Hlýjasta ár sögunnar!

Árið 2023 var hlýjasta ár sögunnar, eða frá því mælingar hófust. Svona byrjar frétt og ekki er það góð byrjun enda hrópandi mótsögn inni í einni og sömu setningunni. 

Þegar víkingar flökkuðu á milli svæða við Norður-Atlantshafið var sennilega hlýrra en í dag. Þeir ræktuðu jörðina og ráku sauðfé um láglendi Grænlands. Þeir ræktuðu korn á Íslandi. Þeir sóttu sér vínþrúgur til Englands. 

Síðan kólnaði og varð að tímabili sem stundum er kallað Litla ísöld í Evrópu. Ekki var það góður tími. Síðar hlýnaði eitthvað og þá varð allt betra.

Núna er mögulega svolítil hitauppsveifla að ná hámarki sínu og vel það því kuldamet eru að falla og ísbreiður að þykkjast, og allt á sama tíma og Kínverjar og Indverjar slá met í kola- og olíunotkun sinni og sífellt fleiri vanþróuð ríki byggja upp orkuinniviði sína með jarðefnaeldsneyti. Það að Vesturlönd séu að skattleggja sig í gjaldþrot til að ná ómögulegu markmiði breytir í hinu stóra samhengi engu.

Háleit markmið um græna orku eru að bráðna samhliða vaxandi kulda. Kjarnorkan er fyrir alvöru komin aftur á borðið. Skaðsemi vindmylla er að verða greinilegri. Orka sem er framleidd með vindi og sól nýtist illa nema hún sé nýtt á sama tíma og hún er framleitt. Þannig þarf að nota rafmagn frá sólarorku þegar það er sem bjartast. Ljósin eru þá kveikt á daginn og slökkt á kvöldin.

Íslendingar luku sínum orkuskiptum fyrir mörgum áratugum með því að virkja vatnsföll og jarðhita. Engu að síður á núna að taka af þeim bílinn í nafni loftslagsbreytinga, og með tíð og tíma líka kjötið, flugmiðana og ódýran innflutning. Þeir láta þetta yfir sig ganga - breytingarnar taka langan tíma og rétt eins og froskur sem er rólega soðinn lifandi þá taka menn ekki eftir neinu. Fyrr en auðvitað að það verður of seint, eins og í tilviki bænda í Hollandi og Þýskalandi og á Írlandi. Blaðamenn nenna ekki einu sinni að segja frá þjáningum þeirra, hvað þá hlusta á þá.

Árið 2023 var kannski hlýjasta ár sögunnar, og sagan í því samhengi þá skilgreind sem nokkrir áratugir af hitastigsmælingum. Áfram byggja ríki upp sína innviði og sjúga inn í þá óheyrilegu magni af jarðefnaeldsneyti. En núna eru teikn á lofti um kólnun og því ekki góð hugmynd að losa sig við traustan bensínbíl og sitja fastur í dauðum rafmagnsbíl. Nei, það þarf stærri bensíntanka, ekki minni, og meiri olíu, ekki minni.


mbl.is 2023 hlýjasta ár sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar allt lítur vel út á tölvuskjá

Ég hef ákveðinn skilning fyrir því að það sé auðvelt að telja sig hafa hannað hina fullkomnu lausn þegar einu gögnin eru þau í tölvu og eina niðurstaðan er á tölvuskjá. Þannig verður grár himinn að bláum, vindurinn er vitaskuld ósýnilegur og hækkuð skattprósentan leiðir til aukinnar skattheimtu.

En þetta er auðvitað nokkurn veginn gagnslaus aðferðafræði ef ætlunin er í raun sú að spá fyrir raunverulegum afleiðingum hönnunar.

Þetta veit ég af biturri reynslu. Þá reynslu reyni ég að nýta mér. Stundum þarf að byrja í tölvunni en á einhverjum tímapunkti að kíkja út um gluggann. 

Þeir sem telja sig ekki bundna af raunveruleikanum hafa samt ákveðið forskot. Þeir geta selt draumsýn og tálsýn með því að sitja við tölvuskjáinn eingöngu. Þeir geta sagt: Ef þú hækkar skatta á áfengi þá hækkar skattheimtan - enginn mun leita annarra leiða til að fjármagna sopann. Ef þú hannar göngugötu sem virkar bara í sumarlogni undir heiðskýrum himni þá sýgur hún fólk að sér og enginn bregst við láréttri rigningu í hávaðaroki, enda var ekkert slíkt í gangi á tölvuskjánum.

Það er ekki við sölumennina að sakast. Kaupendurnir eru miklu sekari.

Um leið ráða þeir yfir peningakassanum, sem er oftar en ekki fjármagnaður af skattgreiðendum.

Þannig hef ég til að mynda heimsótt opnar og breiðar göngugötur Hafnartorgs í Reykjavík og fundið þar fáar manneskjur sem voru ekki ferðamenn í leiftrandi lituðum útivistarfötum. Þetta leit vel út í tölvunni samt!

Það þarf kannski að vara aðeins við tálsýn tölvuteikninga á veðurbarinni eldfjallaeyju. Reiknilíkön skattheimtufólksins þarf kannski að endurskoða líka.

Kíkjum út um gluggann stöku sinnum. Það er það sem ég er að reyna segja.


mbl.is Svona gæti Austurstræti litið út sem göngugata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælin sem aldrei urðu eða voru rekin af fasistum

Það er athyglisvert að fylgjast með stóru fjölmiðlunum þessa dagana. Ég er búinn að heimsækja heimasíður margra þeirra í dag. Þeir eru allir sammála um að segja ekki frá umfangsmiklum mótmælum bænda í Þýskalandi, sem stífla nú þjóðvegi og heilu miðbæina með vinnutækjum sínum. Ekkert að frétta, væntanlega.

Hin þýska DW getur auðvitað ekki komist hjá því að fjalla um ástandið og miklar áhyggjur þýskra ráðherra af ástandinu, en vilja gera fasista ábyrga fyrir öllu, auðvitað. Yfirvöld eru jú flekklaus og fasistar og hægri-öfgasinnar skyndilega svo áhrifamiklir að þeir geti flæmt bændur af ökrum sínum og inn á vegi og inn í miðborgir.

Þetta minnir á bændamótmæli Hollands fyrir ekki löngu síðan, og mótmæli vöruflutningabilstjóra í Kanada á veirutímum. Frá öllu þessu sögðu fjölmiðlar ekki en ef þeir gerðu það þá var það til að útskýra hlutverk fasista, föðurlandssvikara og samsæriskenningasmiða. 

Brandarinn er samt búinn, kæru fjölmiðlar og svokallaðir virðingaverðir stjórnmálamenn. Viðsnúningurinn er hafinn. Og hann er ekki í boði fasista. Hann er í boði borgara.


Allt í nafni útblásturs

Af hverju eru orkureikningar víða að hækka í verði?

Af hverju er matur víða að hækka í verði?

Af hverju eru flugmiðar að hækka í verði? 

Af hverju kostar í sífellu meira að setja bensín á bíl eða hreinlega kaupa bíl?

Svarið er í öllum tilvikum það sama: Grænir skattar sem eiga að breyta veðrinu.

Þetta vissum við, en ekki vissi ég að flugvélar þurfi nú að vera matar- og vatnslausar til að koma í veg fyrir breytingar á veðri, nema það sé bara afsökun? Með orðum upplýsingafulltrúa flugfélags:

Þá segir Guðni ennfremur að reynt sé eftir fremsta megni að meta þörfina fyrir hvert flug en um leið er lagt áhersla á að bera ekki meiri vörur en þeir þurfa til þess að stuðla að minni eldsneytisnotkun og þar með minni kolefnislosun.

Við erum að spara peninga með því að lágmarka eldsneytisnotkun - þess vegna mega farþegar okkar vera svangir og þyrstir svo tímunum skiptir.

Með því að bera við kolefnislosun vonast hann til að sleppa við frekari skammir. Og sennilega virkar sú aðferðafræði því margir trúa því í raun að mannkynið sé að breyta veðrinu með því að brenna jarðefnaeldsneyti.

Auðvitað skil ég vel að flugvélar sem eru léttar brenna minna eldsneyti en þær sem eru þungar og að það bitni á verðmiðanum. Hérna þarf auðvitað að gæta jafnvægis. Það má samt ekki gleyma því að farþegar eru að borga fyrir flugmiða í þunga flugvél - flugvél fulla af vatni, mat og bjór. Að fljúga henni án vatns, matar og bjórs eru því vörusvik.

Annars þarf ég að fara tileinka mér þetta kolefniskjaftæði sem afsökum fyrir hinu og þessu. 

Styrkja Rauða krossinn? Nei, þeir losa of mikið kolefni með hjálparsendingum sínum.

Aðstoða nágranna minn með ruslið? Nei, sjáðu bara kolefnisfótsporið í neyslu hans!

Láta gott af mér leiða? Nei, miklu frekar að spara kolefnisfótspor mitt með því að ég eyði laugardegi á náttbuxunum heima.

Nei, auðvitað fer ég ekki að láta svona. Um leið finnst mér við hæfi að segja að þeir sem vilja draga úr kolefnisfótspori mannkyns séu óvinir mannkyns, og engir vinir flugfarþega.


Skiptir litlu máli hver er ráðherra, nema mögulega fjármálaráðherra

Núna er mörgum heitt í hamsi yfir því að ráðherra matvæla hafi brotið lög með því að banna atvinnustarfsemi. Kallað er eftir ábyrgð, afleiðingum og afsögn. Sagt er að annars springi stjórnin. Vantraustsyfirlýsing er í undirbúningi. Mál málanna!

En ég vil hryggja þá sem eru reiðir og svekktir. Það skiptir engu máli hver er ráðherra matvæla eða hvað það kallast. Hver er ráðherra RÚV eða ráðherra loftslags. Ekki í dag. Ríkisstjórnin er límd saman á því samkomulagi að hver flokkur fái að halda úti sínum litla ráðherrahópi sem fái að brenna eins og sinueldur í gegnum reglur, lög og ríkissjóð til að fjármagna eigin kosningabaráttu.

Mögulega skiptir bara máli hver er fjármálaráðherra og heldur á veskinu, en það er jafnvel vafasamt líka því veskið er einfaldlega galopið og þarf að vera það til að allir fái að halda völdum og koma í veg fyrir að Samfylkingin sigri kosningar.

Kannski væri ástandið öðruvísi ef stjórnmálin snérust minna um að ná og halda völdum og meira um að berjast fyrir hugsjónum, en núna hljóma ég eins og einhver stuttbuxnadrengur í Heimdalli sem var, en er ekki.

Mín hvatning gengur út á að færa aðeins orkuna til: Frá því nákvæmlega hvaða persóna er að kveikja í skattfé og að því að taka eldspýtustokkinn af öllum ráðherrum. Um leið má vona að fjármálaráðherra fái leyfi stjórnarliða til að loka veskinu. Það er jú tómt, ef undan eru skilin kreditkortin. Allt þetta virkar svo ekki nema fjármálaráðherra standi í lappirnar og hugleiði eigin orð, í nýlegu viðtali:

Ríkið á fyrst og fremst að sinna grunnþjónustu samfélagsins, kjarnanum. Og sinna henni almennilega. Öðru eigum við að leyfa öðrum að finna út úr og sinna ...

Sjáum hvað setur.


Skólpið og þeir sem vilja ekki fljóta með því

Um daginn hlustaði ég á mjög skemmtilegt hlaðvarp þar sem var meðal annars rætt um innsæi hinna ýmsu álitsgjafa og stjórnmálamanna og hvort þetta fólki hitti naglann á höfuðið í fyrstu tilraun eða þurfi að skipta um skoðun síðar. Þannig var Joe Rogan hrósað fyrir að vera hæfilega tortrygginn á meðan Ben Shapiro var gagnrýndur fyrir að byrja yfirleitt á vitlausri nótu en sjá svo að sér seinna.

Þetta fékk mig til að hugleiða dægurmálaumræðuna á Íslandi. Hverjir hafa ítrekað sýnt og sannað að þeir láti ekki skola sér eins og skólpi út í sjó nýjustu þvælunnar, og hverjir eru stoltir meðlimir á sama skólpi?

Það blasir við að Sigríður Andersen er meðal þeirra sem hafa fyrir því að móta sjálfstæða hugsun og taka afstöðu á eigin forsendum (í flestum tilvikum en ekki öllum - hún hefur til að mynda engar áhyggjur af því hvað tekst að gera mörg börn föðurlaus á Íslandi). Af þeim ástæðum lifði hún ekki af íslensk stjórnmál.

Á sínum tíma var Sigmundur Davíð líka duglegur að hugsa út fyrir þrönga girðingu rétthugsunarinnar. Sá hæfileiki dofnaði að vísu töluvert á veirutímum en er mögulega að snúa aftur. Flokksbróðir hans Bergþór Ólafsson sýnir einnig góða takta á köflum. 

Dæmi um einstakling sem fellur í allar gildrur er fjölmiðlamaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson og nánast allir hjá Ríkisútvarpi Útvaldra Viðhorfa (RÚV). 

Þeir sem hitta kerfisbundið ekki naglann á höfuðið í fyrstu tilraun eiga ekki að njóta trausts. Það geta allir skipt um skoðun þegar öll gögn eru komin á borðið, svo sem eins og í tilviki bólusetninga gegn veiru og svokallaðrar hlýnunar Jarðar af mannavöldum, en slíkir sauðir leiða hjörðina á villigötur. Miklu betra er að sækja í forystusauði sem grípa boltann í fyrstu tilraun eða allt að því. Um leið er úrval slíkra sauða mun minna en hinna sem tilheyra skólpinu. 

Margir prófsteinar á þá sem vilja kalla sig forystusauði liggja nú fyrir. Fyrir þá sem geta mótað eigin hugsanir liggja í því tækifæri. Kjósendur eru víða farnir að hafna glópunum. Hver ætlar að hrista af sér hræðsluna við blaðamenn og vísindamenn á spena hins opinbera og vera í boði þegar íslenskir kjósendur ranka við sér (mögulega í rafmagnslausum bíl eða á hjartadeild eftir bólusetningu)?

Eða munu íslenskir kjósendur einhvern tímann gera það? Er kannski enginn markaður fyrir raunverulega og hugsandi leiðtoga? 

Sjáum hvað setur.


Að kæfa atvinnufrelsið: Daglegt brauð

Ráðherra bannaði fyrir ekki löngu síðan atvinnustarfsemi. Allir vissu í raun að það var ólöglegt en núna hefur það loksins verið skrifað í álit.

Sumir hafa kallað eftir afsögn þess ráðherra en það virðist bara vera undir þeim ráðherra komið. Ráðherrastarf er vel launað - af hverju að segja sig frá því?

Í stærra samhenginu sést auðvitað að ráðherrar geta bannað hvað sem þeir vilja og nema því sé mætt með mótmælum, kærum og látum að þá kyngja því allir. Veirutímar voru löng runa af ráðherrum og embættismönnum þeirra að banna atvinnustarfsemi, skólastarf, félagsstarf, kirkjustarf, ferðalög og jafnvel brúðkaupsveislur, og er þá upptalningin frekar takmörkuð.

Skilur fólk ekki að stjórnarskráin og lögin eru bara dauður pappír nema venjulegt fólk veiti yfirvöldum aðhald?

Það er ekki hægt að treysta yfirvöldum fyrir réttarríkinu - því að það gildi lög sem lýsa því skýrt hvað má og hvað má ekki.

Það er ekki hægt að treysta ráðherrum, embættismönnum, dómurum, sýslumönnum og lögreglumönnum - það þarf í sífellu að minna svona fólk á lögin og mannréttindin. 

Réttarríkið byggist ekki á texta á pappír og fínum titlum. Það byggist á því að fólk sé á verði og vakandi yfir tilraunum hins opinbera til að kæfa, svæfa og slæva frjálst samfélag. 

Það kemur ekki á óvart að ráðherra sem tók atvinnustarfsemi í sambandi fái að sitja áfram. Íslendingar létu kúga sig í 2 ár til að forðast veiru. Þeir eru góðir læmingjar. Þeir eiga fáa góða stjórnmálamenn. Þeir trúa ennþá á fjölmiðla. En ég sé bresti í þessari trúgirni og vona að þeir verði sem hraðast að stórum sprungum sem fá hana til að hrynja, gjarnan á einni nóttu.

En í millitíðinni er gott að tileinka sér lífsstíl þar sem réttlætiskennd og samviska er ríkjandi hugarfar, frekar en bara það að fylgja seinustu fyrirmælum yfirvalda. 


mbl.is Kallar eftir afsögn matvælaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnám skattheimtu

Þau eru ekki öll þingmálin sem rata í fjölmiðla. Það er góð ástæða fyrir því: Flest eru eitthvað drepleiðinlegt kjaftæði sem breytir engu fyrir engan en er frekar líklegra en hitt til að þenja út báknið.

Ég rakst þó á mjög jákvæða tilbreytingu á þessu: Frumvarp 678/154 um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Frumvarpið er lítið og létt og ætti því ekki að stranda í nefndarvinnu eins og önnur góð mál:

1. gr.
Í stað orðanna „16 ára“ í 6. gr., 1. og 5. mgr. 58. gr. og 64. gr. kemur: 18 ára.

2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Hérna er sem sagt verið að leggja til að afnema heimtu tekjuskatta á ólögráða einstaklinga. Ekkert er sjálfsagðara finnst mér. Hér er um leið verið að tala um algjört afnám skattheimtu á laun þessara einstaklinga, eða eins stóra skattalækkun og hægt er að hugsa sér.

Sjálfsagt er að nafngreina þau sem standa að þessu góða frumvarpi:

Flm.: Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason.

Nú er að vona að blaðamenn fylgist með málinu og sjái hvort þetta frumvarp nái fram að ganga og hvernig atkvæði falla: Hvaða þingmenn vilja kreista nokkrar krónur úr vösum duglegra 16-17 ára krakka og hverjir ekki.


Kjaraviðræður og tækifæri til tiltektar

Núna standa svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins, sem einhvern veginn eru bara einhver samtök en ekki einstaklingar, í samningaviðræðum um svokallaða kjarasamninga, þ.e. launataxta og annað sem fólk er flokkað niður í, byggt á fjölda starfsára, námskeiða og háskólagráða.

Gott og vel, þetta er skipulag sem Íslendingar hafa valið að nota og skapar reglulega mikil vandræði fyrir alla.

Hið jákvæða er að margir af þessum svokölluðu aðilum vinnumarkaðarins hafa ákveðið að reyna semja skynsamlega og til lengri tíma í sameiginlegri baráttu gegn verðbólgu og óstöðugleika á vinnumarkaði.

Nema Sameyki og BSRB, sem eru samtök sem rúma opinbera starfsmenn (og enga aðra, að mér skilst).

Þar á bæ eru menn í fýlu:

Ekk­ert sam­ráð hef­ur verið haft við heild­ar­sam­tök op­in­berra starfs­manna í tengsl­um við þess­ar viðræður. „Mér vit­an­lega hef­ur eng­inn gert það, hvorki þess­ir aðilar, rík­is­stjórn­in né sveit­ar­fé­lög­in,” seg­ir hann. „Ég held að ekki nokk­ur maður hafi tekið upp sím­ann til að ræða við einn eða neinn á þeim vett­vangi.“

Hvað er þá til ráða? Vilja opinberir starfsmenn enn eina launahækkunina með tilheyrandi stökkbreytingu á útgjöldum ríkisins og auðvitað lífeyrisskuldbindingum? Meðlimir Sameykis þurfa jú að hafa efni á fluginu í sumarhús Sameykis á Tenerife og Alicante!

Hérna leynist mögulega tækifæri. Ímyndum okkur að allir meðlimir Sameykis og BSRB fari í verkfall. Hvernig bitnar það á venjulegu fólki, skattgreiðendum? Þar sem slíkt bitnar á skattgreiðendum: Er hægt að útvista þeim störfum - bjóða þau út? Einkavæða hlutverkin? Þar sem verkfall bitnar ekki á skattgreiðendum: Má ekki leggja niður slík störf?

Verkfallshótanir afhjúpa nefnilega þau störf sem þarf að vinna og þau sem skipta engu máli og geta horfið - hverjir skipta á rúmum hótela og hverjir vinna við að færa pappíra frá einu skrifborði til annars. Það blasir við að hið opinbera þarf að minnka og Sameyki og BSRB hafa á að skipa fólkinu sem þarf að lenda undir niðurskurðarhnífnum. Eða eins og fjármálaráðherra sagði nýlega í viðtali:

Ríkið á fyrst og fremst að sinna grunnþjónustu samfélagsins, kjarnanum. Og sinna henni almennilega. Öðru eigum við að leyfa öðrum að finna út úr og sinna ...

Einnig:

Óbreytt staða er oft einhvern veginn auðveldari pólitískt og það er ekki sérstaklega kallað eftir því af nægilega mörgum að draga úr eða halda aftur af ríkisútgjöldum. En ég segi fyrir mitt leyti, það er almenn kurteisi að fara vel með annarra manna fé.

Núna er kominn tími til að standa við stóru orðin, sýna kurteisi, taka óþægilegar pólitískar ákvarðanir og verja fé skattgreiðenda gegn sóun.

Og sem svolítil rúsína á pylsuendann: Ríkið gæti sagt við aðila vinnumarkaðarins (þá sem vinna raunveruleg og verðmætaskapandi störf) að sparnaðurinn við brottrekstur hundruða og jafnvel þúsunda opinberra starfsmanna geti orðið að skattalækkunum á laun venjulegs fólks. Hver veit nema Efling og ASÍ fari þá allt í einu að stinga upp á því hvaða opinberu starfsmenn mega fjúka! 

Tveir fyrir einn og allir vinna (líka opinberir starfsmenn sem missa vinnuna - það er nóg af störfum sem framleiða verðmæti en geta ekki keppt við sumarhús Sameykis á Alicante).


mbl.is Standa utan sáttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almannakvarnir ríkisins

Þetta gengur ekkert betur hjá þeim núna en á veirutímum að verja almenning. Almannakvarnir ríkisins, sem mala almenning, eru ýmist á eftir áætlun eða með ranga forgangsröðun, ítrekað og jafnvel kerfisbundið.

Í kvörninni sitja núna Grindvíkingar sem héldu mögulega að einhvers konar hamfaratryggingar næðu til þeirra en í staðinn var það bara pappírsvinna og bið. Bið eftir gjaldþroti jafnvel. Eða taugaáfalli. 

Á tímabili var Grindvíkingum bannað að fara heim til sín. Þeir hótuðu lögsókn og þá hurfu þær takmarkanir. Kannski hefði mátt enda veirutíma fyrr með svipaðri aðferðafræði. Kannski þarf að lögsækja ríkið til að leysa út tryggingafé sem er svo auðvitað löngu horfið í bruðl hins opinbera.

Á eldfjallaeyju sem lendir í brjáluðu roki, brotsjó og snjóflóðum er ekki til ein króna í varasjóði til að hjálpa fólkinu í landinu. Ekki ein. 

Almannakvarnir ríkisins ættu mögulega bara að leggja upp laupana. Björgunarsveit skipuð sjálfboðaliðum gerir eflaust meira fyrir fólk, enda á staðnum en ekki á bak við eitthvað púlt á sjónvarpsskjá í miðri borg.

Ég óska Grindvíkingum svo sannarlega góðs gengis í baráttu þeirra við bæði náttúröflin og yfirvöldin, þar á meðal Almannakvarnir ríkisins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband