Gæluverkefnin koma út úr skápnum

Hið opinbera – ríki og sveitarfélög – er með mörg járn í eldinum. Það fjármagnar skólana, spítalana, gatnagerð, landvernd, útsendingar á bandarískum gamanþáttum, sendiráð, ráðherrabíla, atvinnuleysisbætur og svona mætti telja mjög lengi.

Sumir halda því fram að mikið af þessum opinberu umsvifum séu yfirdrifin og krefjist alltof mikillar skattheimtu. Bent er á að einhver verkefna hins opinbera megi hæglega færa í hendur einkaaðila á meðan önnur eru gæluverkefni, bruðl á fé og ber hreinlega að leggja niður.

Í staðinn er þá yfirleitt spurt: Hvaða verkefni hins opinbera eru gæluverkefni?

Um þessar mundir er þessi spurning að svara sér sjálf. Núna er nefnilega verið að forgangsraða í þágu lýðheilsu og heilsugæslu, innviða og almannavarna. Öllum ráðum er beitt til að halda í skefjum vírus sem herjar á heimsbyggðina. Þessi úrræði þarf vitaskuld að fjármagna og þá þarf að setja gæluverkefnin á hilluna. Gæluverkefnin eru með öðrum orðum að koma út úr skápnum.

Gott dæmi um slíkt eru áætlanir um að friðlýsa hið íslenska hálendi og eyða í slíkt stórfé. Þetta verkefni hefur nú verið afhjúpað sem gæluverkefni með því að setja það á hilluna. Umhverfisráðherra hefur greinilega fengið þau skilaboð að nú sé ekki rétti tíminn til að brenna gríðarlega miklu skattfé í gæluverkefni. Peningana þarf að nota í eitthvað mikilvægt, sjáðu til. Það þarf að forgangsraða. Bruðlið þarf að bíða seinni tíma. Gæluverkefnunum þarf að fresta.

Ég vil hvetja fólk til að fylgjast vel með því hvaða verkefnum hið opinbera er að slá á frest þessar vikurnar. Þau eiga það sennilega öll sammerkt að vera gæluverkefni sem hefðu aldrei átt að komast upp úr skúffunni. Þeim ber að fresta – til eilífðar.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu, 15. apríl 2020, og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að friðlýsa hið íslenska hálendi kostar ekkert. Það kallar ekki á nein útgjöld fyrr en og ef stjórnvöld vilja, og þá þarf ekki friðlýsingu til. Því var frestað til hausts svo ræða mætti þau aðkallandi mál sem upp eru komin. Þannig að rök þín og ályktanir eru bara bull manns sem lítið veit og heldur mikið.

Vagn (IP-tala skráð) 15.4.2020 kl. 12:45

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er a.m.k. gott að við erum sammála um að friðlýsingar eru ekki aðkallandi mál - raunar svo að það var engin þörf á að stimpla á þetta frumvarp fyrir sumarfríið til að laða fram alla þessa gríðarlegu landkynningar-þætti fram fyrir væntanlega ferðamenn á aðal ferðamannatímanum.

Geir Ágústsson, 15.4.2020 kl. 14:30

3 Smámynd: Geir Ágústsson

"Með hliðsjón af óbreyttum forsendum frá núverandi rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs og friðlýstra svæða 

á miðhálendinu sést að stækkun landsvæðis á hálendinu, sem fellur innan þjóðgarðs, ein og sér mun 

að lágmarki útheimta um 2 milljarða í árlegt rekstrarfé. Er þá ekki miðað við neina þjónustuaukningu 

eða mögulega vanfjármögnun. "

https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=b3fa873b-15d3-11ea-9453-005056bc4d74

Geir Ágústsson, 15.4.2020 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband