Hayek er ágætur en...

Það kemur ekki oft fyrir að ég er beinlínis ósammála hinu ágæta riti Vefþjóðviljanum. Í dag kom það samt fyrir. Í útgáfu dagsins er sagt: "Enginn hefur gert betri grein fyrir kostum hins sjálfsprottna skipulags umfram hið miðstýrða en Friedrich August von Hayek."

Nú má eflaust deila um það hvað er "betri" leið en önnur til að gera grein fyrir einhverju. Ef um er að ræða "vinsæla leið" þá er Hayek eflaust ofarlega á lista - ef ekki efstur - m.a. vegna ritsins "Leiðin til ánauðar" (íslensk þýðing hefur ekki verið til sölu í ótalmörg ár og úr því má gjarnan bæta; eftirspurnin er til staðar!). Milton Friedman, á þeim sviðum þar sem hann var til hægri, var einnig ágætur boðberi hins frjálsa framtaks og náði miklum vinsældum og vel tekið eftir því sem hann sagði. Bók hans Capitalism and Freedom hefur notið mikilla vinsælda frá því hún kom út, og sjónvarpsþættir hans Free to Choose hafa víða verið sendir út, m.a. á Íslandi um skamma hríð.

Þetta eru hins vegar ekki þeir "bestu" þegar kemur að því að skýra réttmæti og nytsemi hins frjálsa fyrirkomulags (þar sem hið fyrra er mun mikilvægara hinu síðara). Þeir sem voru og eru "bestir" eru ekki mikið nefndir, sérstaklega ekki af íslenskum frjálshyggjumönnum. Hannes Hólmsteinn talar ekki um marga aðra en Hayek og Friedman. Hið sama gildir um vinstrimenn þegar þeir vilja vísa í skrif frjálshyggjumanna.

En hverjir voru og eru "bestir" í að gera grein fyrir kostum hins sjálfssprottna skipulags umfram hið miðstýrða?

Skrif þeirra má finna á heimasíðu Mises-stofunarinnar, Mises.org. Enginn vafi í mínum huga um það. Nöfn eins og Murray N. Rothbard og Ludwig von Mises eru e.t.v. ekki þau mest nefndu og fjarri því þau þekktustu, en það er ekki vegna þess að skrif þeirra voru í síðri kantinum, heldur af því þeir hafa alltaf þótt og þykja "of róttækir". Því er vissara að láta þá eiga sig ef ekki á að þurfa mæta róttækni þeirra og rökvissa stíl í hugmyndafræðilegum átökum!

Já, ég segi það fullum fetum að þessir kappar og aðrir sem eiga stór greina- og ritgerðarsöfn á Mises.org eru beinlínis hunsaðir því þeim og róttækum og rökréttum skrifum þeirra verður ekki svo auðveldlega svarað!

Ég hef á hinum og þessum síðum fjallað örlítið um valda pistla Mises-manna, bæði fyrir sjálfan til að geta auðveldlega fundið þá aftur og fyrir aðra sem e.t.v. hafa áhuga á að ögra vitsmunum sínum og stjórnmálaskoðunum svolítið. Ég mun halda áfram að gera það. Hreinna verður gullið ekki en þeirra gullmolar um ágæti hins frjálsa og sjálfsprottna skipulags! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það væri vel þegið ef þú kynntir þessa fræðimenn hér á síðunni og segðir frá þessum gullnámum

Sigurjón Þórðarson, 18.6.2007 kl. 01:15

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Skal gert! ..smátt og smátt.

Geir Ágústsson, 18.6.2007 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband