Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Af hverju fæðast fá börn í ríkum löndum?

Þorvaldur Gylfason skrifar grein í Fréttablaðið um minnkandi fæðingartíðni á Vesturlöndum og veltir ýmsu fyrir sér varðandi hana. 

Hann segir réttilega:

"Færri barnsfæðingar í fátækum löndum stuðla jafnan að meiri hagvexti og velferð, þótt undarlegt megi virðast. Börn eru öðrum þræði eins og hver önnur fjárfesting. Fækkun barneigna gerir foreldrum kleift að búa betur að hverju barni, veita því meiri og betri menntun og betri skilyrði til að hafa eitthvað fram að færa á vinnumarkaði annað en vöðvaaflið eitt."

Einnig segir hann, réttilega:

"Í fátækum löndum hleður fólk niður börnum í þeirri von, að eitt þeirra verði þá kannski eftir heima hjá foreldrunum og líti eftir þeim í ellinni."

Þorvaldur segir svo (tölur í sviga er fæðingartíðni viðkomandi lands):

"Tyrkland (2,2), Bandaríkin (2,1) og Ísland (2,1) eru einu OECD-löndin, þar sem barnsfæðingar duga til að halda mannfjöldanum við. Öll önnur OECD-lönd búa við náttúrulega fólksfækkun, sem þau bæta sér upp með innflutningi fólks annars staðar að. Meðalfæðingartala ESB-landanna er 1,5 og þýðir mikla fólksfækkun þar."

Greinin endar svo á áskorun:

"Fátækar þjóðir þurfa að fjölga sér hægar til að lyfta af sér oki fátæktarinnar, og ríkar þjóðir þurfa að snúa fólksfækkun í hóflega fólksfjölgun til að troðast ekki undir."

Ef höfundur ofanritaðra orða væri ekki Þorvaldur Gylfason þá væri líklega hægt að tengja þau við hinn ófrjálslynda Frjálslynda flokk, en það er önnur saga.

Því sem er ósvarað er hvers vegna fæðingum hefur fækkað svo mikið í ríkjum OECD að við blasir fólksfækkun (sem eingöngu er haldið frá með fjölgun innflytjenda). 

Hér er boðið upp á ágæta og mjög rökrétta skýringu á fækkun barna í hinum velferðarvæddu samfélögum. Ég hvet áhugasama til að lesa greinina í heild sinni svo ekkert sé slitið úr samhengi. Boðskapurinn er, í stuttu máli: Velferðarkerfið dregur úr hvata fólks til að eignast börn, því hvers vegna að eignast börn þegar ríkið - og allir aðrir - munu sjá fyrir manni í ellinni?


Leynd ríkisafskipti

Ríkisafskipti koma í mörgum myndum. Best þekkt eru líklega þau sem við sjáum allt í kring - bygging brúar, borun jarðganga, hækkun skatta, breyting stýrivaxta.

Öllu leyndari ríkisafskipti finnast hins vegar og heyrði ég mjög athyglisverða sögu um ein slík í dag. Hún snýr að verði á kvóta.

Núna þarf að borga 2-3 þúsund krónur fyrir kíló af þorski. Þetta er verð sem krefst á að giska 20 veiddra kílóa til að greiða, án þess að tekið sé tillits til neins annars kostnaðar af útgerð. Kvóti er keyptur á 40 ára bankalánum sem er enn lengri tími en flestir húsnæðiskaupendur taka til að greiða sín lán.

Sagan sem ég heyrði er sú að þetta verðlag megi að einhverju leyti skýra með því að kaupendur kvóta búast allt eins við því að ríkisvaldið muni dag einn innleysa kvótakerfið. Stjórnarskráin heimilar ekki þjóðnýtingu (nema að "ákveðnum skilyrðum" uppfylltum) og því yrði hið opinbera að greiða fyrir þann kvóta sem ríkið tæki í sína umsjón. Hvað með það þá þótt kvótinn sé keyptur á 3 þús. kr. kílóið í dag þegar ríkið mun hvort eð er þurfa greiða markaðsvirði fyrir innleystan kvóta?

Gæti verið að ein "lausn" á vanda viljugra kvótakaupenda sé sá að ríkið, með formlegum hætti (hugsanlega stjórnarskrárbreytingu), gefi út að kvóti verði skilgreindur sem eign sem ekki mætti hrófla við frekar en annarri (bíl eða húsnæði)? Er allt þetta tal um "sameign þjóðarinnar" að valda því að verð á kvóta er að vinda upp á sjálft sig því spákaupmenn búast við því að fyrr eða síðar komist til valda ríkisstjórn sem hefur á stefnuskrá sinni að afnema kvótakerfið?

Mér er spurn! 


Vandi íslenskrar útgerðar

Hver er vandi íslenskrar útgerðar?

"Hagsmunir Íslendinga af góðu gengi útgerðar á Íslandsmiðum eru miklir. Svo miklir að stjórnmálamönnum á að halda frá stjórnun fiskveiða eins og frekast er unnt. Það er nefnilega það sem ríkið gerir ekki sem er undirstaða hins íslenska efnahagsundurs, en ekki það sem ríkið gerir."

Vandinn er vitaskuld opinber afskipti af útgerð á Íslandi! Nema hvað?


Hvað ef fiskurinn hverfur?

Mér finnst alltaf athyglisvert að sjá deilur á milli manna sem halda að þeir hafi tamið móður náttúru og nú sé spurningin bara sú hvaða stjórntæki á að nota til að hafa hemil henni. Sumir halda að nákvæm stilling á CO2 magni í lofthjúpnum sé afgerandi fyrir loftslag Jarðar. Aðrir halda að fiskurinn í sjónum sé á einum stað eða öðrum eftir því hvernig málamiðlun næst á milli íslenskra stjórnmálamanna og fiskifræðinga. Athyglisvert en jafnframt svo óspennandi.

Það sem menn geta gert er að hafa áhrif á aðra menn. Til dæmis ættu Íslendingar að hugleiða það fyrir alvöru hvort fiskveiðar séu eilífðaratvinnugrein sem Íslendingar nenna að stunda um alla framtíð. Nú þegar eru frystihúsin meira og mönnuð erlendu vinnuafli, og íslenskir sjómenn væru fyrir löngu orðnir ósamkeppnishæfir ef ekki væri fyrir allskyns kvaðir og haftir á eignarhaldi, starfsmannahaldi og ráðningum erlendra ríkisborgara á Íslandi. Löndun á Íslandi er hreinlega orðinn vafasamur iðnaður nema um ferskan fisk sé að ræða sem þarf að fljúga samdægurs til veitingastaða í New York og London.

Menn geta haft ákveðin áhrif á umhverfi sitt, fjölda fiska í sjó og samsetningu lofthjúpsins. Þeir geta hins vegar haft mun meiri og fyrirsjáanlegri áhrif á aðra menn. Til dæmis hefur lækkun skatta ákveðin áhrif á hegðun einstaklinga. Hið sama gildir um afnám viðskiptahafta, beinna og óbeinna. Íslendingar ættu að íhuga að gera eins og Makedónía, og reyna laða til sín fólk, fyrirtæki, hæfileika og hagnað í stað þess að rífast um það hvernig á að halda í hvern einasta sporð af þorski sem syndir inn í íslenska landhelgi (og slapp fram hjá norsku, færeysku, rússnesku, spænsku og grænlensku fiskiskipunum utan hennar).

Það er a.m.k. fyrirsjáanleg aðgerðaáætlun sem skilar sér mun hraðar og betur til mun fleiri en það að halda úti fiskvinnslu í hverju plássi á Íslandi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband