Flóttinn við tiltektina

Hvernig stendur á því að tæpum 5 árum eftir hrun nokkurra banka sé ennþá slæmt efnahagsástand á Íslandi og raunar víðast hvar í hinum vestræna heimi?

Af hverju ætti gjaldþrot, jafnvel fjöldagjaldþrot fjölmargra, að valda hægfara dauða hagkerfis mörg ár fram í tímann?

Ástæðan er auðvitað sú að gjaldþrotaskiptum hefur verið slegið á fest á kostnað skattgreiðenda, bæði í dag og í framtíðinni.

Þetta er ekki miklu flóknara en það. Og hvernig hefur gjaldþrotaskiptum verið slegið á frest? Með inngripum.

Þetta má skýra með dæmi.

Segjum sem svo að allar matvöruverslanir á Íslandi birgi sig frá og með deginum í dag og næstu 5 árin upp með túnfisk í dós. Allar matvöruverslanir vonast til að verð á slíkum varningi eigi eftir að margfaldast eftir, segjum, 5 ár. Allar þessar verslanir binda gríðarlegt fjármagn í túnfisk í dós. Flestar steypa sér í miklar skuldir til að fjármagna þessa birgðasöfnun.

5 ár líða og lán þurfa að greiðast. Verð á túnfisk í dós hefur ekkert breyst, og jafnvel lækkað. Lán verða ekki greidd. Birgðir þarf að selja á verði sem stendur engan veginn undir kostnaðinum við þær. Allar matvöruverslanir á Íslandi, eða einni eða tveimur undanskildum, fara á hausinn.

Hefur heimsendir nú átt sér stað? Nei. Lánadrottnar, þeir sem voru jafnlélegir að spá fram í tímann og lánþegar þeirra, þurfa að afskrifa miklar fjárhæðir og margir þeirra fara líka á hausinn. Birgjar sitja uppi með sárt ennið ef þeir fengu ekki staðgreitt á sínum tíma. Margir þeirra fara líka í þrot.

Neytendur gleðjast. Þeir fá afskrifaðar birgðir á lágu verði.

Hillur matvöruverslananna eru enn á sínum stað. Ennþá þarf að reka slíkar verslanir, og nýir eigendur sinna þeirri eftirspurn. Þeir sem brenndu sig á spákaupmennskunni læra að fara varlegar. Hagkerfið heldur áfram að rúlla og skuldabóla túnfisksöfnunarinnar skolast í burtu, en á reikning þeirra sem dældu í hana fé.

Engin ástæða er til að ætla að gjaldþrot banka, jafnvel allra bankanna, ætti að eiga sér stað öðruvísi. Tæp 5 ár af þjáningum vegna slíkra gjaldþrota eru óafsakanleg mistök stjórnmálamanna sem forðuðust tiltekt og reyndu að slá henni á frest.

Og þannig er það bara.  


mbl.is Vantraust bakgrunnur kosninganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinarr Kr.

Ísland steig skrefinu lengra en aðrir í vitleysunni. Hér er fé lífeyrissjóða notað til að lengja líf þessara dauðu fyrirtækja, hvort sem rekstrargrundvöllur er fyrir hendi eða ekki. Tel að það hefði verið betra að láta öll þessi fyrirtæki (og heimili) þar sem endar náðu ekki saman fara í þrot og taka sársaukann út strax.

Steinarr Kr. , 27.4.2013 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband