Aukin eftirspurn eftir skattaskjólum

Eftirspurn eftir bankahólfum hefur aukist mikið síðan skattheimta á öllu á Íslandi var skrúfuð upp í rjáfur. Þeir sem geta ekki flúið land eða ætla að reyna þrauka út kjörtímabilið á Íslandi hafa því fáa kosti aðra en þá að reyna lágmarka skattheimtuna á eigum sínum og tekjum. Og bankahólf eru ljómandi leið til þess.

Er ekki að myndast stækkandi markaður fyrir örugg geymsluhólf á Íslandi? Eru bankarnir einir að bjóða þessa þjónustu?

Ég hvet allt sem eiga sparnað eða verðmæti til að koma þeim úr dagsljósinu hið fyrsta. Það gagnast lítið að "greiða sinn skerf" í ríkissjóð, því óhætt má telja að sá "skerfur" lendi í svartholi sóunar. Sjúkrahús, skóla, lögreglu og annað þarf vitaskuld að fjármagna með skattfé á meðan ríkið heldur klónum sínum læstum í þess konar rekstri og neitar að sleppa honum frjálsum, en hvað ætli það sé stór sneið af skattheimtuköku ríkisins? Einhvers staðar sá ég að ef ríkið dregur umsvif sín saman til umsvifa sinna ársins 2000 mætti eyða öllum hallarekstri á ríkissjóði. 

Hvað vantaði í ríkisreksturinn árið 2000 sem er hluti af honum í dag? Femínískar afætustofnanir? Viðhald á steypukössum sem ekki voru til árið 2000? Aðstoðarmann ráðherra nr. 2 og 3?

Ég óska landsmönnum góðs gengis við að forða eignum sínum frá ríkisheimtunni. 


mbl.is Landsbankinn tvöfaldar verðskrána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Ég tek heilshugar undir þessar hugleiðingar þínar. Annars er það ekki bara ríkið sem eyðir og sukkar. Ég varð vitni að því fyrir ca. 2 mánuðum þar sem verið var að koma fyrir hraðahindrunum á laugardegi.

Skammt frá fyrrum heimili mínu er hellulögð hraðahindrun en svona 40-60 metra frá henni er önnur malbikuð. Borgin er alveg á hausnum, og búin að vera það lengi en samt er til fé í svona vitleysu!! Annars skilst mér að núverandi borgarstjóri sé með marga aðstoðarmenn þannig að hann er sennilega einn sá dýrasti sem við höfum haft.

Annars eru lífeyrissjóðirnir líka gott dæmi um fé án eigenda, líkt og það fé sem stjórnmála-  og sveitarstjórnarmenn sýsla með. Hefur einhver hreinsun átt sér stað meðal stjórnarmanna lífeyrissjóða eftir klúður þeirra? Get ég haft einhver áhrif á það hvernig mínum lífeyrispeningum er varið? Hvað ef ég vil ekki borga þessum greifum svona há laun? Lausnin er það sem gert hefur verið í Chile, þar leggur hver og einn inn á sinn lífeyrisreikning. Þar með er féð orðið að fé með eiganda og einhverjir sem engra hagsmuna hafa að gæta eru ekki að leika sér með það.

Einnig vil ég fá að benda á að með einföldum útreikningum kemur í ljós að á bak við hvern þingmann hérlendis eru um 5000 íbúar en á Norðurlöndunum er þetta hlutfall á bilinu 25-30.000 íbúar per þingmann. Hérlendis eru þeir s.s. alltof margir (ca. 5x) ef við miðum við frændur okkar á Norðurlöndunum. Samt þurfa þessir þingmenn okkar 77 aðstoðarmenn. Einhvern veginn tókst þingmönnum að komast lengi vel af án aðstoðarmanna, sennilega eru þeir lífsnauðsyn í dag og þingmaður sennilega ekki þingmaður meðal þingmanna nema hann hafi aðstoðarmann til að skipa fyrir.

Annars er ég nú á því að ef margir brjóta tiltekin lög geti það oft verið vísbending um að viðkomandi lög séu tóm vitleysa. Fíkniefnalöggjöfin er dæmi um þetta en um umfang skattsvika veit ég ekki en ímynda mér að margir vilji forða sínu fé frá gráðugum lúkum ríkis og sveitarfélaga. Er það ekki bara merki um sjálfsbjargarvitund?

Ég ímynda mér að margir skarpir menn séu í frjálshyggjufélaginu og einhver þeirra ætti að taka að sér að skrifa stuttan pistil í helstu fjölmiðla landsins um þetta:

http://www.evropuvaktin.is/vidskiptavaktin/21711/

Hvað borgum við í vexti og afborganir á ári af þessari skuldasúpu sem fer stækkandi? Sjálfsagt er hægt að finna það í fjárlögum. Ég man ekki betur en ég hafi heyrt Lilju M. tala um það í vor að við greiddum 74 milljarða árið 2010 í vexti og afborgarnir og fer þessi tala bara hækkandi meðan vinstri menn eru við stjórnvölinn. Hvað kostar að reka LSH í samanburði? Annars eiga þingmenn Sjálfstæðisflokksins að velta stjórnarliðum upp úr þessu en Sjallarnir eru bara svo grátlega linir núna að það hvarflar sjálfsagt ekki að þeim.  

Helgi (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 21:40

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Blessaður Helgi og takk fyrir innleggið þitt.

Það að ríkið sé "skuldsett" er ógeðfelld staðreynd. Að ríkið blóðmjólki skattgreiðendur til að standa undir "ríkisrekstrinum" svokallaða í fyrsta lagi, og skuldsetji þá síðan að auki, er hreinlega ógeðfellt. 

Ekki slökuðu Sjálfstæðismenn á útgjaldaflóðinu á sínum tíma eins og fjallað er um hérna

Það er gaman að vera með háar tekjur og eyða hverri einustu krónu í lúxusvarning sem maður svo verður háður því að geta keypt. En það er súrt að sjá tekjurnar lækka og geta ekki fundið kjark eða þor til að skera útgjöldin niður undir tekjurnar, og bregða því á það ráð að botna öll kreditkortin, og borga af einu kreditkorti með notkun annars. Ríkisreksturinn á Íslandi í hnotskurn.

Geir Ágústsson, 6.1.2012 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband