Hlýtur að vera þreytandi að þurfa sífellt að ganga með betlistaf

Þungum áhyggjum af nú lýst yfir ástandi sjúkrabílaflotans. Biðlað er til yfirvalda um að gera eitthvað í því. Síðan má bara vonast til að einhver sé að hlusta og að einhver vilji borga.

Mikið hlýtur að vera þreytandi að vinna fyrir ríkið. Gjarnan er um að ræða starfsgreinar þar sem enginn annar atvinnurekandi er til staðar. Ríkiseinokunin er annaðhvort lögbundin og bein eða skrúfuð þannig saman að það er ekki lífvænlegt að standa í einkarekstri í samkeppni við hana. 

Til að fá ný tæki og tól, launahækkanir, breytingar á skipuriti eða koma á einhverjum breytingum þarf sífellt að biðla og betla. Betlistafurinn er sífellt á lofti. Um leið er algjörlega óvíst að einhver sé að hlusta. Hið opinbera þarf ekki að óttast flótta starfsfólks til annarra rekstrareininga né flótta skjólstæðinga til samkeppnisaðila. Það eina sem virkar er að nota fjölmiðla og reyna beita pólitískum þrýstingi. Samt er ekkert gefið.

Einkaaðilar eru ekki jafnháðir betlistafnum. Þeir geta aðlagast aðstæðum og gera það, eða fara á hausinn. Neytendur ráða og þeir sem vilja þjóna þeim þurfa einfaldlega að standa sig eða snúa sér að einhverju öðru. 

Einkavæðum allt.


mbl.is Endurnýjun sjúkrabílaflotans aðkallandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta hjálparstarfið er kapítalismi

Um allan heim sinnir fólk mannúðarstörfum og aðstoðar þá sem eiga um sárt að binda. Það er gott og göfugt. 

Víða um heim er fólk í stanslausri þörf fyrir aðstoð. Peningar, sérfræðingateymi og hjálpargögn hafa streymt inn á slík svæði í mörg ár og jafnvel áratugi. Hjálparstarfið virðist ekki virka til lengri tíma. 

Besta hjálparstarfið í slíkum aðstæðum er frjáls markaður og kerfi sem ver eignarétt fólks. 

Frjáls markaður gefur fólki kleift að byggja upp til framtíðar. 

Hann gerir fólk sjálfbjarga. 

Hann færir almenningi efnahagslegan styrk sem ýtir undir pólitískan styrk. Það er erfiðara að kúga ríkt fólk en fátækt. 

Einu sinni var Asía vandamál heimsins. Þar bjuggu hundruð milljóna við sára fátækt. Núna eru Asíu-búar orðnir kapítalistar og að verða lánadrottnar heimsins og framleiðendur. Afríka situr eftir. 

Ég óska öllum heiminum gleðilegra jóla og eins mikið af kapítalisma og hægt er.


mbl.is Ber meiri virðingu fyrir fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert sjálfgefið við velgengni

Það að koma nýrri vöru á markað er ekki auðvelt verkefni. Hindranir eru óteljandi. Það getur verið erfitt að fá neytendur til að prófa eitthvað nýtt. Eitthvað stórfyrirtækið gæti hafa tryggt sér einhver einkaleyfi til að kæfa samkeppnisaðila í fæðingu. Löggjafinn setur ekki bara sjálfsagðar kröfur til öryggis og gæða heldur gerir hann líka kröfur um allskonar sem skapar engin verðmæti fyrir neinn nema opinbera starfsmenn.

Fjármögnun getur líka verið erfið. Um leið og fyrirtæki þarf að ráða fólk hrúgast yfir það veltuskattar og aðrar opinberar álögur. Himinháir skattar eru af öllum aðföngum, aðkeyptri þjónustu og tekjum. Fjárfestar láta hafa mikið fyrir sér áður en þeir láta fé af hendi rakna til reksturs sem mætir allskyns fyrirstöðum, bæði manngerðum og eðlilegum. 

Ríkið reynir að draga örlítið úr skaðsemi sjálfs síns með hinum ýmsu styrkjum, undanþágum, ráðgjafarþjónustu og átaksverkefnum. Slíkt hefur samt fyrst og fremst þann tilgang að kaupa atkvæði fyrir stjórnmálamenn. Mörg sportafyrirtæki hafa komist á flug án opinberrar aðstoðar og þrátt fyrir neitun við styrkjaumsóknum, meðal annars tvö fyrirtæki sem ég þekki til persónulega. 

Því ber að fagna þegar fyrirtækjum tekst að komast á flug. Það þýðir að stofnendur þeirra geta sennilega átt von á ríkulegri ávöxtun á erfiði sínu, hugvitssemi og drifkrafti. Þeir geta jafnvel vænst þess að verða moldríkir. Þetta er gott mál, og eins og jólagjöf fyrir hagkerfið allt og þar með landsmenn alla. 


mbl.is Íslensk hjól í bandarískar búðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leysa aukin útgjöld öll vandamál?

Þingmenn tala oft eins og þeir hafi aldrei nokkurn tímann á ævinni stigið fæti inn í einkarekið fyrirtæki.

Einkarekin fyrirtæki þurfa oft að eiga við minnkandi tekjur, flótta viðskiptavina, vaxandi rekstrarkostnað, háa kostnaðarliði (eins og markaðssetningu eða þróunarvinnu) og síðast en ekki síst: Samkeppni.

Samkeppnin sker úr um það hvort fyrirtækið haldi velli eða hvort fjármagn leitar í arðbærari rekstur. Samkeppnin heldur stjórnendum á tánum. Samkeppnin sendir skilaboð til keppinauta um hvort pláss sé á markaðinum eða hvort aðrir markaðir séu vænlegri. 

Þegar samkeppnisþátturinn er tekinn af lífi gerist margt slæmt. Fyrirtækið fer á spena einhvers, t.d. ríkisvaldsins eða sérviturs milljónamærings. Það sem aflaga er í rekstrinum heldur áfram að vera aflaga. Útgjöld sem skila sér ekki í aukinni ánægju skjólstæðinga halda áfram að vera til staðar án ávinnings. Lélegir stjórnendur halda störfum sínum.

Ofan á þetta bætist afskiptasemi spenaeigandans. Ríkisvaldið sem speni er t.d. bundinn af allskyns lögum og reglum sem flækja sérhvern ríkisrekstur. Það er erfiðara að ráða og reka en þörf rekstursins kveður á um. Allskyns þungir ferlar eru flæktir inn í daglegan rekstur og hindra gott starfsfólk frá því að sinna vinnu sinni. 

Leysa aukin útgjöld öll vandamál? Nei, alls ekki. Stundum gera þau frekar illt verra en hitt og fela það sem aflaga er. Sóun blómstrar þegar tekjustreymið er að aukast. Þetta dylst jafnvel duglegustu stjórnendum einkafyrirtækja sem hafa þó aðhald samkeppninnar til að styðjast við og hluthafana til að eiga við. Ríkisrekstur á enga möguleika til að nýta fé og fólk með skynsamlegum hætti.

Enga. 


mbl.is „Þurfum að styrkja tekjugrunna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki láta ríkisfjármálin blekkja

Vissulega er íslenska hagkerfið á mikilli siglingu þessi misserin. Atvinnuleysi er nánast ekkert. Kaupmáttur launþega fer vaxandi. Útflutningsgreinarnar eru að standa sig vel. Skatttekjurnar flæða inn í ríkissjóð.

Látum hins vegar ekki blekkjast. Það þarf ekki nema einn stór banki að fara á hausinn einhvers staðar í Evrópu eða Bandaríkjunum til að hrinda af stað sömu keðjuverkun og hausið 2008. Fjármálakerfið er byggt upp á nákvæmlega sama hátt og þá, en skuldirnar eru enn meiri. Spilaborgin stendur á brauðfótum. 

Menn lærðu nákvæmlega ekkert af hruninu 2008. Lexían hefði auðvitað átt að vera sú að leyfa gjaldþrotum að eiga sér stað og skuldum að þurrkast upp og leggja svo niður peningaprentvélar hins opinbera og koma ríkisvaldinu út úr framleiðslu peninga með öllu.

Þetta var auðvitað ekki gert. Þess í stað var seðlabönkunum beitt af enn meiri ákafa til að framleiða falskt góðæri með nýjum peningum á lágum og jafnvel neikvæðum vöxtum. Hinir nýju peningar hafa nú runnið í húsnæðisbólur, hlutabréfabólur, skuldabréfabólur og aðrar eignabólur - bólur sem munu springa. Þeir sem skulda of mikið þegar úthreinsunin fer af stað lenda í vandræðum. Hinir, sem eiga raunverulegar eignir og jafnvel mikið lausafé til að kaupa eignir á brunaútsölu, munu standa betur. Meira að segja þeir sem eiga ekkert en skulda ekkert eru í góðum málum miðað við þá sem skulda mikið en telja sig kannski eiga mikið líka. 

Ekki láta útgjaldagleði stjórnmálamanna og bankamanna blekkja eða villa sýn. Það er aldrei gott að skulda, sérstaklega ekki neysluskuldir, og það fer að koma að leikslokum í núverandi blekkingaleik. 


mbl.is Yfirdráttarheimildir fara lækkandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiturlyfjabannið framleiðir glæpamenn

Hvað gerist þegar eitthvað sem eftirspurn er eftir er bannað?

Jú, áhættan af viðskiptunum eykst.

Hvað þýðir aukin áhætta?

Jú, hærra verð.

Rétt eins og fjárfesting í áhættusömum (og löglegum) rekstri (t.d. í sprotafyrirtæki) ber oft með sér háa ávöxtunarkröfu er fjárfesting í ólöglegum iðnaði veitt með mikilli álagningu.

Hvað þýðir hið háa verð fyrir neytendur? Jú, þeir þurfa að eyða meira!

Hvernig á að þéna betur en launavinnan býður upp á?

Jú, með því að ræna og rupla og jafnvel berja og slá.

Eiturlyfjabannið framleiðir glæpamenn. Í ríkjum þar sem viðhorf yfirvalda gagnvart eiturlyfjum er afslappaðra eru minni líkur á því að fíklar þurfi að stunda glæpastarfsemi til að fjármagna neyslu sína. Þeir geta jafnvel fjármagnað hana með hefðbundnum launatekjum, ölmusa eða bótum.

Fíkill sem er ekki glæpamaður er líka líklegri en ella til að sækja í úrræði til að koma sér úr neyslunni. Hann er síður líklegur til að skulda stórfé til handrukkara og hefur meiri möguleika á að snúa aftur til heilsusamlegra og uppbyggilegra lífernis.

Það ber að afnema bann við framleiðslu, dreifingu, sölu og neyslu eiturlyfja. Allra eiturlyfja!

Eiturlyfjaneysla á ekki að flokkast undir vandamál lögreglu heldur heilbrigðisstofnana og aðstandenda, rétt eins og  og óheilsusamleg neysla á áfengi og lyfjum. 

Eða hver er það nú sem hefur fjárhagslegra og faglegra hagsmuna að gæta að elta óharðnaða unglinga og stinga þeim í steininn? Lögreglan? Stjórnmálamenn? Embættismannakerfið? Ég spyr, því ég veit í alvöru ekki svarið. 


mbl.is Vopnaðir og dópaðir í innbrotshugleiðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir skattar hafa hamlandi áhrif

Nú stendur til að reyna afnema skatt sem ber villandi heiti: Stimpilgjald.

Nafn skattsins gefur til kynna að um sé að ræða einhvers konar kostnað við að stimpla á pappír. Svo er þó ekki. Þetta er hreinn skattur sem skerðir hlut þeirra sem koma að viðskiptum sem bera hann.

Rökin fyrir því að afnema skattinn eru góð og gild. Þau má heimfæra á alla aðra skatta. Allir skattar rýra hlut, draga úr ávinningi, hækka verð, flæma frá og gera viðskipti síður eftirsóknarverð.

Hið sama má segja um ofbeldi. Skattar eru jú ofbeldi.

En þarf ekki að fjármagna ríkið? Jú, vissulega þarf að fjármagna ríkisvaldið (rétt eins og mafíuna). 

Þarf þá ekki að skattleggja? Jú, vissulega þarf að skattleggja (rétt eins og mafían þarf að innheimta sín gjöld af þeim sem eru svo óheppnir að búa á umráðasvæði hennar).

Það sem er hins vegar algjör óþarfi með öllu er að halda úti gríðarlega flóknu skattkerfi sem enginn skilur eitt né neitt í. Fjöldi skatta og gjalda er slíkur að það þarf sprenglærða endurskoðendur til að þræða frumskóginn. 

Flókið skattkerfi hefur rosalega marga ókosti. Heiðarlegt fólk lendir í vandræðum með að borga skatta samkvæmt lögum og er alltaf í hættu að lenda í endurskoðun sem það hefur enga stjórn á eða yfirsýn yfir. Óheiðarlegt fólk finnur gloppurnar og nýtir sér þær. Menn setja upp flókin kerfi með kennitölum og bankareikningum í hinum ýmsu heimshlutum. Skattgreiðendur þurfa að halda úti heilum her af eftirlitsmönnum til að hafa eftirlit með þeim sjálfum, sem eykur enn á skattbyrðina. 

Eini kosturinn við flókið skattkerfi er sá að hið opinbera getur í raun sakfellt hvern sem er fyrir skattalagabrot. Það er t.d. hægt að gera ef einhver traðkar á tær hins opinbera og særir stolt þess. Hið opinbera getur þá blásið í endurskoðun á fjármálum viðkomandi og komist að því að Siggi frændi fékk greitt svart fyrir að skipta um pípulagnir á baðherberginu. 

Hreinlegast væri að byrja upp á nýtt, leggja niður skattalöggjöfina eins og hún leggur sig og setja leggja 5-10% skatt á allt, án undanþága, persónuafslátta og frestunarákvæða. Slíkt fyrirkomulag myndi gera eftirlitsbáknið óþarft, stórbæta svokölluð skattskil, laða fjármagn til landsins frekar en flæma það úr landi og í felur, einfalda rekstur heimila og fyrirtækja, auka gegnsæi skattkerfisins og útrýma lögbundinni mismunun á skattgreiðendum. 

Stjórnmálamenn vilja samt ekki svona einföldun á skattkerfinu því hún myndi fækka mjög möguleikum þeirra til að lofa einum hópi kjósenda fríðindum á kostnað annarra. 

Báknið ver sig líka sjálft og starfsgildi sín. Skýrslur finnast sennilega innan kerfisins sem lofa fegurð hins flókna skattkerfis og allra starfanna sem þarf til að fylgjast með því.

Skattgreiðendur eru sundruð hjörð og samstaða er engin meðal þeirra. Sá sem fær undanþágu frá einhverjum skatti hefur engan áhuga á að hafa hátt um það og missa þá kannski undanþáguna. Hið opinbera nýtir sér þetta samstöðuleysi til að stilla öllum upp á móti öllum öðrum og viðhalda flækjustiginu. 

Vonandi hverfa stimpilgjöldin bráðum, og í kjölfarið eitthvað annað af vitleysunni sem skattkerfið er.


mbl.is Vilja afnema stimpilgjöld við íbúðarkaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig getur stéttarfélag lokað heilu landi?

Vald verkalýðsfélaga er mikið. Löggjafinn gefur þeim ýmsar undanþágur frá hefðbundnum hefðum, venjum og lögum í samfélaginu. Verkalýðsfélög mega t.d. nema úr gildi atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár. Þá getur verkalýðsfélag gefið út að félagsmenn sínir skuli ekki mæta í vinnuna, en geri þeir það þá hefur það afleiðingar. 

Verkalýðsfélög hafa í mörgum ríkjum líka leyfi til að beita ofbeldi, sem má teljast til sjaldgæfra undanþága frá almennum hegningarlögum í vestrænni hefð.

Þau geta bókstaflega gert fyrirtæki gjaldþrota með því að halda starfsfólki frá þeim og flæmt viðskiptavinina í burtu. 

Þau geta svipt sjúklinga meðhöndlun meina sinna. Þau geta tekið draumafríið af fólki. Þau geta dæmt fólk til dauða á skurðarborðum sjúkrahúsanna. Þau geta kallað kvalir og þjáningar yfir almenning. 

Núna stefnir í að eitt verkalýðsfélag ætli að loka landinu fyrir farþegaflutningum. Öll lög og allar reglur sem styðja við slíkt ofríki ber að afnema hið fyrsta.

Samband starfsmanns og atvinnurekenda á að vera tvíhliða samstarf sem byggist á gagnkvæmum samningum. Aðkoma þriðja aðila er með öllu óþörf nema í besta falli sem ráðgefandi. 

Nokkrir fyrirvarar, svo menn séu ekki í vafa:

- Verkföll eru sjálfsagður réttur hvers og eins. Menn mæta þá bara ekki í vinnuna. Atvinnurekandi getur þá samið við viðkomandi eða rekið og ráðið annan.

- Það er sjálfsagt mál að launþegar taki höndum saman í samtökum af hverju tagi. Þau samtök eiga hins vegar ekki að geta starfað eftir öðrum lögum en félagsmenn þeirra.

- Hagfræði verkalýðsfélaga er sú að það sé hægt að knýja á um laun og kjör sem eru önnur og betri en markaðslaun. Sú hagfræði stenst ekki. 


mbl.is Reynt til þrautar að ná saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setjum 114 milljarða í háskólana

Þingmaður nokkur hefur komist að því að hver króna sem stjórnvöld greiða til náms á háskólastigi skili sér áttfalt til baka.

Það blasir því við að ef stjórnvöld eyða 114 milljörðum í háskólanám má greiða upp 911 milljarða skuldir ríkisins á einu bretti. Slíkt sparar skattgreiðendum vaxtagreiðslur. Allir fá háskólagráðu. Er eftir einhverju að bíða?

Jú, bíðum aðeins. Svona reiknikúnstir eru ekki lýsingar á raunveruleikanum. Þær eru talnaleikfimi.

Auðvitað borgar háskólanám sig, en ekki hvaða háskólanám sem er. Þannig er það bara. Danskir fjölmiðlar birta stundum lista yfir háskólanám sem leiðir til lágra launa og atvinnuleysis, eða bæði. 

Dæmi: Disse uddannelser fører til ledighed og lav løn

Hið opinbera reynir líka að upplýsa nemendur um væntanlegt atvinnuleysi og væntanleg laun að námi loknu: Uddannelseszoon

Von hins opinbera er auðvitað sú að nemendur sæki í nám sem leiðir ekki til atvinnuleysis og lágra launa, þ.e. þar sem er ekki offramboð af fólki. 

Á Íslandi er það nánast talið til helgispjalla að efast um nytsemi háskólanáms. Allir virðast himinlifandi yfir því að fólk sé að eyða tíma sínum og fé, og auðvitað fé skattgreiðenda, í tilgangslaus kjaftafög. 

Nei, hver króna sem stjórnvöld greiða til náms á háskólastigi skilar sér ekki áttfalt til baka. Sumt nám er arðbært, annað ekki.


mbl.is Hver króna skilar sér áttfalt til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig lítur Jörðin út án sólarinnar?

Það er örugglega gaman að búa til tölvulíkön. Þau geta stutt við ímyndunaraflið jafnvel þótt það sé mjög fjörugt.

Menn geta séð fyrir sér Grænland án jökulsins eða Jörðina án sólarinnar eða Pétur Pan án grænu húfunnar.

Það má líka nota líkön til að sjá fyrir sér eitthvað aðeins raunhæfari aðstæður, t.d. Grænland með stærri og þykkari íshettu, hafís við strendur Vestfjarða og ísi lagða Thames-á í London.

Heimurinn er að kólna, þvert á spár ákveðins hóps ómarktækra vísindamanna. Kannski fáum við bráðum fréttir af líkönum sem lýsa afleiðingum þess. 


mbl.is Grænland án ísbreiðunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband