Álftanes: Fordæmi vinstrimanna

Álftanes er lítið líkan sem ríkisstjórnin reynir að herma eftir á landsvísu. Sveitarfélagið var í höndum vinstri-grænna á árunum fyrir hrun og því hægt að sjá hvernig fer fyrir þeim sem telja "góðæri" vera tækifæri til að skuldsetja sig á bólakaf, og sitja svo fastir í skuldasúpu þegar skattgreiðendur hætta að mjólkast jafnauðveldlega.

Þarna er búið að skrúfa alla skatta upp í rjáfur. Fólk getur samt ekki flúið því það er bundið við fasteignir, sem skiljanlega eru að falla í verði, bæði vegna hrunsins og vegna þess að enginn vill flytja inn í skattpyntinguna í þessu sveitarfélagi.

Þarna er búið að skera niður alla þjónustu, sem fólk býst við að fá í staðinn fyrir skattheimtuna, svo mörgum þykir miklu meira en nóg um.

En engu að síður er "táknrænum" minnismerkjum um óráðsíuna haldið í gangi, sama hvað tautar og raular. Sundlaugin fræga heldur áfram að féfletta íbúa sveitarfélagsins.

Heimasíða sveitarfélagsins er þakin fréttum um allskyns tilfærslur frá þessum til hins, sem sveitarfélagið tekur vitaskuld ríflega þóknun af.  Íþróttamann Álftaness á að velja, gjaldskrá leikskólanna hækkar enn eina ferðina, en námsmönnum þó veittur sérstakur afsláttur, leið 23 gengur ennþá, sundlaugin er opin, umsóknir um húsaleigubætur þarf að senda inn fljótlega, nemakort í strætó verða áfram veitt, fréttabréfið er komið út, sorpið á að fara á marga mismunandi staði, og sveitarfélagið tekur þátt í rekstri tónlistarskóla sem á að "stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, njóta og skilja tónlist".

Skuldir sveitarfélagsins hafa að stóru leyti lent á skattgreiðendum utan þess, enda situr vinstri-grænn fjármálaráðherra í stól sínum og gerir allt sem hann getur til að forðast að þeir sem taki áhættu og skuldsetji sig beri ábyrgð og taki afleiðingunum.

Hugsið ykkur nú ef Ísland hefði verið í klóm vinstri-grænna og annarra vinstrimanna fyrir hrun? Skuldir ríkissjóðs hefðu þá ekki verið nálægt núlli, heldur nálægt þaki. Ríkisreksturinn hefði ekki verið útblásinn, heldur þaninn yfir allt og alla. Vont hefði verið verra.

En kannski hefði það verið gott á Íslendinga, sem kusu jú yfir sig þessa vinstrimenn sem ráða núna á Alþingi? Þá hefði kannski íslenskum hægrimönnum tekist að slípa hugmyndafræði frjálshyggjunnar, í stað þess að breytast allir í sósíaldemókrata á vellystingarárunum. 

Álftanes er dæmi um hagstjórn vinstrimanna á "góðærisárum". Tekjurnar vaxa, og skuldirnar líka, og þegar tekjurnar dragast saman hrynur bókhaldið á einni nóttu.


mbl.is Álftanes á uppleið eftir erfitt árferði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Álftanes er eins og hver annar ruslarastaður. Algerlega þjónustulaust og án atvinnutækifæra. Lang hagkvæmast er að flytja íbúana í auðu blokkirnar og húsin í úthverfum Kópavogs. Þau hús eru hvort sem er óseljanleg.

sammi (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 10:10

2 identicon

Þú misskilur eitthvað hlutina. Sjálfstæðismenn hafa stjórnað Álftanesi síðustu áratugi ef frá er talin 3 ár. Í tíð Sjálfstæðismanna var hitaveitan og vatnsveitan seld til að komast hjá gjaldþroti en samt sem áður var sveitarfélagið skuldum vafið.

Þegar Álftanes fékk gula spjaldið árið 2002 frá ráðuneyti vegna skulda  var útspil sjálfstæðismanna að fara í markvissa fjölgun íbúa, fara í mikla uppbyggingu. Það ævintýri kostaði nýjan og stækkaðan leikskóla, helmings stækkun á grunnskóla og íþróttahúsi og allt fjármagn tekið að láni í erlendri mynt.

Þá keyptu sjálfstæðismenn landið á miðsvæðinu í samstarfi við verktaka og átti þar að byggja upp mikið blokkahverfi ásamt elliheimili. Allt fjármagn tekið að láni í erlendri mynt. Sem betur fór gekk það ekki eftir þar sem vinstri menn stöðvuðu það ævintýri sem hefði annars endað með ósköpum í hruninu. Í staðinn var byggð nauðsynleg sundlaug sem sjálfstæðismenn segja nú að hafi sett sveitarfélagið á hausinn.

Raunin er hinsvegar sú að sveitarfélagið fór í þrot í hruninu þar sem tekjur dugðu ekki fyrir rekstri sveitarfélagsins. Þrátt fyrir álag á útsvar og fasteignaskatta ásamt miklum niðurskurði í þjónustu og launum starfsfólks sveitarfélagsins duga tekjurnar í raun ekki fyrir rekstrinum. Ástæðan er að eftir mikla uppbyggingu er sveitarfélagið með hæsta barnahlutfall landsins og tekjur duga ekki fyrir hefðbundnum rekstri af þeim sökum. Þessa stöðu og þetta ástand bera sjálfstæðismenn alla ábyrgð á. Eina leiðin í stöðunni er að sameinast öðru sveitarfélagi.

Kristján Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 10:23

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Kristján,

Sjálfsagt er ábyrgð sjálfstæðismanna mikil. En það er í tísku að klína öllu á Sjálfstæðisflokkinn. Ég er í sjálfu sér ánægður með þá tísku, því það fær kannski sjálfstæðismenn til að hugsa sinn gang (næst) - því miður eru sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi byrjaðir að apa upp vitleysuna eftir vinstrinu. Er þá seinasta vígið að falla?

En eins og með landsstjórnina, þar sem Samfylkingin sat í ríkisstjórn þegar hrunið varð, þá er ekki hægt að klína öllu á einn flokk. "Nei jú sjáðu til, þarseinasta ríkisstjórn/bæjarstjórn/borgarstjórn gerði þetta og hitt, hendur okkar voru bundnar í þau eitt eða tvö eða þrjú ár á meðan við sátum við stjórnvöldinn. Þeir sem sátu á undan okkur í stjórn bera alla ábyrgð. Við enga." 

Til hvers að bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa, ef öll ábyrgðin er svo hjá fyrirrennara þínum?

Álftanes á einfaldlega að fara í viðræður við lánadrottna sína, og ríkið á ekki að koma nærri þeim viðræðum. Skuldir þarf einfaldlega að afskrifa.

Geir Ágústsson, 9.1.2012 kl. 11:02

4 identicon

Álftanes hefði átt að sameinast öðru sveitarfélagi fyrir langa löngu.  Það er ekki hægt að velta stórum grunnskóla, tveimur leikskólum, íþróttamálum, félagsmálum öllu á sveitarfélag sem er ekki með neinar tekjur af atvinnustarfsemi.  Það hefði ekki skipt máli hvort það hefði verið vinstri eða hægri stjórn, þetta hefði aldrei gengið upp. 

Margret S (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 12:39

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Þessu er ég ósammála - sjá hér.

Geir Ágústsson, 9.1.2012 kl. 12:52

6 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Þetta er alveg rétt hjá þér.

VG vildu hækka útgjödl verulega í miðju góðæri en hægri stjórnin vildi frekar borga niður skuldir. Svo betur fer.

Sleggjan og Hvellurinn, 9.1.2012 kl. 13:12

7 identicon

Fjárhaldsnefndin hefur samið um niðurfellingu skulda með fyrirvörum sem ekki eru enn í hendi. Einnig hefur fjárhaldsnefndin keyrt niður rekstrarkostnað sem stjórnendur sveitarfélagsins höfðu ekki getu til að gera. Starfsmenn og íbúar hafa tekið niðurskurðinn á sig og finna fyrir því.

Samt sem áður duga herðbundnar tekjur ekki fyrir öllum rekstri. Ástæðan er óhagstæð íbúasamsetning og jú skortur á atvinnustarfsemi.

Frá síðustu kosningum hefur Reykjavík verið tilbúið að sameinast Állftanesi.

Þrátt fyrir kosningaloforð allra framboða um tafarlausa sameiningu vill bæjarstjórn Álftaness nú hinsvegar aðeins sameinast Garðabæ sem vill hinsvegar ekki sameinast Álftanesi fyrr en skuldir hafa verið lækkaðar verulega. Á meðan eru íbúar og starfsmenn sveitarfélagsins píndir áfram og íbúum fækkar.

Kristján Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 13:29

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Kristján,

Athyglisvert allt saman.

En hvernig hafa menn sett pressuna á erlenda lánadrottna sveitarfélagsins? Þeir geta jú ekki tekið eigur sveitarfélagsins upp í skuldir, og ættu því að vera veikir fyrir kröfum um afskriftir. Þeir sem lána sveitarfélögum mikið fé eru að taka mikla áhættu og ættu alveg að fá að kenna á því, sbr. þessi frásögn

Geir Ágústsson, 10.1.2012 kl. 07:44

9 identicon

Álftanes er í þeirri stöðu að erlendu lánin voru tekin í gegnum banka og lánasjóð sveitarfélaga. Sumir telja að lánin hafi verið ólögmæt en ekki hefur reynst vilji til að skoða það nánar.

Ýmsir hafa fullyrt að ríkisábyrgð sé á skuldum sveitarfélaga og hafa vextir miðast við þá túlkun. Á þetta hefur þó ekki reynt, kannski ekki vilji til að láta reyna á það. 

Sveitarfélög eiga eignir sem eru aðfararhæfar. Nefna má lönd og lóðir, byggingar sem ekki tengjast lögbundinni skyldustarfsemi sveitarfélaga ss leikskólar. 

Held að Álftens sé eitt fyrsta sveitarfélagið til að fara í niðurfellingar lána í gegnum nauðasamninga. Lánadrottnar hafa sett þau skilyrði að allir stóru lánadrottnarnir felli niður sama hluta skulda og sveitarfélagið sameinist öðru sveitarfélagi. Enn er þetta ekki í hendi því  einn lánadrottinn hefur ekki samþykkt niðurfellinguna og krafa sjálfstæðismanna um að eingöngu komi til greina að sameinast Garðabæ er ekki í höfn.

Kristjan Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 13:46

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Mér lýst eiginlega bara stórkostlega vel á að sveitarfélög séu svipt öllum eigum "sem ekki tengjast lögbundinni skyldustarfsemi sveitarfélaga", hvort sem það er vegna skuldauppgjörs eða af öðrum ástæðum. Því af hverju að eiga meira en sem nemur því? Sveitarfélög hafa alveg einstaklega slæma ferilskrá þegar kemur að braski með eigur sem þau keppa við einkaaðila og einstaklinga um að eignast.

Mér lýst ekkert á að vel rekið sveitarfélag sé brætt saman við illa rekið sveitarfélag. 

Geir Ágústsson, 11.1.2012 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband