Eingöngu glæpamenn eiga að bera vopn, eða hvað?

Þegar einhver verður fyrir voðaskoti er það alltaf komið í fréttirnar.

Þegar glæpamaður ryðst inn á svæði með óvopnuðum almenningi og skýtur fólk í stórum stíl kemst það í fréttirnar.

Þegar einhver stöðvar glæp með heiðarlegri notkun skotvopna er það aldrei komið í fréttirnar. Fréttin yrði líka leiðinleg: Glæpur stöðvaður - ekkert gerðist. Hver nennir að lesa um slíkt?

Fyrir vikið halda margir sjálfsagt að löghlýðnir borgarar sem eiga skotvopn séu alltaf að brytja niður fjölskyldumeðlimi og nágranna. Menn halda líka að þau skotvopn sem glæpamenn búa yfir fari með lögbanni á slíku eignarhaldi. Það sem gerist bara er að almenningur er afvopnaður. Glæpamennirnir eiga áfram sín skotvopn.

Best væri auðvitað að enginn ætti skotvopn og jafnvel að þau væru ekki til. Þau eru samt til og því er mikilvægt að það séu ekki bara glæpamennirnir sem eiga þau. Sögulega hefur líka verið þörf fyrir að almenningur sé a.m.k. jafnvel vopnaður og yfirvöld. Jafnvægis verður að gæta. Annað svarar til að gera almenning að varnarlausum hænum sem refurinn getur leikið sér að því að slátra án mótspyrnu. 


mbl.is Skaut son sinn á skotsvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skatta- og bótagildra unga fólksins

Þeir sem vilja að ríkisvaldið niðurgreiði hitt og þetta vilja um leið að ríkisvaldið skattleggi mikið svo það hafi úr miklu fé að spila.

Háir skattar og háar bætur fléttast saman í eins konar net sem ungt fólk flækist í. Ungt fólk er enn að bæta við sig þjálfun og reynslu sem leiðir síðar til launahækkana en á meðan mætir það fullum þunga skattkerfisins. Þegar tekjurnar hækka fara bæturnar að hrynja af því og ráðstöfunarstekjur standa í stað. 

Velferðarkerfið svokallaða er velferðarnet - net sem festir fólk eins og flugur í vef kóngulóarinnar. Þeir sem verja velferðarkerfið eru að tala máli kóngulóarinnar. 


mbl.is Tekjudreifing breyttist lítið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í ESB er kosið aftur ef röng niðurstaða fæst

Evrópusambandið er ekki hrifið af þjóðaratkvæðagreiðslum. Ef niðurstaðan er röng er bara kosið aftur nema einhverjar bakdyr sé að finna. Þetta kannast flestir við.

Kosningin í Bretlandi er samt bara byrjunin á einhverju miklu stærra. Það má vel vera að það sé hægt að finna leiðir til að hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna og tefja úrsögn Breta. Það mun hins vegar engu breyta til lengri tíma. Almenningur í fleiri ríkjum sambandsins er byrjaður að eygja von á sínum eigin kosningum um aðildina að ESB. Rifur eru komnar á múrinn og þær munu breytast í sprungur, kannski hægt og rólega en kannski skyndilega.

Sem betur fer stefnir ekkert í að Ísland sé á leiðinni um borð í hið sökkvandi skip. 

Spurningin er svo bara hvað tekur þá við. Geta Evrópuríkin stundað frjáls viðskipti án þess að vera innan ríkjasambands? Munu þau fylgja stefnu verndartolla og viðskiptahafta eða opna á frjáls viðskipti við önnur Evrópuríki og jafnvel heimsbyggðina alla? Tíminn mun leiða í ljós hvort sjónarmiðið verður ofan á - það að menn geti búið á sitthvoru heimilinu en engu að síður átt frjáls samskipti og viðskipti sín á milli, eða hitt að menn stundi sjálfsþurftarbúskap þar sem allir sauma sínar eigin brækur. 


mbl.is Ekki víst að Bretar fari úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um spillingu á Íslandi

Ég átti í svolitlum orðaskiptum á fjésbókinni um daginn þar sem innihald umræðunnar var nokkurn veginn á þessa leið:

Maður A: Ísland er gjörspillt! Við þurfum nýja stjórn!
Ég: Nú hvernig þá? Er meiri spilling núna en í tíð fráfarandi ríkisstjórnar? Hvernig þá?
Maður B: Já, menn þurfa að vera blindir og heyrnalausir til að sjá það ekki.
Ég: Fyrir hönd blindra og heyrnalausa óska ég hér með eftir rökstuðningi.
Maður C: Nefndu sjálfur dæmi um spillingu hjá fráfarandi ríkisstjórn!

Sem sagt, einhver hrópar spilling og óskar eftir nýrri ríkisstjórn og svo er ætlast til þess að ég taki dæmi um spillingu hjá fráfarandi ríkisstjórn. 

En gott og vel, þetta er eitthvað til að leggja út frá.

Á Íslandi er ríkisvald - jafnvel sterkt ríkisvald - og þar af leiðir að einhver spilling á sér stað. Ég tengi þetta tvennt mjög ákveðið saman: Pólitísk völd og spillingu.

Hvorki núverandi né fráfarandi ríkisstjórn á yfir höfði sér sakamál vegna spillingar þótt spilling sé vissulega ólögleg. Spillingin, eins og ég upplifi hana, kemur samt ekki alltaf fram sem lögbrot. Stundum birtist hún í sakleysislegum ráðningum á forstöðumönnum ríkisstofnana. Stundum er sumum hyglað en öðrum ekki. 

Eftir stendur samt að ég get ekki séð að spilling hafi aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar og að ásakanir um spillingu sem réttlætingu fyrir stjórnarskiptum standi á mjög styrkum fótum. Þeir sem vilja stærra ríkisvald eru að biðja um kosningar en þeir eru ekki að greiða götuna fyrir upprætingu spillingar. Miklu nær væri að berjast fyrir minna ríkisvaldi þannig að spilling hætti að vera pólitískt vandamál heldur miklu frekar vandamál sem bítur þá persónulega í rassinn sem stunda hana. 


Til hamingju með nýja forsetann

Til hamingju, Íslendingar, með nýja forsetann. Aðdragandinn að kjöri hans var spennandi en flestir ættu að geta unað niðurstöðunni þótt gamalt fólk og íbúar landsbyggðarinnar hafi fengið að kjósa til jafns við menntaelítuna í höfuðborginni. 

Ég er alveg viss um að Guðni eigi eftir að gera sitt besta til að rækja skyldur embættisins, a.m.k. þær formlegu. Vonandi lætur hann ekki íslenska vinstrið ráðskast of mikið með sig. Vonandi nær hann að standa á sínu í viðtölum við erlenda blaðamenn og helst án þess að hans helsta uppskera verði vorkunn.

Vonandi allt þetta og meira til.

Til hamingju enn og aftur. 


mbl.is Stefnan að sameina en ekki sundra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sitt er hvað, samruni og samvinna

Ég vil óska Bretum til hamingju með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um áframhaldandi aðild að ESB. Bretar geta nú hoppað af hinu sökkvandi skipi áður en það lendir á hafsbotni og brotnar í spað með látum.

Bretar eru vanir því að vera sjálfstæðir og verða ekki í neinum vandræðum með að rifja upp slíkt ástand. 

Hugsanlega leitar nú hugur Breta norður á bóginn í átt að Íslandi, Noregi og Færeyjum. Þeir loka gatinu til Frakklands fyrir flóttamönnum og opna landamærin til norðurs fyrir fólki frá vinaþjóðum á norðlægum slóðum.

Kannski.

Annar möguleiki er auðvitað sá að Bretar taki upp meiri sósíalisma og verði að Venesúela Evrópu eða eitthvað í áttina að því. Vonum ekki.


mbl.is „Gríðarlegt áfall“ fyrir ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni misskildi

Forsetaframbjóðandinn Guðni Th. Jóhannesson segir:

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afvegaleiddi erlenda blaðamenn, að sögn Guðna Th. Jóhannessonar forsetaframbjóðanda, þegar umræðan um Icesave stóð sem hæst.

Það er hætt við að Ólafur svari fyrir sig hérna, jafnvel harkalega. Þá þarf Guðni að útskýra sitt mál. Það hefur honum ekki alltaf gengið vel. Ýmist ásakar hann þá sem gagnrýna hann um að misskilja, taka orð úr samhengi eða beinlínis segja ósatt þótt engin lygi hafi verið sögð. 

Hvernig ætli Guðna muni ganga að eiga við erlenda blaðamenn ef og þegar til þess kemur? Mun hann geta það án þess að fólk vorkenni honum?

En gott og vel, það lítur út fyrir að þjóðin ætli að gefa Guðna tækifæri til að vera ekki-Davíð. Ef það gengur eftir óska ég honum alls hins besta. 


mbl.is „Ólafur fór stundum á ystu nöf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagsvaldið er kverkatak yfirvalda

Ekki veit ég hvernig það kom til að hið opinbera mætti beita skipulagsvaldinu eins og því sýnist, en það er raunin.

Með skipulagsvaldinu er hægt að loka á viðskiptavini, þvinga fyrirtæki í gjaldþrot, aðskilja fólk frá heimilum sínum, ákveða hvað sé selt og til hvers og hvar, skipta sér af opnunartímum og senda fullorðið fólk heim að sofa.

Skattheimta er jafnvel óþjálla stjórntæki því hana þarf að ákveða samkvæmt ákveðnum ferlum sem taka tíma. Skipulagsvaldinu má beita eftir einn fund með útvöldum einstaklingum. 

Er engin leið til að losa um þetta kverkatak hins opinbera á fólki og fyrirtækjum?


mbl.is Ósáttur við borgina og lokar Minju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað veldur fátækt?

Félagi minn var að deila þessu á fjésbókarsíðu sinni:

981120_1072110046152859_9181885515310069047_o

Þessi stutti texti segir langa sögu. Nú er það ekki svo að mannkynið er af náttúrunnar hendi baðað í velmegun. Meira að segja eplin þarf að týna ef þau vaxa einhvers staðar. Maðurinn er fátækur nema hann komi sér upp verkaskiptingu og fyrirkomulagi sem gerir honum kleift að auðgast. Ef umgjörð samfélags hans er þannig skrúfuð saman þá heldur hann áfram að vera fátækur. Það er líka hægt að svipta manninn auði sínum með því að hirða allt af honum eða meina honum að framleiða verðmæti.

Í stað þess að spyrja hvað veldur fátækt er oft betra að spyrja hvað veldur velmegun. Vinstrimenn koma hér að tómum kofanum. Öll þeirra stjórnmálaheimspeki gengur út á að mikil efnisleg gæði séu til staðar sem þarf bara að "dreifa" á annan hátt, eða "skipta" öðruvísi. Þeir hafa ekki neinar hugmyndir um það hvernig á að framleiða verðmætin til að byrja með. 

Minnumst þetta næst þegar við heyrum stjórnmálamanninn lofa allskyns góðverkum með eigur annarra. 


Hvað gerist þegar höftin eru frá?

Yfirvöld og Seðlabanki Íslands taka nú stór skref í átt að afnámi fjármagnshafta. Það er gott. Höftin á fjármagni eru eins og hver önnur höft: Halda því sem vill hreyfast föstu. Maðurinn sem vill hlaupa af stað með fyrirtækið sitt kemst kannski ekki úr sporunum. Fjárfesting sem gæti átt sér stað á sér ekki stað. Peningur sem er að fá lélega ávöxtun á einum stað kemst ekki á annan. 

Höftin hylma líka yfir óskilvirkni og verðlauna stjórnvöld fyrir ábyrgðarleysi. Lífeyrissjóðirnir hafa t.d. þurft að fjármagna skuldir sveitarfélaga til að koma fé í ávöxtun í stað þess að fjárfesta í einhverju verðmætaskapandi.

En hvað gerist þegar höftin eru frá? Mun eitthvað breytast? Ætlar íslenska ríkisvaldið virkilega að halda áfram að einoka útgáfu peninga á Íslandi? 

Seðlabankar heims eru verkfæri yfirvalda til að framleiða verðbólgu og auka tekjur sínar, beint eða óbeint. Bankarnir eru alsælir og græða á þessu fyrirkomulagi. Almenningur tapar.

Seðlabanka Íslands á að einkavæða eða leggja niður. Það ætti að vera næsta afnám á ríkisafskiptum á Íslandi.


mbl.is Aflandskrónuútboð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband