Skattar eru of lágir.. miðað við ríkisvaldið

Lítil en einhver umræða er um skattalækkanir og -hækkanir í tengslum við kosningar til Alþingis. Hún er auðvitað alltof lítil, því skattar eru eitt öflugasta stjórntæki ríkisvaldsins og skipta miklu í því samhengi. Einhver er umræðan samt.

Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka lofar að lækka skatta (þótt stundum megi skilja að markmið þeirra skattalækkana sé bara að hámarka skatttekjur ríksins vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu) en aðrir lofa að hækka þá eða að halda þeim a.m.k. óbreyttum.

En skattar eru of lágir, sjáið til. Ríkisvaldið er kannski stórt og fer stækkandi, og skiptir sér af fleiri og fleiri afkimum samfélagsins, en það er rekið með halla. Skattar nægja ekki fyrir útgjöldum ríkisins. Lántökur þarf til. Skattar eru því of lágir.

Þessu gætu einhverjir mótmælt og líta þá auðvitað í eigin pyngju og sjá að minna og minna er eftir í henni, meðal annars og jafnvel aðallega vegna hækkandi skatta (stærsta útgjaldaliðar heimilanna í dag). En við þá segi ég: Hefur þú barist fyrir því að ríkisvaldið minnki? Hefur þú lagt til við einhvern að ríkið einkavæði eitthvað eða hreinlega leggi niður einhverja starfsemi sína?

Svarið er sennilega nei. Sennilega hefur þú bara einblínt á skattana en ekki velt því mikið fyrir þér hvers vegna skattar eru háir og fara hækkandi, en duga samt ekki fyrir ríkisútgjöldunum.

Skattar á þig, kæri lesandi, eru of lágir, og það er vegna þess að þú ert ekki að berjast fyrir minnkandi ríkisvaldi (stórkostlega minnkandi ríkisvaldi, þannig að núverandi skattaálögur dugi í fyrsta lagi til að mæta útgjöldum ríkisins, og í öðru lagi til að útgjöld minnki niður fyrir núverandi skattheimtu).

Viltu að skattar lækki? Gott og vel, það vil ég líka. En þá þarftu að gjöra svo vel að hefja baráttuna fyrir minnkandi ríkisvaldi. Þú þarft að segja það hreint út að ríkið þurfi að einkavæða stóra hluta af starfsemi sinni eða hreinlega leggja þá niður. Þú þarft að benda á að þannig og bara þannig sé hægt að létta þétt grip hins opinbera á pyngjum landsmanna og hefja niðurgreiðslu skulda. 

Þá erum við líka að tala saman. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinarr Kr.

Ég vildi óska að það væri byrjað á því að skera niður fjárveitingar til stjórnmálaflokka. Eins og staðan er í dag má búast við að ríkið dæli tugum miljóna í framboð næstu fjögur árin, sem ekki einu sinni ná manni inn á þing.

Síðan gætum við farið að skoða ríkisstofnanir sem við þurfum ekki, t.d. Happdrættisstofu, umboðsmenn, hvaða nöfnum sem þeir nefnast, samkeppnisstofnun, landlækni og umferðarstofu.

Næst væri ráð að ríkið hætti að niðurgreiða áhugamál fólks. Þegar fjárlögin eru skoðuð fer talsverður peningur í svoleiðis.

Steinarr Kr. , 22.4.2013 kl. 18:11

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þú ert á réttri leið með því að nefna dæmi um afkima sem má skera úr snöru hins opinbera eða hreinlega leggja niður.

Meira þarf samt til að raunverulega losa um tak ríkisins á samfélaginu. Ríkið þarf að opna á samkeppni við sig sjálft, t.d. leyfa fólki að kúpla sig úr hinu opinbera heilbrigðiskerfi og auðvitað menntakerfi, fá "afslátt" á skattheimtu sem nemur kostnaði við þessi kerfi, og geta verslað við aðra sem spretta upp til að sinna sömu hlutum. Regluverkið þarf líka að minnka töluvert. Skilyrði hins opinbera fyrir því t.d. að fá að kenna eða skipta um plástur á sári hamla allri tilraunastarfsemi og framtaki. Opinber verkalýðsfélög þurfa bara að kyngja því að meðlimir þeirra sitji ekki einir að mörgum af mikilvægustu starfsstéttum hagkerfisins.

En sem sagt, þú ert á réttri leið.

Geir Ágústsson, 23.4.2013 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband