestir búnir að leysa verkefnin eftir 10 mínútur og farnir út. Í öðrum bekk voru 16 nemendur. Þeim tókst ekki að ljúka verkefnunum í 40 mín kennslustund þó þeim stæði það sama í boði og ég hefði miklu meiri tíma pr. nemanda en í fjölmennari bekknum. Aðrir bekkir voru þarna mitt á milli hvað getu og hraða snertir. Engin séraðstoð var í boði fyrir slaka nemendur í þessu tiltekna fagi sem ég kenndi öllum bekkjunum.

Í Rudolf Steiner skólunum, friskolerne og litlu skólunum í dreifbýlinu  og sænsku kunskapsskolene yrðum við með "blandaða" bekki sem þýddi það að  duglegum/hæfileikaríkum nemendum myndi leiðast þófið og kennari þyrfti að útbúa sérverkefni handa þeim í það óendanlega. Það þætti þeim svo ósanngjarnt á meðan hinir slakari/hæfileikaminni útskrifuðust með sömu ágætiseinkunn, þrátt fyrir alla atorkusemina.

Ég mæli með því að þú fair þér vinnu sem skólaliði í einhverjum grunnskólunum og setjir svo inn nýja færslu um skólamál eftir ca. 4 - 5 ár. Þig vantar reynslu og þekkingu á þessu sviði, Geir, rétt eins og ég ekki hundsvit á hvað verkfræðingur eða skurðlæknir fæst við frá degi til dags.

Sigurður Rósant, 12.4.2013 kl. 17:12

21 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Sigurður,

Þarna tókust mig á trompinu "ég hef kennt í grunnskóla en ekki þú". Ég get nú samt, eftir að hafa kennt einn vetur í menntaskóla (stærðfræði í máladeild og tölvufræði á náttúrufræðibraut) kannast við ýmislegt af því sem þú segir. Mér fannst hins vegar ekkert stórmál að gera meiri kröfur til þeirra sem gátu meira, þótt nemendurnir hafi verið 20-25 talsins. Eða hvað er að því að mata dýr sem borðar og borðar þótt skepnan við hliðina á tyggi hægt?

Ég held því samt fram að menntun sé of mikilvæg til að láta hið opinbera um að sjá um hana. Þá er ég ekki að meina að ríkið "leyfi" skóla fyrir börn ríkra foreldra sem hafa bæði efni á sköttunum og skólagjöldunu, eða greiði með nemendum í "samþykkta" svokallaða "frískóla" og hvaðeina. Ríkið á bara að koma sér út úr menntakerfinu.

Geir Ágústsson, 13.4.2013 kl. 14:53

22 Smámynd: Sigurður Rósant

Ég veit ekki hvort þú ert að mismæla þig, Geir, en "ríkið" hefur fyrir löngu komið sér út úr framkvæmda- og kostnaðarhlið leik- og grunnskólanna. Veit ekki um framhaldsskólana, en held að það sé enn svona beggja blands.

Ríkið sér eingöngu um gerð grunnskólalaganna og svokallaða aðalnámskrá. Ríkið sér einnig um kaup, gerð og framleiðslu námsefnis fyrir, leik-, grunn-, og framhaldsskólana. Skólarnir gera síðan skólanámskrá fyrir hvern skóla í samráði við foreldra. Þannig geta foreldrar aðeins sveigt til áherslur í kennslu námsgreina sem hæfa frekar nemendum í viðkomandi sveitarfélagi.

En ef ríkið á að hætta að skipta sér af stefnumótun leik-, grunn-, og framhaldsskólanáms, hver á þá að móta heildarstefnuna? Eða er hún kannski ekki nauðsynleg? Gæti ekki farið svo að börn íbúanna í Samsø færu á mis við einhverja menntun sem  nemendur í þéttbýlinu fengju?

Ég hef einnig reynslu af kennslu fullorðinna og vart er það sambærilegt við kennslu grunnskólanema, Geir, þó vissulega sé sumt mjög sambærilegt.

Eða hvað er að því að mata dýr sem borðar og borðar þótt skepnan við hliðina á tyggi hægt?

Það er nú ekki sanngjarnt að líkja undirbúningi kennslu barna við það að gefa dýrum að éta (borða eins og þú kallar það). Þarna sýnirðu lítilsvirðingu í garð kennslu grunnskólakennarans, eða beinlínis vanþekkingu. Við getum ekki í það óendanlega ætlast til þess af duglegri/hæfileikaríkari nemendum að sitja og góna út í loftið eða sinna margfalt meira námi en meðalnemendum.

Sigurður Rósant, 14.4.2013 kl. 01:41

23 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég man það vel í mínum efsta bekk í grunnskóla að stærðfræðikennarinn þar var með kjarnaefni og hvatti okkur þar að auki til að leysa aukadæmi eins og við gátum og sá alltaf til þess að nóg framboð væri af því. Og þeir voru margir í bekknum sem leystum aukaæfingar þegar kjarnaefnið var á þrotum.

(Hið opinbera, hvort sem það er ríkisvaldið eða sveitarfélög, eru "ríkið". Gildir einu hvort skatturinn renni til Stjórnarráðsins eða ráðhússins; ef ég borga hann ekki og hlýði ekki þeim sem þar sitja, þá bíður mín fangelsi.)

Annars erum við komnir út fyrir efnið. Þú leggur traust þitt á kjörna fulltrúa og embættismanna þeirra, en ég ekki. Ég er troðfullur af tortryggni til þeirra sem er hlíft við afleiðingum gjörða sinna í nafni "embætta" og "kosninga", en þeim mun meiri til þeirra sem eru reknir ef kúnnarnir yfirgefa þá. Þar er gjá á milli okkar pólitísku sannfæringar sem seint verður brúuð.

Geir Ágústsson, 14.4.2013 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband