Föstudagur, 2. febrúar 2024
Eyðublaðið segir nei
Fjarheilbrigðisþjónusta er sniðug. Ekki öll heilbrigðisþjónusta krefst þess að mæla eða skoða eitthvað. Oft duga orðin ein og sér. Þetta á til dæmis við um sálfræðiaðstoð. Fjarheilbrigðisþjónusta getur tengt saman sérfræðing og sjúkling þvert á landamæri og jafnvel heimshluta. Hún hefur færst mjög í aukana og fjölmörg fyrirtæki bjóða upp á lausnir.
Ég þekki íslenskan sálfræðing með kand.psyk. gráðu úr dönskum háskóla og búsettur í Danmörku og langar gjarnan að bjóða Íslendingum (á Íslandi) upp á sálfræðitíma. Er nú þegar með skjólstæðinga í mörgum ríkjum, eigið fyrirtæki og tíma aflögu.
Það eina sem þarf að gera er að sækja um ýmis leyfi hjá Landlækni. Þá vandast málið! Eyðublöðin eru óleysanleg þrautaganga. Hérna er lítið dæmi:
Umsækjendur sem stundað hafa nám innan EES eða í Sviss þurfa, auk staðfests ljósrits af prófskírteini að skila inn: ...
Vottorði frá lögbæru stjórnvaldi í landi sem gaf út vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að nám viðkomandi uppfylli skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 510/2020 (letter of confirmity). Stundum eru upplýsingar í þessum lið og liðnum á undan í einu skjali sem kallað er Certificate of Current Professional Status (CCPS)
Ekkert mál, er það nokkuð? Danskur háskóli er jú háskóli sem starfar samkvæmt fyrirmælum Evrópusambandsins. En hann telst víst ekki til hins lögbæra stjórnvalds og kannast ekki við að hafa slíka stöðu. Einhver konar fagráð sálfræðinga í Danmörku kannast ekki við þessa Evrópusambandstilskipun og hvaða vottorð er verið að tala um. Og ráðuneytið stendur á gati. Þetta litla vottorð fæst einfaldlega ekki gefið út af neinum. Fjarheilbrigðisþjónustan er því sjálfdautt verkefni.
Það er kannski ekki skrýtið að það vanti sálfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi. Eyðublöðin halda þeim rækilega í burtu. Kannski er það ásetningurinn?
![]() |
Ræddu um tækifæri í fjarheilbrigðisþjónustu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 1. febrúar 2024
Kennarar að mennta sig til gagnsleysis
Íslensk börn lóðfalla núna eins og saur í klósettskál í getu sinni til að reikna, lesa og skrifa og skrifa rétt svör í próf og PISA-kannanir. Þetta smitast í gegnum allt skólakerfið: Framhaldsskólar kvarta yfir illa undirbúnum nýnemum og háskólar kvarta yfir illa undirbúnum stúdentum.
Spurningin er: Af hverju?
Sumir hafa nefnt skjánotkun barna. Aðrir tala um fjárskort. En hvað segja kennarar sjálfir? Jú, þeim vantar endurmenntun! Fleiri námskeið! Fleiri utanlandsferðir væntanlega líka en mér skilst að fáar starfsgreinar ferðist meira á kostnað annarra, kannski að þingmönnum, borgarfulltrúum og forstöðumönnum opinberra stofnana undanskildum.
Nánar tiltekið segir einn af talsmönnum kennara:
Þeir þættir sem kennarar benda á og hafa lengi kallað eftir snerta m.a. framboð á námsefni og námsgögnum. Nýleg úttekt um þann málaflokk styður málstað kennara: Þar þarf að gera betur. Einnig þarf að auka möguleika kennara á starfsþróun.
Er Gagn og gaman ekki lengur í boði?
En gott og vel. Kennarar eru meðvitaðir um vandamálið þótt þeir sjái ekki hlut sinn í því. Þá er nú gott að það finnist krani fyrir skattfé með heitið Rannsóknasjóður Kennarasambands Íslands. Þar er nú auglýst eftir umsóknum um styrki. Hér verður einblínt á vandamálin!
Áherslusvið sjóðsins að þessu sinni eru:
- Árangursríkar kennsluaðferðir sem efla orðaforða, tjáningu, mál- og lesskilning
- Nám og kennsla barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn
- Gæði kennslu og þróun kennsluhátta í afmörkuðum sviðum eða námsgreinum
- Staða hinsegin kennara í skólum
- Starfsþróun sem styður við faglegt skólastarf og starfsánægju kennara
Hér eru öll réttu orðin til staðar: Faglegt, starfsánægja kennara, kennsluaðferðir og annað gott. En þarna er líka að finna athyglisvert verkefni sem skattfé landsmanna á að renna í: Staða hinsegin kennara í skólum.
Samkvæmt Hagstofu Íslands eru á Íslandi samtals 132 einstaklingar sem skrá sig hvorki sem konu né karl, þ.e. skrá sig sem kynsegin. Það eru um 0,03% landsmanna.
Kennarasamband Íslands hefur á að skipa um 5000 félagsmönnum (með aðildarfélögum) ef marka má kjörskrá félagsins, og væntanlega eru flestir kennarar meðlimir enda fá þeir ekki að semja um eigin kaup og kjör. Ef ég gef mér að hlutfall kynsegin kennara sé það sama og hlutfall kynsegin Íslendinga í heild sinni þá eru það alls um 1-2 einstaklingar.
Sem sagt: Mjög mikilvægt að eyða fé í að rannsaka stöðu þeirra (öðruvísi en að boða þá báða á fund).
Menntakerfið er fyrir löngu komið út af sporinu. Það er farið að snúast um kennarana, þeirra þarfir, þeirra líðan og þeirra áhuga á vinnu sinni.
Skítt með börnin. Skítt með að menntun sé ekki í forgangi í menntakerfinu.
Staða íslenskra nemenda er kennurum að kenna. Þeir kunna ekki fag sitt. Þeir sem kunna það fá skammir í hattinn fyrir að setja fyrir of mikið, gefa of lágar einkunnir og tala venjulega íslensku frekar en afskræmið sem núna er verið að boða.
Það þarf að skera þetta í heild sinni úr snöru hins opinbera: Láta fé fylgja nemendum, einfalda námsskrá hins opinbera og koma á markaði fyrir menntun. Samkeppnismarkaði. Það þarf að færa foreldrum völdin og bræða í burtu stofnanabraginn af skólunum.
Nema auðvitað að fólki sé skítsama. Þá getur menntakerfið haldið áfram að snúast um starfsánægju kennara, starfsþróun þeirra og námskeiðahald, auk utanlandsferða. Líka þessara tveggja sem eru hinsegin/kynsegin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 31. janúar 2024
Þetta gerist þegar maður hættir að trúa fréttunum
Fréttir geta verið góðar en hvað gerist þegar maður stundar ekki lengur trúgirni á þær? Verður einhver breyting?
Manneskja sem trúði á fréttatímana, en gerir það einhverra hluta ekki lengur, upplifir mikinn létti og finnur allskonar jákvæðar breytingar á bæði líkama og sál, og finnur enga löngun til að snúa aftur í fyrra ástand segir ónafngreindur einstaklingur sem velur að láta nafns síns ekki getið af ótta við að vera kallaður samsæriskenningasmiður, óvísindalegur og álhattur.
Virtir vísindamenn í allskonar fræðum hafa bent á að það geti verið slæmt fyrir sálina að upplifa harðan vetur en trúa um leið á hamfarahlýnun af mannavöldum. Sjómenn sem eru allt í einu að rekast á hafís, en hafa kolefnisjafnað líf sitt, hafa upplifað mikla andlega áreynslu við að reyna fá hvoru tveggja til að hanga saman. Þeir sem hafa hins vegar hafnað trúarritningum loftslagskirkjunnar finna engan mun á líðan sinni. Þegar í land er komið hafa þeir jafnvel ákveðið að stækka við sig bílinn og haldið áfram að ferðast með fjölskyldum sínum til fjarlægra landa, alveg samviskulaust.
Verst staddi hópurinn er samt börnin. Þau eru látin dvelja í stanslausum heilaþvætti frá morgni til lok skóladags og upplifa kvíða og ótta. Stungið hefur verið upp á því að kennarar einbeiti sér að því að mennta börnin frekar en heilaþvo þau en litlar undirtektir eru fyrir slíku.
En óttist ekki! Viðsnúningurinn er hafinn. Þeir sem borga bæði græna skatta og fyrir aflátsbréf til að kolefnisjafna sig gera það á meðan þeir hafa efni á því, og gott fyrir þá. Aðrir ættu að hugleiða svolitla andspyrnu. Hér er hæðni við hæfi.
Trúir þú því að beljuprump, bílferðir þínar og ferðalög séu að breyta loftslagi Jarðar? Jæja þá.
![]() |
Þetta gerist þegar maður hættir að stunda kynlíf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 28. janúar 2024
Nýja Ísland stunguárásanna
Í bráðabirgðatölfræði lögreglu fyrir árið 2023 segir meðal annars:
Fjölgunin er mest í flokki alvarlegra ofbeldisbrota en lögregla hefur haft nokkrar áhyggjur af þeirri þróun. Þannig voru skráð 171 stórfelld og 186 meiriháttar ofbeldisbrot árið 2023 en meðaltal síðustu þriggja ára á undan var 142 stórfelld og 125 meiriháttar brot.
Einn þáttur sem skýrir þessa þróun í fjölda alvarlegra ofbeldisbrota er fjölgun mála þar sem vopn, þá helst stunguvopn, eru til staðar í málum. Í slíkum tilvikum þá þarf almenn lögregla alla jafna að vopnast og hefur þeim tilvikum fjölgað verulega síðustu ár og voru skráð 72 slík tilvik árið 2023 samanborið við 40 tilvik árið á undan.
Hérna hefði verið gagnlegt að fá einhverja nánari greiningu á tölfræðinni, meðal annars eftir kyni, þjóðerni og staðsetningu (lögregluumdæmi). Rígur tveggja staðbundinna glæpaklíka gæti hæglega drifið upp tölurnar. Heildartalan segir ekkert.
Miðað við reynsluna gæti maður óttast að eftir frekari greiningu á gögnunum verði þeim einfaldlega stungið ofan í skúffu. Það gæti verið vegna þess að gögnin gætu þótt óþægileg og vakið upp óæskileg viðbrögð í afar viðkvæmu ástandi eins og einn þingmaðurinn orðaði það til að réttlæta þöggun í ákveðinni umræðu.
Ef kemur í ljós að hin mikla aukning í alvarlegum ofbeldisbrotum tengist stjórnlausum innflutningi á arabískum karlmönnum, sem hafa lítið fyrir stafni, þá er alveg öruggt að tölurnar enda ofan í skúffu og enginn blaðamaður mun spyrja spurninga.
Í Danmörku starfar hugveitan Unitos að því að birta tölfræði og greiningar er snúa að innflytjendum og innflytjendamálum í Danmörku. Það er ekki gert af neinni andúð á útlendingum. Danir bjóða duglega útlendinga velkomna enda skortir þá vinnuafl. Þeir eru hins vegar á bremsunni gagnvart stórum innflutningi á fólki sem leggst á kerfið og lokar sig af í gettóum. Það mætti segja að hin íslenska nálgun sé öfug í báðum liðum. En tölfræðina þarf að skola upp á yfirborðið.
Eru ekki einhver upplýsingalög í gildi á Íslandi? Eða eru þau upp á punt í afbrotamálum rétt eins og sóttvarnamálum, forræðismálum og málefnum barna sem er verið að eyðileggja með hormónum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 27. janúar 2024
Allir eru fordómafullir og þú hefur upplifað það
Um daginn rakst ég á athyglisverðan viðtalsbút við annan stjórnenda hlaðvarpsins Triggernometry, Konstantin Kisin. Bútinn má sjá hér en mér finnst við hæfi að þýða allt sem hann sagði í honum:
Þeir gerðu tilraun með hóp kvenna. Þeir máluðu ör á andlit þeirra. Og þeir sögðu þessum konum að þær væru að fara í atvinnuviðtal. Og að tilgangur tilraunarinnar væri að komast að því hvort fólk með andlitslýti mætti mismunun/fordómum. Þeir sýndu þeim örin í spegli. Konurnar sáu sig með örin og í þann mund sem var verið að leiða þær út úr herberginu var þeim sagt að það þyrfti aðeins að fínpússa örin. Og á meðan þessi fínpússun átti sér stað voru örin fjarlægð alveg.
Svo konurnar fóru í atvinnuviðtalið, haldandi að þær væru með ör en voru í raun eins og venjulega.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru að þegar konurnar komu úr viðtalinu þá tilkynntu þær um gríðarlega aukningu á mismunun. Margar sögðu jafnvel frá því að þeim hafi fundist að sá sem tók viðtalið hafi gert athugasemdir sem vísuðu til andlitslýtis þeirra.
Þess vegna tel ég að þessi hugmyndafræði fórnalambavæðingar sé svona hættuleg því ef þú predikar endalaust til fólks að við séum öll kúguð að þá fái það fólk til að leita að ummerkjum þess.
Sterk orð sem ég hef tekið til mín. Ekki bara í því hvernig ég held að aðrir séu að hugsa um mig heldur líka í því hverju ég tek eftir í útliti annarra og hvort það hafi áhrif á skoðun mína á viðkomandi. Og auðvitað í því hvort það sé búið að takast að forrita mig í fórnarlambamenninguna, sem myndi þá þýða að ég þyrfti að spyrna við fótum.
Niðurstaða mín í bili er sú að mér er drullusama hvernig fólk lítur út og af hvaða kyni það er í mannlegum samskiptum og viðskiptum í daglegu lífi, en sé vakandi fyrir ummerkjum þess að viðkomandi sé að sóa tíma mínum og orku (andlega og líkamlega).
Þar með er ekki sagt að fólki sé ekki mismunað. Mismunun á sér stað svo sannarlega! En það er mögulega hjálplegt að aðgreina á milli raunverulegrar mismununar og þeirrar sem heilinn á okkur framleiðir eftir mikla mötun frá fjölmiðlum og áhrifavöldum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 27. janúar 2024
Þegar ný menning leysir þá gömlu af
Ég bý í Kaupmannahöfn (þannig séð) og hef gert í næstum því 20 ár. Ég hef séð hvernig sum svæði eru miklu frekar hliðarsamfélög en hluti af samfélaginu í heild sinni. Það eru ekki sérstaklega góð svæði. Þar hafa yfirvöld þjappað í stór fjölbýlishús fólki sem talar ekki dönsku, er ómenntað og atvinnulaust og auðvitað á bótum, og er þó jafnvel af annarri eða þriðju kynslóð innflytjenda. Glæpatíðnin er há og Danir vita að þangað sendir maður ekki börn sín eftir sólsetur og jafnvel ekki í dagsbirtu nema þá í hópum.
Núna sýnist mér slík hliðarsamfélög vera að myndast á Íslandi og valda miklum vandræðum. Hælisleitendur herja á krakka og fullorðna og gera sum svæði hættuleg. Þar á meðal skóla.
En gott og vel, menn misstu sig aðeins í gleðinni við að moka fólki frá fjarlægum mennningarheimum inn í landið og núna verður tekið á því, ekki satt? Mögulega með því að senda þessa hælisleitendur úr landi en að minnsta kosti að hrúga þeim ekki inn í íslenska framhaldsskóla þar sem þeir standa í hótunum við nemendur og jafnvel barsmíðum á þeim.
Væri ekki bara eðlilegt að spóla aðeins til baka og hugsa hlutina upp á nýtt? Jú, auðvitað.
En hvað gera menn þess í stað? Ekkert! Og jafnvel nokkuð enn verra: Reyna að þagga niður í íbúum, foreldrum og nemendum framhaldsskóla eða kalla þá lygara og taugaveiklaða!
Dæmin eru svo mörg að ég næ ekki að fara út í það en á hlaðvarpinu Norræn karlmennska hefur þetta verið tekið fyrir af nokkurri nákvæmni og forsprakki þess heldur áfram að reyna vinda ofan af áróðrinum á fjésbókarsíðu sinni. Þar skrifar hann meðal annars:
Ég hef fengið töluvert af skilaboðum eftir að þátturinn birtist, frá foreldrum af svæðinu sem segja að þetta sé búinn að vera hálfgerður vígvöllur síðan skólaár hófst vegna þessara sömu aðila og hér á að vera um að ræða. Til að sjá slíkt þarf bara að grafa upp nokkrar gamlar fréttir af svæðinu og sjá að það er ekki allt með felldu.
Til að setja hlutina í smá samhengi þá byrjaði ég að fá skilaboð frá fólki vegna ljósmyndar sem birt var af hælisleitanda sem elti 14 ára stelpu heim að dyrum og náðist á dyrabjöllu-myndavél sem sett hafði verið þarna vegna þess hversu slíkt væri orðið algengt, en þetta gerðist á Ásbrú. Ég fékk skilaboð frá fólk sem segist ekki lengur fara út í búð þar, frá fólki sem vinnur við þjónustu sem segir ástandið þar skelfilegt, fólki sem vinnur við opinberar stofnanir þar sem hefur svipaða sögu að segja og að ástandið þar sé vægast sagt skelfilegt líka.
Ég minnist á þetta vegna þess að þetta fólk á það flest sameiginlegt að segjast hafa reynt að hafa samband við fjölmiðla til að benda á ástandið en að þau tali fyrir daufum eyrum og að þó lögregla skipti sér stundum eða jafnvel oft af þeim að þá sé þeim alltaf sleppt án afleiðinga. Áreitni við ungar stelpur þar er samkvæmt þessu fólki, orðin of mikil til að þær þori í strætó, svo dæmi séu nefnd. En þessi mál fá sömu meðferð hjá fjölmiðlum og að því er virðist, lögreglu. Sem er: algjör þöggun.
Ég hef fengið mjög truflandi myndb0nd af þessum hópi að ráðast mjög harkalega á nemendur fyrir utan skólann. Mjög harkalega. Mér eru að berast frekar sláandi myndbönd frá Ásbrú meðfram sögunum.
Það er eitthvað mikið myglað og rotið hér á ferðinni. Á örfáum mánuðum er verið að búa til hliðarsamfélag á Íslandi þar sem gilda hreinlega önnur lögmál en Íslendingar eiga að venjast - önnur og verri lögmál. Fjölmiðlar þagga niður í frásögnum fólks af þessu (að sjálfsögðu samt ekki Fréttin.is sem stendur sig hérna eins og oft áður). Lögreglan gerir ekkert nema róa leikinn og lætur sig svo hverfa á ný. Það er undir einum manni úti í bæ að afhjúpa ástandið.
Og allt til þess að verja gjaldþrota stefnu í málefnum hælisleitenda. Gjaldþrota, en á kostnað venjulegs fólks.
Þetta er alveg magnað.
Ég vona að þessari hræðilegu þróun verði snúið við sem fyrst.
Föstudagur, 26. janúar 2024
Regluverkið til bjargar bákninu
Íslendingar eru þjóð sem hefur í meira en þúsund ár ekki bara haldið lífi á vindblásinni eldfjallaeyju við heimskautsbaug heldur tekist að skapa eitt besta samfélag í heimi á því skeri. Þetta hafa þeir getað af því þeir hafa hugsað í lausnum, sem er andstæða þess að festa sig í vandamálunum. Þetta gera þeir sjaldan betur en þegar náttúran ógnar mannlífinu. Í Vestmannaeyjum var sjó sprautað á flæðandi hraun og núna eru reistir varnargarðar í kringum byggðir og orkuver til að stöðva hraun og breyta stefnu þess, og hefur hreinlega gengið vel. Snjóflóð eru líka tamin með varnargörðum sem eru ekki lítil mannvirki.
Þetta geta Íslendingar og gera þegar þeim er ekki haldið niðri af regluverkinu, eins og mjóum unglingi í júdóglímu við spikfeitan, fullorðinn karlmann.
En væri þá ekki ráð að jafna leikinn? Jú, auðvitað. En þróunin er í öfuga átt. Bráðum verður búið að hlaða hópi spikfeitra karlmanna á unglinginn og hann kafnar til dauða.
Ef núverandi regluverk væri við lýði en árið er 1970 væru Íslendingar þá búnir að virkja Sogið og reisa Búrfellsvirkjun? Reisa háspennulínurnar frá hálendinu? Eða koma á laggirnar hitaveitu? Kannski, en kannski ekki. Og við getum gleymt því að á Íslandi væri hreindýrastofn.
Í dag tekst ekki einu sinni að gera það sem þarf augljóslega að gera og er fyrir löngu byrjað að bíta fólk og fyrirtæki á sársaukafullan hátt. Nema ef það er eldgos eða snjóflóð. Þá bráðnar regluverkið í burtu og menn geta hafist handa.
Regluverkið er auðvitað ekki hannað til að vernda umhverfið, stuðla að sjálfbærum lausnum, verja líf og heilsu fólks eða passa upp á velferð dýra. Það er hannað fyrir báknið og kemur því til bjargar ef einhver stjórnmálamaður þykist hafa umboð til að skera aðeins í það eða mjaka því aðeins til hliðar í nafni almannahagsmuna.
Fimmtudagur, 25. janúar 2024
Að segja ekkert með því að segja eitthvað
Segjum sem svo að ég væri grænmetisæta af verstu gerð: Sú sem setur sig á siðferðislega háan stall, getur ekki haldið kjafti um mataræði sitt og fordæmir um leið mataræði annarra. Boðar að dýraafurðir séu ekki bara óhollar heldur hreinlega af hinu illu. Kjötætur séu mannætur. Bændur séu þrælahaldarar. Skammar jafnvel ömmu sína fyrir að vilja kjötsneið í matinn.
Segjum sem svo að ég sé af þessari tegund grænmetisæta en um leið íslenskur stjórnmálamaður.
Hvernig myndu blaðagreinar mínar líta út?
Myndi ég segja hreint út að bændur væru djöflar í mannsmynd og að dýr þeirra séu þrælar í ánauð, pyntaðir til afþreyingar?
Nei. Ég myndi sennilega leggja góða lykkju á leið mína og tala um aumingja Búkollu. Ég myndi sennilega reyna að tengja mataræði ekki-grænmetisæta við allskyns kvilla. Ég myndi tala um loftslagið. Ég myndi segja allt nema það sem ég meina: Bönnum kjötát.
Slíka grein, en um annað málefni, má í dag lesa á Visir.is. Þar er í löngu máli sagt að Íslendingar eigi ekki að virkja til að afla sér meira rafmagns, og það þrátt fyrir orkuskortinn sem nú þegar þjakar Íslendinga og mun bara versna, hratt.
Þarna er boðskapurinn orðaður á alla mögulega vegu aðra en að segja hann einfaldlega hreint út. Eitthvað um gróðafyrirtæki og forgangsröðun.
Er þetta hluti af íslenskri umræðuhefð? Mér sýnist það. En köllum nú bara hlutina sínum réttu nöfnum og minnum okkur á að á hinu háa Alþingi eru einstaklingar sem styðja baráttu liðsmanna Vinstri-grænna innan stjórnsýslunnar til að standa í vegi fyrir öflun frekara rafmagns fyrir Íslendinga.
Og í gvuðanna bænum hættið að kjósa svona lið í framtíðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 24. janúar 2024
Kaffistofan og skynjarinn
Þegar ég les fréttir um getuleysi hins opinbera til að sækja rusl, viðhalda vegum, moka snjó, svara í símann og svo framvegis þá rifjast oft upp fyrir mér ákveðið atriði úr þáttaröðinni The Wire. Nýr umbótasinnaður borgarstjóri hafði verið kosinn og honum blöskraði vanræksluna í borginni. Brunahanar láku, leikvellir voru í niðurníðslu og göturnar fullar af holum. Hann settist í bíl sinn og keyrði á milli vinnustaða borgarinnar og kallaði yfir hópinn, sem sat yfir kaffibolla, eitthvað eins og brunahaninn lekur!", eða rólan er brotin!". Hann lét sig svo hverfa í sömu andrá og menn reyndu að komast að því hvaða brunahani læki eða hvaða róla væri brotin. Niðurstaðan var sú að menn risu úr sætum sínum og keyrðu um borgina og löguðu alla brunahana, leikvelli og holur sem þeir rákust á.
Mannaflinn var þarna með öll réttu tækin og tólin, og á fullum launum. En hann valdi frekar að drekka kaffi en sýna eitthvað frumkvæði. Hann var án eftirlits og hvata og í skjóli opinberrar ráðningar. Ég meina, hver rekur viðhaldsmann í borg í niðurníðslu?
Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé raunsæ lýsing á opinberum rekstri. Mannaflinn er nægur. Honum skortir engin tæki og tól. En hann haggast ekki. Hann gerir ekki handtaki meira en nauðsynlegt er. Hann lætur gáma troðfyllast og leyfir holum að rústa hverjum bílnum á fætur öðrum.
Núna ætlar Sorpa að setja skynjara í gáma sem láta vita þegar þeir eru fullir, og það er sennilega reglan frekar en undantekningin. Á þá í leiðinni að ráða fullt af mannskap til að ráða við það verkefni eða er mannskapurinn til staðar, og var einfaldlega of upptekinn af því að drekka kaffi? Það fylgir ekki sögunni. Eitthvað segir mér að það sé staðan. Vonandi hjálpa skynjararnir starfsmönnum Sorpu til að skynja hvenær þeir þurfa að standa upp úr stólnum.
![]() |
Skynjurum komið fyrir í grenndargámum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 23. janúar 2024
Stjórnmálamenn og ráðherrar eiga ekkert í báknið
Ég er gjafmildur í dag og gef mér að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orkuskorts- og loftslagshræðsluáróðursráðherra, meini í raun og veru að hann vilji auka skilvirkni báknsins, fækka stofnunum og stöðva kerfisbundna keyrslu báknsins að orkuskorti.
Kannski heldur hann langa fundi, íbygginn á svipinn, og útskýrir fyrir forstöðumönnum að menn þurfi að líta á heildarmyndina jafnvel þótt það gæti kostað viðkomandi einhver völd og áhrif. Hann tyggur sig í gegnum skýrslurnar sem báknið framleiðir á færibandi. Hann leggur fram tillögur. Hann beitir sér sem ráðherra, og ætti að nafninu til að hafa nokkuð svigrúm til að taka ákvarðanir.
En allt kemur fyrir ekki. Eftir marga mánuði af harki stígur ráðherra í ræðupúlt og segir að sér verði ekkert ágengt. Báknið neitar að haggast. Það spyrnir við öllum tilraunum. Kannski ekki skrýtið í samfélagi sem brennir 16% af verðmætasköpun sinni í opinbera starfsmenn á meðan ríki innan mesta skrifræðisbákns í heimi, Evrópusambandinu, láta sér 11% duga.
Þetta ætti að segja okkur að það sé eitthvað öfugsnúið á ferð hérna. Kjörnir stjórnmálamenn koma engu áleiðis nema með blessun ókjörinna embættismanna. Ráðherrar, tilnefndir eða úr hópi hinna kjörnu fulltrúa, berja höfðinu í stein.
Mögulega líta margir ennþá til Sjálfstæðisflokksins en þar á bæ sía prófkjörin út alla þá sem eru líklegir til að þora í slaginn.
Ég sé ekki hvernig nokkrar kosningar geti breytt þessu ástandi. Er það svartsýni?
![]() |
Allir smákóngar heimsins segja ekki hjá mér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)