Nauðsynleg samstaða í áríðandi máli

Alþingi sýnir mikil þroskamerki í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að afnema gjaldeyrishöftin á íslensku krónunni.

Alþingi hef­ur samþykkt frum­varp um af­l­andskrón­ur sem Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra lagði fram fyr­ir helgi.

Frum­varpið var samþykkt með 47 at­kvæðum. Sjö sátu hjá.

Þeir sem kusu gegn frumvarpinu voru einstaklingar eins og Katrín Jakobsdóttir og Birgitta Jónsdóttir, sem munu vera á móti öllum lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar sem eru ekki aukin ríkisútgjöld eða ný höft eða skattar. 

Nú er að vona að ríkisstjórninni takist að klára þetta mál með öllu, helst fyrir haustið. Ef kosið er í haust og núverandi stjórnarandstöðuflokkum hleypt í ríkisstjórn verður þetta mál sett ofan í skúffu um langa framtíð. Það er engin einlæg ósk vinstrimanna að afnema nein höft á Íslandi því höft þýða völd í höndum hins opinbera. 

En munu þá ekki bara koma ný höft í staðinn? Kannski. Fráfarandi ríkisstjórn tókst að hækka skatta nálægt því 200 sinnum á einu kjörtímabili. Það er raunveruleg hætta á að vörugjöld snúi aftur sem og allir þeir tollar sem búið er að leggja af. 

Ríkisstjórnin hefur ekki gert mikið til að girða fyrir þetta og sýnir raunar slæmt fordæmi í mörgum málum, sérstaklega með hinum nýju búvörusamningum auk alltof hóflegra skattalækkana sem endurspegla alltof hægfara smækkun ríkisvaldsins. Hættan er skiljanlega og augljóslega sú að fólk sjái engan mun á ríkisstjórninni og vinstriflokkunum og verður það líklega hennar banabiti. Það er því þeim mun mikilvægara að klára afnám gjaldeyrishafta sem fyrst.  


mbl.is Frumvarp um aflandskrónur samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattalækkanir skila ávinningi jafnvel þótt vöruverð breytist ekki

Sumir hafa efast um að tollalækkanir hafi skilað sér "að fullu" til neytenda, t.d. afnám tolla á fatnaði og skóm. Menn skoða verðmiðana og bera þá saman við verðmiðana í hinu gamla umhverfi tollanna og draga ályktanir.

Gott og vel, aðhald er gott það ber að veita í hvívetna.

(Ekki er hægt að veita ríkisvaldinu aðhald nema á fjögurra ára fresti og þá varla nema að nafninu til svo þar geta menn sparað orkuna.)

En verðlækkanir í kjölfar tollalækkana eru bara einn mögulegur ávinningur. Aðrir eru til og það mætti jafnvel hugsa sér að þótt verðlækkanir yrðu engar þá væri samt ávinningur af skattalækkunum.

Segjum að ríkið afnemi 10% toll og verðlag helst óbreytt. Hvað er að gerast? Verslanir eru að taka meira af söluandvirðinu. Þær geta e.t.v. hækkað laun og krækt í betri starfsmenn úr öðrum greinum sem um leið fá meira á milli handanna. Þjónusta batnar og jafnvel skilvirkni.

Ef hagnaður í verslun eykst þá dregur það að fjárfesta í samkeppnisrekstur, jafnvel erlendar verslunarkeðjur sem bjóða upp á betra verð eða meira úrval eða betri gæði. Hugsanlega fá innlendir framleiðendur möguleika á að standa undir sér í hinu nýja og hærra verðlagi og skapa störf og tækifæri. Er allt þetta ekki ávinningur fyrir neytendur, a.m.k. til lengri tíma?

Annar möguleiki er sá að skuldsettar verslanir haldi verðlagi óbreyttu til að greiða upp skuldir, sem er alltaf gott, eða lagfæra húsnæði sitt, sem kemur sér t.d. vel fyrir iðnaðarmenn. Skuldlausir verslunareigendur hirða hins vegar ágóðann af hinni auknu álagningu og safna í fé sem verður eytt í eitthvað annað, t.d. í fjárfestingar eða neyslu sem kemur sér vel fyrir þá sem versla við þá. 

Enn einn möguleiki er sá að verslunareigendur haldi verðlagi óbreyttu til að hækka laun starfsmanna sinna og halda þeim frá því að vinna fyrir aðra. Sömu starfsmenn fá þá meira á milli handanna til að eyða sjálfir í allskyns vöru og þjónustu.

Sama hvað gerist við afnám tolla eða skatta er eitt ljóst: Ríkisvaldið er að hirða minna af sjálfsaflafé landsmanna og það í sjálfu sér er gott. Nákvæmlega hvernig ávinningurinn kemur fram kemur bara í ljós, en betra er fé í höndum þeirra sem afla þess en hinna sem krefjast þess með valdi. Alltaf. 


mbl.is Skilaði neytendum 4% lægra verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist þegar eftirspurn eftir eplum eykst?

Spurt er:

Hvað gerist þegar eftirspurn eftir eplum eykst?

Hagfræðin lýsir þessu ágætlega.

Í fyrstu hækkar verð á eplum - fleiri vilja krækja í hlut af sömu uppskeru og var til staðar á hinni fyrri eftirspurn.

Hærra verð þýðir meiri hagnaður eplaframleiðenda. Þeir bregðast við með því að bæta við trjám. Samkeppnisaðilar, t.d. peruræktendur, sjá hinn aukna hagnað á markaði epla og hefja sína eigin eplarækt. 

Hið aukna framboð í umhverfi sömu eftirspurnar þrýstir verðinu aftur niður. Jafnvægi næst á ný. Hagnaður eplaframleiðenda verður sá sami og í flestum öðrum greinum og fjárfestar í leit að nýjum tækifærum líta á aðra markaði.

Af einhverjum ástæðum virðast lögmál hagfræðinnar ekki eiga við um húsnæði í Reykjavík. Ástæðan er ekki sú að fjárfestar eru sofandi á verðinum og hættir að leita að heppilegri ávöxtun fyrir fé sitt. Ástæðan er ekki sú að menn hafi ekki trú á að hin aukna eftirspurn endist.

Ástæðan er einfaldlega sú að hið opinbera setur markaðinum stólinn fyrir dyrnar og meinar honum, beint eða óbeint, að auka við framboð þar sem eftirspurn er mikil.

Ástæðan er ekki sú að Airbnb hefur hafið innreið sína á Íslandi. Án Airbnb væri bara búið að finna aðrar leiðir til að hagnast á vel borgandi ferðamönnum sem vilja búa í póstnúmerum 101 og 105 í Reykjavík.

Hið opinbera er að sá eitri í jörð þar sem annars væri hægt að rækta eplatré. 


mbl.is Airbnb og lítið framboð hækkar verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkislausn á ríkisvandamáli

Menn sem hugsa í lausnum en ekki vandamálum eru menn sem ætti a.m.k. að hlusta á:

Strax í skjól er húsnæðislausn fyrir fólk ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Hallgrímur Óskarsson verkfræðingur hefur unnið að verkefninu frá áramótum en í lausninni felst að fyrirframgreiddur skyldulífeyrir er notaður sem eigið fé til útborgunar í fyrstu íbúð.

Ljómandi gott svo langt sem þessi hugmynd nær. Hérna er verið að leggja til ríkislausn á ríkisvandamáli. Sennilega er það hið eina sem er pólitískt raunhæft að gera í dag.

Ekki er hægt að leggja til að ungt fólk fái almennt að ráðstafa öllum launum sínum í að borga niður skuldir frekar en leggja fyrir. Ungt fólk er neytt til að leggja fyrir á lágum vöxtum þótt það sé e.t.v. á kafi í skuldum á háum vöxtum, t.d. vegna náms eða fasteignakaupa. Um 10-12% af tekjum fólks er tekið af því og sett á læstan sparnaðarreikning sem það hefur engin völd yfir. Þetta fé er svo notað til að fjármagna opinberar skuldir eða allskyns framkvæmdir í samstarfi við hið opinbera ef það gufar hreinlega ekki upp í verðbólgu eða í næstu niðursveiflu á hlutabréfamarkaði.

Ungt fólk er líka neytt til að athafna sig á fasteignamarkaði sem er svo gott sem lokað land. Ekki er hægt að byggja ódýrt húsnæði sem hentar því. Fullfrísku fólki á þrítugsaldri er gert að hafa aðgang að lyftu sem það þarf ekki að nota eða risastórri geymslu sem það á ekkert dót til að setja í. Kannski er þó að rofa til hér.

Ákveðinn markaðsbrestur er á íslenskum fasteignamarkaði þar sem framboð á húsnæði er miklu meira en eftirspurn. En bíddu nú við, hvernig stendur á því? Jú, hérna flækist ríkisvaldið fyrir eins og svo oft áður. Einu lausnirnar sem heyrast eru ríkislausnir. Blindi skurðlæknirinn sem skar óvart á slagæðina á núna að stöðva blæðinguna. Gangi honum vel!


mbl.is Húsnæðislausn fyrir ungt fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilling er leið framhjá hindrunum

Í sumum ríkjum er spilling útbreidd og talin vera mikið vandamál. Undir það tek ég alveg. Spilling er hins vegar ekki eitthvað sem sprettur fullskapað upp úr jörðinni og leggst á fólk og fyrirtæki.

Spilling er oftar en ekki leið til að þræða flókna frumskóga skattheimtu og reglugerða. Hún er viðbragð við kæfandi kerfi.

Spilling þrífst ekki nema hún borgi sig. Nú meina ég ekki endilega í fjárhagslegum skilningi. Spilling þrífst þegar það er einfaldara að stunda viðskipti með því að fóðra hana en að sleppa því (t.d. borga lögreglumönnum fyrir að hafa sig á brott eða embættismanni til að veita leyfi fyrir einhverju).

Spilling er lítið vandamál á Íslandi af því að kostnaðurinn við hana er meiri en kostnaðurinn við að stunda heiðarleg viðskipti (yfirleitt). Lítil spilling á Íslandi er ekki einhver afleiðing heiðarlegs uppeldis trúrækinna Íslendinga. Þegar viðskiptahöft einkenndu íslenskt hagkerfi og samfélag þreifst spilling eins og annars staðar þar sem svipað ástand er við lýði í dag.

En þetta gleymist. Menn halda að baráttan við spillinguna verði unnin með því að sekta einhverja einstaklinga og jafnvel að stinga þeim í steininn. Það er eins og að ætla sér að lækna blæðandi svöðusár með því að skera á sig nýtt sár og hleypa blóðinu þar út og vona að svöðusárinu hætti að blæða.

Skilvirkasta leiðin til að berjast gegn spillingu er að einfalda regluverkið, fækka hindrunum á eðlilegum viðskiptum, lækka skatta, styrkja eignarréttinn og minnka völd hins opinbera.


mbl.is Krefst ekki afsökunarbeiðni frá Cameron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bannað að svíkja undan skatti en ...

Fjármálaráðherra mætir í ræðustól Alþingis til að minna þingmenn á að á Íslandi gilda lög um aflandsfélög sem tilgreina nákvæmlega hvað þarf að upplýsa um slík félög á Íslandi og hvernig skattheimtu á þeim er háttað.

Þetta er því miður nauðsynleg ábending því margir Íslendingar virðast halda að það sé bara með öllu bannað að eiga eitthvað utan Íslands. Svo er auðvitað ekki.

Íslensk fyrirtæki eiga fyrirtæki erlendis. Maður sem ákvað að loka ekki danska bankareikningi sínum eftir námið í Danmörku á erlendan gjaldeyri á aflandsreikningi. Þetta er allt fullkomlega í lagi og ef lögum er fylgt - löglegt - eins og gefur að skilja.

Menn undra sig á því af hverju Íslendingar hafi stofnað svo mörg aflandsfélög. En látum okkur sjá - á Íslandi gefur ríkisvaldið út gjaldmiðil og stendur sig ekkert sérstaklega vel í því verkefni frekar en önnur stjórnvöld sem gera hið sama. Pólitísk óvissa er mikil á Íslandi - á einu kjörtímabili má greinilega alveg búast við nálægt 200 skattahækkunum án þess að nokkur blikni. Viðskiptahöft geta fæðst á einni nóttu. Eignir rýrna í kaupmætti og að auki vegna skattheimtu.

Blasir ekki við að þeir sem ná að skrapa saman einhverjum verðmætum á Íslandi reyna að lágmarka a.m.k. að einhverju leyti skaðann af íslenskum stjórnvöldum? E.t.v. er ekki verið að flýja skattheimtu en verðbólgan flæmir ekki síður frá. Seðlabanki Íslands er beinlínis með það markmið að helminga kaupmátt krónunnar á um einnar kynslóðar fresti. Vinnandi manni er beinlínis lofað að kaupmáttur lífeyris hans verði orðinn helmingur af því sem rann inn í lífeyrissjóðinn.

Það eru margar leiðir til að vera mótsagnakenndur á Íslandi og skulu hér nokkrir möguleikar taldir upp.

Mótsögn felst í því að fordæma aflandsfélög og ...

- boða skattahækkanir

- mótmæla skattalækkunum

- verja flókið skattkerfi með öllum sínum jaðarsköttum

- verja skylduáskrift að lífeyrissjóðum

- verja ríkiseinokunarútgáfu peninga á Íslandi

- vilja kollsteypa stjórnkerfinu á einni nóttu

- atast í sífellu í þeim sem framleiða mikil verðmæti (löglega) og þéna vel á því

Það væri í mínum huga fréttnæmara ef Íslendingar hefðu komið sjaldan fyrir í Panamaskjölunum. Að þeir hafi marga fulltrúa þar finnst mér alveg skiljanlegt. Ég vildi óska að ég væri á þessum lista. Það hefði sennilega þýtt að mér hefði tekist að skrapa saman fleiru en skuldum á lífsleiðinni.  


mbl.is „Það er bannað að svíkja undan skatti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr umsögn dönsku hótelsamtakanna

Dönsku hótelsamtökin létu á sínum tíma eftirfarandi frá sér fara:

“A site like Airbnb allows Denmark to attract tourists who otherwise would not have come,” Christoffer Susé, the relationship manager at Horesta, told Computerworld.

“Airbnb is contributing to making the pie bigger for everyone in the tourism industry.”

Með öðrum orðum: Airbnb gerir það að verkum að fleiri koma til Danmerkur en ella og það stækkar kökuna og af því njóta allir góðs.

Að vísu sýnist mér hljóðið í samtökunum eitthvað hafa breyst eitthvað síðan árið 2015. Nú vilja þau skatta og reglur og hvaðeina. Einu sinni hittu þau samt naglann á höfuðið.

Ímyndum okkur t.d. 10 manna hóp. 7 úr hópnum finna hótelherbergi á Íslandi. 3 hafa ekki efni á því eða finna ekkert herbergi. Á allur hópurinn nú að hætta við ferðina, fara annað eða má hann dreifa sér á hótel og heimili? Hvort kemur sér betur fyrir hótelbransann á Íslandi?

Vissulega er skiljanlegt að þeir sem eru skattlagðir vilja að samkeppnisaðilar sínir séu það líka. Rétta leiðin er samt ekki sú að hrúga auknum sköttum á alla heldur lækka skatta svo þeir sem minnst borga borgi jafnmikið og þeir sem mest borga. Helst ekkert.

Vissulega er skiljanlegt að þeir sem þurfa að starfa í þéttum reglugerðafrumskógi vilji að reglurnar flækist líka fyrir samkeppninni. Er rétta lausnin þá að flækja alla í skóginum eða losa alla úr honum?

Nú fyrir utan að ég get ekki séð hvernig ríkisvaldið hefur leyfi eða heimild í stjórnarskrá til að segja fólki hvað það megi hafa gesti marga daga á ári - borgandi eða ekki. Má ríkisvaldið banna allt? Er allt bannað sem ekki er sérstaklega leyft?


mbl.is Óvissa ríkir um vsk. á heimagistingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð, Guðni, Ólafur

Þá hefur Davíð Oddsson bæst í hóp frambjóðenda til embættis forseta Íslands. Það eru góðar fréttir. Hann er reynslubolti og þrautreyndur. Hann er ekki hræddur við að taka umdeildar ákvarðanir og standa á sínu. Hann hefur heldur ekki þörf til að sanna sig og getur því einbeitt sér að því að taka sína eigin afstöðu til manna og málefna. Við þekkjum hann - kosti hans og galla - og getum tekið afstöðu út frá því.

Hið sama gildir um Ólaf Ragnar Grímsson. Við þekkjum hann út og inn og vitum nákvæmlega fyrir hvað hann stendur. Hann hefur líka vaxið mjög í starfi og sennilega hættur að láta skuldsetta viðskiptajöfra daðra við sig of lengi. 

Forsetaframbjóðandi vinstrimanna (þeirra sem þola ekki Ólaf Ragnar) er að þessu sinni Guðni Th. Jóhannesson. Ég hef ekkert út á hann að setja. 

Aðrir frambjóðendur eru líklega úr sögunni.

Ef ég hefði kosningarétt til forsetakosninganna myndi ég sennilega velta fyrir mér Davíð og Ólafi Ragnari fram á seinasta dag. Það væri synd að missa Davíð úr þjóðmálaumræðunni í gegnum ritstjórastöðu sína. Það væri synd að missa Ólaf inn í þjóðmálaumræðuna ef hann missir krúnuna. 

Í ríkjum þar sem skrautfjaðrir stjórnkerfisins eru aldraðir einstaklingar sem fæddust inn í embættið þykir fólki vænt um stöðugleika. Forsetaembættið ætti í þeim anda að vera skipað reyndum einstaklingi sem getur átt samskipti við umheiminn án þess að missa taktinn eða stressast upp af sviðsskrekk.

Ég þarf ekki að taka afstöðu því ég hef ekki kosningarétt. Ég vona hins vegar að í stól forseta setjist einstaklingur með bein í nefinu - gjarnan einstaklingur sem hefur sannað að svo sé. 


Gögnin eru orðin tekjulind

Þeir fjölmiðlar sem hafa gögn Panamalekans undir höndum eru að hagnast vel á aðgenginu. Gögnin eru orðin tekjulind fyrir þau. Þau vilja því skiljanlega ekki að þau dreifist of víða.

Sá sem upphaflega lagði á sig mikla áhættu til að afla gagnanna er kannski svekktur yfir þessu. Hann skýtur því föstum skotum í allar áttir.

Ég vona nú samt að þessi gögn komist að fullu í dagsljósið sem fyrst svo umræðan um þau geti farið fram á forsendum allra en ekki bara sumra.

Aðrar stórar lögfræðistofur í sama geira hljóta að vera hugsa sinn gang. Kannski eru einhverjar þeirra byrjaðar að eyða gögnum, en a.m.k. byrjaðar að læsa þeim betur.

Þeir sem vilja geyma fé sitt utan háskattalandanna hljóta líka að hugsa sinn gang núna. Kannski er hækkandi gullverð þessar vikurnar afleiðing þess að verðmæti eru byrjuð að leita í gull og frá verðmætapappírum ýmis konar. Um það er samt erfitt að fullyrða. 


mbl.is Wikileaks fékk ekki gögnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar strax! Eða hvað?

Stjórnarandstaðan heimtar kosningar strax. Það blasir við að ástæðan er ekki aflandsfélag þetta eða Tortóla hitt enda eru slík mál bara rétt að hefjast og ennþá er eftir að birta fullt af nöfnum og síðan athuga hvort einhver lögbrot hafi átt sér stað, rannsaka þau, ákæra og bíða eftir dómi.

Ástæða stjórnarandstöðunnar er skoðanakannanir. Þær hafa verið stjórnarandstöðunni hagstæðar. Hamra skal járnið á meðan það er heitt og knýja fram kosningar á meðan reiðibylgja gengur yfir samfélagið. Þegar sú reiðibylgja er gengin yfir er allt orðið of seint. 

Sjálfur er ég enginn stuðningsmaður þess að blása til kosninga áður en stjórnarskráin mælir fyrir um það en um leið er ég enginn sérstakur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Hún er hins vegar með nokkur mikilvæg mál á dagskrá sem væri gott að ljúka af, svo sem afnám gjaldeyrishafta sem vinstriflokkarnir hafa engan áhuga á. Ríkisstjórnin á að ljúka þeim málum. Hún á líka að setja önnur ofan í skúffu. Síðan á hún að lækka skatta svo um munar og koma verkefnum úr höndum ríkisins - varanlega - til að mæta þeim skattalækkunum. 

Hvað sem því líður þá á stjórnarandstaðan eftir að ganga af göflunum núna þegar hún sér að fylgið er að sópast undan henni. Bíðum spennt!


mbl.is Fylgi Pírata dalar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband