Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
Mánudagur, 11. júní 2007
Blasir orkuskortur við heiminum?
Á slúðursíðunni Orðið á götunni er færsla sem endar á eftirfarandi orðum, "...nú þegar að mikill orkuskortur blasir við í heiminum."
Blasir orkuskortur við heiminum? Það er ég aldeilis hræddur um ekki. Orkuna er hægt að fá í miklum mæli með óteljandi aðferðum. Nokkur dæmi: Bruna trjáa, kola, olíu og gass, virkjun kjarnorku, fallvatna, sjávarfalla, sjávarstrauma og jarðvarma, beislun sólar- og vindorku, og svona má lengi telja. Í dag er a.m.k. leyft að stunda frjálsa verslun og viðskipti með orku frá flestum þessara orkuuppspretta, og heimsmarkaðurinn er líflegur.
Hitt gæti hins vegar verið rétt að þegar nógu mörgum leiðum til orkuöflunar er settur stóllinn fyrir dyrnar, t.d. með tilbúnum takmörkunum (Kyoto) og hömlum á frjálsum viðskiptum (OPEC), þá gæti sú staða komið upp að aðrar tegundir orkuvinnslu ná ekki að svara eftirspurninnni, a.m.k. ekki á verðlagi sem hentar öðrum en þeim allra ríkustu. Orkuverð byrjar þá að stíga og getur leitt til þess að orka verður orðin of dýr fyrir suma (fyrst og fremst fátækt fólk).
Er reglugerða- og ofskattanastefna ríkisstjórna heimsins komin á það stig að orkuskortur er byrjaður að gera vart við sig? Er búið að gera svo margar leiðir til orkuöflunar útlægar og óvinsælar, og svo margar óhagkvæmar og kostnaðarsamar leiðir til orkuöflunar svo vinsælar og forréttindahlaðnar, að orkuskortur er handan við hornið?
Það væri skelfileg leið til að sýna vinstrimönnunum enn einu sinni fram á að verðlagshöft og ríkisafskipti leiða til skorts og verðhækkana. Er fólk tilbúið að tæma rafmagnsrofa sína í nafni sameignarhugsjónar (stundum falin í búning umhverfisverndar) til að minna sig á tómar hillur Sovétríkjanna? Það væri slæmt sýnidæmi um lélega hagfræðikunnáttu og mjög skammvirkt skammtímaminni okkar.
Hinn frjálsi markaður bætir líf og tryggir aðgengi að nauðsynlegum hráefnum og orku, og gerir það alls staðar þar sem honum er leyft að starfa að sem mestu óáreittur. Það er reynsluregla sem ekki brotnar. Á frjálsum markaði er enginn skortur á neinu sem eftirspurn er eftir. Orka er þar engin undantekning. Ef "orkuskortur" er handan við hornið, þá er sökudólgurinn auðfundinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 10. júní 2007
Tilbúinn ógnvaldur umhverfisverndarsinna missir stuðning
Í nýjasta innleggi mínu á Ósýnilegu höndina þýði ég lauslega pistil sem birtist áður á vefsíðu Mises stofnunarinnar. Þar er bent á eitthvað sem ætti að vera augljóst en heyrist aldrei og virðist ekki vera augljóst; ef heimurinn er að hlýna og Norðurskautið að bráðna þá er engin hætta á ísöld í Evrópu, jafnvel þótt Golfstraumurinn gefi eftir vegna nýs jafnvægis heitra og kaldra sjávarstrauma.
Ábendingar af þessu tagi eru ekki vinsælar og jafnvel túlkaðar sem samsæriskenning um að (sumir) vísindamenn vinni að því dag og nótt að búa til draugasögur fyrir almenning svo hann haldi áfram að styðja stanslaust fjáraustur í "rannsóknir á gróðurhúsaáhrifunum", og þá meint sem "áhrif mannsins" á þau áhrif. Ég bendi hins vegar bara á hið augljósa: Þúsundir vísindamanna um allan heim treysta á fjáraustur til eigin rannsókna sem eiga, að mati styrktaraðilanna, fyrst og fremst að ýta undir réttmæti þess að ríkið ráðist gegn orkunotkun hins frjálsa markaðar. Hvers vegna ættu vísindamenn í þeirri stöðu að gera annað en tryggja framfærslu sína, og forrita tölvulíkön sín þannig að framfærsla þeirra sé tryggð?
Fimmtudagur, 7. júní 2007
Heilbrigði skynsemi færist skref í rétta átt
Ég fagna því alltaf þegar ég sé ríki gera fríverslunarsamninga sín á milli, og ekki er fögnuðurinn minni þegar Ísland á í hlut. Haftir, tollar, vörugjöld og annað slíkt er hreinn sandur á þá vél sem heimshagkerfið er. Ekkert samfélag græðir á því að ríkisvaldið geri flutning á vörum og vinnuafli erfiðari og dýrari með sköttum og viðskiptahöftum.
Í raun ættu Íslendingar að ganga skrefinu lengra en fríverslunarsamningur EFTA við Kanada gerir og afnema einhliða allar sínar haftir á viðskipti og samskipti við Kanada, og raunar öll önnur lönd heims ef því er að skipta! Með einfaldri hagfræði, sem ekki verður útskýrð hér og nú, má sýna fram á að slíkt geti eingöngu verið til góða þegar til lengri tíma er litið - fyrir alla!
Tap í einstökum áður vernduðum iðngreinum er ekki tap í öðrum skilningi en þeim að pissið kólnar eftir að því hefur verið sleppt í skóinn - "verndaðar" starfsstéttir munu á endanum þurfa velta óhagræði og tapi yfir á aðra þótt það sé ekki augljóst í fyrstu.
Á meðan Íslendingar eru duglegir við að útvíkka viðskiptalega heimsmynd sína með fríverslunarsamningum, t.d. þeim sem EFTA ríkin eiga að ESB og öðrum tollsvæðum, og þeim sem Ísland gerir utan við bæði EFTA og ESB, þeim mun meira mun hagur Íslendinga vænkast. Tollar og vörugjöld skila hinu íslenska ríki smáum fjárhæðum í ríkiskassann. Viðskiptafrelsi skilar öllum Íslendingum stórum fjárhæðum í eigin pyngju.
Þróunaraðstoð 21. aldar ætti að vera viðskiptafrelsi en ekki fjáraustur í vasa spilltra stjórnmálamanna.
Nýr fríverslunarsamningur undirritaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. júní 2007
Speninn soginn enn fastar
Nú krefjast stúdentar þess að aðrir niðurgreiði ferðalög þeirra enn meira en nú er raunin. Skoðanakannanir sem sýna fram á að niðurgreiðslur á einhverju auki eftirspurnina eftir því eru notaðar sem rökstuðningur fyrir þessu sértæka "baráttumáli" stúdenta.
Hvenær hættir þessi heimtufrekja? Svarið er auðvitað: Aldrei. Ég vona samt að þetta seinasta útspil verði þagað í hel. Enginn tekur lengur mark á þessu eilífa betli sem sífellt er látið eftir en mun aldrei hætta.
Stúdentar munu ekki hrúgast í strætó þótt "ókeypis" strætisvagnar lituðu allar götur gular á 2ja mínútna fresti. Einkabíllinn er einfaldlega sigurvegari samgöngukerfisins í hinni dreifðu, ójöfnu, veðróttu, rokbörðu og blautu höfuðborg. Skal engan undra þótt fólk kaupi bíla þrátt fyrir allt vesenið, öll útgjöldin og alla skattana sem fylgja þessum þarfasta þjóni nútímamannsins, á meðan niðurgreiddir strætisvagnar keyra tómir um alla borg.
Stúdentar vilja fá frítt í strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 5. júní 2007
Innbrot um hábjartan dag?
Ríkisstarfsmenn eru þeir einu sem fá lögregluvernd þegar þeir brjótast inn. Aðrir þurfa yfirleitt að treysta á lögregluverndina til að verja sig gegn innbrotum. Svona er lífið einkennilegt stundum.
Það kemur mér samt á óvart að Mjólkursamsalan af öllum fyrirtækjum sé núna fórnarlamb innrásar frá Samkeppniseftirlitinu. Mjólkuriðnaður á Íslandi er fjarri því að geta kallast "frjáls markaður". Kúabændur búa við ríkisrekið kvótakerfi og innflutningur á mjólkurafurðum er rækilega njörvaður niður í úthlutunarkerfi sem auðvitatð er stjórnað af opinberum embættismönnum.
Þótt einhverjar smærri mjólkursamsölur úti á landi kvarti yfir stærð stærsta samsölunnar á stærsta markaðssvæðinu þá er það ekki til marks um að neitt sé "að" sem þurfi að "leiðrétta". Þegar ríkinu er sigað á stærsta keppinautinn með það að markmiði að skaða orðstír hans og flækjast fyrir rekstri hans, þá er eitthvað að!
Vonandi mun ekkert "grunsamlegt" koma út úr innbrotinu í Mjólkursamsöluna. Vonandi verður innbrotið bara til þess að tugir opinberra embættismanna eyði helling af tíma í að blaða í gegnum óspennandi trúnaðarskjöl og hafi þar með ekki tíma til að ráðast inn í önnur fyrirtæki á meðan. Kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur en e.t.v. nauðsynlegt til að halda öllu þessu starfsfólki hins opinbera uppteknu svo það geri ekki enn meiri skaða hjá öðrum!
Samkeppniseftirlitið að bera út gögn hjá Mjólkursamsölunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 4. júní 2007
Er eitthvað varið í stjórnarskrárbundin réttindi?
Sífellt fer minna og minna fyrir því að menn styðjist við stjórnarskránna til að vega og meta réttmæti hinnar ýmsu löggjafar. Allskyns ákvæði um jafnan rétt gagnvart lögum, atvinnufrelsi, eignarrétt og athafnafrelsi eru ekki mikið notuð af andstæðingum vaxandi ríkisumsvifa- og afskipta, enda nær slíkt fornaldarhjal sjaldnast eyrum neins. Sjaldgæf undantekning eru málaferli forsvarsmanna Ölstofunnar gegn ríkinu, en þeir vilja meina að lögþvingað reykingabann á stað sínum brjóti í bága við atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Því miður ætlar að vera á brattan að sækja fyrir þá því fordæmin benda til að ríkið virðist hafa "rúmar heimildir til að setja atvinnufrelsi manna og atvinnuréttindum nokkuð þröngar skorður", eins og hér er sagt frá. Virðingarverð tilraun samt.
En hvers vegna er búið að stinga stjórnarskránni í skúffuna og hvers vegna gerðist það næstum því mótþróa- og hljóðalaust? Er hægt að kenna tískusveiflum um? Núna þykir ófínt að reykja (a.m.k. meðal menntaelítunnar sem veit best og vill ráðskast með eigur annarra). Reykingabann small á næstum því mótþróalaust hjá löggjafanum. Gengur ríkið á lagið og eykur enn við verkefni lögreglu af því það getur það? Hvað með lög sem banna jákvæða umræðu á opinberum vettvangi um tóbak? Málfrelsið fékk skell þar og ég man bara eftir einni tilraun til að verjast honum. Nýleg löggjöf virðir algjörlega að vettugi ákvæði stjórnarskrár um jafnan rétt fyrir lögunum - sértæk kynjamiðuð löggjöf flæðir yfir allt og enginn þorir að mótmæla af ótta við opinbera krossfestingu.
Þegar stjórnarskráin var skrifuð þá var það gert í anda þeirrar hugsjónar að hver maður ætti sjálfan sig og eigur sínar, væri ekki mismunað af löggjafanum og hefði rúman rétt til að ráðstafa líkama sínum, eigum og orðum á meðan engin þvingun væri fólgin í því. Andi stjórnarskrárinnar er fjarri allri tískulöggjöfinni sem flæðir yfir samfélag nútímans og öllum virðist standa á sama, því allir eru að reyna skara eld að eigin köku þótt slíkt komi á kostnað (áður) stjórnarskrárvarinna réttinda annarra.
Þetta er dapurleg þróun sem ég vona að endi við innganginn á mínu heimili og hinn svarti markaður nái áfram að halda að einhverju leyti í skefjum fyrir þá sem hafa samvisku til að brjóta lögin og útsjónarsemi til að komast upp með það.
Laugardagur, 2. júní 2007
Bannsinnar: Segið það hreint út!
Vefþjóðviljinn hittir naglann á höfuðið varðandi bann á ákveðinni löglegri iðju í húsnæði í einkaeigu (feitletrun mín):
"Vill fólk að ríkið megi banna fólki að reka [stað sem heimilar reykingar], stað sem neyðir engu upp á nokkurn mann? Ef menn samþykkja það princip, að ríkið megi banna slíkan stað, stað þar sem enginn maður er beittur órétti á nokkurn hátt og enginn neyddur til neins, þá eiga menn að segja það hreint út að þeir telji að á Íslandi eigi að ekki að vera í gildi sá eignarréttur sem leyfi fullorðnu fólki að reka slíkan veitingastað, að á Íslandi eigi ekki að vera svo mikið athafnafrelsi fullorðins fólks að því sé heimilt að ráða sig til vinnu á slíkum stað og að á Íslandi megi ekki vera svo mikið frelsi að fullorðnu fólki sé heimilt að sækja slíkan stað."