Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Er öfund stærsti andstæðingur hins frjálsa fyrirkomulags?

Tvennt hefur að undanförnu valdið því að ég er sífellt að komast meira á þá skoðun að öfund sé í raun stærsta fyrirstaða hins frjálsa fyrirkomulags á Íslandi.

Þetta tvennt er:

  • Samtöl við félaga minn sem starfar sem læknir í hinu íslenska heilbrigðiskerfi (en er samt enginn frjálshyggjumaður!).
  • Ýmis skrif Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar (HHG) undanfarna mánuði, og þá sérstaklega þessi grein.

Ófrelsi er slæmt fyrir sjúklinga 

Byrjum á hinu fyrrnefnda: Frásagnir hins íslenska læknis. Þeir sem hönnuðu hið íslenska heilbrigðiskerfi höfðu fyrst og fremst hagsmuni eins hóps að leiðarljósi: Þeirra sem hafa ekki efni á því að greiða eigin  trygginga- og meðferðarkostnað vegna heilbrigðisgæslu og meðhöndlunar. Stóra hugmyndin að baki kerfinu er, "allir borga samkvæmt getu, allir fá samkvæmt þörf" . 

Þetta er sögulega séð, og raunar röklega líka, gjaldþrota sjónarmið. Ísland er velmegandi markaðssamfélag og langflestir hafa efni á öllu sem þeir þurfa á að halda. Að búa til kerfi sem drepur samkeppni, markaðslögmál og beint aðhald neytenda/notenda er til lítils ef ætlunin er að gagnast þeim efnaminnstu og veikustu. Nær væri að leyfa öllum sem geta að sjá um sig sjálfa, og bjóða þeim upp á að aðstoða aðra sem mega sín minna. Slíkt hugarfar hefur ýtt undir að enginn sveltur eða er klæðalaus á Íslandi. Skortur á því veldur því að margir þjást á biðlistum heilbrigðiskerfisins og sitja fastir í traffík á troðnum opinberum götum ríkis og sveitarfélaga.

Getur til dæmis einhver svarað því hvers vegna má ekki reisa hús og ráða starfsfólk sem getur tekið við stórum hópi aldraða sem nú liggur í einhverjum dýrustu sjúkrarúmum Íslands og bjóða því upp á aðhlynningu í örlítið sérhæfðara umhverfi? Er endalaust hægt að kenna nafngreindum ráðherrum í ákveðnum stjórnmálaflokkum um, eða er miðstýrt ríkiskerfið sem heild á einhvern hátt að hamla hagræðingu í þessu sem öðru? 

Frelsið er gott fyrir fátæka 

Hið síðara - skrif HHG undanfarna mánuði - eru einnig umhugsunarverð þegar öfund er stillt upp sem helstu fyrirstöðu frjálshyggju á Íslandi. HHG er duglegur að finna tölfræði og skýrslur sem leggja áherslu á mál hans, en það mikilvægasta er samt sem áður rökleg ástæða þess að frelsi bætir hag allra (þótt hagurinn bætist mishratt eftir aðstæðum).

Fæstir hafa hins vegar áhuga né nennu til að velta sér upp úr röklegu samhengi hluta. HHG kemur þar sterkur inn sem blaðagreinaskríbent:

"Samkvæmt réttlætiskenningu Rawls ætti jafnaðarmaður að taka Bandaríkin fram yfir Svíþjóð: Hagur hinna bágstöddustu er betri, þótt tekjumunur sé meiri. Þess má síðan geta, að atvinnuleysi er talsvert meira í Svíþjóð en Bandaríkjunum. Tækifæri manna til að vinna sig út úr fátækt eru því færri í Svíþjóð."

Öfund er ekki góð nema sem hvati til að gera betur. Um leið og hún er notuð sem afl til að draga úr hraða annarra svo þeir hafi það jafnskítt og maður sjálfur þá ber að hafna henni eins og hverri annarri meinsemd sem gerir öllum illt sem þjást af henni.


Sum forræðishyggja er óvinsælli en önnur

Hátt áfengisverð á Íslandi er eitthvað sem hinn nútímalegi tíðarandi á erfitt með að sætta sig við. Í dag er í tísku að drekka fín vín og kokteila og drepa í sígarettunni. Fyrir nokkrum árum var öllum sama hvað vínið var fínt eða flott á meðan því fylgdi góður smókur.

Löggjafarvaldið er duglegt að elta tískusveiflurnar. Sá sem aldist upp við bjórlíki og reyktóbak er settur út í horn og hans smekkur gerður útlægur eða dýr, nema hvort tveggja sé. Upparnir sem muna ekki eftir bjórbanninu krefjast þess að þeirra neysluvarningur sé gerður ódýrari og aðgengilegri.

Fyrir mér er það áhyggjuefni að ríkið eltist við tískusveiflur, jafnvel þótt ég hafi að mörgu leyti smekk sem samræmist þeim. Hvað varð um að búa til "almennar leikreglur" og gæta hófs í ofsóknum á einum hópi manna til að koma til móts við annan? Víndrykkjufólkið má alveg líta niður á hina reykjandi bjórlíkismenn og tala um eigið ágæti og annarra óágæti, en er það ástæða til að siga ríkisvaldinu á einhvern og krefjast þess að það umbuni sjálfum sér í leiðinni?


mbl.is Áfengisverð 126% hærra en í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunir skattgreiðandans

"Það er hreint ekki auðvelt að vera námsmaður nú til dags. Næstum ómögulegt er fyrir ungt fólk og þá sérstaklega námsmenn að kaupa sér íbúð, þar sem húsnæðisverð er lygilega hátt. Námslánin mæta ekki raunverulegri framfærsluþörf námsmanna og námsmenn neyðast til að vinna með náminu til að ná endum saman. Hvers eigum við námsmenn eiginlega að gjalda?"

Svona mælir námsmey í pistli á Deiglan.com. Hver getur bent á a.m.k. tvær villur við þetta betl? Umorðað: Hvern er hún að krefja um hvað, og hver þarf að fórna hverju í staðinn?

Bónusspurning: Hver mun koma einna verst út úr því ef námsmey þessi fær óskir sínar uppfylltar, og hvers vegna? 


Hvað er grunnþjónusta?

Þegar harðir vinstrimenn opna munninn þá vantar ekki stóru orðin og loðnu lýsingarnar. Hvað er "grunnþjónusta samfélagsins" til dæmis? Nettengingar? Matvæli? Leisertækni sem læknar nærsýni? Skór og gleraugu? Áfengi?

Ég held að Vinstri-grænir meini ekki bókstaflega það sem þeir segja því það væri til merkis um að nú eigi að þjóðnýta hitt og þetta sem vinstrimennirnir ásælast. Það sem þeir meina í raun er að allt sem ríkið gerir í dag á ríkið að gera áfram. Allt sem ríkið á í dag á ríkið að eiga áfram. Öll útþensla ríkisins samþykkist af vinstrinu. Allur samdráttur á því mætir mótstöðu vinstrisins.

Mjólkurbúðir ríkisins voru varðar af vinstrimönnunum. Ríkiseinokun á rekstri útvarps og sjónvarps var varin af vinstrimönnum. Sala orkufyrirtækja mun mæta sömu mótstöðu. Hana á bara að hunsa og halda áfram með smjörið!


mbl.is VG: grunnþjónusta á að vera á hendi hins opinbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jöfnuður eða jöfnun?

Hannes Hólmsteinn Gissuarson á alveg hreint þrusugóðan sprett í pistli sínum Jöfnuður eða jöfnun. Ég get ekki krafist þess að neinn lesi hann, en ég hvet alla til þess! Þeir sem kalla sig jafnaðarmenn eða vinstrimenn ættu sérstaklega að íhuga að lesa pistilinn orð fyrir orð og þar sem Hannes býður sjálfur ekki upp á blogg-athugasemdir þá auglýsi ég hér með eftir athugasemdum við pistil hans á þessari síðu.

Þess má geta að ég get ekki tekið undir hvert einasta orð Hannesar, en megininntakið tek ég heils hugar undir: Frelsi er gott, líka fyrir þá bágstöddustu. 


Var Ísland hertekið af nokkrum unglingum?

Hérna má lesa um hitting íslenskrar lögreglu og nokkura unglinga frá ýmsum löndum í Reykjavík í dag. Vísað er á tvö myndbönd þar sem sést að íslenska lögreglan lét gjörsamlega vaða yfir sig og hafðist lítið sem ekkert að þótt mikilvæg umferðaræð hafi verið stífluð og fánar og slagorð hengd á húsnæði hennar. Eru dagar Jörundar hundadagakonungs komnir aftur? Er virkilega svona auðvelt að taka stjórn á götum Reykjavíkur án afleiðinga? Þetta er athyglisverð uppgötvun fyrir marga býst ég við.

Svo virðist sem frjáls viðskipti með löglegan varning fái meiri athygli og mæti meiri hörku lögreglu en hertaka á götum Reykjavíkur og óvelkomin notkun á húseignum hins opinbera. Athyglisvert viðhorf yfirvalda svo ekki sé meira sagt.


mbl.is Almannahagsmunir réðu aðgerðum lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Há opinber álagning = hátt verðlag

Ef einhverjum finnst skrýtið að 300.000 manna smáeyja í miðju Atlantshafi búi við hærra matarverð en þjóðir með landlegu að meginlandi Evrópu (eða allt að því), þá þeir um það. Ef einhver heldur að "skortur á samkeppni" sé ástæðan bak við hið íslenska verðlag þá þeir um það. Fólk á þeirri skoðun getur einfaldlega reynt að bjóða betur með stofnun samkeppnisaðila, en mun fljótt komast að því að hundurinn liggur ekki grafinn í ofurálagningu, heldur opinberri álagningu!

Ef raunverulegur vilji er til að lækka vöruverð á Íslandi þá er einfaldlega að ráðast í eftirfarandi aðgerðir (eða afnám aðgerða):

  • Afnema tolla, innflutningsgjöld, vörugjöld og virðisaukaskatt.
  • Einkavæða hafnir Íslands.
  • Leggja niður skatta og gjöld á fyrirtæki, t.d. þau sem stunda smásölu og vöruflutninga.
  • Lækka eða afnema skattlagningu á laun, en þá minnkar þrýstingur á launahækkanir hjá starfsmönnum smásölu- og flutningsfyrirtækja, og þar með eykst ráðrúm til lækkunar álagningar.
  • Afnema alla skatta og opinber gjöld á húsnæði, bifreiðar, skrifstofuvörur, húsgögn, gólfefni, veggefni og allt annað sem fyrirtæki kaupa og þurfa á að halda.
  • Aflétta öllum skilyrðum á innflutning til landsins, en þó seinast á innflutning sýkts varnings þar til markaðsaðilar (fyrirtæki og neytendur) hafa áttað sig á að það er hlutverk þeirra að fylgjast með innkaupum sínum, en ekki opinberra starfsmanna.

Listinn gæti sjálfsagt orðið lengri, en ég er nú þegar byrjaður að nefna punkta sem krefjast ítarlegra útskýringa og kalla sjálfsagt á harðorðar athugasemdir í fjarveru þeirra.

Punkturinn er samt þessi: Verðlag er hátt vegna þess að skilyrðin, skattarnir, reglurnar, lögin, fyrirstöðurnar, tollarnir, vörugjöldin, virðisaukaskatturinn, launatengd gjöld, opinber gjöld á fyrirtæki osfrv osfrv er í himinhæðum. Slíkt er fljótt að bitna á smáum og fjarlægum markaði með takmarkaða innkaupagetu - mun fljótar en á stórum markaði með beintengingu við stórt meginland.


mbl.is Matvæli dýrust á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu mörg hreiður fara á kaf til að knýja þennan bíl?

Ég hef ekkert á móti því að fólk velji sér aðra orkugjafa en olíu og gas. Eina skilyrðið er að þeir sem það gera geri það á eigin reikning og stilli sig í heimtufrekju og kröfum um að aðrir niðurgreiði sitt val á orkuformi.

Núna er vetnisbíll kominn í rekstur á Íslandi af tveimur hálfopinberum fyrirtækjum. Bíll af þessu tagi mengar sjálfur minna en aðrir bílar og er allt að því hljóðlaus og því væntanlega þægilegt farartæki fyrir bílstjóra og aðra í umferðinni. Hann notar hins vegar dýra orku því vetni er dýrt og vetnisframleiðsla krefst gríðarlegrar orku sem fæst úr öðrum (og hagkvæmari orkugjöfum). Ég spyr því:

  • Hvað þurfti að "fórna" mörgum gæsahreiðrum undir lón til að knýja hinn nýja vetnisbíl?
  • Hvað þurfti að brenna mikið af olíu, gasi eða kolum til að framleiða vetnið?
  • Hvað þurfti að grafa niður mikinn kjarnorkuúrgang vegna vetnisframleiðslunnar?
  • Hversu mikinn brennistein þurfti að losa í andrúmsloftið til að útvega vetnisbílnum eldsneyti?
  • Hversu margir fuglar rotuðust af vindmylluspöðum svo starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar gætu ekið um hljóðlaust?
  • Hversu mikið dýrmætt land hvarf undir sólarrafhlöður til að útvega vetnið?
  • Hvað þurfti að grafa djúpt eftir stáli og áli til að búa til örugga geymslu fyrir eldfimt vetnið?

Lexía dagsins? Ekkert form orku er "syndlaust". Sumt af því sem er hafið til himins í dag er jafnvel meira auðlindakrefjandi en hið svarta gull! Það kemur líka fram í verðinu - lágt verð þýðir ódýrt og gott aðgengi að einhverju í miklu framboði, hátt verð þýðir að miklu þarf að kosta til af takmörkuðum gæðum til að færa í hendur neytandans.

Af þessum ástæðum er t.d. auðvelt að sjá ef endurvinnsla á heimilissorpi er "náttúruvæn" og auðlindasparandi miðað við urðum. Hún er það ekki. Ástæða: Endurvinnsla er dýrari og af því sést að hún krefst meiri auðlinda en einföld urðun.


mbl.is Fyrsti vetnisfólksbílinn tekinn í gagnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að setja Dana í varnarstöðu?

Danir eru yfirleitt ósköp hressir og kátir, sérstaklega ef þeir eru með örlítið áfengi í blóðinu. Það er samt hægt að pirra Dana með einföldum hætti. Ein leið er sú að minna þá á uppkaup Íslendinga í Danmörku. Önnur leið er að benda þeim á eftirfarandi staðreyndir:

"Danmörk er með ríkari löndum heims og þjóðarframleiðsla á mann áþekk og á Íslandi. Samt sem áður er verg landsframleiðsla á mann um 21% hærri í Bandaríkjunum en í Danmörku og í níu ríkustu ríkjum Bandaríkjanna eru tekjur á mann meira en 50% hærri en í Danmörku. Í 41 af 50 ríkjum Bandaríkjanna eru þjóðartekjur á mann hærri en í Danmörku, sé litið á einkaneyslu er munurinn á ríkjunum enn meiri. Árið 2002 var einkaneysla á mann um 96% hærri í Bandaríkjunum en í Danmörku."

Sjálfsagt yrðu fæstir Kanahatandi Íslendingar ánægðir með að heyra svipaða tölfræði um Ísland en ég hef minni reynslu af því. Hinir skandinavísku velferðarsinnar eiga það þó flestir sameiginlegt að halda að lífskjör séu betri á Norðurlöndunum en í Bandaríkjunum. Flestir Skandinavar sem telja sig þekkja til Bandaríkjanna eru uppteknir af örfáum undantekningum og neita að líta á heildarmyndina.

Heildarmyndin er sú að Bandaríkjamenn hafa farið sér hægar í að kæfa hagvöxt en Norðurlandabúar. Eftir því sem árin líða þýðir það að lífskjarabæting Norðurlandabúa dregst aftur úr og er nú a.m.k. tveimur áratugum á eftir Bandaríkjunum. Þeir sem vilja bara bera Ísland saman við Evrópu geta unað sáttir við sitt. Þeir sem vilja bera Ísland saman við Bandaríkin ættu að vera ósáttari.

 


Pólitískir molar

Vefþjóðviljinn í dag er viðleitni til að sætta "frjálshyggjumenn" og "íhaldsmenn" í afstöðu sinni til veru fjölþjóðlegs hers í Írak að lokinni árás. Það er fallega gert af þeim. Möguleikarnir eru þeir að yfirgefa landið í hvelli og leyfa hinum ýmsu trú- og þjóðarbrotum að slást fram í rauðan dauðan, halda áfram að reyna koma á "öryggi" og "stöðugleika" í landi þar sem ofbeldi gegn Bandaríkjamönnum nýtur samúðar og jafnvel fjárstuðnings margra Vesturlandabúa sem þola ekki Kanann, eða að skipta landinu upp í nokkur ríki með valdi og loka landamærunum á milli þeirra. Sjálfsagt eru til fleiri möguleikar en þá yfirsést mér þeir (athugasemdir vel þegnar).

"Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég hef skammast mín fyrir að vera Íslendingur."

Þessi orð mæli yfir-femínisti Íslands. Tilefnið er hið íslenska réttarkerfi sem vitaskuld er ekki yfir gagnrýni hafið. Ég segi hins vegar: Það kemur oft fyrir að ég skammast mín fyrir að vilja (áfram) jafnrétti kynjanna, því þá reyna sumir að kalla mig femínista.

130.000 tonn af þorski leyfð á næsta fiskveiðitímabili. Þetta mun valda deilum þar sem Íslendingar breytast allir í fiskifræðinga og hafa skoðanir á því hvort þetta sé "rétt" eða "rangt". Af hverju ekki að einfalda málið og færa útgerðarmönnum sjálfum vald til að passa upp á eign sína? Ég veit að það hefur virkað ágætlega þegar kemur að því að passa upp á aðrar tegundir eigna. Er ástæða til að ætla að annað eigi við með eignina "heimild til að nýta hin takmörkuðu gæði Fiskar í sjó"?

Ég fór í ríkið í dag og keypti þrjár kippur af bjór fyrir rúmlega 3500 krónur. Það var sársaukafull aðgerð fyrir mann sem er búsettur í Danmörku. Hvenær fá Íslendingar nóg af þessari viðurstyggilegu forsjárhyggju hinna alvitru og heilögu Alþingismanna? Þegar Vinstri-grænir hætta að hóta málþófi þegar þeir hafa tapað máli í atkvæðagreiðslum á löggjafarsamkundunni? Ég er ansi hræddur um að helvíti verði fyrr að frjósa en að það gerist.

Eru til dýraréttindi? Sennilega er fólk að rugla saman "réttindum" og því að eitthvað sé siðferðislega göfugt.

Aumingjans heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna. Vinstrimenn segja að það sé of einkavætt, og hægrimenn segja að það sé of ríkisvætt. Báðir hafa rétt fyrir sér. Engin furða að allir geti notað það sem skotskífu, þótt sumt sé vissulega betra þar en í mörgum öðrum löndum þar sem ríkið sér um allt heila klabbið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband