Laugardagur, 27. janúar 2024
Allir eru fordómafullir og þú hefur upplifað það
Um daginn rakst ég á athyglisverðan viðtalsbút við annan stjórnenda hlaðvarpsins Triggernometry, Konstantin Kisin. Bútinn má sjá hér en mér finnst við hæfi að þýða allt sem hann sagði í honum:
Þeir gerðu tilraun með hóp kvenna. Þeir máluðu ör á andlit þeirra. Og þeir sögðu þessum konum að þær væru að fara í atvinnuviðtal. Og að tilgangur tilraunarinnar væri að komast að því hvort fólk með andlitslýti mætti mismunun/fordómum. Þeir sýndu þeim örin í spegli. Konurnar sáu sig með örin og í þann mund sem var verið að leiða þær út úr herberginu var þeim sagt að það þyrfti aðeins að fínpússa örin. Og á meðan þessi fínpússun átti sér stað voru örin fjarlægð alveg.
Svo konurnar fóru í atvinnuviðtalið, haldandi að þær væru með ör en voru í raun eins og venjulega.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru að þegar konurnar komu úr viðtalinu þá tilkynntu þær um gríðarlega aukningu á mismunun. Margar sögðu jafnvel frá því að þeim hafi fundist að sá sem tók viðtalið hafi gert athugasemdir sem vísuðu til andlitslýtis þeirra.
Þess vegna tel ég að þessi hugmyndafræði fórnalambavæðingar sé svona hættuleg því ef þú predikar endalaust til fólks að við séum öll kúguð að þá fái það fólk til að leita að ummerkjum þess.
Sterk orð sem ég hef tekið til mín. Ekki bara í því hvernig ég held að aðrir séu að hugsa um mig heldur líka í því hverju ég tek eftir í útliti annarra og hvort það hafi áhrif á skoðun mína á viðkomandi. Og auðvitað í því hvort það sé búið að takast að forrita mig í fórnarlambamenninguna, sem myndi þá þýða að ég þyrfti að spyrna við fótum.
Niðurstaða mín í bili er sú að mér er drullusama hvernig fólk lítur út og af hvaða kyni það er í mannlegum samskiptum og viðskiptum í daglegu lífi, en sé vakandi fyrir ummerkjum þess að viðkomandi sé að sóa tíma mínum og orku (andlega og líkamlega).
Þar með er ekki sagt að fólki sé ekki mismunað. Mismunun á sér stað svo sannarlega! En það er mögulega hjálplegt að aðgreina á milli raunverulegrar mismununar og þeirrar sem heilinn á okkur framleiðir eftir mikla mötun frá fjölmiðlum og áhrifavöldum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 27. janúar 2024
Þegar ný menning leysir þá gömlu af
Ég bý í Kaupmannahöfn (þannig séð) og hef gert í næstum því 20 ár. Ég hef séð hvernig sum svæði eru miklu frekar hliðarsamfélög en hluti af samfélaginu í heild sinni. Það eru ekki sérstaklega góð svæði. Þar hafa yfirvöld þjappað í stór fjölbýlishús fólki sem talar ekki dönsku, er ómenntað og atvinnulaust og auðvitað á bótum, og er þó jafnvel af annarri eða þriðju kynslóð innflytjenda. Glæpatíðnin er há og Danir vita að þangað sendir maður ekki börn sín eftir sólsetur og jafnvel ekki í dagsbirtu nema þá í hópum.
Núna sýnist mér slík hliðarsamfélög vera að myndast á Íslandi og valda miklum vandræðum. Hælisleitendur herja á krakka og fullorðna og gera sum svæði hættuleg. Þar á meðal skóla.
En gott og vel, menn misstu sig aðeins í gleðinni við að moka fólki frá fjarlægum mennningarheimum inn í landið og núna verður tekið á því, ekki satt? Mögulega með því að senda þessa hælisleitendur úr landi en að minnsta kosti að hrúga þeim ekki inn í íslenska framhaldsskóla þar sem þeir standa í hótunum við nemendur og jafnvel barsmíðum á þeim.
Væri ekki bara eðlilegt að spóla aðeins til baka og hugsa hlutina upp á nýtt? Jú, auðvitað.
En hvað gera menn þess í stað? Ekkert! Og jafnvel nokkuð enn verra: Reyna að þagga niður í íbúum, foreldrum og nemendum framhaldsskóla eða kalla þá lygara og taugaveiklaða!
Dæmin eru svo mörg að ég næ ekki að fara út í það en á hlaðvarpinu Norræn karlmennska hefur þetta verið tekið fyrir af nokkurri nákvæmni og forsprakki þess heldur áfram að reyna vinda ofan af áróðrinum á fjésbókarsíðu sinni. Þar skrifar hann meðal annars:
Ég hef fengið töluvert af skilaboðum eftir að þátturinn birtist, frá foreldrum af svæðinu sem segja að þetta sé búinn að vera hálfgerður vígvöllur síðan skólaár hófst vegna þessara sömu aðila og hér á að vera um að ræða. Til að sjá slíkt þarf bara að grafa upp nokkrar gamlar fréttir af svæðinu og sjá að það er ekki allt með felldu.
Til að setja hlutina í smá samhengi þá byrjaði ég að fá skilaboð frá fólki vegna ljósmyndar sem birt var af hælisleitanda sem elti 14 ára stelpu heim að dyrum og náðist á dyrabjöllu-myndavél sem sett hafði verið þarna vegna þess hversu slíkt væri orðið algengt, en þetta gerðist á Ásbrú. Ég fékk skilaboð frá fólk sem segist ekki lengur fara út í búð þar, frá fólki sem vinnur við þjónustu sem segir ástandið þar skelfilegt, fólki sem vinnur við opinberar stofnanir þar sem hefur svipaða sögu að segja og að ástandið þar sé vægast sagt skelfilegt líka.
Ég minnist á þetta vegna þess að þetta fólk á það flest sameiginlegt að segjast hafa reynt að hafa samband við fjölmiðla til að benda á ástandið en að þau tali fyrir daufum eyrum og að þó lögregla skipti sér stundum eða jafnvel oft af þeim að þá sé þeim alltaf sleppt án afleiðinga. Áreitni við ungar stelpur þar er samkvæmt þessu fólki, orðin of mikil til að þær þori í strætó, svo dæmi séu nefnd. En þessi mál fá sömu meðferð hjá fjölmiðlum og að því er virðist, lögreglu. Sem er: algjör þöggun.
Ég hef fengið mjög truflandi myndb0nd af þessum hópi að ráðast mjög harkalega á nemendur fyrir utan skólann. Mjög harkalega. Mér eru að berast frekar sláandi myndbönd frá Ásbrú meðfram sögunum.
Það er eitthvað mikið myglað og rotið hér á ferðinni. Á örfáum mánuðum er verið að búa til hliðarsamfélag á Íslandi þar sem gilda hreinlega önnur lögmál en Íslendingar eiga að venjast - önnur og verri lögmál. Fjölmiðlar þagga niður í frásögnum fólks af þessu (að sjálfsögðu samt ekki Fréttin.is sem stendur sig hérna eins og oft áður). Lögreglan gerir ekkert nema róa leikinn og lætur sig svo hverfa á ný. Það er undir einum manni úti í bæ að afhjúpa ástandið.
Og allt til þess að verja gjaldþrota stefnu í málefnum hælisleitenda. Gjaldþrota, en á kostnað venjulegs fólks.
Þetta er alveg magnað.
Ég vona að þessari hræðilegu þróun verði snúið við sem fyrst.
Föstudagur, 26. janúar 2024
Regluverkið til bjargar bákninu
Íslendingar eru þjóð sem hefur í meira en þúsund ár ekki bara haldið lífi á vindblásinni eldfjallaeyju við heimskautsbaug heldur tekist að skapa eitt besta samfélag í heimi á því skeri. Þetta hafa þeir getað af því þeir hafa hugsað í lausnum, sem er andstæða þess að festa sig í vandamálunum. Þetta gera þeir sjaldan betur en þegar náttúran ógnar mannlífinu. Í Vestmannaeyjum var sjó sprautað á flæðandi hraun og núna eru reistir varnargarðar í kringum byggðir og orkuver til að stöðva hraun og breyta stefnu þess, og hefur hreinlega gengið vel. Snjóflóð eru líka tamin með varnargörðum sem eru ekki lítil mannvirki.
Þetta geta Íslendingar og gera þegar þeim er ekki haldið niðri af regluverkinu, eins og mjóum unglingi í júdóglímu við spikfeitan, fullorðinn karlmann.
En væri þá ekki ráð að jafna leikinn? Jú, auðvitað. En þróunin er í öfuga átt. Bráðum verður búið að hlaða hópi spikfeitra karlmanna á unglinginn og hann kafnar til dauða.
Ef núverandi regluverk væri við lýði en árið er 1970 væru Íslendingar þá búnir að virkja Sogið og reisa Búrfellsvirkjun? Reisa háspennulínurnar frá hálendinu? Eða koma á laggirnar hitaveitu? Kannski, en kannski ekki. Og við getum gleymt því að á Íslandi væri hreindýrastofn.
Í dag tekst ekki einu sinni að gera það sem þarf augljóslega að gera og er fyrir löngu byrjað að bíta fólk og fyrirtæki á sársaukafullan hátt. Nema ef það er eldgos eða snjóflóð. Þá bráðnar regluverkið í burtu og menn geta hafist handa.
Regluverkið er auðvitað ekki hannað til að vernda umhverfið, stuðla að sjálfbærum lausnum, verja líf og heilsu fólks eða passa upp á velferð dýra. Það er hannað fyrir báknið og kemur því til bjargar ef einhver stjórnmálamaður þykist hafa umboð til að skera aðeins í það eða mjaka því aðeins til hliðar í nafni almannahagsmuna.
Fimmtudagur, 25. janúar 2024
Að segja ekkert með því að segja eitthvað
Segjum sem svo að ég væri grænmetisæta af verstu gerð: Sú sem setur sig á siðferðislega háan stall, getur ekki haldið kjafti um mataræði sitt og fordæmir um leið mataræði annarra. Boðar að dýraafurðir séu ekki bara óhollar heldur hreinlega af hinu illu. Kjötætur séu mannætur. Bændur séu þrælahaldarar. Skammar jafnvel ömmu sína fyrir að vilja kjötsneið í matinn.
Segjum sem svo að ég sé af þessari tegund grænmetisæta en um leið íslenskur stjórnmálamaður.
Hvernig myndu blaðagreinar mínar líta út?
Myndi ég segja hreint út að bændur væru djöflar í mannsmynd og að dýr þeirra séu þrælar í ánauð, pyntaðir til afþreyingar?
Nei. Ég myndi sennilega leggja góða lykkju á leið mína og tala um aumingja Búkollu. Ég myndi sennilega reyna að tengja mataræði ekki-grænmetisæta við allskyns kvilla. Ég myndi tala um loftslagið. Ég myndi segja allt nema það sem ég meina: Bönnum kjötát.
Slíka grein, en um annað málefni, má í dag lesa á Visir.is. Þar er í löngu máli sagt að Íslendingar eigi ekki að virkja til að afla sér meira rafmagns, og það þrátt fyrir orkuskortinn sem nú þegar þjakar Íslendinga og mun bara versna, hratt.
Þarna er boðskapurinn orðaður á alla mögulega vegu aðra en að segja hann einfaldlega hreint út. Eitthvað um gróðafyrirtæki og forgangsröðun.
Er þetta hluti af íslenskri umræðuhefð? Mér sýnist það. En köllum nú bara hlutina sínum réttu nöfnum og minnum okkur á að á hinu háa Alþingi eru einstaklingar sem styðja baráttu liðsmanna Vinstri-grænna innan stjórnsýslunnar til að standa í vegi fyrir öflun frekara rafmagns fyrir Íslendinga.
Og í gvuðanna bænum hættið að kjósa svona lið í framtíðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 24. janúar 2024
Kaffistofan og skynjarinn
Þegar ég les fréttir um getuleysi hins opinbera til að sækja rusl, viðhalda vegum, moka snjó, svara í símann og svo framvegis þá rifjast oft upp fyrir mér ákveðið atriði úr þáttaröðinni The Wire. Nýr umbótasinnaður borgarstjóri hafði verið kosinn og honum blöskraði vanræksluna í borginni. Brunahanar láku, leikvellir voru í niðurníðslu og göturnar fullar af holum. Hann settist í bíl sinn og keyrði á milli vinnustaða borgarinnar og kallaði yfir hópinn, sem sat yfir kaffibolla, eitthvað eins og brunahaninn lekur!", eða rólan er brotin!". Hann lét sig svo hverfa í sömu andrá og menn reyndu að komast að því hvaða brunahani læki eða hvaða róla væri brotin. Niðurstaðan var sú að menn risu úr sætum sínum og keyrðu um borgina og löguðu alla brunahana, leikvelli og holur sem þeir rákust á.
Mannaflinn var þarna með öll réttu tækin og tólin, og á fullum launum. En hann valdi frekar að drekka kaffi en sýna eitthvað frumkvæði. Hann var án eftirlits og hvata og í skjóli opinberrar ráðningar. Ég meina, hver rekur viðhaldsmann í borg í niðurníðslu?
Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé raunsæ lýsing á opinberum rekstri. Mannaflinn er nægur. Honum skortir engin tæki og tól. En hann haggast ekki. Hann gerir ekki handtaki meira en nauðsynlegt er. Hann lætur gáma troðfyllast og leyfir holum að rústa hverjum bílnum á fætur öðrum.
Núna ætlar Sorpa að setja skynjara í gáma sem láta vita þegar þeir eru fullir, og það er sennilega reglan frekar en undantekningin. Á þá í leiðinni að ráða fullt af mannskap til að ráða við það verkefni eða er mannskapurinn til staðar, og var einfaldlega of upptekinn af því að drekka kaffi? Það fylgir ekki sögunni. Eitthvað segir mér að það sé staðan. Vonandi hjálpa skynjararnir starfsmönnum Sorpu til að skynja hvenær þeir þurfa að standa upp úr stólnum.
![]() |
Skynjurum komið fyrir í grenndargámum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 23. janúar 2024
Stjórnmálamenn og ráðherrar eiga ekkert í báknið
Ég er gjafmildur í dag og gef mér að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orkuskorts- og loftslagshræðsluáróðursráðherra, meini í raun og veru að hann vilji auka skilvirkni báknsins, fækka stofnunum og stöðva kerfisbundna keyrslu báknsins að orkuskorti.
Kannski heldur hann langa fundi, íbygginn á svipinn, og útskýrir fyrir forstöðumönnum að menn þurfi að líta á heildarmyndina jafnvel þótt það gæti kostað viðkomandi einhver völd og áhrif. Hann tyggur sig í gegnum skýrslurnar sem báknið framleiðir á færibandi. Hann leggur fram tillögur. Hann beitir sér sem ráðherra, og ætti að nafninu til að hafa nokkuð svigrúm til að taka ákvarðanir.
En allt kemur fyrir ekki. Eftir marga mánuði af harki stígur ráðherra í ræðupúlt og segir að sér verði ekkert ágengt. Báknið neitar að haggast. Það spyrnir við öllum tilraunum. Kannski ekki skrýtið í samfélagi sem brennir 16% af verðmætasköpun sinni í opinbera starfsmenn á meðan ríki innan mesta skrifræðisbákns í heimi, Evrópusambandinu, láta sér 11% duga.
Þetta ætti að segja okkur að það sé eitthvað öfugsnúið á ferð hérna. Kjörnir stjórnmálamenn koma engu áleiðis nema með blessun ókjörinna embættismanna. Ráðherrar, tilnefndir eða úr hópi hinna kjörnu fulltrúa, berja höfðinu í stein.
Mögulega líta margir ennþá til Sjálfstæðisflokksins en þar á bæ sía prófkjörin út alla þá sem eru líklegir til að þora í slaginn.
Ég sé ekki hvernig nokkrar kosningar geti breytt þessu ástandi. Er það svartsýni?
![]() |
Allir smákóngar heimsins segja ekki hjá mér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 22. janúar 2024
Þýska lýðræðisástin
Ég fer með óreglulegu millibili inn á heimasíðu þýska fjölmiðilsins DW. Oft er þar að finna góðar greiningar á ýmsum málum og auðvitað fréttir frá Þýskalandi sem birtast hvergi annars staðar, svo sem nýleg fjöldamótmæli bænda þar í landi sem nánast enginn fjölmiðill sagði frá. DW var hikandi í sinni umfjöllun en neitaði þó ekki raunveruleikanum.
En þar á bæ er núna einhver taugatitringur. Kjósendur í þessu lýðræðisríki eru í auknum mæli byrjaðir að styðja við stjórnmálaflokk sem er mjög gagnrýninn á helstu hugðarefni veruleikafirrtra glópa, svo sem að óheftur innflutningur flóttamanna sé sniðugur og að skattkerfið geti breytt veðrinu.
Ég les að einn leiðtoga þessa flokks sé hreinlega verið að skilgreina sem fasista, og bendla hann við Þriðja ríki Hitlers. Ég les að það eigi að reyna banna flokkinn en til vara að takmarka hann miðað við aðra flokka. Velgengni flokksins meðal kjósenda er kölluð ógn við lýðræðið. Og svona heldur þetta áfram.
Vissulega er þetta lýðræði ekkert nema leiðindi í hugum margra, sérstaklega þegar kjósendur svíkja stjórnmálastéttina. En í stað þess að taka hina hugmyndafræðilegu baráttu, og reyna að hlusta á skoðanir og komast að líðan kjósenda, þá er eitthvað annað gert: Fasismi er barinn niður með fasisma (réttilega skilgreindur sem sterkt ríkisvald sem fólkinu ber að þjóna, frekar en þjónustulundað ríkisvald sem þjónar fólkinu). Úrval kjósenda skorið niður í það sem stjórnmálastéttin telur ásættanlegt. Leikreglunum breytt. Svolítið amerískt. Kosningar gerðar að sýndarkosningu til að fá rétta niðurstöðu, að mati ríkjandi afla.
Það er eitthvað að krauma í Þýskalandi sem þýðir að það er líka að krauma í öðrum ríkjum. Þetta sjáum við. En hvað gerist nákvæmlega? Fremur lýðræðið sjálfsmorð með því að hunsa lýðinn? Sjáum hvað setur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 22. janúar 2024
Kæri stjórnmálamaður, af hverju fórstu í stjórnmál?
Eftir mikla yfirlegu yfir löngum ræðum og viðtölum hef ég komist að niðurstöðu: Flestir stjórnmálamenn eru handónýtar handtöskur sem fylgja bara þeirri línu sem þeim er mokað á. Þeir taka aldrei sjálfstæða ákvörðun, mynda sér ekki sína eigin skoðun í neinu máli, svíkja samvisku sína, tjá sig í skjóli ótta við almenningsálitið og gera í raun ekkert nema það sem þeir telja líklegt til að ná endurkjöri. Kjósendur verðlauna svo slík gólfteppi með atkvæði sínu og tryggja að þetta hugarfar verði áfram ríkjandi.
Reyndar þurfti enga langa yfirlegu yfir neinu til að komast að þessari niðurstöðu. Þetta blasir hreinlega við, eins og flóðljós á íþróttavelli.
Það er því við hæfi að spyrja sig að því af hverju flestir stjórnmálamenn fóru í þessa vegferð sína. Eru það launin? Athyglin? Fríðindin? Félagsskapurinn?
Ekki er það sú ástríða að setja mark sitt á þróun samfélagsins til betri vegar. Þó er þetta fólk sem sat í nemendaráðum á öllum skólastigum og varð jafnvel að formanni slíks félags á yngri árum. Fólkið sem hélt ræður. Skipulagði árshátíðir. Fólk sem lét prenta af sér litríka bæklinga á unga aldri, þyrst í athygli og hrós.
Lausnin á þessu ástandi er augljós: Að taka sem mest af verkefnum og fjármunum úr höndum hins opinbera og koma í hendur þinna og annarra á hinum frjálsa markaði í frjálsu samfélagi. Þá geta ráðhúsin og þinghúsið orðið að frekar skaðlausum kjaftaklúbbum fólks sem þráir ekkert heitar en að sjá andlit sín í litríkum bæklingum.
Því fyrr því betra. Og þá geta fagmennirnir tekið við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 21. janúar 2024
Tímarnir breytast og vandamálin með
Ég rakst á þessa skemmtilegu litlu setningu í Morgunblaðinu 15. janúar 1998 þar sem blaðamaður var að taka út aðstæður á skemmtistað:
Þarna er að greina svolítið skopskyn.
Þetta var auðvitað vandamál árið 1998: Karlmaður gat ekki bara ætt inn á salernisaðstöðu kvenna til að skoða þar aðstæður og mögulega notendur aðstöðunnar.
Í dag eru breyttir tímar. Blaðamaður getur í dag einfaldlega skilgreint sig sem kvenmann og ætt inn á konurnar. Einkarými kvenna eru ekki lengur einkarými kvenna. Hin svokallaða fötlun blaðamanns er ekki lengur nein hindrun. Hann hefur fengið sinn ramp. Konurnar mega vara sig.
Tímarnir breytast auðvitað. Í kvikmyndinni Starship Troopers baða karlar og konur sig saman og eiga þar afslöppuð samskipti. Kannski er það framtíðin.
Með ákveðinni þróun á samfélaginu verða mögulega innleidd lög framandi menningarheima á Vesturlöndum sem kveða á um limlestingar á kynfærum kvenna og afleiðingalausra morða á samkynhneigðum.
Það er ekkert víst að það sem margir reyna að standa vörð um í dag sé það sem tóri í sögunni. Er það vegna þess að ekkert eitt er í raun betra en annað? Er eitthvað úrelt við frjáls, vestræn samfélög? Tíminn mun leiða það í ljós.
Persónulega ætla ég að leyfa konum að eiga sín einkarými út af fyrir sig, og það með glöðu geði. Eins og blaðamaður Morgunblaðsins árið 1998, en ekki endilega blaðamenn í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 21. janúar 2024
Yfirvöld: Samkomubannið stútaði í ykkur ónæmiskerfinu
Í frétt hjá Ríkisútvarpi Útvaldra Viðhorfa (RÚV) segir frá mikilli aukningu veikinda í íslensku samfélagi undanfarið (nokkuð sem ég sé líka í kringum mig í Danmörku). Heilbrigðiskerfið hefur varla séð annað eins og er eins illa undirbúið og hugsast getur. En hvers vegna?
Möguleg skýring sem hefur verið nefnd er að aukin veikindi séu afleiðing af samkomutakmörkunum í heimsfaraldrinum. Þá hafi færri smitast og fólk hafi þá síður byggt upp ónæmi.
Þá höfum við það. Að mati heimildarmanna RÚV, sem mögulega eru aðilar innan heilbrigðiskerfisins en kannski ríkisins, er samkomubann veirutíma mögulega búið að stúta ónæmiskerfi landsmanna.
Þetta er ákaflega nothæft því þegar yfirvöld prófa aftur að skella á samkomubanni er hægt að segja: Nei, bíddu nú við, þið eruð búin að segja að slíkt rústi ónæmiskerfi landsmanna! Leyfið okkur frekar að mæta í vinnuna, í ræktina, á djammið eða í kirkju og halda ónæmiskerfinu á okkur uppfærðu!
Auðvitað blasir við að skýringar yfirvalda eða spítalans eru þvæla. Sprauturnar eru orsakavaldurinn. Það munu yfirvöld samt aldrei viðurkenna. Engu að síður er nothæft að hafa handtæka þá skýringu yfirvalda sjálfra að samkomubannið hafi stútað ónæmiskerfum okkar og afleiðingar búnar að vera skelfilegar fyrir spítalana.