Hitastig og jöklar

Hamfarahlýnunin meinta er eitthvað farin að láta bíða eftir sér. Jöklarnir reyna nú að segja veðurfræðingum að taka því rólega en það þarf mikið til þegar bæði fagleg virðing og fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi.

Myndin hér að neðan er tekin úr góðri grein Gunnlaugs H. Jónssonar sem birtist í Fréttablaðinu í febrúar og olli nokkru fjarðafoki (a.m.k. innan Veðurstofu Íslands). Ég er búinn að teikna inn á hana ártöl og tímabil stækkandi/stöðugra (grænt) og minnkandi (svart) jökla úr nýlegri rýni á stærð þeirra. Að vísu er ekkert sagt um tímabilið 1922-1945, en þá var hlýskeið á Íslandi (álíka hlýtt og tímabilið sem við upplifum í dag).

2020-05-06_09-00-56

Með góðum vilja má alveg sjá gott samhengi á milli þróunar á jöklastærðum og meðalhita andrúmsloftsins, sem væri líka mjög rökrétt. Núna er hitastigsferillinn nokkuð flatur og jöklarnir því stöðugir. Tímabilið á undan var tímabil hækkandi hitastigs og þá hörfuðu jöklar. Þar á undan var kalt og jöklar í jafnvægi.

Það sést líka að það er ekkert afbrigðilegt við hitastigsþróunina undanfarin ár samanborið við seinustu 100 ár.

Það sem gæti breytt þessu er minnkandi sólvirkni. Þá geta skotvindar frá heimsskautunum leikið stór svæði grátt í auknum mæli. Samsetning lofthjúpsins hefur hér ekkert að segja.

Hvað sem því líður er gott að fólk fylgist með og láti ekki hræða sig undir pilsfald ríkisvaldsins sem tekur þar vel á móti með kæfandi faðmlagi.


mbl.is Rýrnun jökla lesin af loftmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Robinson Crusoe fékk ekki flensu

Nú fagna menn því að engin ný kórónuveirusmit hafi greinst og telja að þess vegna megi nú opna ýmislegt í samfélaginu aftur.

Þetta er auðvitað mótsögn. Robinson Crusoe fékk aldrei flensu því hann hitti ekkert fólk. Persóna Tom Hanks í myndinni Castaway fékk hvorki flensu né mislinga því hann var aleinn á eyðieyju. Um leið og hann var dreginn um borð í skip fóru veirur að herja á hann og sennilega fékk hann fljótlega kvef því ónæmiskerfi hans var orðið veikburða vegna skorts á áreiti.

Að það hafi ekki greinst smit er ekki vísbending um að það megi opna samfélagið aftur.

Miklu frekar eru rök fyrir opnun þau að nú eigi fólk loksins að fá að smitast, jafna sig og hrinda þessari veiru út úr samfélaginu.

Auðvitað kostar það mannslíf eins og allar aðrar veirur sem hafa komið og farið eða er búið að þróa bóluefni eða lyf gegn eftir því sem reynsla hleðst upp yfir árin (heimatilbúin kreppa getur líka kostað mannslíf).

Það er engin önnur leið fyrir samfélag til að starfa en að veirur fái að koma og fara og sumar að kenna á lyfjum og öðrum lækningum. 

Robinson Crusoe fékk ekki flensu en hann lifði frumstæðu og erfiðu lífi í einangrun. Lífsstíll hans væri sennilega kallaður vel heppnuð aðgerð af yfirvöldum. Gallinn er bara sá að næsta veira er alltaf tilbúin að láta til skara skríða án þess að menn séu tilbúnir með bóluefni og lyflækningar. Alltaf. Og eins gott að sætta sig við það.


mbl.is Ekkert nýtt smit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðleikar og hagfræði

Atvinnurekandi nokkur ákveður að ráða í tvö störf:

1) Ræstitækni, og býður 200 þús./mánuði

2) Forritara í bakvinnslu á hugbúnaðarkerfi og býður 750 þús./mánuði

Í fyrra starfið fær hann 100 umsóknir, og allir umsækjendur eru þannig séð hæfir á meðan þeir hafa hreint sakarvottorð.

Í seinna starfið fær hann 10 umsóknir og metur 5 umsækjendur hæfa.

Stendur hann ekki frammi fyrir ákveðnu vali? Jú auðvitað.

Tökum annað dæmi: Neytandi nokkur stendur fyrir framan búðarhillur og þarf að ákveðna sig:

1) Box af lífrænt ræktuðum jarðarberjum frá Spáni fyrir 2000 kr./100 gr.

2) Dós af niðursuðutómötum frá óskilgreindu landi fyrir 20 kr./100 gr.

Stendur hann ekki frammi fyrir ákveðnu vali? Jú auðvitað.

Þetta gleymist kannski í allri umræðu um kjarabaráttu. Ég er sennilega niðursuðudós meðal þeirra sem vantar mína menntun og reynslu (þéna nokkurn veginn meðallaun þeirra sem falla að mínum starfsaldri og menntun). Næsti maður er kannski lífrænt ræktuð ferskvara. Hvað get ég gert í því? Annaðhvort ekkert eða ýmislegt - það veltur svolítið á sjálfum mér.

Kjarabarátta er ekki bara spurning um að heimta og fá. Hún snýst líka um að sýna fram á verðmætasköpun fyrir þann sem borgar brúsann.

Kannski hafa veirutímar snúið öllu á haus og varpað hagfræðinni fyrir borð, en ég efast.


mbl.is „Metum störf kvenna að verðleikum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar krísan verður varanleg

Stjórnmálaheimspekin er troðfull af bókum sem lýsa því hvernig hið opinbera notfærir sér - viljandi eða óviljandi - krísuástand til að auka völd sín og áhrif varanlega.

Þannig eru fræg orð hagfræðingsins Milton Friedman sem sagði: 

Nothing is so permanent as a temporary government program.

Á Íslandi hefur verið bent á að gjaldeyrishöfin eftir hrunið 2008 hafi lifað í miklu fleiri ár en ástæða var í raun til. 

Í frægri bók Robert Higgs, Crisis and Leviathan, og framhaldsbók hennar, Against Leviathan, er því lýst með óhugnanlegum hætti hvernig neyðarástand blæs út ríkisvaldið og gerir það bæði árásargjarnara, kærulausara og valdameira

Á Íslandi var tækifærið nýtt eftir hrunið 2008 til að skella í allskyns skattheimtu sem hefur ekki horfið aftur, svo sem að bæta í eignaskattinn á gamla fólkið og fjármagnstekjuskattinn á sparifjáreigendur. Það er kannski hægt að hnika einhverjum sköttum niður á við en bara þegar er búið að hækka 3 aðra skatta

Nú er talað um að þenja út friðlýsingar með tilheyrandi aukningu á stofnanaverki ríkisins, setja fjölmiðla á spenann, lána einkafyrirtækjum í klóm verkalýðsfélaga svimandi upphæðir á lágum vöxtum, stórauka fjölda opinberra starfsmanna og auðvitað stofna til opinberra skulda. Hversu hratt verður hægt að vinda ofan af þessu þegar veira hefur gengið yfir samfélagið? 

Það er auðvelt að segja við mann: Gjörðu svo vel, hérna eru bætur. Núna ertu betur staddur en áður.

Allir fagna! Ríkið hjálpar! 

Það er miklu erfiðara að segja: Núna tökum við bæturnar af þér. Við gefum í staðinn eftir þumlung af skattheimtu til að bæta þér upp tekjutapið, en auðvitað ekki að fullu.

Allir púa! Ríkið sviptir menn lífsviðurværinu!

Það er auðvelt að gefa manni fíkniefni. Það er erfiðara að taka þau af honum. Það er auðvelt að þenja út báknið. Það er pólitískt sjálfsmorð að reyna minnka það.

Hérna þarf fólk að spyrna við fótum, gagnrýna stjórnmálamennina og fylgjast vel með þeim. Krísan gengur yfir. Hin opinberu úrræði eiga það til að lifa slíkt af.


Stjórnvöld baða sig í ástandinu

Það dylst vonandi engum að allskyns embættismenn baða sig í athyglinni sem veiru-ástandið veitir þeim. Um leið eru stjórnmálamenn ánægðir með að geta skýlt sér á bak við ókjörna embættismenn þegar kemur að ákvarðanatöku, eins og alltaf. Getur þetta endað öðruvísi en að tímabundið ástand verði að stórum hluta varanlegt? Skattar geta jú aldrei lækkað þegar opinberar skuldir hafa hlaðist upp, fyrirtæki sem komast á spena ríkisgyltunnar komast aldrei út úr neyðarástandinu og allskyns sjóðir sem stofnað er til í neyðarástandi lifa að eilífu. 

Það er kannski ekki meðvitað eða markvisst að stjórnmálamenn sækjast í aukin völd. Þeir eru einstaklingar með allskyns tilfinningar og hvata. Völdin eru hins vegar óendanlega freistandi. Hér má stofna sjóð! Hér má hjálpa til! Hér má veita lán! Hér má koma á úrræði! Sjóðirnir, hjálpin, lánin og úrræðin lifa svo af kjörtímabilið og jafnvel tvö og allt festist í sessi. Eftir 20 ár verður ennþá sótt um lán á Seðlabanka-vöxtum. Eftir 30 ár verður ennþá krafa um að víkja frá skattgreiðslu í ljósi aðstæðna (sjómannaafsláttur II ef svo má segja). Skattahækkanir halda áfram að trompa skattalækkanir, margfalt. 

En hvað er til ráða þegar veira ræðst á samfélagið? Kannski að fylgja ekki alltaf fordæmi embættismanna sem hafa jú, þrátt fyrir allt, faglega hagsmuni sína en ekki heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Og auðvitað að halda áfram að plaga stjórnmálamenn. Þeir eru jú bara að reyna koma í veg fyrir lélegar skoðanakannanir.

Maðurinn í peningaskápnum dó. Ekki láta það sama koma fyrir samfélagið.


mbl.is Metrarnir tveir komnir til að vera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing um heilsu

Ég rakst á svolitla tilvitnun í eldri, einmana mann í Danmörku (í lauslegri þýðingu minni):

Lífið snýst um fleira en að forðast dauðann. Góð heilsa er meira en fjarvera á vírus. Að einblína á heilsuna er í raun og veru óheilbrigt.

Innblástur hins eldri manns voru ummæli dansks sóttvarnarlæknis um að við þurfum að forðast hvort annað í heilt ár í viðbót: Ekki takast í hendur, faðmast, kyssast og hvaðeina.

Hann sá nú fram á að deyja einn í því sem hann líkti við búr í dýragarði. Mannlífið er þarna en óaðgengilegt. Einveran er óbærileg. 

Auðvitað erum við stödd í einni stórri tilraunastofu. Í Danmörku hafa menn aðskilið fólk svo mikið að heilbrigðiskerfið hefur aldrei verið í hættu. Félagi minn í öðrum landshluta sagði mér að á sjúkrahúsunum sæti starfsfólk við borðspil til að fá tímann til að líða með örfáar hræður á deildunum. Í Svíþjóð hafa menn byggt upp gríðarlega getu til að taka við auknum fjölda sjúklinga sem komu svo aldrei, og þar virðast fátækir innflytjendur sem búa þröngt vera helsti áhættuhópurinn fyrir utan þá öldruðu. Í flestum ríkjum hafa menn beinlínis rústað hagkerfum sínum með fyrirsjáanlegum vandræðum langt inn í framtíðina.

Þarf þá ekki sífellt að endurskoða gang mála? Á gamla fólkið að deyja úr einmanaleika frekar en vírus? Eiga börn að flosna upp úr skóla og fjölskyldur að enda á götunni frekar en að taka á sig vírus eða hætta á það?

Er í rauninni verið að feta hinn örugga veg með því að drepa hagkerfið og framleiða fátækt og einmanaleika? Eða er það kannski hin hættulega vegferð?

Ég spyr og vona að aðrir geri það líka.


mbl.is „Hræðilegt ástand“ og óvissa í veitingageiranum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn í peningaskápnum

Fyrir mörgum árum heyrði ég svolitla sögu um mann sem fékk spádóm um það hvenær hann myndi deyja. Til að verja sig gegn slysum og öðrum hættum ákvað hann því að loka sig inni í peningaskáp. Þar kafnaði hann og dó á sama tíma spádómurinn hafði spáð fyrir um.

Spádómurinn rættist með öðrum orðum af því að maðurinn brást við honum með öfgafullum hætti.

Það mætti kannski segja að hagkerfi flestra ríkja heims séu á sömu vegferð.


Gæluverkefnin koma út úr skápnum

Hið opinbera – ríki og sveitarfélög – er með mörg járn í eldinum. Það fjármagnar skólana, spítalana, gatnagerð, landvernd, útsendingar á bandarískum gamanþáttum, sendiráð, ráðherrabíla, atvinnuleysisbætur og svona mætti telja mjög lengi.

Sumir halda því fram að mikið af þessum opinberu umsvifum séu yfirdrifin og krefjist alltof mikillar skattheimtu. Bent er á að einhver verkefna hins opinbera megi hæglega færa í hendur einkaaðila á meðan önnur eru gæluverkefni, bruðl á fé og ber hreinlega að leggja niður.

Í staðinn er þá yfirleitt spurt: Hvaða verkefni hins opinbera eru gæluverkefni?

Um þessar mundir er þessi spurning að svara sér sjálf. Núna er nefnilega verið að forgangsraða í þágu lýðheilsu og heilsugæslu, innviða og almannavarna. Öllum ráðum er beitt til að halda í skefjum vírus sem herjar á heimsbyggðina. Þessi úrræði þarf vitaskuld að fjármagna og þá þarf að setja gæluverkefnin á hilluna. Gæluverkefnin eru með öðrum orðum að koma út úr skápnum.

Gott dæmi um slíkt eru áætlanir um að friðlýsa hið íslenska hálendi og eyða í slíkt stórfé. Þetta verkefni hefur nú verið afhjúpað sem gæluverkefni með því að setja það á hilluna. Umhverfisráðherra hefur greinilega fengið þau skilaboð að nú sé ekki rétti tíminn til að brenna gríðarlega miklu skattfé í gæluverkefni. Peningana þarf að nota í eitthvað mikilvægt, sjáðu til. Það þarf að forgangsraða. Bruðlið þarf að bíða seinni tíma. Gæluverkefnunum þarf að fresta.

Ég vil hvetja fólk til að fylgjast vel með því hvaða verkefnum hið opinbera er að slá á frest þessar vikurnar. Þau eiga það sennilega öll sammerkt að vera gæluverkefni sem hefðu aldrei átt að komast upp úr skúffunni. Þeim ber að fresta – til eilífðar.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu, 15. apríl 2020, og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


Skrifræði ofar læknamati

Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans segir frá því á blaðamannafundi hvernig skrifræðið tálmaði nauðsynlegum viðbrögðum vegna vírus-sjúkdóms. Menn hafi komið auga á lyf en af því tjekk-lista skrifræðisins var ekki fullnægt þá fékkst lyfið ekki. Þegar tjekk-listinn var loksins rétt fylltur út voru engin lyf að fá.

Hvað ætli séu til mörg hliðstæð dæmi þar sem sjúklingur fær ekki möguleg úrræði af því skrifræðið er troðfullt af skilyrðum og hindrunum? 

Og athugið að lykilhugtakið hér er "möguleg úrræði" því það er svo margt sem menn geta aldrei vitað með vissu um sjúkdóma og lyf og því mikilvægt að geta prófað sig áfram til að hraða lærdómsferlinu.

Eru læknar alveg máttlausir í svona aðstæðum? Hver á að fá að ráða?

Í stað þess að hugsa í lausnum er samfélagið sett í spennitreyju sem mun framleiða fátækt og allskyns önnur vandamál en veiru-smit.

Vonandi fær þessi vírus-sjúkdómur okkur til að endurhugsa alla aðkomu ríkisvaldsins að heilbrigðisþjónustu.


mbl.is Lofar góðu en ekki endilega „hið eina sanna lyf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisfé í arðbærar framkvæmdir en hvað með þær óarðbæru?

Fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hef­ur ákveðið að auka við hluta­fé í Isa­via ohf. um 4 millj­arða króna. Ákvörðunin er í sam­ræmi við aðgerðir stjórn­valda við að auka við fjár­fest­ing­ar til að vinna gegn sam­drætti í hag­kerf­inu með arðbær­um fjár­fest­ing­um.

Gott og vel.

En hvað með fjárfestingar í óarðbærum fjárfestingum? Má ekki færa eitthvað af því fé í arðbærar fjárfestingar, gefið að það sé hægt að treysta Excel-líkönum hins opinbera til að ákvarða hvað sé arðbært og hvað ekki?

Það mætti t.d. hætta við að friðlýsa hálendið, blanda plöntuolíum í jarðefnaeldsneyti, leggja niður nefndir, draga ríkisvaldið út úr ýmsum taprekstri (RÚV, Íbúðarlánasjóður, landbúnaðarstyrkir og fleira slíkt) og einkavæða að hluta eða heild eitthvað.

Þá losnar um fé sem má nýta til að fjármagna tímabundnar skattalækkanir vírus-tímanna að eilífu, hægja á skuldasöfnun vírus-tímanna eða hreinlega lækka skatta almennt.

Ef það á að hjálpa hagkerfinu að fjármagna arðbærar fjárfestingar þá hlýtur líka að felast hjálp í að hætta fjármögnun á þeim óarðbæru.


mbl.is Setja fjóra milljarða í Isavia og flýta framkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband