Pólitískir molar

Vefþjóðviljinn í dag er viðleitni til að sætta "frjálshyggjumenn" og "íhaldsmenn" í afstöðu sinni til veru fjölþjóðlegs hers í Írak að lokinni árás. Það er fallega gert af þeim. Möguleikarnir eru þeir að yfirgefa landið í hvelli og leyfa hinum ýmsu trú- og þjóðarbrotum að slást fram í rauðan dauðan, halda áfram að reyna koma á "öryggi" og "stöðugleika" í landi þar sem ofbeldi gegn Bandaríkjamönnum nýtur samúðar og jafnvel fjárstuðnings margra Vesturlandabúa sem þola ekki Kanann, eða að skipta landinu upp í nokkur ríki með valdi og loka landamærunum á milli þeirra. Sjálfsagt eru til fleiri möguleikar en þá yfirsést mér þeir (athugasemdir vel þegnar).

"Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég hef skammast mín fyrir að vera Íslendingur."

Þessi orð mæli yfir-femínisti Íslands. Tilefnið er hið íslenska réttarkerfi sem vitaskuld er ekki yfir gagnrýni hafið. Ég segi hins vegar: Það kemur oft fyrir að ég skammast mín fyrir að vilja (áfram) jafnrétti kynjanna, því þá reyna sumir að kalla mig femínista.

130.000 tonn af þorski leyfð á næsta fiskveiðitímabili. Þetta mun valda deilum þar sem Íslendingar breytast allir í fiskifræðinga og hafa skoðanir á því hvort þetta sé "rétt" eða "rangt". Af hverju ekki að einfalda málið og færa útgerðarmönnum sjálfum vald til að passa upp á eign sína? Ég veit að það hefur virkað ágætlega þegar kemur að því að passa upp á aðrar tegundir eigna. Er ástæða til að ætla að annað eigi við með eignina "heimild til að nýta hin takmörkuðu gæði Fiskar í sjó"?

Ég fór í ríkið í dag og keypti þrjár kippur af bjór fyrir rúmlega 3500 krónur. Það var sársaukafull aðgerð fyrir mann sem er búsettur í Danmörku. Hvenær fá Íslendingar nóg af þessari viðurstyggilegu forsjárhyggju hinna alvitru og heilögu Alþingismanna? Þegar Vinstri-grænir hætta að hóta málþófi þegar þeir hafa tapað máli í atkvæðagreiðslum á löggjafarsamkundunni? Ég er ansi hræddur um að helvíti verði fyrr að frjósa en að það gerist.

Eru til dýraréttindi? Sennilega er fólk að rugla saman "réttindum" og því að eitthvað sé siðferðislega göfugt.

Aumingjans heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna. Vinstrimenn segja að það sé of einkavætt, og hægrimenn segja að það sé of ríkisvætt. Báðir hafa rétt fyrir sér. Engin furða að allir geti notað það sem skotskífu, þótt sumt sé vissulega betra þar en í mörgum öðrum löndum þar sem ríkið sér um allt heila klabbið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband