Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Samflot S-flokkanna — gott eða slæmt?

Margir frjálslyndir hægrimenn fögnuðu ákaft þegar í ljós kom að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hefðu náð saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir Alþingiskosningarnar í vor. Framsóknarflokkurinn var orðinn mjög veikur og á tímabili leit jafnvel út fyrir að vinstriöflin á Alþingi hefðu yfirhöndina í kosningabaráttunni. Samfloti S-flokkana var því fagnað af mörgu frjálslyndu fólki.
 
Ástæður gleðinnar eru á yfirborðinu mjög einfaldar. Landbúnaðarkerfið – hin heilaga kýr Framsóknarflokksins – þarf nauðsynlega á endurskipulagningu að halda og fyrir því virtist skilningur innan S-flokkanna. Aukið frelsi í millilandaviðskiptum var einnig á vörum margra S-flokksmanna. Töluðu þeir um að lækka, og í sumum tilvikum jafnvel um að fella niður, tolla og skatta. Vonir frjálslyndra einstaklinga voru því miklar.
 
Hvað sjálfan mig varðar var ég feginn því að sjá Framsóknarflokkinn hverfa úr ríkisstjórn. Innri deilur, forystuleysi, umdeildar ákvarðanir og pólitískt hugleysi höfðu plagað flokkinn lengi og þótti mörgum ljóst að hann ætti ekkert erindi í ríkisstjórn að loknum kosningum. Atkvæðavægið hafði breyst og var S-flokkunum í hag. Samfylkingin, sem um langt árabil hefur haft þá stefnu eina að komast í ríkisstjórn, fékk nú að koma inn í hlýjuna. Freistandi var að hugsa með sér að sjálfstæðismenn yrðu einir um að semja stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, sem samfylkingarmenn myndu skrifa blint undir með bros á vör.
 
Annað hefur nú komið á daginn. Stjórnarsáttmálinn felur ekki í sér þær breytingar sem vonast var eftir. Afnám stimpilgjalds er eitt af fáum tilhlökkunarefnum stjórnarsáttmálans. Róttækar breytingar og uppstokkun á mennta-, landbúnaðar- og heilbrigðiskerfum eru ekki boðaðar. Áfram á að halda íslenskum neytendum í herkví tolla, vörugjalda og niðurgreiðslu á innlendri landbúnaðarframleiðslu. Hinir nýju ráðherrar Samfylkingarinnar hafa síðan notað sumarfríið sitt í að lofa milljörðum í aukin ríkisútgjöld þegar þing kemur saman í haust. Sjálfstæðismenn standa á hliðarlínunni eða taka jafnvel þátt í útgjaldafylleríinu. Nú þegar hefur landbúnaðarráðherra, góður og gegn Sjálfstæðismaður með mikla reynslu, lofað því að landbúnaðarkerfið verði, ja, hvað? – friðað enn um sinn! 
 
Bros og gleði frjálslyndra Íslendinga hefur nú breyst í hnút í maganum – hnút sem losnar ekki nema yfirvofandi útgjaldaaukningar verða dregnar til baka í haust þegar fjárlög fara til umræðu á Alþingi og Seðlabankinn gefur út enn eina þensluviðvörunina.
 
Hvað hefur orðið af meintu frjálslyndi S-flokkanna, flokka sem gjarnan kenna Framsóknarflokknum um allt sem úrskeiðis hefur farið? Freistandi er að skella skuldinni á hina nýju gömlu ráðherra Samfylkingarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson voru fljót að finna tékkhefti hins opinbera frá fyrri ráðherratíð. Áralangur loforðaflaumur á nú að breytast í fagurskreyttan framkvæmdalista. Skattgreiðendur þurfa e.t.v. ekki að kvíða skattahækkunum, en þeir mega sennilega bíða lengi eftir skattalækkunum.
 
Sjálfstæðismenn þurfa að líta í eigin barm. Ekki hefur verið boðað til róttækrar uppstokkunar landbúnaðarkerfisins. Ekki var þrýst mjög mikið á að lofa með áþreifanlegum hætti áframhaldandi lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga, og meina um leið sveitarfélögum að hækka útsvör sín meira en lög kveða nú á um. Ekki var þrýst á Samfylkinguna að innleysa loforð sín um aukið viðskiptafrelsi og fækkun viðskiptahindrana af ýmsu tagi. Frjálslyndið var e.t.v. aldrei til staðar í Samfylkingunni þegar á hólminn var komið, en Sjálfstæðismenn ákváðu að kyngja því þegjandi og hljóðalaust og skrifa stefnuskrá miðju-stjórnar í stað miðju-hægri-stjórnar.
 
Sem frjálslyndur hægrimaður get ég ekki verið mjög bjartsýnn á afrek hinnar nýju ríkisstjórnar Íslands. Ef skattar lækka þá lækka þeir lítið með löngu millibili. Sennilega hækka þeir ekki hjá ríkinu, en á móti kemur að sveitarfélögum verður væntanlega heimilað að hækka útsvör sín enn frekar. Sértækar ríkisaðgerðir eru nú aftur komnar á dagskrá, t.d. sem svar stjórnvalda við niðurskurði á þorskheimildum. Orð eins og „sparnaður“ og „aðhald“ í rekstri hins opinbera heyrast vart lengur og munu líklega heyrast sjaldan og lágt á meðan skattfé streymir að því er virðist óstöðvandi í ríkiskassann. Góðærið hefur verið vel mjólkað af hinu íslenska ríki,  og svo mun áfram vera ef fer sem horfir.
 
Samstarf S-flokkanna er ekki sá happadráttur sem frjálslyndir hægrimenn vonuðust eftir. Samstarf þessara flokka er nauðsynlegt til að halda sem flestum vinstriflokkum utan ríkisstjórnar en  þar við situr. Pólitískt hugleysi Sjálfstæðismanna í stjórnarmyndunarviðræðunum olli miklum vonbrigðum. Pólitísk ofvirkni Samfylkingar í sumarfríi Alþingis hefur slegið út drungalegustu spár um tækifærismennsku og sýndarleik.

Birtist áður í nýútgefnu hausthefti Þjóðmála.


Enn eitt opinbert innbrotið

Enn og aftur brýst Samkeppniseftirlitið inn í einkafyrirtæki og ásakar það um hinn furðulega glæp, "misnotkun markaðsráðandi aðstöðu". Þessi ásókn Samkeppniseftirlitsins í athygli í aðdraganda fjárlagagerðar á Alþingi er alveg óþolandi. Fyrirtækjum er gert að halda lögfræðingum sínum á fullum launum við að svara ásökunum hins opinbera.

Hvaða máli skiptir hvernig sum fyrirtæki bjóða betri kjör en önnur? Er viðskiptavit og útsjónarsemi eitthvað sem vekur athygli opinberra embættismanna? 

Ef Lyf og heilsa getur boðið betur, t,d. í krafti stærðar sinnar, innkaupakerfis eða afsláttar af ávöxtunarkröfu eigenda sinna ("niðurgreiðslur"), þá eru það góðar fréttir fyrir neytendur og markaðinn í heild sinni. 

Hvenær ætli íslensk fyrirtæki hætti því einfaldlega að stofna til samkeppnisreksturs við hver önnur með opnun nýrra verslana sem bjóða betri kjör en þær sem fyrir voru? Ofsóknir yfirvalda hljóta að hafa nú þegar komið í veg fyrir opnun margra verslana og frestun á lækkun verðs hjá mörgum fyrirtækjum í útrásarhug!


mbl.is Húsleit hjá Lyfjum og heilsu vegna gruns um misnotkun á markaðsráðandi stöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er mikill munur á ríkisrekstri og einkarekstri?

"Þegar allt kemur til alls þá er munurinn á opinberum rekstri og einkarekstri ekki svo mikill þegar kemur að því að greiða fyrir varning og þjónustu. Munurinn er fyrst fremst sá að í tilviki ríkisreksturs er um lögvarða einokun að ræða, en í tilviki einkareksturs snýst allt um að sinna viðskiptavinum sínum og skjólstæðingum, ella sjá á eftir þeim til keppinauta um tíma þeirra og fé."

Þetta er mitt svar við spurningunni: Er mikill munur á ríkisrekstri og einkarekstri?

Nánar hér


Hið góða er samt að við lifum lengur og lengur!

Margir hafa óstjórnlega þörf fyrir að skamma nútímamanninn fyrir lifnaðarhætti sína og uppfinningar. Klassísk skotskífa er efnaframframleiðsla mannsins - hin svokölluðu tilbúnu efni sem efnafræðingar finna upp á tilraunastofum sínum og innleiða inn í daglegt líf okkar. Þeim er kennt um allskyns kvilla og meinsemdir, og nú þessi rannsókn sem "bendir á" að þau, auk mengunar, eru dánarorsök okkar í 40% tilfella!

Gott og vel, ég gef mér að það sé rétt að það megi "rekja dauða" ótalmargra til tilbúinna efna. Hins vegar má einnig "rekja líf" milljóna manna til tilbúinna (eitur)efna. Áburður til matvælaframleiðslu, allskyns tilbúin efni til allskyns annarrar framleiðslu, sjampó og hreinsiefni, og svona má lengi telja.

Ég skil alveg þörf sums fólks til að sjá svörtum og óttaslegnum augum á nútímann og allar hans afurðir. Hins vegar er engin ástæða til að gleyma því góða alveg! Hundruð milljóna manna eru að rísa úr fátækt og lifa lengur - meira að segja sárafátækt ríki eins og Bangladesh verður orðið jafnríkt og Holland eftir lítil 40-50 ár. Er það ekki ástæða til að gleðjast, og slá aðeins á svartsýnina og bölsýnistalið?


mbl.is 40% allra dauðsfalla tengd mengun og óhreinindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri 'félagsleg undirboð' takk!

"Stjórn AFLs lýsti einnig fullum stuðningi við yfirlýsingar formanns félagsins og framkvæmdastjóra síðustu daga og jafnframt að verði ekki gripið tafarlaust til harðra aðgerða í vinnustaðaeftirliti af hálfu Vinnumálastofnunar muni félagið grípa til allra þeirra aðferða sem það telji skila árangri til að berjast gegn félagslegum undirboðum."

Athyglisvert hugtak - "félagsleg undirboð". Hvað þýðir það? Að Pólverji taki að sér starf á Íslandi og þiggi fyrir það mun lægri laun og vinni við verri kjör en Íslendingurinn gæti hugsað sér að sætta sig við? Ef svo er þá eru félagsleg undirboð eitthvað sem Íslendingar ættu að líta mjög jákvæðum augum á. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

  • Atvinnuástand á Íslandi er mjög gott núna og nóg af störfum sem þarf að vinna en eru e.t.v. óunnin því það vantar mannskap eða það er of dýrt að laða að sér aðgengilegan mannskap sem krefst sífellt hærri launa og betri vinnuaðstæðna.
  • Félagsleg undirboð þýða að verkefni má leysa fyrir minna fé en ella - fé sem í staðinn leitar e.t.v. í arðbærari fjárfestingar annars staðar og verður þannig með til að byggja upp framtíðarstörf á Íslandi sem borga enn betur en þau sem standa til boða í dag, t.d. fyrir iðnaðarmenn.
  • Mikil starfsmannavelta útlendinga á Íslandi getur ekki annað en gagnast Íslandi í framtíðinni, t.d. þegar fátækar kynslóðir í Póllandi eru orðnar ríkar og byrjaðar að fjárfesta sjálfar.
  • Það að reyna stöðva hin félagslegu undirboð er slæm hagfræði hvernig sem á það er litið og fullkomlega sambærileg verðstýringum á mjólk og gallabuxum. Háu verði á vinnuafli er viðhaldið með þvingunum og hótunum og neytendum (kaupendum iðnaðarmannavinnu) því gert að skerða lífskjör sín til að þóknast hagsmunum verkalýðsforkólfa (eða láta verkið falla niður dautt).

Seinasti punkturinn er uppáhaldið mitt en hinir eru jafngóðir fyrir það. Fleiri félagsleg undirboð takk!


mbl.is AFL segist munu grípa til aðgerða bregðist Vinnumálastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir tímar borga meira en fáir tímar

Það skiptir engu máli í hvaða flokka fólk er flokkað - launamunur á milli þeirra mun alltaf mælast. Vinsælasta flokkunin er vitaskuld kynjaflokkunin, og viti menn - í öðrum hópnum eru einstaklingar sem að jafnaði vinna lengur og eru reiðbúnari til að fórna einkalífi fyrir vinnuna frekar en einstaklingar í hinum hópnum. Það skiptir hreinlega engu máli hvað er gert - á meðan almennur smekkur annars hópsins hneigist í átt að styttri vinnudegi og meira fjölskyldulífi þá munu "heildarlaun" mælast hærri hjá hinum hópnum!

Þeir eru nú samt til sem vilja ekki að vinnuframlag endurspeglist í launum. Þeir eru til sem vilja að laun fari eftir einhverju öðru en viðveru og ábyrgð á vinnustað, til dæmis kynferði! Þeir eru til sem vilja horfa framhjá öllu sem er raunverulegt og einblína á ímyndaða mismunun sem gölluð tölfræði er túlkuð vitlaust til að sýna fram á.

Megi þeim sem hugsa órökrétt og rangt vegna sem verst í baráttu sinni gegn frjálsu fyrirkomulagi á markaði! 


mbl.is Félagskonur SFR með 25% lægri heildarlaun en karlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem vilja evru geta skipt yfir í evru, búið mál!

Ég skil lítið í umræðu sem snýst um hvaða gjaldmiðil á að "taka upp" á Íslandi, svona rétt eins og allir Íslendingar hafi þörf fyrir samskonar gjaldmiðil, eða hafi sama smekk á því hvaða gjaldmiðill er "bestur". Fyrir suma hentar að taka upp breskt pund, fyrir aðra hentar norska krónan best og svona má lengi telja. 

Ef eitthvað þá ætti einfaldlega að leggja niður Seðlabanka Íslands og leyfa hverjum sem er að taka upp hvaða gjaldmiðil sem er, eða stofna nýjan ef því er að skipta. Hugsanlega væri hægt að fá einhvern viðskiptabankanna til að taka við útgáfu á íslenskri krónu, en kannski ekki. Gildir líka einu. Peningar eru ekki verðmæti - peningar eru milliliður viðskipta. Það sem máli skiptir er að milliliðurinn sé eitthvað sem aðilar að viðskiptum treysta á, en ekki hvaða nafn er á milliliðnum. Ríkisafskipti af  og ríkiseinokun á gjaldmiðlaútgáfu eru ekki beinlínis traustvekjandi fyrirbæri á þessu sviði frekar en öðru!


mbl.is Ekkert sem kallar á gjaldmiðilsbreytingu nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um sameign, ríkiseign og séreign

Á Ósýnilegu höndinni reyni ég að skýra með dæmi hvers vegna "sameign" er einfaldlega séreign (hins opinbera), og meðhöndluð sem slík.

Niðurstaðan: 

"Sameign er séreign hins opinbera, með eða án kosningaréttarins."

Er dæmisagan skýrandi og viðeigandi? Viðbrögð vel þegin!

Ekkert til sem er "samfélagsleg eiga"

"Samfélagsleg eiga" er ríkiseiga. Höfum það á hreinu. Borgin - hið opinbera - á Orkuveitu Reykjavíkur. Þeir sem fylgdust með Alfreð Þorsteinssyni nota fyrirtækið eins og stóran leikvöll átta sig vel á því. Þeir sem horfa upp á hið opinbera siga Landsvirkjun í hverja framkvæmdina á fætur annarri í nafni "byggðastefnu" og "atvinnusköpunar" eru sömuleiðis vel með á nótunum hvað "samfélagsleg eiga" í raun veru er.

Hvað gerir kosna borgarfulltrúa að góðum stjórnarmönnum í þessu fyrirtæki (eða einhverjum öðrum ef því er að skipta)? Er kosningaþokki ígildi og jafngildi útsjónarsemi í viðskiptum? Eru pólitískar vinsældir mælikvarði á viðskiptavit og skynbragð á fjárfestingum? Ef borgarfulltrúi svíkur eiganda fyrirtækisins um arðsemi, ávöxtun eða ánægju viðskiptavina (borgina í þessu tilviki), er þá tilbúinn varamaður úr viðskiptalífinu í hans stað? Eða situr hann áfram sama hvað tautar og raular þar til kosningaþokkinn er þorrinn?

Orku, mat, vatn, bensín, klæðnað, húsnæði og bíla á hið opinbera að meðhöndla á sama hátt: Eins og varning sem gengur kaupum og sölum á frjálsum markaði. Það að einhverjum datt eitthvað annað í hug á sínum tíma (mjólkurverslanir ríkisins og hvað það nú allt hét) eru mistök sem á að leiðrétta. Íhaldssemin "það sem ríkið gerir í dag á ríkið að gera áfram" er í besta falli falsrök og misskilningur, en í versta falli sósíalismi og ríkisforsjá.


mbl.is Ákvæði í lögum um að OR verði áfram í samfélagslegri eigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert að óttast í Köben!

Varúð! Pólitískur rétttrúnaður er settur til hliðar núna! Ekki er heldur víst að pirringur minn í augnablikinu verði varinn með sérstaklega sterkum rökum.

Danska lögreglan er búin að komast á snoðir um hóp sem hafði í hyggju að fremja hryðjuverk í Kaupmannahöfn. Ekki kemur það mér á óvart að hópurinn hafi verið staðinn að verki í undirbúningsferlinu, og ekki þörf á að hafa miklar áhyggjur!

Ef mig grunar rétt þá er um að ræða hóp ungra karlmanna með uppruna í Mið-austurlöndum, og múslímska að trú. Þetta er samfélagshópur sem er meira og minna í ruglinu í Danmörku. Þeir örfáu sem er dugur í hafa fyrir löngu stofnað sjoppu, hárgreiðslustofu, slátraraverslun, grænmetissölu eða álíka og vinna að því hörðum höndum að selja Dönum ódýran smyglvarning (eitthvað sem ég kaupi í miklum mæli við hvert tækifæri). Hinir - hinir haldast ekki í starfi og tala ekki tungumálið og þiggja félagslega tékka til að fjármagna tískufatnað og dýra bíla.

Auðvitað eru undantekningar og allt það, en miðað við aðra sem má kalla "hópa" þá er hópurinn "ungir karlmenn með uppruna í Miðausturlöndum" plága á dönsku samfélagi (þó ekki jafnstór né stórtæk og opinberir embættismenn, en plága samt). Danska velferðarkerfið náði fullkomnun sinni þegar þúsundum einstaklinga var hrúgað inn í afskekkt hverfi og borgað fyrir að sitja heima (og halda sig frá atvinnumarkaði innfæddra). Núna eru börn og barnabörn þess fólks að herja á verslanir og íbúðir Dana, sem glaðir borga fyrir uppihald þeirra á milli rána.

Duglitlir einstaklingar standa sig hvorki vel í starfi né hryðjuverkastarfsemi. Því er ekkert að óttast í Köben!


mbl.is Hinir handteknu með tengsl við leiðtoga al Qaeda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband