Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Gott tæki en ...

Kindle-lestölvur eru alveg hreint frábær tæki. Ég á eina slíka (ásamt lesljósi) og þökk sé því hvað hún er létt, þægileg og blíð við augun get ég fullyrt að ég hef lesið tvöfalt meira en ég hefði gert ef ég hefði verið bundinn við þykkar og þungar pappírsútgáfur (ég á þær samt, og þær hafa sína kosti, en komast því miður ekki í vasann).

En ....ég er alltaf fullur efasemda þegar menn eyða stórfé í "nýja tækni" og búast við því að það "auki áhuga" og "bæti námsárangur". 

Nemendur skipast í tvo hópa: Þeir sem nenna og vilja læra, og þeir sem nenna hvorki né vilja læra. Stundum er sami nemandinn í báðum hópum, allt eftir því hvaða fag er um að ræða. 

Þeir sem nenna ekki að lesa sögu og samfélagsfræði, en vilja frekar reikna og skrifa, fá ekkert út úr því að eignast lestölvu.

Þeir sem nenna ekki að lesa eða læra neitt, þeir fá ekkert úr því að eignast lestölvu.

Þeir sem nenna og vilja lesa, þeir lesa hvort sem þeir eiga lestölvu eða ekki. En það hlýtur að teljast líklegt að þeir muni lesa ennþá meira þökk sé lestölvunni. Þeir fá því alveg helling úr því að eignast lestölvu.

Ávinningurinn fyrir skólakerfið og "námsárangurinn" fyrir "árganginn" verður lítill sem enginn. Útgjöldin eru sennilega mikil. 

Hefði ekki verið góð byrjun að gera námsefnið aðgengilegt (t.d. öllum) og láta það svo vera undir hverjum og einum að kaupa sér lestæki fyrir það? (Of dýrt? Fellið þá niður skatta, tolla og önnur opinber gjöld af þessum og öðrum raftækjum.)


mbl.is Betra en að halda á 200 bókum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV er mjög 'háður' miðill og það sjá nú flestir

Flestir hljóta nú að vera búnir að sjá í gegnum þá pólitísku slæðu sem umleikur öll efnistök, þáttarstjórnenda- og gestaval og umfjallanir RÚV. Þar á bæ styðja menn stefnu Samfylkingarinnar í öllum meginatriðum. ESB er gott, evran er góð, krónan er slæm, þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru ríkisstjórninni óþægilegar eiga ekki að fara fram, mótmæli gegn öðrum ríkisstjórnarflokki þarþarseinustu ríkisstjórnar eiga alltaf rétt á sér (sbr. áramótaskaupið), og svona má lengi telja.

Ég veit af mönnum sem eru að safna saman upplýsingum um grófa hlutdrægni RÚV og leggja fram kærur vegna þess. Það er samt erfitt að feta "réttar" leiðir í hinu opinbera kerfi, þegar hið opinbera kerfi er undir stjórn þeirra sem njóta velvildar RÚV. Og ekki getur almenningur sniðgengið RÚV - þar fá menn sitt ráðstöfunarfé í gegnum skattkerfið, sama hvað tautar og raular (ólíkt öllum öðrum frétta- og afþreyingarmiðlum landsins). Og geta út á lögþvingaða áskrift allra landsmanna að RÚV selt auglýsingar í samkeppni við einkaaðila.


mbl.is Gunnar Bragi: Ósáttur við RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hverju er sveitarfélögum treyst?

Ég hef megna andúð af hvers kyns opinberum rekstri og opinberum afskiptum. Ríkisvaldið er óréttlát stofnun ofbeldis og eignaupptöku sem ber að sýna andúð og fyrirlitningu. En þar með er ekki sagt að ég skilji ekki sjónarmið þeirra sem vilja láta kvelja sig í skiptum fyrir viðurkenningu ókunnugs fólks sem kallast "ríkisstarfsmenn". Ég sýni slíkri sjálfspyntingarhvöt skilning, rétt eins og ég sýni því skilning að fórnarlömb mannræningja falli stundum fyrir kvölurum sínum. Samúð mín fyrir þeim sem leyfa kvölurum sínum að kvelja sig mótstöðulaust er samt minni en skilningur minn. 

Hvað um það. Flest fólk hefur ekkert á móti því að vera kreist um lífsviðurværi sitt til þess eins að "fá" eitthvað af því til baka í formi "þjónustu" og "bóta" frá ríkisvaldinu. Flest fólk umber óstöðvandi útþenslu hins opinbera, og vaxandi afskipti þess af öllu sem hreyfist og andar og skiptir um hendur í samfélaginu. 

En er ekki einhver farinn að spyrja sig: Hvað er það nú eiginlega sem þetta ríkisvald á að gera, og hvar á það að halda sig fjarri, og hvernig á hið opinbera að forgangsraða því fé sem það lemur úr mér á hverjum degi?

Því mér sýnist hinn stórkostlegi skortur á aðhaldi og andúð almennings á hinu opinbera vera að gefa hinu opinbera alltof mikið sjálfstraust.

Var ekki einhvern tímann einhver sem sagt: Í skiptum fyrir himinhátt útsvar eiga sveitarfélög meðal annars að hreinsa götur og gangstéttir þegar þær eru ófærar vegna snjókomu.

Eða var krafan kannski á þennan veg: Sama hvað líður ófærð á götunum þá á hið opinbera að ausa fé í byggingu, viðhald og rekstur á tónlistarhúsi.

Eða er fólki alveg sama? Fær hið opinbera bara að gera hvað sem það vill, án þess að réttmæti hins opinbera reksturs sé véfengt? Er enginn að velta fyrir sér grundvellinum fyrir rekstri hins opinbera og réttmætinu bak við hann? Er bara allt í lagi að sveitarfélög hætti að hreinsa götur, manna skólaskyldukerfið og lýsa umferðargötur, þótt hver einn og einasti þegn sveitarfélagsins ætlist til þess að útsvarið fari í þessi verkefni og ekki einhver gæluverkefni fyrir fámenna klíku svokallaðra listamanna?

Hinu hræðilega æðruleysi almennings gagnvart kvölum og pyntingum þarf að berjast gegn. Ég ætla að taka þátt í þeirri baráttu.


mbl.is „Öryggið ekki í forgang“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álftanes: Fordæmi vinstrimanna

Álftanes er lítið líkan sem ríkisstjórnin reynir að herma eftir á landsvísu. Sveitarfélagið var í höndum vinstri-grænna á árunum fyrir hrun og því hægt að sjá hvernig fer fyrir þeim sem telja "góðæri" vera tækifæri til að skuldsetja sig á bólakaf, og sitja svo fastir í skuldasúpu þegar skattgreiðendur hætta að mjólkast jafnauðveldlega.

Þarna er búið að skrúfa alla skatta upp í rjáfur. Fólk getur samt ekki flúið því það er bundið við fasteignir, sem skiljanlega eru að falla í verði, bæði vegna hrunsins og vegna þess að enginn vill flytja inn í skattpyntinguna í þessu sveitarfélagi.

Þarna er búið að skera niður alla þjónustu, sem fólk býst við að fá í staðinn fyrir skattheimtuna, svo mörgum þykir miklu meira en nóg um.

En engu að síður er "táknrænum" minnismerkjum um óráðsíuna haldið í gangi, sama hvað tautar og raular. Sundlaugin fræga heldur áfram að féfletta íbúa sveitarfélagsins.

Heimasíða sveitarfélagsins er þakin fréttum um allskyns tilfærslur frá þessum til hins, sem sveitarfélagið tekur vitaskuld ríflega þóknun af.  Íþróttamann Álftaness á að velja, gjaldskrá leikskólanna hækkar enn eina ferðina, en námsmönnum þó veittur sérstakur afsláttur, leið 23 gengur ennþá, sundlaugin er opin, umsóknir um húsaleigubætur þarf að senda inn fljótlega, nemakort í strætó verða áfram veitt, fréttabréfið er komið út, sorpið á að fara á marga mismunandi staði, og sveitarfélagið tekur þátt í rekstri tónlistarskóla sem á að "stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, njóta og skilja tónlist".

Skuldir sveitarfélagsins hafa að stóru leyti lent á skattgreiðendum utan þess, enda situr vinstri-grænn fjármálaráðherra í stól sínum og gerir allt sem hann getur til að forðast að þeir sem taki áhættu og skuldsetji sig beri ábyrgð og taki afleiðingunum.

Hugsið ykkur nú ef Ísland hefði verið í klóm vinstri-grænna og annarra vinstrimanna fyrir hrun? Skuldir ríkissjóðs hefðu þá ekki verið nálægt núlli, heldur nálægt þaki. Ríkisreksturinn hefði ekki verið útblásinn, heldur þaninn yfir allt og alla. Vont hefði verið verra.

En kannski hefði það verið gott á Íslendinga, sem kusu jú yfir sig þessa vinstrimenn sem ráða núna á Alþingi? Þá hefði kannski íslenskum hægrimönnum tekist að slípa hugmyndafræði frjálshyggjunnar, í stað þess að breytast allir í sósíaldemókrata á vellystingarárunum. 

Álftanes er dæmi um hagstjórn vinstrimanna á "góðærisárum". Tekjurnar vaxa, og skuldirnar líka, og þegar tekjurnar dragast saman hrynur bókhaldið á einni nóttu.


mbl.is Álftanes á uppleið eftir erfitt árferði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greinendur með gölluð verkfæri

Sá sem ætlar að spá fyrir um veðrið með notkun dýralíffæra spáir stundum rétt og stundum rangt. Sá sem ætlar að segja fyrir um þróun hagkerfis með notkun verkfæra "hagfræðinnar" eins og hún er kennd í flestum háskóla spáir stundum rétt og stundum rangt ("það eru alltaf einhverjir sem spá því að hallæri og kreppur séu á næsta leiti").

Eða eins og segir á einum stað:

When the husbandmen of remote antiquity sought to increase the produce of their land by means of symbolic rites, their action was based on the prevailing "technological" notions of their time. When today we proceed differently, our action conforms to the technological notions prevailing at the present time. He who considers them erroneous might attempt to uncover their errors and replace a useless theory by a more suitable one. If he is unable to do so, he should not criticize the procedure of those who work for the dissemination of the knowledge of modern agricultural technology.

Ég skil vel að helstu spekingar og seðlabankagúrúar hafi ekki séð nein teikn á loftið árið 2006. Módelin bentu ekki til þess að hrun væri á næsta leiti. Reiknilíkönin gátu ekki séð fram í tímann. Þeir sem treystu líkönunum gátu það þess vegna ekki heldur. Greiningin var rétt, miðað við aðferðirnar sem voru notaðar. En niðurstaða greiningarinnar reyndist röng, enda var aðferðafræðin röng.

Menn hafa ekki lært neitt af hruninu og það sést á aðgerðum stjórnmálamanna í dag, og ummælum helstu "sérfræðinga" í dag (t.d. þeirra sem styðja ríkisstjórnina). Í stað þess að leggja niður Seðlabanka Íslands, gefa peningaútgáfu á Íslandi frjálsa, loka hagfræðideild Háskóla Íslands, stöðva hallarekstur ríkisins, lækka skatta, afregla fjármálageirann, afnema innistæðutryggingar og aftengja viðskiptabankana og ríkisvaldið, þá hafa menn ákveðið að gera bara meira af því sem leiddi til hrunsins. Prenta fleiri peninga, auka reglugerðatakið á fjármálageiranum, bjarga bönkum á kostnað skattgreiðenda, koma í veg fyrir gjaldþrot, og svona má lengi telja.

Tryggi Þór Herbertsson er kannski í sviðsljósinu núna, en það er eitthvað allt annað sem er að. Hann er bara einn af mörgum sem styðjast við líffærarýni og stjörnuspeki nútímans (svokölluð þjóðhagfræði) til að spá fyrir um framtíðina. Aðrar aðferðir, betri og réttari finnast. Aðferðir sem hafa getið af sér rétta spádóma sem hafa ræst af réttum ástæðum (frekar en fyrir tilviljun). En þær hafa ekki náð hylli yfirvalda.


mbl.is Tryggvi Þór tekur til varna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin eftirspurn eftir skattaskjólum

Eftirspurn eftir bankahólfum hefur aukist mikið síðan skattheimta á öllu á Íslandi var skrúfuð upp í rjáfur. Þeir sem geta ekki flúið land eða ætla að reyna þrauka út kjörtímabilið á Íslandi hafa því fáa kosti aðra en þá að reyna lágmarka skattheimtuna á eigum sínum og tekjum. Og bankahólf eru ljómandi leið til þess.

Er ekki að myndast stækkandi markaður fyrir örugg geymsluhólf á Íslandi? Eru bankarnir einir að bjóða þessa þjónustu?

Ég hvet allt sem eiga sparnað eða verðmæti til að koma þeim úr dagsljósinu hið fyrsta. Það gagnast lítið að "greiða sinn skerf" í ríkissjóð, því óhætt má telja að sá "skerfur" lendi í svartholi sóunar. Sjúkrahús, skóla, lögreglu og annað þarf vitaskuld að fjármagna með skattfé á meðan ríkið heldur klónum sínum læstum í þess konar rekstri og neitar að sleppa honum frjálsum, en hvað ætli það sé stór sneið af skattheimtuköku ríkisins? Einhvers staðar sá ég að ef ríkið dregur umsvif sín saman til umsvifa sinna ársins 2000 mætti eyða öllum hallarekstri á ríkissjóði. 

Hvað vantaði í ríkisreksturinn árið 2000 sem er hluti af honum í dag? Femínískar afætustofnanir? Viðhald á steypukössum sem ekki voru til árið 2000? Aðstoðarmann ráðherra nr. 2 og 3?

Ég óska landsmönnum góðs gengis við að forða eignum sínum frá ríkisheimtunni. 


mbl.is Landsbankinn tvöfaldar verðskrána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldsetning skattgreiðenda heldur áfram

Enn og aftur þenur Reykjavíkurborg út skuldir sínar. Það er gert til að standa við kosningaloforð Samfylkingarinnar um að auka skuldir borgarinnar til að "framkvæma" í borginni. Fyrirsjáanlegt, svo ekki sé meira sagt.

Sumir hafa reynt að klína skuldabréfaútgáfu borgarinnar á "endurfjármögnun". Þýðir það að vinstrimenn séu ekki að safna skuldum? Það er nánast óhugsandi. Þeir safna skuldum hvar sem þeir geta, eins mikið og þeir geta, alltaf.

Reynslan segir mér sagt að það er óhætt að ásaka vinstrimenn um skuldasöfnun þar til annað kemur í ljós.

Reynslan af vinstri-borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki gefið mér ástæðu til að víkja frá þumalputtareglu minni.


mbl.is Boða 1,5 milljarðs skuldabréfaútgáfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband