Kosningar strax! Eða hvað?

Stjórnarandstaðan heimtar kosningar strax. Það blasir við að ástæðan er ekki aflandsfélag þetta eða Tortóla hitt enda eru slík mál bara rétt að hefjast og ennþá er eftir að birta fullt af nöfnum og síðan athuga hvort einhver lögbrot hafi átt sér stað, rannsaka þau, ákæra og bíða eftir dómi.

Ástæða stjórnarandstöðunnar er skoðanakannanir. Þær hafa verið stjórnarandstöðunni hagstæðar. Hamra skal járnið á meðan það er heitt og knýja fram kosningar á meðan reiðibylgja gengur yfir samfélagið. Þegar sú reiðibylgja er gengin yfir er allt orðið of seint. 

Sjálfur er ég enginn stuðningsmaður þess að blása til kosninga áður en stjórnarskráin mælir fyrir um það en um leið er ég enginn sérstakur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Hún er hins vegar með nokkur mikilvæg mál á dagskrá sem væri gott að ljúka af, svo sem afnám gjaldeyrishafta sem vinstriflokkarnir hafa engan áhuga á. Ríkisstjórnin á að ljúka þeim málum. Hún á líka að setja önnur ofan í skúffu. Síðan á hún að lækka skatta svo um munar og koma verkefnum úr höndum ríkisins - varanlega - til að mæta þeim skattalækkunum. 

Hvað sem því líður þá á stjórnarandstaðan eftir að ganga af göflunum núna þegar hún sér að fylgið er að sópast undan henni. Bíðum spennt!


mbl.is Fylgi Pírata dalar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er algjör samstaða allra flokka um að afnema gjaldeyrishöft.En það tekur miklu lengri tíma en allt kjörtímabilið að ljúka því máli ef vel á að fara.

Ef ríkisstjórnarflokkarnir ætla að klára málið fyrir haustið eða næsta vor er nauðsynlegt að þeir fari frá strax. Annars fer hér allt á hvolf vegna margra ára uppsafnaðs þrýstings innlendra aðila á gjaldeyriskaup.

Þrýstingurinn frá lífeyrissjóðunum er td upp á um 700-800 milljarða vegna þess að þeir hafa ekki getað fjárfest erlendis í 7-8 ár.

Heildarupphæðin skiptir trúlega þúsundum milljarða. Afnám gjaldeyrishafta á næstunni mun því valda gengishruni krónunnar og mikilli lífskjaraskerðingu almennings.

Auðmenn munu hins vegar hagnast vel á slíku hruni. Þess vegna er mikil hætta á að þessi ríkisstjórn auðmanna afnemi höftin of hratt.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 7.5.2016 kl. 13:53

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Er ekki bara spurning um að ljúka þessi strax? Ég gef seðlabankastjóra orðið (manns sem verður seint bendlaður við að ganga erinda núverandi ríkisstjórnarflokka):

http://www.vidskiptabladid.is/frettir/aldrei-betri-timi-til-ad-afnema-hoft/127169/

Ríkisstjórnarskipti munu óhjákvæmilega leiða til seinkunnar á afnámsferlinu, enda tala allar ríkisstjórnir um mikilvægi þess að "ljúka málum" fyrir kosningar. 

Það má auðvitað hugsa alveg rosalega skammsýnt og telja að gjaldeyrishöft séu einhvers konar ávinningur fyrir almenning. Svo er samt ekki. 

Geir Ágústsson, 8.5.2016 kl. 17:22

3 identicon

Ég er sammála Má að nú er rétti tíminn fyrir afnám gjaldeyrishafta. Hann talar hins vegar ekkert um hve langan tíma ferlið eigi að taka. AGS hefur varað alvarlega við að of hratt verði farið í sakirnar. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.5.2016 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband