Þeir sem vilja evru geta skipt yfir í evru, búið mál!

Ég skil lítið í umræðu sem snýst um hvaða gjaldmiðil á að "taka upp" á Íslandi, svona rétt eins og allir Íslendingar hafi þörf fyrir samskonar gjaldmiðil, eða hafi sama smekk á því hvaða gjaldmiðill er "bestur". Fyrir suma hentar að taka upp breskt pund, fyrir aðra hentar norska krónan best og svona má lengi telja. 

Ef eitthvað þá ætti einfaldlega að leggja niður Seðlabanka Íslands og leyfa hverjum sem er að taka upp hvaða gjaldmiðil sem er, eða stofna nýjan ef því er að skipta. Hugsanlega væri hægt að fá einhvern viðskiptabankanna til að taka við útgáfu á íslenskri krónu, en kannski ekki. Gildir líka einu. Peningar eru ekki verðmæti - peningar eru milliliður viðskipta. Það sem máli skiptir er að milliliðurinn sé eitthvað sem aðilar að viðskiptum treysta á, en ekki hvaða nafn er á milliliðnum. Ríkisafskipti af  og ríkiseinokun á gjaldmiðlaútgáfu eru ekki beinlínis traustvekjandi fyrirbæri á þessu sviði frekar en öðru!


mbl.is Ekkert sem kallar á gjaldmiðilsbreytingu nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Rétt!

Oddgeir Einarsson, 5.9.2007 kl. 22:34

2 Smámynd: Ívar Pálsson

En Geir, veltu fyrir þér vandamálinu sem við er að eiga, þar sem seðlabankar heimsins geta bara ákveðið að slá inn eins háar tölur og vélarnar taka (í USD EUR og JPY) eins og á síðustu vikum. Þeir hafa einkarétt í Matadornum. Auðvitað eru þetta innistæðulausir peningar, en flestum virðist nokk sama. Við verðum að fylgja einum af Matador- stóru aðilunum og Evran liggur beinast við fyrir okkur.

Ívar Pálsson, 6.9.2007 kl. 00:10

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Eins og að ofan hefur verið sagt þá er krónan bara ávísun á verðmæti. Miðað við það ruglaða kerfi sem er hér á Íslandi þá veistu aldrei hvort átta stunda vinnudagur dugi fyrir mjólk, brauði og soðningu fyrir fjölskylduna. Okkar kerfi er svo varnarlaust gagnvart verðtryggingu (sem eru auðvita bara duldnir vextir), vöxtum (uppgefnir vextir) og gengissveiflum. Ég hef í sannleika sagt oft hugsað um hvort það sé betra að embættismaður í Brussel ráði því hvort ég hafi á milli hnífs og skeiðar eða hvort það er einhver íslenskur ríkisbubbi. Niðurstaðan er sú sama - ég hef enga stjórn á þessu sjálfu - hvort sem það er hreinræktað víkingablóð eða germanskur pólítíkus sem ræður þessu. Það eina sem ég vil er stöðuleiki: þegar ég fæ útborgað þá á það að duga til þess að geta lifað. Átta stunda vinnudagur á ekki allt í einu að geta rýrnað vegna þess að jöklabréf falla í gjalddaga eða þá að einhverjum dettur í hug að reisa stíflu til þess að fasteignaverð á austurlandi falli ekki í verði miðað við Reykjavík.

Sumarliði Einar Daðason, 6.9.2007 kl. 03:37

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ívar, af hverju er svissneskur franki eða norsk króna eitthvað fjarri eða verri en evran? Evran hefur vissulega kosti - hún er stöðugri og á lágum þýskum vöxtum sem t.d. Danir hafa nýtt til að lána pening út í hið óendanlega með tilheyrandi þenslu á fasteigna- og hlutabréfamarkaði.

Sá dagur kemur þegar pappírsmyntkerfi heimsins stimplar sig út og gjaldmiðlar byggðir á verðmætasköpun snúa aftur sem "main stream" (en ekki bara sem eitthvað á internetinu og einstaka svæðum í Bandaríkjunum (dæmi, dæmi, dæmi). Bara spurning um að MEGA gefa út frjálsa peninga, og þá kemur þetta hratt!

Geir Ágústsson, 6.9.2007 kl. 13:04

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Hugmyndir þínar eru athyglisverðar, Geir. Þú "hugsar út fyrir kassann". Vissulega er CHF í lagi, en hann er stilltur á Evru hvort eð er núna en ber líklega of litla vexti miðað við okkar athafnasmekk. Norska krónan er raunhæfur kostur og ég veðja á hana til langs tíma, þar sem stöðugleiki er líklegur þar (vegna stríða, sterkur her), nægar auka- olíulindir geta leynst undir Barentshafi og hún stendur keik ef púðutunnan í Brussel springur, sem er meir að segja að gerast á milli Belganna sjálfra!

Satt að segja fékk ég nóg af framvirkri verslun í milljörðum með EUR árið 2000. Þá mátti ekki stjórnmálamaður í einu landanna leysa vind án þess að Evran félli, á meðan dollarinn hafði bara eina rödd. Evruást mín ristir því grunnt, þannig að aðrir möguleikar eins og NOK koma vel til greina. En flotkrónan gengur ekki lengur.

Vel getur verið að raunveruleg sprenging hnattræna bréfakerfisins myndi færa fólk yfir í Silfurdollar og gulleignir eins og þú bentir á, en ég sé ekki að raunsæi stjórnmálamanna heimsins sé nægilegt til þess ennþá. Tal seðlabanka um tiltrú á gjaldmiðla er fyndið, því að það þarf ekki trú, heldur bara gegnsæjar upplýsingar um raunverulega stöðu, sem sýnir þá hvort að eign sé fyrir hendi eða ekki. Ef Ísland getur safnað einhverjum alvöru gæðum, eins og t.d. dönsku vetnispillunum, sem geta myndað varanlegan grunn (ávísun á orkueiningar er nú líklegast traustust), þá gætum við búið til og haldið gjaldmiðil. Haltu áfram, þú ert á réttri leið.

Ívar Pálsson, 6.9.2007 kl. 18:21

6 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Mér finnst þessar pælingar með að færa fé aftur undir raunverulegt gildi alveg meiriháttar athyglisverðar. Veit ekki hvort þið hafið séð heimildarmyndina The Money Masters, en hún tekur einmitt frábærlega á þessu. Þetta er 3,5 tímar, en ég hef sjaldan eða aldrei haldið eins mikilli athygli í svona langan tíma. Hvet alla sem hafa ekki séð hana að taka þennan tíma frá og get blown away.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 6.9.2007 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband