Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
Þriðjudagur, 26. júní 2007
Spennandi, en er það nóg?
Norsk Hydro er núna í óða önn að búa sig undir framtíðina eftir ca. 50-70 ár þegar olíu- og gasvinnsla verður orðin það óarðbær að önnur orkuform verða orðin samkeppnishæf við hana. Þetta er virðingarverð viðleitni sem er drifin áfram á því að sópa inn peningum en ekki að reyna slást við 0,2 gráðu ómælanlega breytingu á hitastigi eftir marga áratugi (Kyoto, með öðrum orðum).
Norðmenn eiga takmarkaðan fjölda fossa og takmarkaðan fjölda olíulinda en þeim mun meira af opnu hafsvæði sem vindar (og sjófuglar) leika um. Því er nærtækt að orkufyrirtæki þar í landi þrói tækni sem hugsanlega getur tappað pening af hinni aðgengilegu auðlind.
Hugmyndin sem Norsk Hydro er að þróa kallast Hywind og sýnist mér (PDF) hún byggja á vel þekktri tækni um að hlutir fljóta á vatni! Hið gríðarlega erfiða verkefni verður að halda fljótandi vindmyllum stöðugum í öllum veðrum, og keyrandi á afköstum sem borga reikninginn (nema norska ríkið blóðmjólki skattgreiðendur um mismuninn, sem er allt eins líklegt eins og dæmin úr vindmylluheiminum sanna - því miður fyrir fugla og skattgreiðendur en hjálpar víst einhverjum að sofa á nóttunni).
Hið skemmtilega er að olíuiðnaðurinn hefur í dag margra áratuga reynslu af olíuvinnslu í sjó, og margra ára reynslu af hálf- eða alfljótandi olíuvinnslumannvirkjum sem eru strengd föst við hafsbotninn. Má því segja að arðbær olíuiðnaðurinn sé nú á fullu að fínpússa tækni sem mun auðvelda öðrum að komast út á hin opnu úthöf og nýta þar áður ónýttar auðlindir, eða hreinlega búa þar!
Hvað sem öðru líður er ljóst að þróunin í orkuöflunariðnaðinum verður gríðarleg á næstu árum eftir því sem olíuverð hækkar og hagnaður olíufyrirtækjanna hleypur á stærri upphæðum (þótt sem prósent af veltu verði hann ekkert ólíkur öðrum fyrirtækjum). Þetta gerir það að verkum að ég er að íhuga hvernig ég gæti búið á Íslandi og áfram unnið við "offshore", en ella enda sem bankastarfsmaður (jafngildi þess að vinna í jakkafötum sem ég ætti sennilega mjög erfitt með).
Hver veit, þegar auðmenn hafa keypt upp hálendi Íslands og ákveðið að friða það þá verði svo dýrt að kaupa land undir virkjun að vindorka af hafi verði arðbær á Íslandi? Sennilega er samt lítil hætta á þessari þróun á meðan ríkið er áfram hvatt til að eiga víðlendur hins íslenska hálendis.
Tilraunir með fljótandi vindmyllur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 20. júní 2007
Hefur afturhaldssinnaður þverhaus alltaf rangt fyrir sér?
Þriðjudagur, 19. júní 2007
Hvenær kemur að þér?
Nýjasta innlegg mitt á Ósýnilegu höndina varar við því að leyfa ríkinu að þenja sig of mikið út í boða- og bannadeildinni án andspyrnu.
Innleggið nefnist Hvenær endar útþensla ríkisvaldsins? og svarið, í fjarveru andspyrnu, er vitaskuld: Aldrei!
Það er annars með eindæmum hvað skattalækkanir og einkavæðingar hafa gert hið opinbera á Íslandi eirðarlaust. Engum er sagt upp sem þýðir að ný verkefni þarf stanslaust að finna til að halda opinberum starfsmönnum uppteknum. Auðveld leið til þess er vitaskuld sú að fjölga lögbundnum kröfum, boðum og bönnum og setja upp allskyns eftirlitsstofnanir til að fylgja þeim eftir.
Er fríverslunarsamningur Íslands og Færeyja eina skrefið í átt að auknu frjálsræði sem leiddi ekki til fjölgunar í eftirlitsgeira ríkisins? Ég bara spyr!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. júní 2007
Ég hlakka til að sjá hvernig þessu verður framfylgt!
Ný reykingalög taka gildi 15. ágúst í Danmörku. Þeim svipar um margt til hinna íslensku en þó eru nokkrar undantekningar á. Til dæmis er "heimilt" að innrétta sérstakt reykingaherbergi en þar má ekki selja veigar. Einnig sleppa staðir, sem eru undir 40 fermetra að flatarmáli í veitingarými, næstum því við ofríki yfirvalda. Það sem mestu máli skiptir er samt viðhorf Danans. Mun þessu verða framfylgt?
Dönsk lögregla hefur í nægu að snúast, enda vantar ekki verkefnin sem ríkisvaldið hefur gefið henni með óteljandi bönnum á hinu og þessu, auk þess sem háir skattar hafa skapað gríðarstóran svartan markað umfangsmikils og skipulags smygls á gosi, öli og sælgæti til landsins, auk mjög útbreiddrar svartrar launavinnu. Hvorki pizzubakarar né sjoppueigendur í Danmörku borga sérlega mikið í skatt, enda er verðlag hjá þeim ákaflega hagstætt!
Lögreglan nær sjaldan að fylgja öllum boðum og bönnum eftir - gerir gjarnan "átök" sem mikið ber á í fjölmiðlum en að þeim loknum fara hlutir fljótlega í sama farið aftur.
Lögreglan hefur einnig í nægu að snúast að slást við skemmdarverkafólkið frá fyrrum Ungdomshuset sem núna gerir út frá Christianiu. Hasssala er einnig komin út um allan bæ eftir að lögreglan gerði ítrekað áhlaup á Christianiu og dreifði frjálsum viðskiptum sem áður voru mikil þar út á tugi klúbba og skemmtistaða, sem auðvitað krefst mun meiri orku til að fylgjast með og hafa "tök" á.
Í Danmörku er bannað að reykja víða. Kaffihúsakeðjan Baresso er reyklaus, og McDonalds veitingastaðirnir sömuleiðis. Þar er heldur ekki reykt og það virt að eigendurnir kæra sig ekki lengur um slíkt innan síns húsnæðis. Reykingabann er einnig við lýði á Aðallestarstöðinni í Kaupmannahöfn, en þar er engu að síður reykt! E.t.v. ekki eins mikið og áður, en að því er virðist algjörlega án afleiðinga fyrir þann sem reykir.
Danskir veitingamenn virðast ætla rísa á lappirnar í þessu máli og berjast fyrir eignarrétti sínum, ólíkt því sem þeir íslensku gerðu. Ég held samt að þeir þurfi ekki að hafa svo miklar áhyggjur. Fyrir utan einstaka táknrænt áhlaup og þökk sé undanþágum hinna dönsku reykingalaga þá munu Danir áfram geta kveikt sér í einni þegar þeir, af fúsum og frjálsum vilja, ganga inn í húseign annarra sem afhenta áfengi í skiptum fyrir nokkrar krónur.
Sjáum hvað setur, en ég held að danska lögreglan hafi of mikið að gera nú þegar til að nokkur önnur en táknræn framfylgni muni eiga sér stað á reykingabanni í dönsku einkahúsnæði.
Danskir veitingamenn æfir vegna reykingabanns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 18. júní 2007
Auðvitað! Núna veit ég það!
Rétt í þessu rann það skýrt upp fyrir mér af hverju vinstrimenn eru á móti öllu "hernaðarbrölti" eins og þeir kalla það - vilja hvorki styrkja innlendan viðbúnað né taka þátt í milliríkjasamstarfi um varnarmál. Það er af tvennum ástæðum:
Í fyrsta lagi kostar viðbúnaður og hernaður pening - pening sem annars hefði geta runnið til gæluverkefna vinstrimanna og til að fita enn hið ríkisrekna bákn á öðrum sviðum en þeim er snúa að öryggis- og varnarmálum. Þeir hafa a.m.k. ekki talað mikið fyrir skattalækkunum sem afleiðing sparnaðar við að fjármagna sérsveitir og alþjóðlegt varnarsamstarf.
Í öðru, og mun veigameira lagi, þá vita vinstrimenn að hryðjuverkamenn eru upp til hópa vinstrimenn! Fólk sem virðir hvorki sjálfseignar- né séreignarrétt á meðan brot á hvoru tveggja vekur athygli á málsstaðnum, hvers svo sem hann er (stórt múslímskt ríkið eða lítið sósíalískt ríki eru blæbrigðamunurí því samhengi). Þeir vita að ef vinstristjórn réði ríkjum á Íslandi þá væri einfaldlega engin þörf á því að hugleiða viðbúnað vegna hryðjuverka, því hryðjuverkamenn fengju bæði samúð og stuðning stjórnvalda og mundu þar með láta Ísland í friði.
Eða hver hefur heyrt um "uppreisnarsveitir frjálshyggjumanna" í Venesúela og á Kúbu? Ekki mjög margir! A.m.k. ekki ég (ennþá?).
Af hverju sá ég þetta ekki fyrr! Þetta liggur í augum uppi!
Sennilega er rétt að taka fram að hér er um létt glens að ræða og að sjálfsögðu veit ég að það eru til hryðjuverkamenn sem eru ekki vinstrimenn, þótt leit sé að þeim. Þess má einnig geta að ég er sjálfur enginn stuðningsmaður aukinna fjárútláta úr vösum skattgreiðenda til lögreglusveita og hermanna ríkisvaldsins, en ástæða þess ósættis mín er efni í annað innlegg!
Íslendingar og Norðmenn æfa lögregluaðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 17. júní 2007
Hví ekki það?
Svo virðist sem hið kæfandi tak ríkisins á framhaldsskólakerfinu sé byrjað að valda einhverjum köfnunartilfinningu. "Kæfandi" er þá ekki í merkingu skertra framlaga úr vösum skattgreiðenda, því framhaldsskólakerfið þenst út í bæði kostnaði og útgjöldum ár frá ári að því er virðist stjórnlaust. Miklu frekar "kæfandi" af því ríkið setur fyrirmæli um margt í rekstri skóla, og skólar hafa lítil tök á að bregðast við með öðru en niðurskurði, þótt fé renni til þeirra sem aldrei fyrr. Miðlægir kjarasamningar kennara eru bara eitt dæmi af mörgum, en einnig má nefna kröfur um hvers konar menntun og þjálfun sem kennarar "eiga" að hafa til að hljóta ráðningu. Að sjálfsögðu mjög "faglegar kröfur" í merkingunni: Stéttarfélagið stjórnar því hver kemst inn í hinn fína og lokaða klúbb, og hver launin eru!
Dæmi sýna að innkoma einkaskóla inn á markað menntunar hefur ekki bara þau áhrif að "þeir ríku" geta keypt sér "betri menntun" en hinir "fátæku", heldur að með aukinni samkeppni á markaði menntunar batna líka þeir skólar sem ríkið stjórnar með harðri hendi (til hagsbóta fyrir þá efnaminni). Ágæti samkeppni og opins markaðsaðgengis er ekki eitthvað sem einskorðast við rekstur matvælaverslana, trygginga- og olíufélaga! Ef hin ofmetna stofnun Samkeppnisstofnun ætti að skipta sér af einhverjum rekstri þá ætti hún að banka upp á dyr forsætisráðherra og heimta gögn og tölvupósta með vísun í meint "verðsamsæri" í rekstri skóla á Íslandi, og heilbrigðisstofnana ef því er að skipta.
Ég vona að Menntaskólinn á Akureyri taki skrefið til fulls og fái því framgengt að skólinn verði að einkaskóla. Því fyrr því betra! Slík formbreyting yrði eldiviður á hið íslenska menntabál sem logar sem aldrei fyrr og þá sérstaklega á háskólastiginu.
Verður Menntaskólinn á Akureyri gerður að einkaskóla? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. júní 2007
Hayek er ágætur en...
Það kemur ekki oft fyrir að ég er beinlínis ósammála hinu ágæta riti Vefþjóðviljanum. Í dag kom það samt fyrir. Í útgáfu dagsins er sagt: "Enginn hefur gert betri grein fyrir kostum hins sjálfsprottna skipulags umfram hið miðstýrða en Friedrich August von Hayek."
Nú má eflaust deila um það hvað er "betri" leið en önnur til að gera grein fyrir einhverju. Ef um er að ræða "vinsæla leið" þá er Hayek eflaust ofarlega á lista - ef ekki efstur - m.a. vegna ritsins "Leiðin til ánauðar" (íslensk þýðing hefur ekki verið til sölu í ótalmörg ár og úr því má gjarnan bæta; eftirspurnin er til staðar!). Milton Friedman, á þeim sviðum þar sem hann var til hægri, var einnig ágætur boðberi hins frjálsa framtaks og náði miklum vinsældum og vel tekið eftir því sem hann sagði. Bók hans Capitalism and Freedom hefur notið mikilla vinsælda frá því hún kom út, og sjónvarpsþættir hans Free to Choose hafa víða verið sendir út, m.a. á Íslandi um skamma hríð.
Þetta eru hins vegar ekki þeir "bestu" þegar kemur að því að skýra réttmæti og nytsemi hins frjálsa fyrirkomulags (þar sem hið fyrra er mun mikilvægara hinu síðara). Þeir sem voru og eru "bestir" eru ekki mikið nefndir, sérstaklega ekki af íslenskum frjálshyggjumönnum. Hannes Hólmsteinn talar ekki um marga aðra en Hayek og Friedman. Hið sama gildir um vinstrimenn þegar þeir vilja vísa í skrif frjálshyggjumanna.
En hverjir voru og eru "bestir" í að gera grein fyrir kostum hins sjálfssprottna skipulags umfram hið miðstýrða?
Skrif þeirra má finna á heimasíðu Mises-stofunarinnar, Mises.org. Enginn vafi í mínum huga um það. Nöfn eins og Murray N. Rothbard og Ludwig von Mises eru e.t.v. ekki þau mest nefndu og fjarri því þau þekktustu, en það er ekki vegna þess að skrif þeirra voru í síðri kantinum, heldur af því þeir hafa alltaf þótt og þykja "of róttækir". Því er vissara að láta þá eiga sig ef ekki á að þurfa mæta róttækni þeirra og rökvissa stíl í hugmyndafræðilegum átökum!
Já, ég segi það fullum fetum að þessir kappar og aðrir sem eiga stór greina- og ritgerðarsöfn á Mises.org eru beinlínis hunsaðir því þeim og róttækum og rökréttum skrifum þeirra verður ekki svo auðveldlega svarað!
Ég hef á hinum og þessum síðum fjallað örlítið um valda pistla Mises-manna, bæði fyrir sjálfan til að geta auðveldlega fundið þá aftur og fyrir aðra sem e.t.v. hafa áhuga á að ögra vitsmunum sínum og stjórnmálaskoðunum svolítið. Ég mun halda áfram að gera það. Hreinna verður gullið ekki en þeirra gullmolar um ágæti hins frjálsa og sjálfsprottna skipulags!
Laugardagur, 16. júní 2007
Hvað á ég við?
Ertu vinstrimaður? Ertu hægrimaður? Íhaldsmaður? Sósíalisti? Bann- eða ríkissinni?
Til að forðast misskilning hef ég reynt að lýsa því hvað ég á við þegar ég nota ýmis orð á þessari síðu. Örlítil orðabók ef svo má kalla. Tengillinn hér til vinstri, "Um mig, og nokkrar skilgreiningar", gæti hjálpað til við að skilja skrif mín á sama hátt og ég skil þau.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Fimmtudagur, 14. júní 2007
Sveiflur í hitastigi = sveiflur í fyrirsögnum
Fréttamenn lifa frá degi til dags, eða í besta falli frá ári til árs. Þetta sést best þegar fyrirsagnir blaða eru bornar saman á milli ára og áratuga. Ný áföll dynja í sífellu yfir, og stundum eru þetta sömu áföll með öfugum formerkjum. Stundum er of þurrt, stundum of blautt. Stundum eru fleiri fellibylir en venjulega, stundum færri. Menn "muna ekki eftir öðru eins" bæði þegar rignir eða snjóar mikið eða lítið.
Fjölmiðlar og umræðan um gróðurhúsaáhrifin er nýjasta innlegg mitt á Ósýnilegu höndina og ætti að varpa örlitlu ljósi á nákvæmlega þessi stanslausu sinnaskipti fjölmiðlamanna. Hugsanlega væri ráð að falla mátulega hratt fyrir stóryrtum fyrirsögnum þeirra næst? Jafnvel þótt "menn muni ekki annað eins"! Við erum jú bara menn með lítil 70-80 ár af minningum, á meðan Jörðin og allt sem henni tengist er fyrirbæri sem telur ár sín í milljónum og þúsundum milljóna ára!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Ég er ekki veðurfræðingur
Sennilega er rétt að fá eftirfarandi alveg skýrt og skriflegt niðurskrifað svo enginn fari að kalla mig veðurfræðing eða vísindamann (þótt ég þurfi að vísu að lesa töluvert mikið efni í veðurfræði af því þeir sem vilja að ríkið herði tak sitt á orkumarkaði heimsins gera það):
Ég veit ekkert hvort maðurinn er að hafa áhrif á veðrið eða ekki. Mér finnst samt ólíklegt að það séu meiri áhrif en áhrif eldfjalla, sólbletta, gammageisla, skýja, sjávar, blautsvæða og hvað það nú sem er spilar saman og myndar loftslag Jarðar.
Vísindamenn sem styðjast við dreifð gagnasöfn, tölvulíkön sem sífellt þarf að "leiðrétta" eftir veðurfréttirnar í morgunsjónvarpinu, hafa jarðsögulega MJÖG stutt tímabil með góðum mælingum (30-500 ár, fer eftir gagnasafni) osfrv. verða ekki bara "sammála" si svona á örfáum árum (20-30 árum). Seinast þegar þeir voru "sammála" þá var það vegna ísaldar, og ekki liðin nema rúm 30 ár síðan það var!
Breytingar á veðri réttlæta ekki árás á frjálsan markað og einkaeignarréttinn.
Mér er í raun alveg sama hvaða "hliðarverkanir" verða til af batnandi lífskjörum mannkyns. Ríkir hugsa betur um umhverfi sitt en fátækir, strandlengjur hafa færst til alla tíð, jöklar hopa og vaxa til skiptis, Ísland var heitara fyrir 1000 árum en tölvulíkön segja að það verði eftir 50 ár, osfrv. Á meðan við erum rík þá getum við byggt þar sem er land og klætt okkur eftir veðri.
Til að halda í lifistandard okkar þurfum við orku.
Jarðefnaeldsneyti og kjarnorka eru hagkvæmustu orkulindir nútímans, en lenda þar með á svarta lista þeirra sem vilja að ríkið herði tök sín á orkumarkaði heims.
Frelsið er ekki bara praktískt og hagkvæmt, heldur réttlátt. Veðurspár fá mig seint af þeirri skoðun.