Hvað ef fiskurinn hverfur?

Mér finnst alltaf athyglisvert að sjá deilur á milli manna sem halda að þeir hafi tamið móður náttúru og nú sé spurningin bara sú hvaða stjórntæki á að nota til að hafa hemil henni. Sumir halda að nákvæm stilling á CO2 magni í lofthjúpnum sé afgerandi fyrir loftslag Jarðar. Aðrir halda að fiskurinn í sjónum sé á einum stað eða öðrum eftir því hvernig málamiðlun næst á milli íslenskra stjórnmálamanna og fiskifræðinga. Athyglisvert en jafnframt svo óspennandi.

Það sem menn geta gert er að hafa áhrif á aðra menn. Til dæmis ættu Íslendingar að hugleiða það fyrir alvöru hvort fiskveiðar séu eilífðaratvinnugrein sem Íslendingar nenna að stunda um alla framtíð. Nú þegar eru frystihúsin meira og mönnuð erlendu vinnuafli, og íslenskir sjómenn væru fyrir löngu orðnir ósamkeppnishæfir ef ekki væri fyrir allskyns kvaðir og haftir á eignarhaldi, starfsmannahaldi og ráðningum erlendra ríkisborgara á Íslandi. Löndun á Íslandi er hreinlega orðinn vafasamur iðnaður nema um ferskan fisk sé að ræða sem þarf að fljúga samdægurs til veitingastaða í New York og London.

Menn geta haft ákveðin áhrif á umhverfi sitt, fjölda fiska í sjó og samsetningu lofthjúpsins. Þeir geta hins vegar haft mun meiri og fyrirsjáanlegri áhrif á aðra menn. Til dæmis hefur lækkun skatta ákveðin áhrif á hegðun einstaklinga. Hið sama gildir um afnám viðskiptahafta, beinna og óbeinna. Íslendingar ættu að íhuga að gera eins og Makedónía, og reyna laða til sín fólk, fyrirtæki, hæfileika og hagnað í stað þess að rífast um það hvernig á að halda í hvern einasta sporð af þorski sem syndir inn í íslenska landhelgi (og slapp fram hjá norsku, færeysku, rússnesku, spænsku og grænlensku fiskiskipunum utan hennar).

Það er a.m.k. fyrirsjáanleg aðgerðaáætlun sem skilar sér mun hraðar og betur til mun fleiri en það að halda úti fiskvinnslu í hverju plássi á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband