Spennandi, en er það nóg?

Norsk Hydro er núna í óða önn að búa sig undir framtíðina eftir ca. 50-70 ár þegar olíu- og gasvinnsla verður orðin það óarðbær að önnur orkuform verða orðin samkeppnishæf við hana. Þetta er virðingarverð viðleitni sem er drifin áfram á því að sópa inn peningum en ekki að reyna slást við 0,2 gráðu ómælanlega breytingu á hitastigi eftir marga áratugi (Kyoto, með öðrum orðum).

Norðmenn eiga takmarkaðan fjölda fossa og takmarkaðan fjölda olíulinda en þeim mun meira af opnu hafsvæði sem vindar (og sjófuglar) leika um. Því er nærtækt að orkufyrirtæki þar í landi þrói tækni sem hugsanlega getur tappað pening af hinni aðgengilegu auðlind.

Hugmyndin sem Norsk Hydro er að þróa kallast Hywind og sýnist mér (PDF) hún byggja á vel þekktri tækni um að hlutir fljóta á vatni! Hið gríðarlega erfiða verkefni verður að halda fljótandi vindmyllum stöðugum í öllum veðrum, og keyrandi á afköstum sem borga reikninginn (nema norska ríkið blóðmjólki skattgreiðendur um mismuninn, sem er allt eins líklegt eins og dæmin úr vindmylluheiminum sanna - því miður fyrir fugla og skattgreiðendur en hjálpar víst einhverjum að sofa á nóttunni).

Hið skemmtilega er að olíuiðnaðurinn hefur í dag margra áratuga reynslu af olíuvinnslu í sjó, og margra ára reynslu af hálf- eða alfljótandi olíuvinnslumannvirkjum sem eru strengd föst við hafsbotninn. Má því segja að arðbær olíuiðnaðurinn sé nú á fullu að fínpússa tækni sem mun auðvelda öðrum að komast út á hin opnu úthöf og nýta þar áður ónýttar auðlindir, eða hreinlega búa þar!

Hvað sem öðru líður er ljóst að þróunin í orkuöflunariðnaðinum verður gríðarleg á næstu árum eftir því sem olíuverð hækkar og hagnaður olíufyrirtækjanna hleypur á stærri upphæðum (þótt sem prósent af veltu verði hann ekkert ólíkur öðrum fyrirtækjum). Þetta gerir það að verkum að ég er að íhuga hvernig ég gæti búið á Íslandi og áfram unnið við "offshore", en ella enda sem bankastarfsmaður (jafngildi þess að vinna í jakkafötum sem ég ætti sennilega mjög erfitt með).

Hver veit, þegar auðmenn hafa keypt upp hálendi Íslands og ákveðið að friða það þá verði svo dýrt að kaupa land undir virkjun að vindorka af hafi verði arðbær á Íslandi? Sennilega er samt lítil hætta á þessari þróun á meðan ríkið er áfram hvatt til að eiga víðlendur hins íslenska hálendis.


mbl.is Tilraunir með fljótandi vindmyllur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þú talar meira um peninga en raunverulegan ávinning þessa tilraunaverkefnis...

Óskar Þorkelsson, 26.6.2007 kl. 23:07

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég skil ekki hugtakið "raunveruleg verðmæti" eins og þú notar það og þætti vænt um örlítið nánari útlistun á  því.

Geir Ágústsson, 27.6.2007 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband