Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Æj, æj, var súrt að bragða á eigin meðali?

Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir eru sérfræðingar um "veika meirihluta". Þeirra eigin var jú úr sögunni örfáum mánuðum eftir að hann var myndaður, og þótt nýjum veikum meirihluta hafi a.m.k. tekist að ná saman um málefnaskrá þá óska þau að sjálfsögðu eftir því að allt fari til fjandans hjá honum svo þau geti sjálf myndað enn einn veikan minnihlutann, hugsanlega aftur án málefnaskrár (og, eins og kom í ljós seinast, án málefna).

Gott og vel að Morgunblaðið veiti þessum ágætu stjórnmálamönnum mikið rými til að tjá sig um gremju sína með hrun hins gamla veika meirihluta og myndun hins nýja veika meirihluta. Gott og vel að Morgunblaðið gæli við hugleiðingar tveggja einstaklinga í hinum núverandi minnihluta til að ýta undir getgátur um hrun hins nýja meirihluta. Það sem vantar er að Morgunblaðið bendi á kjarna málsins sem er þessi:

Kjörnir stjórnmálamenn (kjörnir samkvæmt gildandi, vel þekktum reglum á hverjum tíma) hafa á sérhverjum tímapunkti umboð kjósenda til að gera hvað sem er sem þeirra eigin (góða eða slæma) samviska segir þeim að gera (að undanskildum lögbrotum).

Þetta kallast "fulltrúalýðræði". Sumir stjórnmálamenn vinna í nafni þess af heilindum og skipta um skoðun eða sleppa því í nafni hagsmuna kjósenda (og eigin hugsjóna, séu þær til staðar). Aðrir eru síðri í vinna á þennan hátt og vilja til dæmis umfram allt vera stjórnarformenn Orkuveitu Reykjavíkur, sama hvað það þýðir í pólitísku samstarfi. En fulltrúalýðræðið gerir engan greinarmun þarna á. Á milli kosninga eru það fulltrúarnir sem stjórna lýðræðinu, en ekki öfugt.

Dagur og Svandís vilja ólm mynda enn einn nýjan veikan meirihlutann og ég skil það ágætlega, og vitaskuld er freistandi fyrir þau að túlka allt sem núverandi veikur meirihluti gerir eða segir sem tákn um yfirvofandi fall hans. Allt í lagi. En fulltrúarnir ráða á milli kosninga (t.d. því hvort kosið sé fyrr en síðar). Kjósendur horfa á. Þannig sátu Sjálfstæðismenn sárir eftir á sínum tíma. Þannig sitja Dagur og Svandís sár eftir núna. Þannig virkar og vinnur fulltrúalýðræðið.  

Flókið? Nei. Augljóst? Já. Endurspeglast skilningur á þessu í orðum núverandi veiks minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og stuðningsmanna hans? Nei. 


mbl.is Viðvarandi stjórnarkreppa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvælum brennt fyrir kjánalega málstað

Eftir að Richard Branson féll fyrir kolefnis-losunar-hræðsluáróðrinum hefur hann ekki hugsað um annað en hvernig hann getur brennt auðævum sínum á bál vitleysunnar, og um leið gríðarlegu magni af matvælum í flughreyflum flugfélags síns.

En gott og vel - þetta eru hans peningar og enginn er neyddur til að rétta honum fé sitt til sóunar, ólíkt t.d. ríkisstjórnum og ræningjahópum heimsins sem þvinga fólk til að rétta sér pening sinn.

Ég vona samt að fólk (sérstaklega hægrimenn í atkvæðaleit) hætti sem fyrst að daðra við umhverfisverndar-hreyfinguna, sem er sannkölluð dauðahreyfing í ætt við kommúnisma og nasisma. Ef þú trúir mér ekki (og nennir ekki að lesa of mikið) þá skaltu bara spurja þetta ágæta fólk um viðhorf þess til mannkyns, mannáts og farsótta.


mbl.is Flýgur á lífrænu eldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin að markinu: Snarhækka orkuverð almennings

Nú hefst enn ein sirkussýning þeirra sem hafa ekki séð tölur um þróun "heims"hitastigsins seinustu 5 ár (en hlýnunin stöðvaðist fyrir um 5 árum síðan). Reynt er að segja almenningi að keyra minna (helst halda sig heima við), kaupa innlent og dýrt, nota strætó (sem að vísu er ekki leiðin að markinu en fólki er sagt það), endurvinna (mjög orkufrek aðgerð en á víst samt að hjálpa til á einhvern undraverðan hátt), og svo framvegis.

Ef ætlunin er í raun og veru sú að "minnka kolefnislosun" almennings þá er ekkert af fyrrnefndu leiðin að markinu. Leiðin að markinu liggur í gegnum ofurskatta á alla orku sem er talin "losandi", þar á meðal bensín, flugmiða, bíla og flutningskip (og þar með allan innflutning).

Leiðin að markinu liggur í gegnum orkuskerta tilvist almennings sem hefur hvorki efni á ferðalögum né innflutningi.

Þess vegna hefur gengið heldur illa að minnka losun þrátt fyrir fögur fyrirheit eins og Kyoto-samkomulagið. Stjórnmálamenn þora einfaldlega ekki að ráðast til atlögu gegn lífskjörum almennings, því slíkt hefur slæm áhrif á endurkjör.


mbl.is Ísland tekur þátt í átaki gegn kolefnislosun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafsjór furðulegra fullyrðinga

Þessi frétt er alveg mögnuð. Kennaralaun eru lág því allir kennarar, lélegir og góðir, þurfa að skrifa undir sama kjarasamning. Það gerir það að verkum að enginn er ánægður nema þeir sem eru hvorki lélegir né góðir, heldur eitthvað mitt á milli. Skila sínu (eða tæplega það), en gera ekkert umfram það.

"Hlutfallsleg launastaða þeirra sé mjög slök miðað við flest önnur OECD ríki og sé kaupgeta meðalgrunnlauna framhaldsskólakennara á Íslandi hin fimmta lægsta í OECD ríkjunum."

Þetta hlýtur að kallast furðuleg staðhæfing dagsins. Ísland eyðir mun minna í hernað en önnur OECD-ríki. Er það einhver sérstök röksemd fyrir því að íslenska ríkið ausi milljörðum til hernaðarbrölts? Nei. Röksemdin er einfaldlega marklaus. Hún er tölfræðileg leikfimi sem hentar núna en ekki alltaf, og notast því núna en ekki alltaf.

"Í næstu kjarasamningum þurfi að leiðrétta laun kennara í framhaldsskólum og tryggja að kjör þeirra haldi í við laun annarra háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna."

Laun "leiðréttast" ekki. Þau hækka eða lækka eða standa í stað. Vefþjóðviljinn benti svo skemmtilega á það á sínum tíma að "leiðréttingar"-talið ætti ekki síður heima í skattamálum en launamálum opinberra starfsmanna (eða á hvorugum staðnum). "Leiðrétting skatta" er vitaskuld lækkun þeirra. Er ekki þörf á "leiðréttingu" þar eins og annars staðar?


mbl.is Segja laun kennara ekki hafa fylgt launaþróun viðmiðunarhópa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkaeiga EÐA ríkiseiga - engin 'almannaeiga' er til

Ég tek að öllu leyti undir eftirfarandi orð Vefþjóðviljans:

"Það er nefnilega lítið haldið í öllu talinu um að almenningur eigi eitthvað 100%. Orkufyrirtæki og auðlindir geta annars vegar verið í eigu einstaklinga og einkafyrirtækja þeirra og hins vegar í eigu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Í fyrra tilvikinu má auðvitað segja að viðskiptavinir einkafyrirtækjanna hafi talsverð áhrif á stjórn þeirra með því að beina viðskiptum til þeirra eða ekki. Í síðara tilvikinu stýra stjórnmálamenn og vinir þeirra þessum fyrirtækjum og þegar hlýnar í veðri hækkar verðið á heita vatninu. Í hvoru tilvikinu hefur almenningur meira vægi? Sem viðskiptavinur einkafyrirtækis eða sem kjósandi á fjögurra ára fresti?"

Bein og dagleg kosning með debetkortinu eða óbeint kosning á fjögurra ára fresti með atkvæðaseðli? Ég kýs fyrrnefnda kostinn. 


Misskilin góðmennska eða eitthvað allt annað í dulargervi?

Franska lögreglan framfylgdi innflytjendalöggjöf Frakklands og gerði það ekki af neinni góðmennsku við innflytjendur. Þeim verður vísað úr landi. "Ófullnægjandi aðstæður" þeirra í Frakklandi verða að enn verri aðstæðum í heimalandi þeirra. Það er alveg á hreinu því hvers vegna voru innflytjendurnir annars að smygla sér ólöglega inn í Frakkland ef ekki væri til að forðast enn verri aðstæður annars staðar?

Íslensk verkalýðsfélög spila sama spil. Þau hamast í stjórnvöldum því einhverjir útlendingar í vinnu á Íslandi eru "undirborgaðir", vinna við "ófullnægjandi aðstæður" og "njóta ekki sömu réttinda" og íslensk vinnuafl. Í raun er bara um það að ræða að íslensk verkalýðsfélög vilja ekki að útlendingar flýi lakari aðstæður í heimalandinu til að njóta, að þeirra eigin mati, mun betri aðstæðna á Íslandi.

Níu Frakkar verða nú bráðum dæmdir glæpamenn fyrir að opna hýbýli sín fyrir ólöglegum innflytjendum og rukka háa áhættuþóknun fyrir - þóknun sem hvergi þekkist á hinum frjálsa og löglega markaði. Góðmennska í garð innflytjendanna ólöglegu? Nei, síður en svo. Miklu frekar eitthvað allt annað í dulargervi. 

Annars er ég ekki að segja að ég umberi ólöglegt athæfi. Miklu frekar er ég að segja að sumt af því sem er ólöglegt í dag ætti umsvifalaust að verða löglegt, eða a.m.k. ekki tilgreint sérstaklega sem löglegt eða ólöglegt athæfi á meðan um ofbeldislaus og frjáls viðskipti er að ræða, sama hvað líður hárri húsaleigu eða lágu kaupi. 


mbl.is Yfir hundrað innflytjendur handteknir í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju að lækka skatta á tekjur einstaklinga?

HHG fær orðið: "En auðvitað er röksemdin fyrir því að lækka skatta á einstaklinga ekki sú, að þá vinni þeir meira, þótt það sé eflaust rétt, eins og Prescott segir. Röksemdin er, að þá fá þeir, sem vilja bæta kjör sín og sinna með meiri vinnu, tækifæri til þess, án þess að ríkið hirði mestalla kjarabótina af þeim. Öðrum er eftir sem áður frjálst að vinna minna, en þeir verða um leið að sætta sig við lægri tekjur."

Eða umorðað (af mér, vitaskuld): Lækkun skatta (á tekjur einstaklinga, meðal annars) er réttlætisaðgerð sem flytur ákvörðunarvaldið frá þeim sem krefjast verðmætanna til þeirra sem afla þeirra, eða kjósa að afla þeirra ekki, séu fjárráð til þess til staðar.


Íslamistar og femínistar

Stundum finnast stærstu gullmolarnir ekki nema grafið sé djúpt. Í einni af fjölmörgum athugasemdum við þessi skrif fann ég einn slíkann:

"Eg er farinn ad skilja fladur feminsta vid Ofga Islam nuna, badar tessar fylkingar vilja afnema akvordunarrett kvenna svo taer geti ekki hagad ser eins og druslur, Islamistar setja slaedu yfir andlitid a teim. Feministar banna teim ad syna hold sitt. Svipud filosofia herna a ferdinni synist mer."

Eigandi þessara ágætu orða á þessa síðu. Ég þakka honum kærlega fyrir kalda skvettu af beint-í-mark athugasemd!


Lexía REI-málsins: Einkavæða skal OR

Nú vitna ég í sjálfan mig á Ósýnilegu höndinni:

"Allir hafa heyrt og lesið um REI-málið svokallaða. Í því eru stjórnmálamenn að deila sín á milli um hvernig á að ráðstafa milljörðum sem ríkisrekið einokunarfyrirtæki hefur aflað með sölu á lífsnauðsynlegri vöru: Orku. Á að eyða þeim verðmætum í verðskrárlækkanir eða áhættufjárfestingar? Á Sjálfstæðis- eða Samfylkingarmaður að útnefnast sem umsjónarmaður milljarðanna sem enginn getur kallað sína nema að nafni til? Á að raða stjórnmálamönnum í virðingarröð eftir því hvað þeir eru fúsir til að fjárfesta milljörðunum í útlöndum til fyrirtækja sem Íslendingum finnst vera sniðug og nútímaleg hugmynd? Á opinbert einokunarfyrirtæki á Íslandi að ráðast í fjárfestingar á frjálsum markaði erlendis eða ekki?

Öll vötn falla nú til Dýrafjarðar, var eitt sinn sagt, og í þessu tilviki er Dýrafjörðurinn einn: Hinn frjálsi markaður. REI, OR, HS, RARIK og LV á að hraða út á hinn frjálsa markað hið snarasta, og þar með koma þeim úr klóm hinna metnaðarfullu pólitíkusa sem deila sín á milli um útfærsluatriði, og passa sig á því að snerta ekki við grundvallaratriðum - þeim sem frjálshyggjurökin hér að ofan [sjá] gera svo góð skil."

Ég hef engu við þetta að bæta í bili. Hvað með þig? 


Ekkert persónulegt en, kjóstu Vöku!

Á morgun er seinni kjördagur til stúdentaráðskosninga við Háskóla Ísland.

Ég mæli með því að þú, hafir þú á annað borð kosningarétt til þessara kosninga, kjósir Vöku.

Þetta gæti ég verið að segja af mörgum ástæðum. Til dæmis: Röskva er uppeldisstöð íslenskra vinstrimanna hvers stjórnmálaferil ætti að kæfa eins snemma og hægt er, að Röskva sé tækisfærissinnað apparat sem hvorki skannar inn gömul próf né skipuleggur rannsóknardaga því það er ekki augljóst kosningamál fyrir meðlimum þess, að augljóslega tekur Röskva heiðurinn fyrir góð störf annarra en sýnir litla getu til að byggja upp orðstír á eigin verðleikum, og svona má lengi telja.

Ég get hins vegar sagt fleira: Til dæmis það að stúdentafylkingar Háskóla Íslands eru skaðlegar fyrir íslenska skattgreiðendur (og þar með háskólanema til lengri tíma litið), að öflugir og háværir þrýstihópar innan ríkisrekinna stofnana eru duglegri en margir að eyða peningum skattgreiðenda í þeirri trú að einhver hafi hag af því þegar til lengri tíma er litið, og svona má lengi telja.

Mín staðfasta trú er samt að ef þú ætlar að kjósa til Stúdentaráðs Háskóla Íslands þá sé hið illskásta að kjósa Vöku, og að munurinn á illskásta kostinum og þeim næstskásta sé gríðarlegur. Meira að segja fyrir vinstrisinnaða stúdenta.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband