Bloggfærslur mánaðarins, júní 2023

Heimurinn að klofna

Vesturlönd hafa haft það frekar náðugt seinustu áratugina. Þau eru ríkust allra, friðsælust allra og hreinust allra. Þau fá til sín mat og varning frá öllum heimshornum og borga fyrir það með smápeningum sem eru prentaðir á Vesturlöndum og allir samþykkja að taka við. Ef Vesturlöndum vantar orku þá bora þau holur í jörðina þar sem þeim sýnist og láta senda sér alla orkuna á meðan heimamenn halda áfram að brenna stráum og þurrkaðri mykju til að fá orku. Ef Vesturlöndum vantar strigaskó þá henda þau í verksmiðju í einhverju þróunarríki til að framleiða þá og borga berfættum heimamönnum smápeninga fyrir greiðann. 

Örfáum ríkjum hefur tekist að nýta sér þetta fyrirkomulag heimsverslunar. Í Suður-Kóreu, Taívan, Singapore og núna Kína hefur þátttaka í heimsversluninni lyft heimamönnum upp í svipuð lífskjör og þekkjast á Vesturlöndum. Frjáls verslun og vel varin eignaréttindi hafa stuðlað að slíkri þróun. En víða í Afríku láta menn ennþá sósíalismann plaga sig og heimamenn græða ekkert (ef einræðisherrar þeirra, sem þiggja arðgreiðslur úr olíuvinnslu og hjálparfé úr góðgerðarstarfi, eru undanskildir).

Núna er mögulega eitthvað að breytast. 

Fyrir einhverjum árum komu fulltrúar Brasilíumanna, Rússa, Indverja og Kína saman og mynduðu með sér samstarfsvettvang sem fékk gæluheitið BRIC og sem Suður-Afríka bættist síðar við og úr varð BRICS. Lítið er fjallað um þennan samstarfsvettvang í íslenskum miðlum sem má teljast furðulegt því þetta er aðeins meira en kaffispjall nokkurra leiðtoga. Þar á bæ er samstaða um að bjóða upp á valkosti við vestrænar lausnir og vestræn viðhorf. Til að mynda beita engin ríki BRICS Rússum neinum efnahagsaðgerðum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Þar er talað um að búa til gjaldmiðil sem valkost við bandaríska dollarann. Og umsækjendur flæða inn að því marki að það fer að verða áberandi á heimskortinu.

klofinn_heimur

En hvað þýðir þetta? Að heimurinn sé að klofna? Að það sé að myndast mótvægi við vestræn áhrif? Að einhver spenna sé að myndast? Mögulega allt þetta. Ef dollarinn missir stöðu sína sem hinn eini sanni gjaldmiðill í alþjóðaviðskiptum þá verður erfiðara fyrir Vesturlönd að halda sér uppi á útfluttri verðbólgu (þar sem er hægt að kaupa raunveruleg verðmæti fyrir peninga sem í sífellu eru að tapa verðgildi sínu vegna peningaprentunar). Mögulega eru vaxandi viðskipti að eiga sér stað með olíu án aðkomu dollarans, sem væru nýmæli. Þegar Bandaríkin beita dollarnum eins og vopni þá er sjálfsagt fyrir þann sem er laminn með því vopni að einfaldlega halda sig fjarri því.

Við teljum okkur í trú um að vestræn ríki marki ennþá stefnuna á heimssviðinu. Að það sem þau telja að sé rétt að gera sé það sem allir telji að sé rétt að gera. Að allir klappi þegar leiðtogar vestrænna ríkja tala. Þannig eru jú svokallaðar fréttir matreiddar ofan í okkur á Vesturlöndum. En kannski er þetta rangt og að hið rétta sé að Vesturlönd eru að mála sig út í horn og heimurinn að klofna með nýjum bandalögum.

Verðum við þá ánægð?


Verktakar ríkisvaldsins

Tæknifyrirtækin sem loka á færslur á samfélagsmiðlum og ritskoða skoðanir eru einkafyrirtæki sem eiga vitaskuld að fá að ráða því hvað þau umbera og hvað ekki, og ekkert við því að segja.

Eða svo er okkur sagt. 

Og gott og vel: Ef ég fæ gest á heimili mitt þá vil ég ekki að hann sé með tússpenna sem hann notar til að skrifa á veggina mína. Ég banna honum að koma inn. Ég hendi honum út ef hann skrifar á veggina mína. 

En þetta er ekki alveg svona einfalt. Eða eins og segir í skýrslu íslenskra yfirvalda (kafla 9):

Evrópusambandið átti frumkvæði að því að skrifað var undir starfsreglur (e. Code of Practice on Disinformation) milli Evrópusambandsins og alþjóðlegra tæknifyrirtækja (Facebook, Google, Twitter, Mozilla, Microsoft og TikTok), auk auglýsenda og auglýsingastofa, þar sem aðilar viðurkenna mikilvægt hlutverk sitt til þess að takast á við þær samfélagslegu áskoranir sem fylgja upplýsingaóreiðu og skuldbinda sig til þess að sporna gegn henni. Er það í fyrsta sinn sem alþjóðleg tæknifyrirtæki skuldbinda sig til að setja sér starfsreglur til að koma í veg fyrir útbreiðslu rangra eða villandi upplýsinga og falsfrétta í ríkjum Evrópu.

Já, þú lest rétt. Samfélagsmiðlarnir gerðust handgengnir yfirvöldum og tóku að sér verktakavinnu í að kæfa skoðanir og skoðanaskipti.

Enginn óháður. Engir notendaskilmálar. Ekkert gegnsæi. 

Við tölum um að það sé ekkert að marka fjölmiðla í Kína, Rússlandi, Úkraínu og Íran því ríkisvaldið skiptir sér af og hefur áhrif á það sem fjallað er um og ákveður hvaða skoðanir eru heimilar og hverjar ekki.

Kannski við ættum að líta okkur nær að sumu leyti. En að minnsta kosti að skola blekkingarhjúp yfirvalda og samfélagsmiðla í holræsið. Atlagan að málfrelsi okkar er stanslaus og fer vaxandi. Yfirvöld eru að giftast fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og mynda bandalag gegn skoðanaskiptum venjulegs fólks.

Hvaða skáldsögur er verið að segja okkur núna? Hvaða skáldsögur eru handan við hornið? Hvaða fyrirsagnir eru eins á öllum miðlum? Hvaða fyrirsagnir eru merktar á öllum miðlum sem falsfréttir og upplýsingaóreiða?

Það er kannski kominn tími til finna bókabúðir sem þola fjölbreytt úrval.


Orkuskiptin og allt það

Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa lesið bókina Fossil Future: Why Global Human Flourishing Requires More Oil, Coal, and Natural Gas—Not Less eftir Alex Epstein þá hefur orðið ennþá erfiðara fyrir mig en áður að lesa fréttir af meintum orkuskiptum sem móteitri við svokallaðri loftslagsvá. Bókin er góð og vel rökstudd og jafnvel hörðustu andstæðingar hagkvæms jarðefnaeldsneytis gætu lært mikið af henni, þó ekki nema til að kynna sér almennilega þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir í að afla sér orku og hvað er mikið í húfi að það takist.

Ísland er orkueyja. Á eyjunni eru fallvötn og jarðhiti sem veita aðgang að stöðugri og hagkvæmri orku - ekki bara sveiflukenndu rafmagni heldur stöðugu streymi af bæði hita og rafmagni. Svolítil viðbót í formi jarðefnaeldsneytis tryggir svo samgöngur, siglingar og varaafl. Á Íslandi er hægt að reka álverksmiðjur sem losa töluvert minna af koltvísýringi en þær sem eru staðsettar víða annars staðar, og álið svo nýtt til að skipta út stáli í bílum og flugvélum, létta þessi tæki og minnka eldsneytisnotkun þeirra. Koltvísýringurinn stuðlar svo að örvun á plöntuvexti og gerir Íslendingum kleift að rækta korn og byggja upp skóglendi. Þetta er dásamleg blanda.

En það vantar meiri orku. Stöðuga og hagkvæma orku. Orku eins og þá sem vatnsfallsvirkjanir framleiða. En þær má helst ekki reisa. Þær breyta jú ásýnd landslagsins, raska fiskigöngum og rýra vatnabúskap, ekki satt? 

Hver er þá lausnin?eag

Að taka spjaldtölvurnar og rafmagnsbílana af fólki? Að hækka rafmagnsverð á ákveðnum tímum sólarhrings, þá helst þegar barnafjölskyldur þurfa að sjóða vatn til að elda mat (að hætti Dana)?

Nei, reisa vindmyllur!

Þá er allt í lagi að breyta ásýnd landslagsins. Fuglar gætu orðið fyrir röskun (eins og þeirri að missa höfuð eða væng) en gleymum því. Rafmagn má allt í einu fara úr því að vera stöðugt, ódýrt og áreiðanlegt í óstöðugt, dýrt og óáreiðanlegt og krefjast varaafls í formi rafstöðva og annars konar virkjana - tvöfalt kerfi í stað einfalds. 

Vindmyllur eru örugglega sniðugar í ákveðnum tilvikum, t.d. þegar valkostir eru fáir, plássið mikið, vasarnir djúpir og neytendur ríkir. En þær eru sjón- og hljóðmengun, raska náttúrunni, óstöðug uppspretta orku, kosta mikið í viðhaldi og mun síðri valkostur en margt annað sem er raunverulega í boði á Íslandi.

Bara svo því sé haldið til haga.


mbl.is Vill reisa vindorkugarða í nágrenni Hellisheiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góða fólkið og fjölbreytileikinn

Það eru til margar leiðir til að sýna umburðarlyndi.

Ein er sú að umgangast einstaklinga af virðingu og kurteisi og fá í staðinn eitthvað svipað. Þá er allt svo einfalt. Í slíku umhverfi er meira að segja hægt að rífast án þess að það sé annað en heilbrigð skoðanaskipti.

Önnur er sú að setja einstaklinga í hólf sem byggjast á líkamlegum eiginleikum og blæbrigðum í skoðunum og líðan, og búa svo til sérstakar reglur um umgengni og talsmáta sem taka til hvers hólfs. Þeir sem fylgja ekki reglunum eru fordómafullir. Þá er allt svo flókið.

Því miður er flókna leiðin í dag vinsælli en sú einfalda, a.m.k. ef marka má fjölmiðla og tungutak stjórnmálamanna. Sem persónugerving hinnar flóknu leiðar er forsætisráðherra Kanada, eins og sést á þessari mynd:

signal-2023-06-27-21-32-08-070

Þessi maður, sem fangelsar heiðarlega borgara og sviptir þá eigum sínum ef þeir tala gegn stefnu hans, er búinn að hólfa einstaklinga og beitir síðan mismunandi reglum á hvert hólf. 

Hann er fyrir vikið auðvitað afskaplega vinsæll. Mér finnst að hann ætti að vera óvinsæll. Hann er hroka- og fordómafullur en talinn vera umburðalyndur og víðsýnn. Það er áberandi hvað hann fyrirlítur venjulegt, vinnandi fólk sem vill eiga bíla og borða kjöt en er af einhverjum ástæðum talinn vera mikill mannvinur sem talar fyrir þá sem eiga undir högg að sækja.

Hin flókna leið að hólfa fólk niður og setja svo mismunandi reglur fyrir hvert hólf er mjög í tísku. En nú þykist ég finna fyrir því að hin flókna leið endist ekki mikið lengur. Ég fagna því.


Samhengi

Það er erfitt að fylgjast með fréttum frá átökum Rússa og Úkraínumanna. Þar stangast allt á. En það þarf ekki að vita allar staðreyndir málsins til að sjá að frétt um endurheimt Úkraínumanna á einu þorpi er ekki frétt heldur tilraun til að réttlæta mögnun átaka í Úkraínu. 

Ég merkti að gamni inn svæði sem er um það bil tvöfalt stærra að flatarmáli og meintir landvinningar Úkraínumanna síðan þeir hófu í upphafi júní að  dæla ungum mönnum og vestrænum stríðstólum í hakkavélina sem rússnesku varnarlínurnar eru.

130 km2

Þetta flatarmál landvinninga er auðvitað ekki samþjappað á einum stað. Það dreifist yfir þúsundir kílómetra af varnarlínum. Í raun hefur ekki tekist að ná neinum árangri. Ef menn vilja Rússa út úr Úkraínu þá þurfa menn að setjast niður og sannfæra þá um að rússneski minnihlutinn í Úkraínu fái að tala rússnesku, stunda trúarbrögð sín og ráða sínum málum meira (Krím-skaga sleppa þeir samt ekki, svo það sé á hreinu). Rússar samþykktu tvo samninga sem kváðu á um eitthvað svona. Þeir voru auðvitað sviknir en til forðast meira blóðbað, meiri eyðileggingu og fleiri fórnir er þetta eina leiðin. 

En á meðan menn afneita þá halda ungir menn áfram að deyja í rússnesku hakkavélinni, og við á Vesturlöndum klöppum fyrir því að eitt þorp hafi skipt um hendur, tímabundið.


mbl.is Úkraínumenn endurheimta annað þorp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnsýslan sem öllu ræður

Mikið hlýtur að vera þreytandi að standa í einhvers konar rekstri á Íslandi. Inngangan í völundarhús stjórnsýslunnar getur tekið óendanlega langan tíma, kostað gríðarlegt fé og jafnvel lagt fyrirtæki að velli - drepið þau í fæðingu. Öll leyfi sem að lokum tekst að fá þarf svo að endurnýja reglulega með ærnum tilkostnaði án sýnilegs ávinnings og samkvæmt löggjöf sem breytist dag frá degi, að frumkvæði Evrópusambandsins. 

Sérstaklega er þetta átakanlegt í tilviki Landsvirkjunar sem vinnur af kappi að því að afla Íslendingum rafmagns en fær ekki að hefjast handa og fær enga tímaramma til að vinna út frá.

Lands­virkj­un hef­ur verið að end­ur­skoða áætlan­ir sín­ar vegna fyr­ir­hugaðrar Hvamms­virkj­un­ar í kjöl­far þess að úr­sk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála felldi úr gildi virkj­ana­leyfi sem Orku­stofn­un hafði gefið út. Fram kom hjá orku­mála­stjóra þegar úr­sk­urður­inn lá fyr­ir að ómögu­legt væri að segja til um hversu lang­an tíma myndi þurfa til að leysa úr mál­inu. 

Hjá Landsvirkjun starfa engir vitleysingar. Þar er fólk sem hefur komið að undirbúningi, smíði og rekstri fjölmargra virkjana og þekkir þær út og inn, þar með talið nærumhverfi þeirra. Þar eru lögfræðingar sem þekkja íslenska löggjöf og vita hvað þarf að gera og skrifa til að fá leyfi fyrir hinu og þessu.

Þar til í dag.

Komið hefur í ljós að einhver Evrópusambandslöggjöf standi núna framar íslenskri löggjöf, eða eins og segir í úrskurði:

Þá gildi sú meginregla að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum umhverfismatslöggjafarinnar, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 24. október 1996 í máli C-72/95, þar sem dómurinn hafi vísað til rúms gildissviðs og víðtæks tilgangs tilskipunar 85/337/EBE.

Tilvísanir í tilskipanir Evrópusambandsins eru kryddaðar yfir allan úrskurðinn. Vissulega hafi verið unnið að byggingu Hvammsvirkjunar í áraraðir en á meðan hefur lagaverksmiðjan á meginlandinu framleitt tilskipanir sem hafa verið innleiddar í íslensk lög. Þetta er kapphlaup: Menn undirbúa eitthvað samkvæmt lögum, báknið svæfir málið í skúffum sínum svo árum skiptir, löggjöfin er á meðan uppfærð og öll upphaflega vinnan nú ekki lengur samkvæmt lögum.

Bætum við þetta að innviðir á Íslandi eru sprungnir í loft upp. Góður vinur minn þurfti að fara til útlanda til að komast til geðlæknis og fá viðeigandi úrræði við ástandi sínu. Heilu fjölbýlishúsin eru rýmd af Íslendingum til að koma þar fyrir svokölluðum hælisleitendum. Ríkissjóði blæðir í allskyns fyrir alla nema skattgreiðendur. 

Og núna má ekki lengur veiða stóra hvali - nokkuð sem hefur fylgt búsetu á norðurhjara veraldar í ár og aldir. Og það þarf að taka mark á því þegar einhver skilgreinir sig sem kisu. Jahérna.

Mikil er ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem leyfa þessu ástandi að halda áfram, bæði á sviði ríkisvalds og sveitastjórna. Mikil er ábyrgð kjósenda þegar þeir kjósa auglýsingar og slagorð en ekki innihald og hugsjónir.

Guð blessi Ísland. Að undanskildri stjórnsýslunni.


Það borgar sig að vera raunsær, bókstaflega

Norðmenn hafa í áratugi kunnað að græða vel á því að selja olíu og gas. Það er ekkert að breytast nema mögulega að því leyti að þeir eru að verða enn betri í því. Orka er mikilvæg, jarðefnaeldsneyti er orkuuppspretta mannkyns, þeir sem eru án þess eru fátækir og deyja snemma úr vel þekktum veirum, og Norðmenn vita þetta. Eftir að Evrópa, ein heimsálfa, ákvað að hætta kaupa orku frá Rússlandi hafa Norðmenn setið með pálmann í höndunum og grætt meira en nokkru sinni á sölu á jarðefnaeldsneyti, og Evrópa kaupir, jafnvel á yfirverði.

Þetta blasir við, og hvað er þá vandamálið?

Jú, að það er búið að telja mörgum í trú um að valkostir við jarðefnaeldsneyti séu handan við hornið. Það eru þeir ekki. Kjarnorka hefur ákveðna möguleika en hefur í áratugi verið tæknilega séð bönnuð - kröfurnar eru slíkar að framkvæmdin er ómöguleg. Þú þarft að vera moldríkur og þolinmóður til að hafa efni á að framleiða ódýra kjarnorku, og það er slæm blanda.

Norðmenn brosa út í eitt þegar Evrópa velur að útrýma keppinautum þeirra í sölu á hagkvæmri orku. En er við þá að sakast? Já, að einhverju leyti þegar þeir leggja sín lóð á vogarskálarnar til að eyðileggja innviði Evrópu til að sitja einir að markaðinum. En sökin er ekki bara þeirra. 

Hún er okkar. Því við féllum í gildru. Og í henni sitjum við án viðleitni til að komast úr henni.


mbl.is „Er að verða skíthæll Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessir traustu og áreiðanlegu fjölmiðlar

Blaðamenn eru óáreiðanlegir kranar fyrir þvæluna sem vellur úr þeim sem þeir telja mikilvægt að þjóna.

Eða hvað?

Eru þeir kannski heiðarlegir fagmenn sem vinna af einlægni að því að miðla fréttum og upplýsingum sem blaðamannafulltrúar hins opinbera og stórfyrirtækja gleyma að nefna?

Kannski er bæði rétt, og jafnvel að flestir blaðamenn séu þarna einhvers staðar í miðjunni: Vilja ekki láta neinn uppnefna sig, en hafa samt varann á þegar þeim er sagt að skrifa eitthvað.

Alex Berenson er blaðamaður. Ekki endilega frægur fyrir að hafa unnið fyrir New York Times, en á veirutímum búinn að vera óþreytandi að benda á hætturnar við sprauturnar og veiruaðgerðirnar. Ég er alls ekki sammála honum í öllu en virði drifkraft hans og ákafa í að segja sannleikann eins og hann sér hann, og hann vandar sig í heimildavinnunni.

(Það er til lítils að leita að nafni hans á helstu leitarvélum. Það er búið að dauðhreinsa það og setja hann rækilega í hóp klikkhausa og nægir þar að nefna óhróðurspistilinn á wíki-pídía sem dæmi.)

Honum var á sínum tíma varpað út af tvitternum fyrir að segja hið augljósa: Veirusprauturnar eru í besta falli lyf, frekar en bóluefni, með margar aukaverkanir, sem þú þarft að taka rétt áður en veiran kemur og veitir sífellt verri vörn eftir því sem lengur líður, og þarf því að taka ítrekað.

Hvað um það.

Berenson þessi fann sér annað athvarf til að deila rannsóknum sínum og skoðunum: Substack (óhróðursinnlegg wíki-pídía um þann vettvang hérna). Þar skrifar hann enn í dag. Nýjasta innlegg hans er mjög áhugavert. Hann bendir á hvernig (óþarflega) virtur fjölmiðill, New York Times, snýr út úr staðreyndum sem henta ekki ritstjórnarstefnu hans. Skítt með innihaldið. Skítt með upplýsingagildið. 

Ég er búinn að sjá eitt og annað um ástæður þess að blaðamenn hinna svokölluðu meginstraumsfjölmiðla eru ónothæfir. Ekki er alltaf um að ræða illan ásetning, metnað til að yfirgefa illa borgað blaðamannastarfið til að gerast blaðamannafulltrúi hins opinbera eða stærra fyrirtækis, getu- og viljaleysi til að sinna starfi sínu eða ást á stórum lyfjafyrirtækjum. Blaðamenn eru undir þrýstingi, hafa stolt, óttast uppnefni og þurfa að kaupa í matinn eins og aðrir. Allt þetta þarf að setja í samhengi við þrýstinginn að ofan um að rugga ekki bátnum, hver sem hann er.

Veirutímar hafa auðvitað afhjúpað þessa veikleika fjölmiðla sem reiða sig á gömul viðskiptalíkön, með stóra yfirbyggingu og minnkandi tekjur. Fyrir vikið hafa sprottið upp sveigjanlegri miðlar sem nýta sér tæknina betur eða draga að sér hugsjónafólk sem þarf ekki að þykjast vera stórstjörnur eins og sumir fréttaþulir hafa vanið sig á að vera.

Fyrir okkur, neytendur frétta, þýðir þetta auðvitað meiri vinna. Það er ekki lengur hægt að heimsækja stærri miðla eins og BBC og CNN eða dvergamyndir þeirra eins og RÚV á Íslandi og DR í Danmörku. Að neyta frétta er orðið flókið mál. Valkosturinn er samt verri: Að sitja óttasleginn í sófanum yfir kvöldfréttatíma sjónvarpsstöðvar og fá þá mynd af heiminum að grímur virki og að börn séu hættulegir smitberar.

Besta ráðið er auðvitað að hætta meira og minna að fylgjast með fréttum þessara svokölluðu traustu og áreiðanlegu miðla, nema mögulega veðurfréttum. Næstbesta ráðið er að horfa á fréttatíma eins og kvikmyndir og brosa aðeins þegar við erum vöruð við heimsendi, enn einu sinni.


Hver eru valdmörk ríkisvaldsins?

Ráðherra bannaði nýlega veiðar á langreyðum á Íslandi. Var það bann réttlætt með vísun í kvalarfullan dauða hvala við veiðar mannsins. Ráðherra hefur ekki gert athugasemdir við aðrar orsakir hvaladauða, eins og langvinn dauðastríð við rándýr úti á hafi, en látum það eiga sig í bili.

Vitaskuld hafa ýmsir aðilar brugðist við þessu enda verið að taka lifibrauðið af fólki. En veigamesta athugasemdin hlýtur að vera sú er snýr að lagagrundvellinum. Má ráðherra bara banna hvalveiðar? Á hvaða forsendum? Á hvaða lagagrunni? Í gegnum hvaða ferli? Með hvaða fyrirvara? 

Það má vel vera að ráðherra geti án fyrirvara bannað hvalveiðar, eða fiskveiðar, eða hvað sem er. Kannski stenst þetta allt saman lög og stjórnarskrá og hvaðeina.

En það er eins og öllum sé alveg sama. Eins og að það skipti mestu máli að mynda sér skoðun og að afgangurinn sé bara einhver lagatæknileg flækja sem skipti engu máli.

Nú borða ég ekki hvalkjöt nema við sérstök tilefni og er ekki rekinn hérna áfram af einhverri hugsjón um að hvalveiðar verði eða verði ekki að eiga sér stað. Það er fyrir mér aukaatriði. Mér finnst aðalatriðið vera að ákveðin starfsemi var stunduð, löglega og af fólki sem gerði áætlanir byggðar á henni, og sé nú búið að kippa úr sambandi, og að því er virðist á vafasömum forsendum út frá sjónarhóli laganna.

Núverandi ráðherra hvalveiða var ráðherra veirutíma á sínum tíma. Þessi ráðherra komst upp með að haga sér í starfi eins og að engin stjórnarskrá væri í gildi á Íslandi og komst upp með það og fær ennþá að starfa á sömu forsendum. Þessi ráðherra er mögulega búinn að þróa með sér mikilmennskubrjálæði og einræðistilburði. Hvað gerir kerfið við því? Væntanlega ekkert. Hvað verður um þá sem mótmæla og mæta jafnvel fyrir dómstóla til þess? Væntanlega hunsaðir. Þegar ríkið úrskurðar í máli gegn ríkinu er sigurvon annarra lítil.

Og öllum er eiginlega bara nákvæmlega sama, því hvalirnir eiga að deyja úr sjúkdómum, háhyrninga- og hákarlaárásum og eftir að hafa strandað og kafnað til dauða, en ekki vegna skutulsins.

Lengra nær réttarríkið ekki. 

Velkomin til miðalda.


mbl.is „Verulega slæmt“ fyrir hátt í 200 fjölskyldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjálaðir samsæriskenningasmiðir gerðir út af öfgamönnum

Mikil er biturð þeirra sem létu blekkja sig á veirutímum og neita að sjá að sér. Þeir ríghalda í lygarnar og þótt það sé orðið alveg óbærilega erfitt þá má ekki sleppa því þá særist stoltið. 

Á þessu eru auðvitað undantekningar. Um daginn lýsti einn sem lét blekkjast á veirutímum því yfir að hann hefði verið einfeldningur. Það er stór pilla að kyngja en um leið er virðingarvert að stíga fram og játa mistök sín. Sjálfur geri ég það gjarnan, eins og í tilfelli innrásar Bandaríkjanna auk leppa inn í Írak á sínum tíma. Að játa mistök sín er hreinsandi fyrir sálina.

Þeir sem ríghalda í lygina þurfa oft að fá útrás og hvaða útrás er betri en að spinna einhverjar sögur um brjálæða samsæriskenningasmiði sem eru gerðir út af sérvitrum auðmönnum? Og nei, ég er ekki að tala um áróðursher Bill Gates og hans líka sem eiga hluti í stórum fjölmiðlum og stilla saman strengi þeirra til að tryggja eigin hagsmuni. Brjálaða fólkið er venjulegt fólk sem hlustar á hlaðvarp Joe Rogan og les tíst Elon Musk.

Í frétt sem mætti kannski frekar kalla skáldsögu segir í fyrirsögn:

Sátu um vísinda­mann eftir „á­skorun“ Rogan og Musk

Bíddu nú við, voru Rogan og Musk að skora á fólk að sitja um heimili vísindamanns? En sú ósvífni!

Nei, auðvitað var það ekki svo.

Stutta útgáfan er sú að vísindamaður nokkur og barnalæknir að auki, Dr. Peter Hotez, sem varaði einu sinni við tilraunasprautum í börn en fær nú borgað fyrir að boða þær, var í rólegheitum að úthúða Rogan og kalla hann fasista á samfélagsmiðlum þegar Rogan hefur samband og býður honum upp á að koma í rökræður í hlaðvarpi hans. Hotez segist vilja mæta í viðtal, ekki rökræður. Yfir 2 milljónir dollara safnast sem greiðast í góðgerðarmál ef Hotez mætir í rökræður, en hann gefur sig ekki.

Margir reiðast þessu og þessum vísindamanni, sem kallaði Rogan fasista, en Hotez vill samt koma í viðtal til Rogan, en bara ekki í rökræður. Tveir menn ákveða, án nokkurrar áskorunar frá Rogan eða Musk, að reyna sannfæra Hotez í eigin persónu og á friðsaman hátt enda ekki að sjá að neinn glæpur hafi verið framinn. Hotez þessi verður skelkaður og óttast að mennirnir séu vopnaðir og drífur sig á samfélagsmiðla að segja frá þessum hræðilega viðburði.

Ég hef lent í því að fólk sem ég þekki lítið eða ekkert komi að mér og kalli mig jafnvel nöfnum eða hafi frá einhverju að segja sem ég hef ekki beðið um að heyra. Það er kannski bara afleiðing þess að gera skoðanir sínar kunnar. En þegar þú kallar fólk úti í bæ fasista á samfélagsmiðlum er kannski hætta á því að það veki viðbrögð og að fólk vilji fá að bregðast við.

Að öðru leyti er fréttin álíka þvæla. Menn eru kallaðir samsæriskenningasmiðir og boðberar kenninga sem er búið að hrekja og ýmislegt annað gott. Ekki vottur af sanngirni eða því að benda á þykkar bækur álhattanna, rækilega studdar heimildum. Ekki dropi af hrósi til hlaðvarpsstjórnanda sem er í raun og veru og af miklum heilindum að reyna færa opinbera umræðu til fólks með því að fá hugsandi menn til að mætast í rökræðum. Ekkert. Bara uppnefni og reyfarakennd frásögn um hættulega boðbera umsáturs um heimili barnalækna.

Kannski blaðamaður ætti frekar að líta á Rogan sem fyrirmynd og reyna að læra eitthvað af honum. Það er a.m.k. ekki að sjá svigrúm til að verða enn verr starfi sínu vaxinn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband